Um „Orðsendingu til íslenskra karlmanna“

Höfundur: Trausti Dagsson

karlar grillaEinu sinni heyrði ég sagt um lítinn dreng sem ég þekki að hann hefði fæðst karlremba, þar sem honum fyndist, aðeins tæplega tveggja ára, eðlilegast að pabbi hans æki bílnum, grillaði og annað þess háttar, en að þvottavélin og ryksugan væru eign mömmunnar. Sú túlkun að hann hljóti því að hafa fæðst karlremba er sniðug en stenst þó að sjálfsögðu ekki. Börn fæðast ekki með fyrirfram gefnar hugmyndir um þvottavélar, bíla eða grill í höfðinu, og því síður þann táknheim sem við lifum í og sem tengir þessi fyrirbæri við ákveðnar athafnir. Það er sum sé lítið um náttúrulegar tengingar á milli kynja og hlutverka, slíkt er skapað innan samfélagsins.

Margir brugðust hart við grein Hrafnhildar Ragnarsdóttur, Orðsending til íslenskra karlmanna, sem birtist í Fréttablaðinu um daginn, og virtist sem mörgum körlum þætti sem verið væri að ráðast á þá persónulega vegna þess að greinarhöfundur væri að „ráðast á“ þeirra samfélagshóp. Slíkt er skiljanlegt, ég á það til að velja mér hóp og taka gagnrýni á hann persónulega. Stundum finnst mér til dæmis óttaleg vanþekking skína í gegnum brandara eða ummæli um bændur, verandi sjálfur af bændum kominn. Mér fannst nýja auglýsingin frá Geysi fáránleg, með þessa hipsterabændur sem svífa yfir hraunið með stafina sína; þó er ekki einu sinni verið að gera grín að bændum í auglýsingunni, heldur er tilgangurinn sjálfsagt sá að upphefja sauðkindina, sýna sveitina í rómantísku ljósi. En þetta er útúrdúr hjá mér og léleg samlíking, ég hef sjálfur verið kallaður hipster.

Punkturinn er sá að það er ákaflega auðvelt að verða sár þegar einhver „ræðst á hópinn manns“. Það er auðvelt en er það nauðsynlegt?

konur flugmenn

Dagur á Akureyri, í júlí 1996

Ég minnist þess þegar ég var að koma úr flugi til Akureyrar, fyrir ekkert of mörgum árum síðan, og sagði við einhvern að mér hefði nú ekki litist á blikuna þegar ég sá konu í flugMannsbúningi hverfa inn í flugstjórnarklefann. Mér fannst, held ég, ekkert athugavert við að segja þetta á þessum tíma, enda fæddist ég inn í samfélag sem kenndi mér þennan hugsunarhátt. Konur kunnu, held ég, ekki að keyra í þá daga og hvað þá fljúga. Ég man líka hvað ég varð reiður þegar kona sem ég vann með sagði að ég væri karlremba. Ég get að sjálfsögðu ekki tilgreint hvað það var nákvæmlega í félagsmótun minni sem gerði það að verkum að mér fannst í lagi að segja flugmannsbrandarann, af hverju ég sá ekkert athugavert við gróft klám eða af hverju mér fannst eðlilegt að kalla kynbræður mína „kellingar“ til að niðurlægja þá. Hvað svo sem það var þá var það eitthvað, eitthvað afl, einhverjar forneskjulegar hugmyndir um valdastrúktúra og stigveldi.

Svo sterkt er þetta afl að kornung börn drekka það í sig, fullorðnir karlmenn eru gegnsýrðir af því og kerfinu er þannig viðhaldið.

Karlmenn eru ekkert slæmir, við erum ekkert allir meðvitað að niðurlægja konur eða undiroka þær, en við búum í samfélagi þar sem þetta er aldrei langt undan og stundum þarf bara að sjá hlutina á hvolfi til að átta sig. Ég veit ekki hvenær ég varð karlremba og ég veit heldur ekki hvenær ég hætti að vera það (að því gefnu að ég sé alveg hættur því sem ég veit náttúrulega ekki).

Kannski þurfti ég bara að verða svona óskaplega ástfanginn eins og ég er í dag. Ást er jafnrétti. Orðsending til íslenskra karlmanna er orðsending, ekki dómur. Við þurfum ekkert að taka þetta til okkar en ég geri það samt að hluta til, allavega sá „ég“ sem ég var fyrir ekkert alltof mörgum árum.

Ein athugasemd við “Um „Orðsendingu til íslenskra karlmanna“

  1. Mörgum körlum þótti sem verið væri að beina orðum til þeirra persónulega vegna þess að greinarhöfundur skrifaði greinina þannig. Hún er titluð „Orðsending til karlmanna“ og er skrifuð beint til lesandans sem er ávarpaður í annarri persónu eintölu. „ÞÚ ERT ÓGNARSTJÓRN Í MÍNU LÍFI“.

    Höfundurinn er ekkert bara að tala um einhvern „hóp“ sem ég hrekk i vörn fyrir. Hún beinir orðum sínum til mín. Hún velur akkúrat þessi orð í sinni orðsendingu til mín. Á ég að túlka þau sem eitthvað allt annað?

    Mér finnst það dapurlegt að Hrafnhildur Ragnarsdóttir upplifi það að ég, Einar Karl Friðriksson, sé ógn í hennar lífi.

    Líkar við

  2. @Einar Karl, persónulega tel ég það ekki skipta neinu máli hvort Hrafnhildur kjósi að skrifa til lesanda í 2. persónu eða 3. persónu eintölu eða fleirtölu, eða hvort hún ætti ekki að nota viðtengingarhátt í nútíð. Það sem ég tel skipta máli er það vandamál sem hún er að vekja máls á þar sem kynbundið ofbeldi er staðreynd sem við búum við og spilar samfélagið þar inn í. Það er stundum sagt „þeir taki það til sín sem eiga það“ og ég held að það eigi vel við um þessa grein, enda held ég ekki í eina sekúndu að Hrafnhildur telji alla karlmenn vera ofbeldisfullar karlrembur eða nauðgara.

    Líkar við

    • Persónulega tel ég það skipta máli hvaða orð höfundur velur til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Ef ég segði „Þú ert nú meiri hálfvitinn“ þá væri ég að tala til þín, um þig.

      Ég er alveg sammála því að hún er að vekja máls á alvarlegri meinsemd í samfélaginu. En það hefur ekki greinina yfir gagnrýni.

      Líkar við

      • Auðvitað skiptir orðaval máli, en í þessu tilfelli þegar öll deilan snýst um notkun persónufornafna og vandamálið sem verið er að vekja máls á verður aukaatriði þá finnst mér þurfa aðeins að staldra við.

        Líkar við

  3. Þetta er ágætt hjá honum þó ég sé alls ekki sammála að líffræðin móti ekkert í sálarlífi fólks :), en það er önnur umræða. Ég held að það sem margir (bæði konur og karlar) eru þreyttir á sé þessi endalausa umræða sem snýr að okkur karlmönnum, hún er orðinn frekar þreytt. Það er verið að leggja áherslu á ranga hluti í þessum málum. Við eigum að spyrja okkur af hverju eru karlar meirihluti ofbeldismanna,, af hverju eru þeir með karlrembu o.s.f.v. Gleymum því ekki að það eru bæði konur og karlar sem koma að félagsmótuninni og það þarf að laga hana, uppeldið, skólauppeldið, miðlar og fl. Getum við ekki alveg eins sagt að vondir karlar, karlrembur og nauðgarar séu þolendur félagsmótunar alveg eins og „vændiskonur“ séu þolendur félagsmótunar. Þessi umræða þarf að fara snúast um að finna leiðir til að breyta þessum veruleika í staðin fyrir að benda okkur á hann endalaust.

    Líkar við

    • Að benda á þennan veruleika, að skapa meðvitund um hann, er oft ein sterkasta leiðin sem við höfum til að breyta honum, því mikið af þessari hegðun er átómatísk, ómeðvituð.

      Líkar við

    • Það er rosa þægilegt að segja „æi hættum allri þessari umræðu, hún er svo þreytt. Gerum eitthvað í þessu í staðinn“
      En staðreyndin er sú að ef umræðan deyr, þá gerist nefnilega nákvæmlega ekkert í málunum!

      Líkar við

  4. Fannar – Hrafnhildur segir hvergi „þeir taki til sín sem eiga“ – hún segir beilínis að ég og þú og allir hinir sem eru með typpi á þessu örreytisskeri beri beina ábyrgð á því að hún upplifir sig óörugga.

    Ég ber akkúat enga ábyrgð á vanlíðan Hrafnhildar, nákvæmlega enga. Og mér finnst þessi ásökun hennar vera jafn ósmekkleg og hún er heimskuleg.
    Þér er auðvitað fullfrjálst að taka hluta ábyrgðarinnar á þig – kannski áttu hana – en þú hefur enga heimild til að samþykkja neitt fyrir mína hönd, bara svo það sé á hreinu.

    Líkar við

    • @Stefán, þú hefur ekki lesið kommentið mitt rétt, því það er ég en ekki Hrafnhildur sem segi að það eigi vel við málatiltækið „þeir taki það til sín sem eiga það“, enda hvarflar ekki að mér að draga þá ályktun að vegna þess að hún skrifar greinina í 2. persónu sé hún að tala beint til mín.

      En að sama skapi hafa allir gott að því að líta í eigin barm því oftar en ekki tileinkum við okkur hluti meðvitað eða ómeðvitað sem kynda undir fordóma samanber dæmið sem Trausti tekur um orðnotkun eins og að nota „kerlingar“ sem niðrandi orð um karlmenn o.s.frv.

      Mér er það samt hulin ráðgáta hvernig þú lest út úr þessu að ég sé að samþykkja eitthvað fyrir þína hönd.

      Líkar við

  5. Fannar – ég er að benda þér á að Hrafnhildur segir þetta hvergi, hún er að beina þessu til allra karlmanna á landinu. Þannig að „þeir taki til sín sem eigi“ á hreint alls ekkert við eins og þú vilt meina – heldur hið gagnstæða. Og þar sem þetta virðist vefjast fyrir þér – þá er ég að tala til þín, þessvegna ávarpa ég þig í 2. persónu. Í þeim tilgangi ávarpar maður aðra í 2. persónu, þú veist það þá héðan í frá.

    Það er rétt hjá þér að þú er ekki að samþykkja þetta fyrir mína hönd – en þar sem þér finnst ekkert að þessum málflutningi hjá fórnarlambinu, þá vildi ég undirstrika umboðsleysi þitt (og annarra) til þess að gangast við þessum ábyrgðum fyrir mína hönd. Ég vona að þér hafi ekki misboðið við það.

    Líkar við

    • Stefán eins og ég sagði áðan þá finnst mér Hrafnhildur ekki þurfa að segja það, þú kýst að taka þessari 2. persónu notkun svona rosalega persónulega og dregur í kjölfarið að mínu mati algjörlega ranga ályktun um að þessu sé beint til allra karlmanna í landinu (heiminum ef út í það er farið). Það að notkun 2. persónu sé orðið að aðal deiluefninu í tengslum við greinina og þann hrylling sem kynbundið ofbeldi er, er mjög sorglegt.

      Ætti Hrafnhildur að endurskrifa greinina og breyta 2.persónu eintölu í 3. persónu fleirtölu? Væri þá líklegra að þú myndir veita athygli því vandamáli sem hún bendir á, í stað þess að þræta hér um persónufornöfn?

      Mér er aftur hulin ráðgáta hvernig þér tekst að breyta því að „ég geti ekki samþykkt eitthvað fyrir þína hönd“ yfir í að „ég geti ekki gengist við einhverju fyrir hönd þína“? Þú ert að segja alveg sama hlutinn. Auk þess sem ég var aldrei að því, heldur er þetta þín frjálslega túlkun á kommentinu mínu.

      Líkar við

  6. Sæll aftur Fannar

    Það er öllum ljóst (nema þér) að Hrafnhildur er að saka alla karlmenná Íslandi (mögulega heiminum) um að stuðla að og viðhalda ógnarstjórn gagnvart konum.

    Þegar ég (og sonur minn og pabbi minn og bræður mínir) er sakaður um slíkan viðbjóð þá fyllist ég þykkju, þér má alveg liggja í léttu rúmi um að vera sakaður um slíkt. Ég læt hinsvegar ekki bjóða mér slíka framkomu þegjandi og hljóðalaust.

    Hrafnhildur þarf ekkert að endurskrifa þessa grein – það er í raun ágætt að hún hafi ritað þessa afstöðu sína niður. Það liggur þá ljóst fyrir hver þankagangurinn er – við hinir illu karlmenn skuldum henni eitthvað.

    Svo er það þetta með samþykkið, ég taldi mig hafa útskýrt það (var raunar óljóst í fyrsta svari) – en þar sem lesskilningur þinn er mjög á skjön við lesskilning minn – þá er ekki skrýtið að það nái ekki í gegn.

    VIð skulum þvi halda þér alveg fyrir utan þetta og umorða: Ég samþykki ekki að ég beri nokkra einustu ábyrgð á líðan/vanlíðan pistahöfundar, ég mun aldrei samþykkja það.

    Líkar við

    • Stefán ég á því miður engin frekari svör við fullyrðingum og túlkunum þínum, en áhugavert þykir mér að sjá að vandinn sem Hrafnhildur ræðir um fer enn alveg ofan garð og neðan og í þykkju þinni þá einblínir þú á þína túlkun og þínar fullyrðingar.

      En þar sem þessi grein vakti þessi sterku viðbrögð hjá þér, leyfi ég mér að geta mér þess til að í uppeldi sonar þíns munt þú leggja áherslu á að fræða hann um að karlar og konur séu jafningjar, eiga rétt á sömu launum fyrir sömu vinnu og eiga að geta fundið til sama öryggis út í samfélaginu.

      Þetta eru hlutir sem ég mun fræða dóttur mína um og ef getgáta mín um þig reynist rétt þá erum við nú ekki alveg á skjön.

      Líkar við

      • Sæll aftur Fannar

        Þykkja mín byggir ekki á túlkunaratriði – èg er beinlínis borin sökum sem ég get ekki samþykkt, svo einfalt er nú það.

        Ég kýs ekki að einblína á þetta atriði – þetta er þungamiðja pistilsins.

        Afstaða mín gagnvart ofbeldi, sérstaklega gegn konum, er sú hin sama og allra karlmanna sem ég þekki – þú mátt geta þér til um hver hún er.

        Það er einfaldlega ekki boðlegt að saka alla karlmenn um ógeðslegar gjörðir fárra.

        Líkar við

      • Ég er aðallega hugsi yfir því hvað hafi farið úrskeiðis í uppeldi Hrafnhildar.

        „Orðsending til íslenzkra kvenna: Hættið að ljúga nauðgunum upp karla“, er t.d. eitthvað sem ég trúi að fæstar konur yrðu ánægðar með. Mér ditti heldur ekki í hug að segja svoleiðis þar sem ég veit að flestar konur eru gott og heiðvirt fólk, rétt eins og flestir karlar.

        Ég fékk nú líka nokkuð gott uppeldi, að ég hygg.

        Líkar við

  7. Sæll Stefán, ef afstaða þín gagnvart ofbeldi gegn konum er sú sama og allra karlmanna sem þú þekkir flækjast málin, því nú ert þú sjálfur að gerast sekur um að tala fyrir aðra og ætla ekki að giska á afstöðu þína út frá því.

    En afstöðu verða að fylgja gjörðir og ég vona að þú og allir sem þú þekkir sýnið þessa afstöðu í orði og í verki.

    Líkar við

  8. Ég las þessa grein Hrafnhildar og tjáði mig aðeins um hana á feisbókinni.

    Flest viðbrögðin við henni þykja mér nokkuð brosleg. Það er einhver lenska hér á landi að hlaupa strax í vörn og láta eins og maður sé einhvers konar umboðsmaður heils hóps sem maður hefur ákveðið að taka upp hanskann fyrir. Þetta er undarlegur hugsunarháttur. Ég tek það ekki persónulega til mín það sem Hrafnhildur heldur fram í greininni. Málflutningur Stefáns hér finnst mér einkennast af önuglegheitum, eins og björn í híði sem hefur verið vakinn af værum blundi, því einhver potaði í hann. Það er nú líka fremur furðulegt ef þessi umræða er í fúlustu alvöru farin að snúast um íslenka málfræði.

    Að því sögðu er grein Hrafnhildar ekki hafin yfir gagnrýni. Niðurlag greinarinnar er klaufalegt. Þar segir hún svo ég vitni í greinina: „Þetta er minn heimur en þú þekkir hann víst ekki neitt. Samt skapaðir þú hann ásamt bræðrum þínum. Þú ert í raun mín ógnarstjórn.“

    Hins vegar held ég að margir karlmenn upplifi það að það skipti engu máli hvað þeir segi eða geri, þeir eru alltaf óvinurinn. Að mestu leiti er þetta væl en þó er ákveðinn punktur í þessu. Ef að málflutningur einkennist alltaf af „við-á-móti-þeim“ og „bylting-gegn-hverjumþeimsemáaðveraviðstjórnvölinn“ þá er erfitt að finna sér bandamenn eða skapa sammannlega fleti. Konur standa á flestum sviðum höllum fæti samanborið við karla. Sú staðreynd er alveg jafn slæm fyrir karlmenn því hún ýtir þeim út í hlutverk sem þeir passa flestir ekki vel inn í, ekki fremur en konur. Því er jafnréttisbaráttan sammannlegt vandamál og ætti að vera baráttumál allra.

