Konur í fremstu röð

Höfundur: Hlynur Hallsson

 

[no title] 1985-90 by Guerrilla Girls null

Veggspjald frá aðgerðahópnum Guerrilla Girls, árið 1985

Listasagan er, líkt og mannkynssagan, ansi skökk þegar kemur að hlutverkum og birtingarmynd kynjanna. Sagan var gjarnan sögð af körlum um karla. Íslensk listasaga nær ekki langt aftur í tímann og því er hún ef til vill ekki alveg eins skökk og almenna mankynssagan en samt hallar ansi mikið á konur.

Staðreyndin er nefnilega sú að í áratugi hafa konur verið í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast úr myndlistarskólum á Íslandi og þetta á reyndar einnig við um önnur lönd. Það sem gerist eftir að skóla lýkur er hinsvegar það að þá halda karlarnir gjarnan áfram að sinna myndlistinni en konurnar hverfa oft til annarra starfa. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni af hverju þetta stafar en það er ansi freistandi að álykta að listheimurinn sé enn svona karllægur vegna þess að karlar ýta undir karla.

 Guerrilla Girls

Á níunda áratugnum var mörgum myndlistarkonum í New York nóg boðið þegar sett var upp stór myndlistarsýning í Museum of Modern Art þar sem gaf að líta verk eftir 169 listamenn, þar af voru aðeins 13 konur. Yfirlýsing sýningarstjórans um að þeir listamenn sem ekki ættu verk á sýningunni ættu að líta í eigin barm var dropinn sem fyllti mælinn. Konurnar stofnuðu hópinn Guerilla Girls og settu fram tölulegar staðreyndir um stöðu kvenna í listheimi New York borgar og hengdu upp veggspjöld í skjóli nætur. Þetta hafði áhrif, enda tölurnar sláandi og veggspjöldin full af svörtum húmor. Í einu þeirra var spurt hvort konur þyrftu að vera naktar til að komst inn í Metropolitan safnið. Því aðeins 5% verka í safninu væru eftir konur en hinsvegar væru  85% nakinna líkama í verkum safnsins af konum. Ekki minna sláandi var sú staðreynd að þrjú af stóru söfnunum fjórum í NYC höfðu höfðu ekki sett upp eina einustu einkasýningu með listakonu en fjölmargar með körlum. MoMA var eina safnið sem hafði sett upp einkasýningu með verkum konu, en þó aðeins eina slíka. Það var því kominn tími til róttækra breytinga í miðstöð nútímamyndlistar.

 

Sýningarstjórinn

Oft hefur maður það á tilfinningunni að það hafi einfaldlega ekki verið hugsað nægilega vel út í hlutina eða jafnvel að mistök hafi verið gerð þegar kemur í ljós að kynjahlutfall á samsýningum sé eins ójafnt og dæmin frá New York á áttunda árutugnum sýna. En í dag ættum við ekki að hafa neina ástæðu til hafa þessa hluti ekki í lagi.

Flæðirit fyrir sýningarstjóra, Hlynur Helgason, 2010

Flæðirit fyrir sýningarstjóra, úr grein eftir Hlyn Helgason, 2010

Nafni minn Hlynur Helgason, myndlistarmaður og listfræðingur, skrifaði afar góða grein árið 2010 sem birtist bæði á Smugunni og á fugl.is.Þar setur hann upp tékklista fyrir sýningarstjóra sem gott er að hafa við höndina þegar settar eru saman sýningar. Ef allir færu eftir þessum lista væri ekki sú slagsíða körlum í vil sem oft vill verða.

Enn hallar á konur

Elísabet Germundsdótir (1915-1959)

Elísabet Germundsdóttir (1915-1959). Verkið heitir Perlan og stendur við hús listakonunnar, Aðalstræti 70 á Akureyri.

Árið 2015 hefur ástandið vissulega skánað mikið en enn hallar á konur. Það var því meðvituð ákvörðun að Listasafnið á Akureyri myndi leggja sérstaka áherslu á myndlistarkonur á þessu ári. Og sem betur fer er af nógu að taka enda búum við svo vel að eiga fjöldann allan af frábærum myndlistarkonum sem of lítill gaumur er gefinn. Árið hófst á þremur sýningum íslenskra kvenna af þremur kynslóðum. Rósa Sigrún Jónsdóttir sýnir afar femínísk verk gerð af 24 konum sem prjónuðu og hekluðu risavaxna svelgi sem teygja sig á milli hæða í Ketilhúsinu. Habby Osk er akureyrsk myndlistarkona af yngri kynslóðinni sem býr og starfar í New York og vinnur með jafnvægi og ójafnvægi hluta og hugmynda og Elísabet Geirmundsdóttir (1915-1959) sem er betur þekkt sem „Listakonan í Fjörunni“, því hún bjó og starfaði alla sína stuttu ævi innbænum á Akureyri sem í daglegu tali var kallaður Fjaran. Það er í raun merkilegt að þessi fjölhæfa og einstaka listakona hafi ekki hlotið stærri sess í íslenskri listasögu og það að fyrsta sýning hennar í Listasafni skuli vera á 100 ára afmæli hennar. En það er ef til vill talandi dæmi um stöðu margar kvenna í íslenskri myndlistarsögu. Á meðan mörgum körlum hefur verið gert hátt undir höfði hafa konurnar fallið í skuggann. Það er sannarlega kominn tími til að leiðrétta kúrsinn, taka stefnu á meira jafnrétti og fjölbreytni og að varpa ljósi á merkilegar myndlistarkonur sem hafa hingað til ekki fengið að njóta sannmælis. Því þær þora, geta og vilja.

Hlynur Hallsson er myndlistarmaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s