4. desember í jóladagatalinu er… Elizabeth Cady Stanton

Höfundur: Herdís Helga Schopka

Elizabeth Cady Stanton, um 1880. Mynd http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Elizabeth_Stanton.jpg.

Elizabeth Cady Stanton, um 1880. Mynd héðan.

“Fyrir mér var ekkert málefni eins mikilvægt og frelsun kvenna undan kennisetningum fortíðarinnar, jafnt pólitískum, trúarlegum og samfélagslegum. Mér fannst mjög merkilegt að stuðningsmenn afnáms þrælahalds, sem tóku óréttlætið sem þrælar voru beittir svo nærri sér, skyldu vera blindir á sambærilegt órétti sem þeirra eigin dætur, mæður og eiginkonur voru beittar.” – Elizabeth Cady Stanton, Eighty Years and More

Elizabeth Cady Stanton (1815-1902)

Hinn 14. júlí 1848 birtist auglýsing í Seneca County Courier-dagblaðinu þar sem konum var boðið að koma á „ráðstefnu til að ræða stöðu og réttindi kvenna í samfélags-, borgara- og trúarlegu samhengi“ í Wesleyan kapellunni í Seneca Falls tæpri viku síðar, 19. og 20. júlí. Auglýsingin lét ekki mikið yfir sér og Seneca Falls var ekki þá frekar en nú miðpunktur alheimsins. Samt átti ráðstefnan sem þarna var boðuð eftir að breyta gangi heimsins hvað konur snerti.

Að baki auglýsingunni stóðu fimm konur sem allar höfðu fengið sig fullsaddar af þeim skorðum sem þeim voru settar í lífinu vegna kyns síns. Konurnar fimm voru þær Lucretia Mott, Martha Wright, Jane Hunt, Mary Ann McClintoc og Elizabeth Cady Stanton. Sú síðastnefnda varð fánaberi baráttunnar.

Emma Willard-skólinn, þar sem Elizabeth hlaut menntun. Mynd héðan http://www.lib.rpi.edu/archives/gallery/postcards/troy/educational/willard_school.html

Emma Willard-skólinn, þar sem Elizabeth hlaut menntun. Mynd héðan.

Elizabeth Cady fæddist árið 1815 inn í vel stæða fjölskyldu sem bjó í ofanverðu New York-fylki. Faðir hennar var dómari og móðir hennar sinnti börnum og búi, eins og var til siðs á þeim tíma. Elizabeth var afburðagreind og atorkusöm sem barn og unglingur og því gaf faðir hennar henni meira frelsi en stúlkur fengu almennt á þessum tíma. Hún fékk t.d. meiri menntun en flestar kynsystur sínar.

Árið 1840 giftist hún Harry Brewster Stanton, frétttamanni, baráttumanni gegn þrælahaldi og lögfræðingi. Hún neitaði að taka nafn manns síns, eins og þá tíðkaðist, en kom til móts við tíðarandann með því  að bæta eftirnafni hans aftan við nafn sitt. Þau hjónin bjuggu framan af í Boston og þar sem Stanton hafði vel upp úr lögfræðistörfunum gat Elizabeth sinnt hugðarefnum sínum, sem voru barátta gegn þrælahaldi, bindindishreyfingin og kvenréttindi, og þurfti ekki að hafa áhyggjur af heimilisstörfum og börnum.

Húsið sem Elizabeth Cady Stanton bjó í í Seneca Falls. Mynd héðan http://www.nps.gov/wori/historyculture/elizabeth-cady-stanton-house.htm.

Húsið sem Elizabeth Cady Stanton bjó í í Seneca Falls. Mynd héðan.

Stuttu eftir brúðkaupið fóru hjónin á alþjóðlega ráðstefnu gegn þrælahaldi í London. Elizabeth og öðrum konum var meinaður aðgangur að ráðstefnunni vegna kyns síns og þær látnar sitja í hliðarsal. Þar á  meðal var Lucretia Mott, sem var kvekari og prestur. Þær Elizabeth eyddu miklum tíma saman meðan á ráðstefnunni stóð og varð vel til vina. Lucretia, svo og aðrir gestir ráðstefnunnar, kynntu Elizabeth fyrir róttækum hugmyndum um kvenfrelsi sem höfðu mikil áhrif á  hana. Þær vinkonurnar ákváðu að halda ráðstefnu um kvenréttindi heima í  New York um leið og færi gæfist.

Elizabeth Cady Stanton með tvo syni sína, Daniel og Henry, um 1848. Mynd héðan http://en.wikipedia.org/wiki/File:ElizabethCadyStanton-1848-Daniel-Henry.jpg

Elizabeth Cady Stanton með tvo syni sína, Daniel og Henry, um 1848. Mynd héðan.

Færið lét bíða eftir sér og árið 1847 rann upp. Heilsu Stantons var þá farið að hraka í hinni votviðrasömu Boston og fjölskyldan flutti til Seneca Falls í norðanverðu New York-fylki. Elizabeth fann fljótlega fyrir því að lífið í smábænum var fábreytt og erfitt í samanburði við stórborgina. Menningarlegir viðburðir voru fáir og vitsmunaleg örvun nánast engin. Auk þess reyndist ómögulegt að fá þjónustufólk. Hún neyddist því sjálf til að sjá um heimilisreksturinn og sinna börnunum og hugðarefnin þurftu að sitja á hakanum. Eftir rúmt ár af þessu erfiða, tilbreytingarsnauða striti var henni orðið gróflega misboðið yfir því hvernig líf konum var boðið upp á. Þá vildi svo til að hún fékk heimboð frá Lucretiu Mott, sem bjó í nágrenninu. Þar hittust þær fimm sem sagt er frá hér að ofan, og út úr umkvörtunum Elizabeth um bága stöðu kvenna varð til auglýsingin góða.

Eftir birtingu auglýsingarinnar um ráðstefnuna um réttindi kvenna sat Elizabeth við, nánast nótt og dag, og skrifaði yfirlýsingu sem átti að samþykkja á ráðstefnunni. Ráðstefnan var vel sótt, um 300 manns komu víða að til að taka þátt, og fréttir af henni náðu eyrum mun, mun fleiri, enda gripu stór dagblöð vestanhafs fréttina á lofti og annaðhvort gerðu stólpagrín að þessum kynsveltu piparjónkum (hafiði heyrt þennan áður?) eða voru alveg rasandi af bræði yfir fáránlegum kröfum þessara óábyrgu kvenna, sem myndu valda mannkyninu óbætanlegu tjóni. Yfirlýsingin var samþykkt, einnig umdeildasti hluti hennar sem fjallaði um kosningarétt, og eitt hundrað manns, bæði konur og karlar, skrifuðu undir hana. Ein þeirra, Charlotte Woodward, var enn á lífi sjötíu og tveimur árum síðar og fór að kjósa þegar bandarískar konur fengu loks kosningarétt.

Ráðstefnan í Seneca Falls hjálpaði konum að átta sig á því að þær voru ekki einar um að vera frústreraðar og reiðar yfir því hlutskipti sem samfélagið úthlutaði þeim. Forsprakkar og gestir ráðstefnunnar máttu þola mótlæti, aðkast og aðhlátur í kjölfar hennar en engu að síður urðu ráðstefnurnar fleiri og voru haldnar víðar. Þarna hófst kvennahreyfingin í Bandaríkjunum fyrir alvöru og síðan þá hefur aldrei orðið lát á.

Elizabeth leit á ráðstefnuna sem mikinn sigur og hélt eftir þetta störfum sínum í þágu kvennahreyfingarinnar ótrauð áfram. Hún lést á heimili sínu í New York-borg þann 26. október 1902, þá tæplega 87 ára.

 

Heimildir: The Ladies of Seneca Falls e. Miriam Gurko, wikipedia á bæði ensku og íslensku.

Lesendur eru hvattir til að kynna sér yfirlýsingu fundarins í Seneca Falls. Hún er aðgengileg á ensku hér.

Færðu inn athugasemd