    En það getur verið erfitt fyrir marga karla sem líta á sig sem femínista að heyra það frá talsmönnum sem þeir sjá sem jafningja og kollega að þeirra kyn, eins og það leggur sig, sé og verði alltaf óvinurinn og það besta sem þeir geti gert er að vera ekki fyrir. Það er sami málflutningur og hjá Malcolm X þegar hann sagði að hvítt fólk, og þá allt hvítt fólk, væri alltaf óvinurinn. Að mörgu leiti skiljanleg afstaða miðað við hvað þeldökkt fólk þurfti og þarf að ganga í gegnum í Bandaríkjunum og víðar, en röng afstaða engu að síður.

    Ég er persónulega hrifnari af Martin Luther King. Eina leiðin til að ná fram jafnrétti er að kynin vinni sameiginlega að því markmiði því það kemur þeim báðum við. Nóg er til af óvinum þótt fólk búi sér ekki til fleiri.

    Líkar við

    • Sveinbjörn Hjörleifsson

      Ef þú ert feministi, þá er þú hér með uppáhalds feministinn minn.

      Andskoti vel skrifað og hittir beint í mark.

      Ef fleirri gætu haft skilning á því sem þú sagðir þarna þá færi þessi jafnréttisbarátta á rétta línu.

      Líkar við

    • Sæll Sveinbjörn, það má vel vera að ég sé önugur – ber ekki á móti því. En umræðan snýst ekki um málfræði eins og þú heldur fram. Það er ekki tæknilegt málfræðilegt atriði að demba allri ábyrgð á ofbeldi gagnvart konum á herðar allra karla – það er sjónarmið sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum hjá ákveðnum hópi. Þetta er ekki óheppilega orðað eða klaufalegt hjá höfundi – heldur sjónarmið sem nýtur einhver fylgis eins og áður segir.

      Svör mín eru skrifuð í tvennum tilgangi – annarsvegar er ég að neita þessari ábyrgð alfarið og hinsvegar lýsi ég andstyggð minni á þessum málflutningi.

      Ég hef akkúrat (og nákvæmlega) ekkert að athuga við málfræðina í téðum pistli – að halda öðru fram er útúrsnúningur.

      Ég er þó sammála mörgu sem kemur fram hjá þér – en ég get ekki kyngt ábyrgðinni.

      Líkar við

      • Sæll og blessaður Stefán

        Vissulega hefur það sjónarmið sem þú talar um hér að ofan verið að ryðja sér til rúms innan ákveðinna hópa. Ég hef haft af því nokkrar áhyggjur til dæmis að það sé beinlínis verið að kenna báðum kynjunum að óttast hvort annað og etja þeim upp á móti hvort öðru, einnig þegar það er ekki nauðsynlegt. Þú þarft átök til að drífa samfélagið áfram en þú þarft einnig samvinnu og samstöðu. Það er of mikið af því fyrra og of lítið af því seinna á Íslandi í dag.

        En að þessu sögðu þá þurfum við heldur ekki að gera ráð fyrir að fólk hafi alltaf verstu hugsanlegu ástæður fyrir því sem það segir og gerir. Það sem er hægt að túlka sem illgirni er oftast hugsunarleysi því fæstir reyna að vera illgjarnir. Ég held að niðurlag greinar Hrafnhildar hafi átt að ögra og stuða og sé því aðallega stílbragð, misheppnað að mínu mati.

        Annars leiðist mér það nú mest hvað öll umræða um menn og málefni hér og annars staðar á netheimum er húmorslaus. Það er fólkið sem maður þarf virkilega að óttast, fólkið sem virðist ekki hafa neinn húmor fyrir sjálfu sér eða lífinu.

        Því vil ég ráðleggja þér og öðrum að sitja ekki samanbitnir/ar fyrir framan tölvuna heldur glotta út í annað, íhuga það sem viðmælendur ykkar segja og mótmæla því síðan, ef þér og öðrum líður ennþá illa yfir því sem einhver sagði.

        Góðar stundir

        Líkar við

      • Get aftur tekið undir flest það sem þú segir, vissulega getur það verið til gagns að ögra hefðum og venjum – líklega er það nauðsynlegt (amk af og til).
        Ég held þó ekki að það hafi verið ætlunin hér, ég held að höfundur hafi verið að meina akkúrat það sem hún segir. Það er engum til gagns, gerir ekki annað en að skapa og galvanísera „andstæðar fylkingar“.

        Höfundur virðist lesa þennan þráð og taka þátt í honum (eða nafna hennar) og hefur ekki gefið neitt annað í skyn en að þetta sé hennar meining. M.a.s. látið að því liggja að karlmenn láti þetta vandamál, sem ofbeldi er, sig engu varða.

        Það að kjósa að sitja ekki þegjandi undir slíku er ekki merki um húmorsleysi eða vísbending um að mér líði illa.

        Það er auðvitað ömurlegt að hópur fólks lifi í ótta við ofbeldi (raunverulegum eða ímynduðum) – ég stuðla ekki að slíku né styð á nokkurn hátt, né heldur ber ég nokkra ábyrgð á því.

        Líkar við

      • Sæll vertu Stefán

        Nei, auðvitað er það ekki merki um húmorsleysi að sitja ekki þegjandi undir ásökunum (sem þú upplifir sem slíkar). Enda meinti ég það ekki þannig.

        Það sem ég á við er að maður lærir jafn mikið af því hvernig fólk segir hlutina eins og af því hvað það segir. Mér leiðist það að fólk geti aldrei viðurkennt að andstæðingar sínir gætu haft eitthvað til síns máls. Það er eins og fólk óttist að tapa andlitinu eða að það lendi í einhverri „ég-var-ekki-nógu-staðfastur/föst í trúnni“-krísu.

        Þessi misskilningur leiðir af sér húmorsleysi í allri umræðu. Öll umræða þar sem fólk talar eins og það hafi 100% rétt fyrir sér og andstæðingar sínir 100% rangt fyrir sér er á villigötum.

        Þetta má hver sem er taka til sín, þetta er ekki beint að neinum sérstökum.

        Góðar stundir

        Líkar við

  9. Nálgumst viðfangsefnið með kærleika og virðingu við allar manneskjur, komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Þetta hefur samt ekkert með trúarbrögð að gera þó biblían boði hið sama.

    Það er ekkert karlmannlegt við að beita ofbeldi eða hóta að beita því, bara til að sanna kraftana, slíkt er bleyðuskapur – það er nefnilega líka hægt að sýna styrk sinn og líkamlega yfirburði með því að vernda aðra. Það gera alvöru hetjur.

    Líkar við

  10. Taktu það til þín að vera „ógnarstjórn“ konu ef þú vilt, kæri Trausti. Ekki ætlast samt til aðrir taki því þegjandi að vera vændir um slíkt.

    Og hvað næst? Nú sýna tölur til dæmis að svartir séu líklegri til að fremja ofbeldisglæpi en hvítir í Bandaríkjunum.

    Við megum því sennilega eiga von á að Hrafnhildur eða einhver ofsalega líbó karl í hópi meðreiðarsveina hennar skrifi „Orðsendingu til blökkumanna“ sem væri þá eitthvað á þessa leið:

    „Mig langar að útskýra aðeins fyrir þér hvernig heimurinn lítur út frá mínum sjónarhóli. Í mínum heimi vofir stöðug hætta yfir. Ég þarf stöðugt að gæta mín á hvert ég fer og hvenær, hvernig ég lít út, við hvern ég tala og hvernig ég kemst heim. Þetta er minn heimur en þú þekkir hann víst ekki neitt. Samt skapaðir þú hann ásamt öðru svörtu fólki. Þú ert í raun mín ógnarstjórn. Ég biðla því til þín að breyta hegðun þinni“

    Hljómar ekki svo frábærlega núna, er það?

    Líkar við

    • Nákvæmlega….

      Svo er engin skilningur hvernig maður getur stutt jafnrétti en vill ekki hópa sig saman með „feministum“ sem ræða hlutina með þessum hætti….

