Ekki tóm tölfræði: Karlar sem myrða konur

Höfundur: Halla Gunnarsdóttir

Karen Ingala Smith

Karen Ingala Smith

Karen Ingala Smith áttaði sig á því í ársbyrjun 2012 að á aðeins þremur dögum hafði hún heyrt fréttir um átta konur sem höfðu verið myrtar í Bretlandi. Áhugi hennar spratt ekki upp úr þurru. Hún er framkvæmdastjóri bresku grasrótarsamtakanna nia, sem helga sig baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og börnum. Áður en Ingala Smith vissi af var hún farin að telja fréttir af morðum með skipulögðum hætti og þannig hófst verkefni undir kaldranalegu en lýsandi heiti: Counting Dead Women.

Ingala Smith tvítaði upplýsingum um morðin og bakgrunn kvennanna. Hún leitaði upplýsinga alls staðar þar sem þær var að finna, safnaði myndum og skráði nöfn. Þau voru ekki fá. Að minnsta kosti 126 konur voru myrtar í Bretlandi árið 2012, 143 árið 2013 og 150 árið 2014. Þessar tölur fara hækkandi. Fólk setur sig í samband við Ingölu Smith og greinir frá fleiri morðum, morðum sem kannski aldrei rötuðu á síður dagblaðanna.

 

Viðamikið gagnasafn

Smám saman þróaðist verkefnið. Ingala Smith kom á samstarfi við Samtök kvennaathvarfa (Women’s Aid), Alþjóðlega lögmannsstofan Freshfields studdi verkefnið fjárhagslega og ráðgjafafyrirtækið Deloitte lagði til sérfræðiþekkingu til að byggja upp gagnasafn. Afraksturinn var kynntur í London í síðustu viku: The Femicide Census. Femicide (dregið af enska orðinu homicide) er skilgreint sem morð á konum vegna þess að þær eru konur. Oftast er um að ræða ofbeldi af hálfu karla sem eru tengdir konunum fjölskylduböndum, en inni í gagnasafninu eru fleiri tilfelli, til dæmis morð á konum í kjölfar kynferðislegra árása og morð á vændiskonum. Listinn er ekki tæmandi, stundum hefur reynst erfitt að fá upplýsingar um allar konur sem hafa fallið fyrir hendi karla. En gagnasafnið er engu að síður afar mikilvæg heimild um ofbeldi karla gegn konum.

Nú eru eflaust einhverjir lesendur sem tauta (eða kommenta hástöfum) að konur séu líka vondar við karla og að karlar séu almennt í meirihluta myrtra. Það er alveg rétt. En hið kynjaða mynstur sem er ljóst af opinberum upplýsingum um ofbeldi og morð er sláandi: Þegar karl drepur konu er hún langoftast tengd honum og hann hefur oftast beitt hana ofbeldi áður, stundum um árabil. Þegar kona drepur karl er það oftast í kjölfar ofbeldis og kúgunar sem hún hefur sætt af hans hálfu. Þetta er ekki skoðun, þetta er staðreynd. Og ef það á að takast að útrýma þessu ofbeldi þá þarf að ræða þá staðreynd.

 

Hnífar, beitt áhöld, kyrkingar og keðjusög

Í breska gagnasafninu, sem ekki er allt aðgengilegt opinberlega þar sem aðstandendur telja upplýsingarnar of viðkvæmar, má finna upplýsingar um tæplega 700 morð karla á konum á árunum 2009-2013. Hægt er að greina morðin eftir verknaðaraðferð, aldri brotaþola, uppgefinni ástæðu morðsins, lögregluumdæmi og því hvort brotaþoli átti börn undir 18 ára aldri. Í tæpum þriðjungi tilfella er ekki vitað hvert samband hinnar myrtu og morðingjans var. Þau morð sem mest er vitað um eru tilfelli kvenna sem drepnar voru af maka eða fyrrverandi maka, en það á við í 46% þeirra mála sem skráð eru í gagnagrunninn. Þegar þau eru nánar greind kemur í ljós:

