Kellíngar í dægurtónlist – erindi flutt á ráðstefnu Kítons

Höfundur: Árni Matthíasson

Þessi samantekt varð til fyrir tilstilli Kítóns, félags kvenna í tónlist á Íslandi, og ráðstefnu félagsins í Hörpu 1. mars.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent í Iðnó síðastliðinn sunnudag. Verðlaunin urðu til 2007 sem andsvar við því að Íslensku bókmenntaverðlaunin hrepptu aðallega karlar, en í þau nítján skipti sem bókmenntaverðlaunin höfðu verið veitt fram að því höfðu karlar fengið 31 verðlaun en konur níu.

jakobinasig_vidskrifbordid

Jakobína Sigurðar við skrifborðið sitt. Myndin er fengin hér.

Að þessu sinni voru Fjöruverðlaunin helguð rithöfundinum Jakobínu Sigurðardóttur og flutt erindi um hana og stöðu hennar í íslenskum bókmenntaheimi. Meðal annars var það rifjað upp að þegar Jakobína var að senda frá sér fyrstu skáldsögurnar á sjöunda áratugnum var gjarnan fjallað af lítilsvirðingu um skáldverk kvenna, sem uppnefnd voru kerlingabækur. Gagnrýnendur tóku þó margir Jakobínu vel og töldu það henni til hróss að hún stæði öðrum konum framar, skáldsögur hennar væru næstum nógu góðar til að skipa mætti þeim með alvöru skáldskap, semsé skáldverkum karla.

Þeir sem skrifuðu um bókmenntir á þessum tíma voru allir karlar og þó það hafi blessunarlega miðað nokkuð í jafnréttisátt síðustu fimm áratugina þá er það enn svo að það eru aðallega karlar sem fjalla um bókmenntir í íslenskum fjölmiðlum – það eru yfirleitt karlar sem meta stefnur og strauma, skipa í gæðaflokka og eiga síðasta orðið í menningarumfjöllun – líka í tónlistinni.

Þegar stéttarfélag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, varð fimmtíu ára árið 1982 var tímarit félagsins, Tónamál, helgað afmælinu og saga félagsins rakin í löngu máli og með mörgum myndum. Þegar ritinu er flett kemur vel í ljós að dægurtónlist er karlafag, eða var það í það minnsta fyrstu fimmtíu ár félagsins því það er varla að konur sjáist á myndum nema hugsanlega sem söngkonur.

Það voru karlar sem tóku þetta tölublað tímaritsins saman og það voru karlar sem fjölluðu um tónlist í fjölmiðlum, tímaritum og dagblöðum – í grúski í gömlum tónlistar- og útvarpstímaritum og dagblöðum á undanförnum árum man ég varla eftir því að hafa rekist á grein þar sem kona lætur í sér heyra sem gagnrýnandi eða tjáir skoðanir sínar á tónlist yfirleitt – það er ekki fyrr en á síðustu árum sem þær hefja upp raust sína sem nokkru nemur.

Þegar ég hætti á sjónum og réði mig sem prófarkalesara á Morgunblaðinu fyrir rétt rúmum þrjátíu og þremur árum var umfjöllun um tónlist í íslenskum fjölmiðlum fremur lítil, hafði stundum verið meiri á árum áður, en um það leyti sem ég fór í land fjallaði Morgunblaðið aðallega um erlenda poppmúsík þó eitthvað íslenskt hafi fengið að fljóta með öðru hvoru.

PPPönk í Rósenbergkjallaranum. Laufey Elísdóttir syngur.

PPPönk í Rósenbergkjallaranum. Laufey Elíasdóttir rokkar. Mynd: Björg Sveinsdóttir.

Eini tónlistarblaðamaðurinn sem ég las alltaf á þessum tíma var Andrea Jónsdóttir sem skrifaði þá fyrir Þjóðviljann. Hún var þó ekki bara eini blaðamaðurinn sem ég las alltaf, þó ég hafi ekki alltaf verið sammála henni um tónlist, heldur var hún líka eini tónlistarblaðamaðurinn sem var kona, en ég áttaði mig ekki á því þá, það er ég kveikti ekki á því að það væru engar konur að skrifa um tónlist nema Andrea – og reyndar nánast engar konur að fjalla um tónlist almennt – fyrr en ég fór sjálfur að skrifa um músík fyrir Morgunblaðið.

Það var ekki bara að konur væru ekki að fjalla opinberlega um tónlist, að Andreu frátalinni, heldur voru karlar ævinlega í sviðsljósinu, þeirra verk vöktu athygli og fengu umfjöllun hjá körlum í fjölmiðlum – karlar sungu um óréttlæti og rangindi sem karlar voru beittir í grimmum heimi og karlar lofuðu þá fyrir næmi og róttækt innsæi í ræðu og riti. Franski heimspekingurinn og fræðikonan Simone de Beauvoir lýsti því hvernig málum var háttað með uppreisn ’68-kynslóðarinnar á götum Parísar: „Karlar fluttu ræður, en konur vélrituðu þær. Karlar stóðu á sápukössum og í ræðupúlti, en konurnar voru inni í eldhúsi að búa til kaffi.“

IMG_5954

María Huld Markan í Amiinu. Mynd: Björg Sveinsdóttir.

Nú væri voða gaman að geta sagt: Ég áttaði mig strax á því að þessu þyrfti að breyta, en því var öðru nær, það tók mig talsverðan tíma, nokkur ár, áður en ég áttaði mig á því hve afbrigðilegt þetta ástand var; auðvitað var það út í hött að karlar væru þeir einu sem hefðu eitthvað að segja um tónlist og að eina tónlistin sem vert væri að fjalla um væri tónlist karla.

Það var markmið mitt frá upphafi að reyna að fjalla um sem mest af því sem gerðist í íslenskri dægurtónlist, ekki síst ef verið var að gera eitthvað nýtt, og helst að fjalla um alla íslenska tónlist sem gefin var út. Að því leyti var fjallað um tónlist kvenna ekki síður en tónlist karla í Morgunblaðinu, en þrátt fyrir það var kynjahalli í umfjölluninni, vissulega ómeðvitaður, en kynjahalli samt og í byrjun níunda áratugarins fór ég að leita að konum sem skrifað gætu um tónlist fyrir blaðið.

Það er algengt viðkvæði karla í prent- og ljósvakamiðlum að erfitt sé að fá konur til að tjá sig um hluti, eða svo segja þeir þegar að þeim er sótt vegna kynjahalla. Mín reynsla er þvert á móti sú að það sé ekkert erfiðara að fá konur til að segja skoðun sína á prenti en karla, aðal vandinn er að finna fólk sem er tilbúið til þess að vinna fyrir lítið, gagnrýni var og er illa borguð, og fólk með nógu stór eyru – og það á jafn við um konur og karla. Skýringin á því af hverju ekki voru fleiri konur að fjalla um tónlist – og má reyndar bæta við; af hverju þær eru ekki fleiri í dag – er því ekki sú að konur viti minna um tónlist og ekki sú að þær séu ragari við að segja skoðun sina, heldur sú að til þeirra er ekki leitað, þær fá einfaldlega ekki tækifæri til að tjá sig.

IMG_8190

Jófríður Ákadóttir í Samaris. Mynd: Björg Sveinsdóttir.

Nú má spyrja: Af hverju skiptir það máli að konur tjái sig um tónlist? Hafa þær eitthvað sérstakt að segja, eitthvað fram að færa sem karlar geta ekki séð um? Er þetta eitthvað vandamál yfirleitt?

Miklar umræður urðu um sérstakt kvennaframboð fyrir borgarstjórnarkosningar í upphafi níunda áratugarins sem varð að Kvennalistanum sem bauð fram til alþingis 1983. Í þeim umræðum birtist talsverður hugmyndafræðilegur ágreiningur ekki síst um það hvort til væri eitthvað sem kalla mætti reynsluheim kvenna og þá líka hvort og að hve miklu leyti hann væri frábrugðinn reynsluheimi karla.

Í grein í Dagblaðinu Vísi lýsti Þórunn Friðriksdóttir, frambjóðandi Kvennalistans í Reykjaneskjördæmi, reynsluheimi kvenna og fjallaði meðal annars um það hve uppeldi kvenna og karla væri mismunandi, kynjahlutverkin sem okkur væru innrætt ólík og lýsti líka því hvernig konum, og körlum, er kennt að haga sér á mismunandi hátt:„Þegar við tölum um reynsluheim kvenna og að hann sé ólíkur reynsluheimi karla erum við að tala um að samfélagið móti okkur á ólíkan hátt — að reynsla kvenna leiði af sér annað verðmætamat — önnur lífsgildi,“ sagði Þórunn í grein sinni, en lífgildi kvenna voru almennt talin felast öðru fremur í hollum mat, heilnæmu vatni, traustum tilfinningatengslum við annað fólk, góðu heimilislífi og heilbrigðum börnum og því frábrugðinn reynsluheimi karla sem er þá vald- og vísindahyggja, stríðsrekstur og hagvaxtartrú.

Áherslan sem aðstandendur Kvennalistans lögðu á reynsluheim kvenna og kvennamenningu sem væru mjög frábrugðin menningu karla virkaði sem einskonar lím til að festa saman konur sem höfðu ólíkar lífsskoðanir, spönnuðu hið pólitíska litróf frá yst til vinstri til lengst til hægri. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að það sem kölluð var sértæk lífsgildi kvenna eru einnig lífsgildi karla, eða svo hefði ég haldið. Vissulega er félagsmótun kvenna frábrugðin félagsmótun karla, en mín reynsla á Morgunblaðinu er sú að enginn munur sé á því hvort konur væri að skrifa gagnrýni en karl, að það væri meiri munur á milli kvenna en á milli kvenna og karla. Þær konur sem ég fékk til að skrifa um tónlist voru ólíkar, með ólíkar skoðanir og ólíkan smekk, en ekki frábrugðnar körlum hvað varðaði þekkingu á tónlist, rökfestu eða kjark til að láta vaða ef þær rákust á eitthvað sem þeim fannst ábótavant, nú eða til að lofsyngja það sem þeim fannst gott.

BELL1298

Elíza Geirsdóttir í Bellatrix/Kolrössu krókríðandi. Mynd: Björg Sveinsdóttir

Femínisminn er stundum greindur í þrjár kynslóðir; í fyrstu kynslóð femínisma, í upphafi síðustu aldar, var lögð áhersla á náttúrurétt, að allir einstaklingar eigi að vera jafnir gagnvart lögunum og því hljóti konur sem einstaklingar að njóta sömu réttinda og karlar. Í annarri kynslóð femínismans, líkt og kvennalistasamstarfið byggði á meðal annars, var kveneðlið greint og því hampað, en þriðja kynslóð femínismans, sem er í ætt við póstmódernismann, leggur áherslu á að konur séu ekki allar eins, þær séu ekki mótaðar af sameiginlegu kveneðli.

Að því sögðu þá skiptir það verulegu máli að konur tjái sig um tónlist, því þó við höfnum þeirri miklu áherslu sem lögð var á það í annarri kynslóð femínisma að reynsluheimur og menning kvenna sé verulega frábrugðin reynsluheimi og menningu karla, þá er munur og þó hann fari minnkandi, þá mun hann seint hverfa. Frá því sjónarhorni er mjög mikilvægt að raddir kvenna heyrist í allri umræðu, þar með talið umræðu um tónlist. Það eru og fleiri svör við spurningunni um tilgang þess að konur taki þátt í opinberri umfjöllun og umræðu um tónlist, fjöldamörg svör reyndar, en ég læt nægja að nefna eitt til viðbótar: Það er mikilvægi þess að stúlkur eigi fyrirmyndir, sjái konur sem semja og flytja tónlist og taka þátt í umræðum um tónlist. Í því sambandi þá leituðu stúlkur eftir því við mig að fá að skrifa um tónlist fyrir Morgunblaðið eftir að hafa séð að þar voru konur að skrifa.

Múm

Kristín Anna Valtýsdóttir í Múm á tónleikum.

Eitt af því sem ég hef fengist við yfir árin er að vera í dómnefnd Músíktilrauna, árlegri hljómsveitakeppni sem var fyrst haldin í Tónabæ 1982. Ég fór að fylgjast með keppninni 1987 og var þá boðið að vera í dómnefnd tilraunanna. Músíktilraunirnar í ár, í lok mars, verða því þær 28. þar sem ég verð í dómnefndinni. Þessir tæpu þrír áratugir í Músíktilraunum hafa verið einkar skemmtilegt færi á að fylgjast með stefnum og straumum í íslenskri tónlist, rokki og rappi og raftónlist – og ekki síst að fylgjast með því hvað ungar konur hafa verið að fást við tónlistarkennt. Reyndar bar mjög lítið á stúlkum fyrstu árin, það var þá helst að þær komu inn í hjómsveitir sem bakraddasöngkonur eða söngkonur, en með tímanum hefur stúlkum fjölgað í aðalhlutverkum, þá sérstaklega síðustu fimm til tíu ár. Það er eflaust vegna þess að tíðarandinn er blessunarlega að breytast, en líka fyrir ýmislegt félagsstarf sem ætlað er auka þátttöku kvenna í tónlist, eins og til að mynda sjálfboðaverkefnið Stelpur rokka! sem vinnur eftir þeirri femínísku hugsjón að efla ungar stelpur í tónlistarsköpun. Bendi fólki á vefsetrið stelpurrokka.org til að kynna sér það frábæra starf.

Allt hangir þetta saman; að konur séu sýnilegar sem tónlistarmenn og eins að á þær sé hlustað og um þær fjallað. Þetta snýst þó ekki um það að tónlist kvenna sé eftirtektarverð bara fyrir það að hún sé tónlist kvenna, heldur þarf maður alltaf að vera vakandi fyrir því að ekki sé verið að velja viðfangsefni í skugga feðraveldisins – í heimi tónlistarinnar eru karlar nánast allsráðandi og því þurfa þeir sem fjalla um tónlist að vera sífellt meðvitaðir um kynjahallann og spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi valið tónlist eftir karl til að spila eða fjalla um bara vegna þess að hún var hendi næst, bara vegna þess að það var auðveldara, bara vegna þess að maður þarf ekki að hugsa til þess að fjalla um karla í tónlist – það er nánast sjálfgefið.

Á Túr Elísabet  96

Á túr. Beta rokk (Elísabet Ólafsdóttir) þenur raddböndin. Mynd: Björg Sveinsdóttir.

Það er langt í frá að Morgunblaðið hafi náð að jafna hlutfall karla og kvenna í tónlistargagnrýni – þar vantar talsvert upp á. Vandamálið er þó ekki bara innan dagblaða, eins og mátti lesa í fróðlegri samantekt Stefáns Inga Stefánssonar á Knúz.is, þar sem fram kom að Rás 1 er eina útvarpsstöðin þar sem hlutfall kynjanna er nánast jafnt þegar kemur að þáttastjórn. Á Rás 2 er hlutfallið 67% karlar og 33% konur, á FM 957 eru karlar 86% þáttastjóra, á Bylgjunni 87% og X-inu 977 eru þeir 98%. Þetta eru sláandi niðurstöður, ekki síst það að Ríkisútvarpið Rás 2, sem rekið er af þjóðinni allri, körlum og konum, skuli ekki standa sig betur en raun ber vitni.

Í þessum sambandi má reyndar nefna Andreu Jónsdóttur aftur til sögunnar, því ekki var bara að hún væri eina konan sem skrifaði reglulega um tónlist í dagblaði á Íslandi á sínum tíma heldur hélt hún úti útvarpsþáttum á Rás 2 á níunda áratugnum um „kellingar í dægurtónlist“, eins og hún orðaði það, en þátturinn hét „Úr kvennabúrinu“.

Fyrir mánuði lét yfirmaður sjónvarpshluta BBC þau orð falla að framvegis yrðu ekki gerðir fleiri gaman- og spurningaþættir á BBC þar sem þátttakendur yrðu aðeins karlar. Ýmsir, aðallega karlar fyrir einhverjar sakir, hafa gagnrýnt þetta harkalega og meðal annars sagt að þetta yrði til þess að menn myndu velja konur í þættina án þess að þær væru þess verðar, enda liggur ljóst fyrir að konur geta hvorki verið skemmtilegar eða fyndnar. Samskonar röksemdir, ef rök skyldi kalla, hafa heyrst hér þegar rætt hefur verið um það hve mjög hallar á konur í umræðuþáttum um stjórnmál í sjónvarpi og eins kynjahalla sem er á viðmælendum almennt í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum.

Ég nefndi áðan franska femínistann Simone de Beauvoir og reynslu hennar af sósíalískum eldmóði franskra ungmenna á sjöunda áratugnum, en hún lýsti því líka að það hafi ekki verið fyrr en konurnar áttuðu sig á því að þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu að hjólin tóku að snúast: „Ég skildi það loks,“ sagði hún „að konur gætu ekki vænst þess að frelsun þeirra myndi spretta af almennri byltingu, þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu. Karlar voru alltaf að segja þeim að þarfir byltingarinnar gengju fyrir og síðar myndi röðin koma að þeim.“

Sykurmolar 87 Town  and Country

Björk á fyrstu tónleikum Sykurmolanna í Lundúnum. Mynd: Björg Sveinsdóttir.

Ég man þá daga þegar það var bara einn kynstofn á Íslandi, ein trú og einn stjórnmálaflokkur ( Sjálfstæðisflokkurinn); daga feðraveldis þegar allir litu upp til fyrirmennanna, hvort sem það voru faktorar eða forstjórar, biskup eða borgarstjóri, allir miðaldra hvítir karlar. Þeir gömlu góðu dagar voru ekki góðir og nútíminn er miklu miklu betri. Þrátt fyrir það er enn langt í land með að við náum jöfnuði karla og kvenna, hvort sem það er í launakjörum, atvinnuöryggi, kynfrelsi eða skoðanafrelsi. Röðin kom nefnilega ekki að konunum fyrr en þær gripu til eigin ráða og sem dæmi má nefna baráttu rauðsokkahreyfingarinnar íslensku á sjöunda áratug síðustu aldar sem miðaði okkur umtalsvert fram veginn. Ef feta á hinn gullna meðalveg í jafnréttismálum munu karlarnir ákveða hver meðalvegurinn er og ef hinn „gullni meðalvegur“ hefði fengið að ráða væru konurnar enn að vélrita ræðurnar fyrir karlana, eða að hita kaffi inni í eldhúsinu á meðan þeir standa í ræðupúltinu, eins og Simone de Beauvoir orðaði það á sjötta áratugnum.

 

Knúzið þakkar Björgu Sveinsdóttur ljósmyndara kærlega fyrir að fá að birta þessar frábæru myndir af tónlistarkonum. 

Færðu inn athugasemd