      Líkar við

    • Þarna ruglar þú saman ráðandi hópi og undirskipuðum hópi í samfélaginu og þess vegna fellur þessi líking þín um sjálfa sig. Hvíti maðurinn beitir blökkumenn rasisma og órétti og staða svartra er margfalt verri en hvítra. Þú ert ekki að ná inntakinu vegna þess að þú ert búinn að ákveða að ná ekki inntakinu. Ógnin um kynbundið ofbeldi vofir stöðugt yfir konum. Það er samfélagsvandamál og löngu kominn tími til að karlmenn taki þátt í baráttunni gegn því í stað þess að láta það nánast eingöngu liggja á herðum kvenna eins og þetta sé eitthvað „kvennavandamál“

      Líkar við

      • Það er í lagi að ráðast gegn hálfu mannkyninu með fordóma, heimsku, fyrirlitningu og þar fram eftir götunum, svo lengi sem þeir sem hegða sér með þeim hætti er „undirskipaður“ hópur.

        Það er það sem þú ert að segja ?!

        Karlmenn meiga ekki tjá sig ef þeim finnst framkoma eða skoðanir rangar því viss hópur innan annars kynsins lítur á sig sem fórnarlömb og er þessvegna algjörlega immune frá því að fólk meigi vera misboðið slík grein.

        Þú lítur á þig sem fórnarlamb.

        Held að allir karlmenn sem hafa commentað hérna inni líti á þig sem jafningja, hvort sem þeir séu þér sammála eða ekki.

        Held þú þurfir að líta í spegil.

        Líkar við

      • Þessi skrif þín eru ekki svaraverð þar sem þú leggur mér orð í munn sem standast enga nánari skoðun og andskotast svo yfir því sem þú bjóst sjálfur til. Það er nákvæmlega svona aðferðir sem afvegaleiða alla umræðu. Þínar ásakanir eiga ekki rétt á sér og ég ætla ekki að taka þátt í svona samtali.

        Líkar við

      • Sæl og blessuð Hrafnhildur

        Ég tek ekki undir það sem Siggi Sigurðsson og Pallivalli hafa haldið fram hér. Ég er sammála þínu mati að Siggi hafi ákveðið að ná ekki inntakinu í því sem þú varst að segja og hef engu við það að bæta.

        Hins vegar sýnist mér vera ákveðin þversögn í málflutningi þínum þegar þú segir: „Það er samfélagsvandamál og löngu kominn tími til að karlmenn taki þátt í baráttunni gegn því í stað þess að láta það nánast eingöngu liggja á herðum kvenna eins og þetta sé eitthvað “kvennavandamál”“.

        Flestir af okkur eru boðnir og búnir að hjálpa á allan þann hátt sem okkur er unnt. Ég veit að ég er það. En greinin sem um ræðir hafnar þeirri hjálp í sínu niðurlagi. Og það trend hefur orðið öflugra á síðari árum, innan ákveðinna afkima femínisma, að sjá jafnréttisbaráttuna einmitt sem „kvennavandamál“ og einhvers konar einkamál hins kúgaða hóps þar sem hinn ríkjandi hópur getur í besta falli farið frá, í versta falli verið umbylt. „We are damned if we do and damned if we don’t“ eins og frasinn segir.

        Jafnréttisbaráttan er ekki „kvennavandamál“ heldur sammannlegt vandamál sem kallar á sammannlega samstöðu, kvenna og karla.

        Góðar stundir

        Líkar við

      • Ef þú ert Hrafnhildur Ragnarsdóttir, þ.e. sú sem ritar pistil þann sem nú er mest um rætt, og sú sem rætt var við í Íslandi í dag, þá finnst mér kominn tími til að ÞÚ skilgreinir hvað það er sem ÞÚ kallar „kynbundið ofbeldi“ – því það er langt langt langt í frá sjálfgefið fyrirbæri, verulegur vafi er á að hægt sé að flokka ofbeldi á þann máta. Mikilvægara er þó, að ÞÚ færi fyrir því rök, að það að flokka ofbeldi í kynbundið hjálpi til að leysa eða minnka ofbeldið. Vinsamlega gerðu það, og um leið, gerðu grein fyrir því hvernig ÞÚ sérð það fyrir þér að karlmenn almennt geti stuðlað að minna ofbeldi á hendur kynsystrum þínum. Því það hefur mér fundist vanta í allan þinn málflutning.

        Líkar við

  11. Gagnrýni á pistil Hrafnhildar snýst ekki um málfræði eða einhverja persónulega móðgun. Enn síður vil ég gera lítið úr því grafalvarlega máli sem heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi er. Gagnrýnin snýst ekki um einhverja eina setningu sem einhverjir ferkantaðir kverúlantar kjósa að túlka (of) bókstaflega.