  • að hinar myrtu konur voru á aldrinum 15-87 ára, þar af var helmingur á aldrinum 30-50 ára
  • að tæplega þriðjungur kvennanna hafði sagt skilið við ofbeldismanninn þegar hann lét til skarar skríða
  • að morðingjarnir voru á aldrinum 14-85 ára og helmingur á aldrinum 30-50 ára
  • að í 42% tilfella notuðust morðingjarnir við hníf eða beitt áhald og í 22% tilfella myrtu þeir með kyrkingu. Ein kona var myrt með keðjusög
  • að í 6% tilfella var morðinginn sonur hinnar myrtu. Til samanburðar þá voru 3% kvennanna drepnar af innbrotsþjófum (sem kann að vera umhugsunarefni fyrir þjónustuveitendur svokallaðra heimavarna)
Myndin er fengin á heimasíðu Karen Ingala Smith.

Myndin er fengin á heimasíðu Karen Ingala Smith.

 

Við gleymum ekki morðunum

Skilaboð Karen Ingala Smith og allra þeirra sem standa að The Femicide Census eru einföld: Við gleymum ekki þessum morðum, hver sem hin myrta var. Þess vegna er nöfnum kvennanna haldið til haga. Allt samfélagið þarf að skilja að morð karla á konum eru ekki bara samansafn eingangraðra tilvika, heldur vitnisburður um kynjamisrétti, feðraveldi og kúgun kvenna. Það er hægt að koma í veg fyrir þessi morð. Það er ekki aðeins gert með réttum viðbrögðum yfirvalda þegar heimilisofbeldi kemur inn á þeirra borð, heldur líka með samstilltu átaki alls samfélagins. Ættingjar, vinir, félagar og nágrannar þurfa að skilja hvernig heimilisofbeldi virkar og hvenær hætta er á ferðum. Þessar konur eru ekki bara tala á blaði, þær voru manneskjur af holdi og blóði. Og það er okkar að halda því á lofti.

2 athugasemdir við “Ekki tóm tölfræði: Karlar sem myrða konur

  1. Eftirtektarvert „að í 6% tilfella var morðinginn sonur hinnar myrtu. Til samanburðar þá voru 3% kvennanna drepnar af innbrotsþjófum…“ á sama tíma og
    Femicide (dregið af enska orðinu homicide) er skilgreint sem morð á konum vegna þess að þær eru konur.
    Skyldu synir drepa mæður sínar vegna þess að þær eru konur eða vegna þess að þær eru foreldri þeirra (eða óþolandi nærgöngular, eða koma í veg fyrir að þeir fái arfinn sinn eða … ?) og skyldu innbrjótsþjófarnir hafa drepið konurnar vegna þess að þær voru konur eða vegna þess að þær voru þarna og stofnuðu innbroti þeirra í voða? Ég er t.d. svo takmarkaður að ég get ekki ímyndað mér við hvaða ástæður sonur drepur móður sína, vegna þess að hún er kona, nema hann sé illa haldinn af ödipusarduld.

    Hér erum við komin í sama ruglið og skilgreiningin á kynbundnu ofbeldi, þegar skv. skilningi sumra er í mörgum tilfellum er ofbeldið ekki bundið kynferði viðkomandi, heldur eingöngu því að vera hinn aðilinn í sambandinu. Ef að hægt er að segja, viðkomandi hefði ekki verið drepinn hefði hann verið af hinu kyninu (óháð líkamlegum styrk), þá getur vart verið hægt að tala um kynbundið ofbeldi eða dráp. Þess vegna er stór hluti heimilisofbeldis ekki kynbundið ofbeldi, heldur ofbeldi eins sambandsaðila gagnvart hinum, í þrúgandi, erfiðu sambandi, sem skv. hinu ríkjandi normi í sambandsmálum, annar aðilinn er karl og hinn kona, en ekki regla, enda viðurkennum við í dag, af víðsýni okkar samband tveggja einstaklinga af sama (eða jafnvel óræðu) kyni; og á meðan ofbeldi innan slíkra sambanda er ekki fátíðara en í sambandi gagnkynhneigðra, hljótum við að álykta að kynferði sé ekki aðalbreytan í mörgum tilfellum heldur sú staðreynd að viðkomandi var einungis hinn aðilinn í sambandinu, og öðrum var ekki til að dreifa.

