Að sníða til konur

Höfundur: Auður Lilja Erlingsdóttir

snidumkonurÍslenska heilbrigðiskerfið er undir stöðugri niðurskurðar- og hagræðingarkröfu. Krafan um sparnað og skilvirkni er svo sterk að fjöldi fólks fylgist með dagsdaglegu lífi af hliðarlínunni. Bíður eftir aðgerðum sem myndu þó bæta lífsgæði þeirra til muna og gera þeim kleift að vera þátttakendur í samfélaginu.

Pabbi minn er einn af þeim. Hnén eru farin og hann eyðir mest öllum tíma sínum í margvísleg áhugamál á þriðju hæð í blokk í Álfheimunum, enda sárt að ganga niður stigann, hvað þá lengra. Hann er búinn að bíða í marga mánuði og mun sennilega þurfa að bíða lengi enn. Það er afar stíft utanumhald um aðgerðir af því tagi sem hann bíður eftir, fjárhagsramminn ákvarðar hversu margir fara árlega og listinn ræður för.

Sömu kröfur virðast þó ekki eiga við um alla geira læknisfræðinnar. Því þrátt fyrir sífellt meira aðhald og kröfur um skilvirkni, biðlista og kostnaðarvitund sjúklinga geta lýtalæknar ekki einu sinni svarað landlækni og veitt honum upplýsingar um fjölda aðgerða sem þeir framkvæma ár hvert. Upplýsingar sem að öllu jöfnu mætti telja eðlilega kröfu og forsendu starfsleyfis viðkomandi lækna.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, óskaði nýverið eftir  svörum frá heilbrigðisráðherraLíneik varðandi lýtaaðgerðir sem framkvæmdar eru árlega á kynfærum kvenna sem og um brjóstastækkanir. Svar heilbrigðisráðherra er frekar rýrt en þar segir  að lýtalæknar hafi ekki skilað þeim upplýsingum sem þeim hefur verið uppálagt að gera frá árinu 2007.

Í 11. Tbl. Læknablaðsins árið 2013 birtist grein frá félagi íslenskra lýtalækna þar sem kvartað er yfir fordómum í þjóðfélaginu gagnvart fegrunaraðgerðum og sérstaklega er rætt um fordóma gagnvart brjóstastækkunum og skapabarmaaðgerðum. Sömu aðgerðum og lýtalæknar virðast ekki telja sig umkomna að gefa upplýsingar um til Landlæknis.

Ég var hér um bil búin að gleyma hversu hugsi ég var þegar ég las greinina frá félagi íslenskra lýtalækna undir lok síðasta árs þegar þessi rýru svör báru á góma og nýtti tækifærið til að lesa hana enn og aftur. Ég var hugsi vegna þess að þau skertu lífsgæði sem rætt er um að laga með aðgerð eru ólíkt veikindum pabba míns í afar mörgum tilfellum tilbúin af okkur sjálfum, því samfélagi sem við byggjum og væri hægt að bregðast við með allt öðrum hætti.

Í greininni segir m.a. „Mjög lítil brjóst geta haft neikvæð áhrif á lífsgæði kvenna. Þær geta ekki klætt sig að vild, þrátt fyrir brjóstahaldara með mikla fyllingu, verða hoknar í baki af vanlíðun og til að fela brjóstin. Þær koma ekki í aðgerðina vegna einhverrar staðalímyndar, eins og margar gagnrýnisraddir halda fram, heldur fyrst og fremst fyrir þær sjálfar

ginurSem sagt lítil brjóst geta haft neikvæð áhrif á lífsgæði kvenna algjörlega óháð staðalmyndum og þeirri útlitsdýrkun sem við erum undir stöðugri áreiti frá í samfélaginu. Þar sem konur koma ekki inn á læknastofuna og segja „ég vil fara í brjóstastækkun því ég er að bugast undan vanlíðan og samanburði við óraunhæfar væntingar samfélagsins um hvernig konur eigi að líta út“  hljótum við að taka það gott og gilt án þess að grafast frekar fyrir um það.

Nú langar mig að velta upp byltingarkenndri nálgun á vandamálinu, þ.e. gæti ekki verið sniðugari lausn á klæðavanda kvenna að sníða föt á fjölbreyttari máta frekar er að sníða til konur?

Hið sama á við um konur sem eiga í erfiðleikum með hjólreiðar vegna „of stórra“ skapabarma.hnakkur Hvernig væri að sníða hnakkinn betur í stað hjólreiðakvenna?

Mér dettur ekki í hug að gagnrýna þær konur sem leggjast undir hnífinn í þessar aðgerðir, enda bý ég í sama samfélagi og veit við hvað er að etja. Orsakir þess að konur fari þessa leið geta verið af margvíslegum toga.

Til þess að komast til botns í málinu og kryfja það samfélag sem við búum í er þó nauðsynlegt að allir leggi sitt af mörkum. Því nýti ég tækifærið til að biðla til félags lýtalækna að aðstoða. Skilið gögnum og takið þátt í umræðunni á öðrum forsendum en að allir sem setja spurningamerki við slíkar aðgerðir séu haldnir fordómum.

6 athugasemdir við “Að sníða til konur

  1. Takk fyrir þetta, Auður Lilja. Á meðan íslenskir lýtalæknar hvorki skila gögnum um aðgerðir, fjölda þeirra og rökstuðning fyrir þessum inngripum í eðlilega líkamsstarfsemi, geta þeir ekki ætlast til þess að fullyrðingum þeirra um þessa brýnu þörf fyrir þær og hvatirnar sem knýja fólk til að láta breyta líkama sínum. Breytum fötum og samfélagi til að fólki líði betur í þeim en ekki öfugt!

    Líkar við

  2. takk fyrir þessar hugleiðingar Auður Lilja. Ég er svo forvitin og er sífellt að pæla í af hverju ( í alvöru!) lýtaæknar vilja ekki gera þessi gögn opinber.. það er helst að manni detti í hug að þarna sé eitthvað sem ekki þolir dagsljósið………. !!

    Líkar við

    • Stefán, það er oft erfitt að vera ánægð með líkamann sinn þegar samfélagið segir konum stöðugt að líkaminn þeirra sé alls ekki nógu góður eins og hann er af náttúrunnar hendi.

      Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að breyta viðhorfi til líkama kvenna. Lausnin felst ekki í því að ætlast til að konur breyti líkama sínum, eða að ætlast til þess að konur séu barasta ánægðar með sig eins og þær eru, þrátt fyrir endalausar óraunhæfar kröfur um að þær eigi nú samt að vera auðruvísi og betri en þær eru ‘af guði gerðar’.

      Líkar við

Færðu inn athugasemd