    Gagnrýni mín snýst um þessa undirliggjandi hugsun um að ég og allir aðrir KARLMENN sköpuðum þennan kvenfjandsamlega heim sem við lifum í, að sá heimur sem Hrafnhildur lifir í sé skapaður af karlmönnum – núlifandi og forfeðrum þeirra – og sé (meðvitað?) viðhaldið af mér og öðrum karlmönnum, en Hrafnhildur og allar hinar konurnar séu áhrifalítil andlög í þessum heimi karlmanna. Að heimurinn myndi batna ef ég ákveði að hætta að kúga konur.

    Ég geri mér grein fyir því að það hefur ýmsa kosti að vera karlmaður, líkt og það gefur forskot (miklu meira) að vera hvítur, Vesturlandabúi, gagnkynhneigður. Ég held að við eigum öll að vera meðvituð um þennan aðstöðumun og leggja okkar af mörkum til að draga úr honum.

    En ég bjó ekki þennan heim til, og satt að segja held ég að ég hafi minni áhrif á hann en t.d. hin skelega Hildur Lilliendahl.

    Ef ég hefði búið til þennan heim hefði ég haft hann öðruvísi.

    Líkar við

  12. Hranfhildur: OK, ef þú vilt láta þetta snúast um ráðandi vs. undirskipaðan hóp, þá skulum við setja dæmið upp öðruvísi:

    Nú sýna tölur líka að allt að 45% af lesbíum hafi upplifað ofbeldi í sínum ástarsamböndum (t.d. http://www.musc.edu/vawprevention/lesbianrx/factsheet.shtml).

    Má þá eiga von á að þú skrifir „Orðsendingu til lesbía“ þar sem þú hvetur þær til að láta af ógnarstjórn sinni?

    Líkar við

  13. Hrafnhildur: Og hvað snertir meint „rugl“ hjá mér um ráðandi og undirskipaða hópa, þá notaði ég dæmið um svarta fólkið til að sýna að ef að þessi orðsending væri skrifuð um einhvern annan hópen karla væri hún skilgreind sem hatursáróður.

    Ég vil að BÆÐI dóttir mín og sonur minn eigi að geta alist upp í samfélagi þar sem þau megi vænta þess að til þeirra sé talað af virðingu, en ekki með hatursáróðri. Um það takmark erum við greinilega ekki sammála.

    Líkar við

  14. Ef ég hefði tekið greininni hennar Hrafnhildar bókstaflega og tekið öllum „þú“ í henni sem orðsendingu til mín persónulega (eða allra annara karlkyns einstaklinga, þar með talið sonar míns) þá hefði hún farið verulega í mig. Ég hins vegar tók henni ekki bókstaflega enda meikar það ekki sens. Mér finnst hún ekki vera að ala á ótta of fordómum heldur að benda á ráðandi öfl sem hafa verið ráðandi öfl svo öldum skiptir. Ég ólst upp í kjörlendi karlrembu, var mikil karlremba en áttaði mig svo á ruglinu og skaðlegri orðræðu karlrembunnargagnvart konum, sérstaklega í ljósi aldalangrar undirskipunar. Ég hef svo sem ekkert meira að segja en gaman að sjá umræðurnar sem hafa skapast!

    Líkar við

  15. Kæri Trausti,

    Gott fyrir þig að taka þessu svona. En þegar orðsendingin er titluð „Orðsending til íslenskra karlmanna“, hverning í ÓSKÖPUNUM á að taka hana öðruvísi? Þú getur varla álasað mér (og öðrum karlmönnum sem ekki hafa sopið á hinu feminíska Cool-Aid) fyrir að taka þessu bókstaflega, því það er EKKERT sem bendir til annars en að svo eigi að gera.

    Líkar við

    • Nei, ég skil alveg að einhverjir taki þessu svona en ég er ekki sammála því að það sé EKKERT sem bendi til annars en að þessu sé beint til mín, þín og allra. Finnst það bara langsótt. Það má til dæmis vel túlka greinina hennar þannig að það sé táknræn kona sem ávarpi hinn táknræna karlmann, „þú“ ert þá tákn um karlkynið sem sendur fyrir vald sem hefur viðgengist um aldir, þetta er ekki svona persónulegt held ég.

      Líkar við

Skildu eftir svar við Einar Steinn Valgarðsson Hætta við svar