    Líkar við

  2. Heimilisofbeldi er alvarlegt vandamál sem mikilvægt er að berjast gegn. Það á bæði við um heimilisofbeldi gegn konum og gegn körlum. Þessi grein Höllu dregur með ágætum hætti fram alvarlegasta heimilisofbeldi sem komur verða fyrir, það er þegar þær eru hreinlega myrtar af mökum sínum.

    Það er hins vegar stóralvarlegt að í greininni telur Halla nauðsynlegt að gera lítið úr og réttlæta alvarlegt heimilisofbeldi sem karlar verða fyrir. Í rauninni er getur sá hluti greinarinnar ekki flokkast undir annað en haturáróður gegn körlum. Þar er kjarninn í grein Höllu þessi: Karla drepa konur af því að karlar eru vondir. Konur drepa karla af því að karlar eru vondir. Helga færir engin rök fyrir þessum fullyrðinum.

    Þegar gögn eru skoðuð þá kemur í ljós að það er ekki yfirgnæfandi munar á tíðni þess að konur og karlar drepi maka sína þó vissulega sé almennt algengar að karlar drepi en konur. Hlutföllinn milli makamorða karla og kvenna fara mikið eftir samfélögum. Í því fjölmenna landi Brasilíu er jafn algengt að konur drepi maka sína og karlar, í Bandaríkunum eru konur um 40% þeirra sem drepa maka sína. Í heiminum öllum er áætlað að konur séu um 30% þeirra sem drepa maka sína. (http://strive.lshtm.ac.uk/resources/global-prevalence-intimate-partner-homicide-systematic-review
    http://www.bjs.gov/content/pub/pdf/mf.pdf)

    Það er talsvert minna vitað um ástæður þess að fólk drepur maka sína en afbrýðisemi og peningar virðast algengar ástæður til viðbótar við heimilisofbeldi. Nýleg viðamikil rannsókn frá Quebec í Kanada varpar ljósi á ástæður þess að konur drepa eiginmenn sína og samkvæmt þeirri rannsókn var það einungis í 28% tilfella í framhaldi af því að þær hefðu verið beittar heimilisofbeldi. (http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/bsl.2033/abstract) Þetta er algerri andstöðu við órökstuddar fullyrðingar Höllu.

    Undirliggjandi í grein Höllu er sú einfeldingslega nálgun að konur beiti ekki ofbeldi. Þessi hugmynd gefur einfaldlega ekki rétta kynjaða sýn á ofbeldi. Hún gefur ekki rétta mynd af heimilisofbeldi og þessum alvarlega vanda sem það er. Konur beita maka sína í mörgum tilfellum ofbeldi bæði af fyrra bragði og einnig sem virkir þátttakendur í ofbeldissambandi (http://skemman.is/item/view/1946/15357). Þessi einfledninslega mynd gefur heldur ekki rétta sýn á ofbeldi gegn börnum en konur beita börn ofbeldi í meira mæli en karlar (http://skemman.is/item/view/1946/8026). Þessi einfeldnislega mynd gefur ekki rétta sýn á einelti meðal banrna en stelpur leggja aðra krakka í einelti í jafnmiklum mæli og strákar (http://www.visir.is/sakleysislega-stelpan-leggur-lika-i-einelti/article/2014711209983).

    Með því að benda á þau atriði sem hér hafa verið nefnd er ekki verið draga úr því að kynbundið ofbeldi gegn konum sé alvarlegt vandamál sem berjast þarf gegn. Það má hins vegar ekki gleyma að kynbundið ofbeldi geng körlum er líka alvarlegt vandamál sem hvorki ætti að réttlæta né að gera lítið úr.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd