Aprílgabbið 2014: Kveikjum eld!

Höfundur: Ritstjórn

UnknownKnúzið hefur fengið nóg. Í dag tökum við okkur frí frá borgaralegum pistlaskrifum og grípum til raunverulegra aðgerða.

Við höfum skrifað ótal pistla, látið dæluna ganga á ótal spjallþráðum, fléttað framboðslista og fundað um femínisma en allt kemur fyrir ekki. Sala og markaðssetning á klám- og stríðsvæddum leikföngum er með öllu óásættanleg, prinsessur og ofurhetjur sem veita öfgakennd skilaboð til barnanna okkar um hegðun og framkomu.

Aðgerðirnar munu fara fram í Hagkaup í Kringlunni í hádeginu í dag. Þar munum við taka til í leikfangadeildinni og breyta framboðinu í anda þess samfélags sem við viljum. Við munum klæða vöðvastælta stríðsmenn í kjóla og fáklæddar prinsessur í hlý og notaleg föt. Við munum engu eira, því sem ekki verður breytt verður kveikt í á leikfangabrennu á bílastæðinu á annarri hæð.

Þessi aðgerð er aðeins sú fyrsta af mörgum. Fyrir liggur að útrýma þeim staðalmyndum sem markaðsöfl feðraveldisins hafa sett á markað til þess eins að skaða börnin okkar, barnabörn og samfélagið í heild.

Mætum öll í Hagkaup í Kringlunni í dag. Látum greipar sópa og gerum gagn. Sjáumst kl. 12.00. Kveikt verður upp í brennunni kl. 12.30.

8 athugasemdir við “Aprílgabbið 2014: Kveikjum eld!

  1. Sjáið þið virkilega ekki hin táknrænu tengsl milli þess að brenna barbídúkkur og nornabrenna miðalda? Enn á ný eru það líkamir kvenna sem verða bálinu að bráð og í þetta skipti af sjálfsskipuðum vörslumönnum fyrir réttindum kvenna. Þetta er svo röklaust að það tekur engu tali.

    Líkar við

    • Barbídúkkur eru ekki líkamar kvenna, heldur einhvers konar afskræming. Það er ekkert að því að henda svona ógeðslegum fyrirmyndum á bál og það er nákvæmlega engin tenging við nornabrennur miðalda. (Sem NB var oftar en ekki á vegum kirkjunnar!)

      Mér finnst líka fáránlegt að tala um „sjálfsskipaða vörslumenn“ eins og það sé af hinu illa. Hverjir aðrir sjá um að verja okkur fyrir feðraveldinu? Ríkið? Jafnréttislögreglan?

      Að því sögðu er ég ekki að fara að taka þátt í þessari aðgerð. Mér hefði þótt mun betra fyrir hreyfinguna að taka til í leikfangadeildinni án þess að láta nokkurn vita fyrr en eftir á. Átök spila beint upp í hendurnar á feðraveldinu.

      Líkar við

  2. Nú leikur mér forvitni á að vita, var þessi uppákoma aprílgabb eða ekki?

    Ef hún var aprílgabb er ég ekki alveg að fatta brandarann en ef þetta var meint í fúlustu alvöru þá fagna ég allavegana því að knúzið skuli ástunda það sem það predikerar. Fyrir utan að anarkistinn í mér gleðst alltaf þegar einhver efnir til opinberra uppákoma sem eru hannaðar til að hleypa öllu í bál og brand og reyna á þolrif smekkvísi betri borgaranna.

    Líkar við

  3. Sæll Sveinbjörn.
    Þetta aprílgabb var meint í fúlustu alvöru. Tilgangurinn með aprílgabbi hefur í gegnum tíðina verið sá að hlaupa fyrsta apríl. Að plata fólk til að mæta á viðburði sem hljóma trúanlegir. Eins og þú segir sjálfur þá ertu ekki viss um hvort að um aprílgabb hafi verið að ræða, enda er gabbið sett fram þannig að sumir trúa því að knúzarar ástundi það sem það predíkar.
    Húmor er einstaklingsbundin, túlkun á skoðunum er það líka. Því er ekki að undra að einhverjir hafi ekki fattað brandarann og að sama skapi að hinir sömu trúi því að aðgerðir sem þessar séu í anda þess sem við „predíkum“.

    Líkar við

  4. Knuz.is má gjarnan eyða fyrri pistlinum sem ég sendi, ég sendi óvart tvo um sama efni.

    Nú stunduðu ákveðnir róttækir femínistar í Bretlandi á áttunda áratug síðustu aldar að brenna niður klámverslanir. Mér datt í hug hvort knúzið hygðist taka þær baráttuaðferðir upp að nýju og þessi litla leikfangabrenna væri byrjunin á þeirri þróun. En mér sýnist á svari þínu Anna að um aprílgabb hafi verið að ræða, þó það hafi verið með alvarlegri undirtóni.

    Ég hef haft ákveðnar áhyggjur í þróun femínisma á Íslandi síðustu árin. Ég sjálfur sem vinstrisinnaður libertarian femínisti hef ekki fílað hinn mjög harða valdsboðandi vinstrisinnaða femínisma sem fólk eins og Hildur Lilliendahl eða Sóley Tómasdóttir hafa haldið á lofti. Ég hef reyndar oft verið sammála þessu ágæta fólki í einstökum atriðum en finnst það bera heldur litla virðingu fyrir einstaklingsréttindum auk þess sem þessi gerð af femínisma hefur fráhrindandi áhrif á frjálslyndari femínisma eða þá femínisma sem lengra eru til hægri. Þessi femínismi er heldur ekki lausnamiðaður heldur bendir, í mörgum tilfellum mjög réttilega, á alls konar viðbjóð í þjóðfélaginu. Mín tilfinning er hins vegar sú að þau hafi engan áhuga á að uppræta þessa hluti því hvað ætti þetta fólk þá að tala um.

    Til að stemma stigu við allri gagnrýni hefur verið fundið upp orðið hrútskýring. Ég hef verið ásakaður um hrútskýringar nokkrum sinnum, t.d. yfir þvi að jafnvel þótt ég sé femínisti þá sé ég einnig karlmaður og geti því ekki mögulega tjáð mig um hvað mér finnist eigi að vera helstu áhersluatriði í femínisma og hvað ekki. Hrútskýring er hreinlega of loðið hugtak til að það geti ekki náð yfir allt, til dæmis réttmæta gagnrýni. Þetta er því ákveðið þöggunar- og ritskoðunartól.

    En þetta er þegar orðið of langt svo það er best að stoppa núna.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd