Kvennaskráin

Höfundur: Erla E. Völudóttir

svíþjóð

Þann 15. desember fletti fréttastofa sænska ríkisútvarpsins ofan af leynilegri skrá sem sérstök deild innan lögreglunnar í Stokkhólmi hefur haldið frá árinu 2004. Um er að ræða skrá yfir konur sem hafa leitað aðstoðar lögreglu vegna heimilisofbeldis. Á fyrstu árum skrásetningar komu einnig karlkyns einstaklingar fyrir í skránni en síðar aðeins konur, og eru konur yfir 95% skráðra einstaklinga. Talið er víst að þær séu fleiri en 2000 talsins og jafnvel allt að 3000, þótt nákvæm tala hafi ekki verið gefin upp.

Gegnum árin hafa minnst 20 manns séð um að uppfæra upplýsingarnar í skránni, sem er á formi Excel-skjals og utan hefðbundinna málaskráa lögreglunnar. Um er að ræða mikið af persónuupplýsingum um konur sem leituðu aðstoðar Stokkhólmslögreglu vegna ofbeldis; m.a. um börn þeirra og aðra ættingja, hvernig, hvar og hvenær þær kynntust mönnunum sem beittu þær ofbeldi og hvert samband kvennanna var við foreldra maka þeirra. Þá eru trúarbrögð kvennanna og uppruni gjarnan færð til bókar („er vottur Jehóva“, „heittrúuð frá Erítreu“) og settar fram alls kyns vangaveltur um andlegt ástand þeirra.

Christian Agdur

Christian Agdur

Stokkhólmslögreglan neitaði í fyrstu að kannast við skrána, en gekkst svo við henni og hélt því þá fram að hún væri í fullum rétti að halda slíka skrá. Skráning persónuupplýsinga af hálfu lögreglu er leyfileg samkvæmt sænskum lögum, að því gefnu að tilgangurinn sé að vernda þá einstaklinga sem í hlut eiga. Christian Agdur, lögreglustjóri og yfirmaður hópsins sem hélt utan um skrána, sagðist aðspurður aldrei hafa séð hana en staðfesti tilvist hennar með þeim orðum að hagsmunir kvennanna hefðu verið hafðir að leiðarljósi. Í fyrstu hélt hann því fram að deildin hefði haft opinbera heimild til að vinna skýrslu af þessum toga, en síðar kom á daginn að sú heimild hafði runnið út árið 2010 og veitti þess utan aldrei heimild til að safna upplýsingum um brotaþola ofbeldis, heldur um ofbeldismennina.

ekot

Skjáskot af heimasíðu sænska ríkisútvarpsins frá miðjum desember 2014.

Samkvæmt heimildum fréttaþáttarins Ekot, sem greindi fyrst frá málinu, er það viðhorf ríkjandi á deildinni þar sem skýrslan var unnin að „viss gerð af konum sæki í ofbeldisfulla karlmenn“. Því hafi það verið talið gagnlegt við eftirfylgni ofbeldismála að fylgjast með þessum konum.

Það er spurning hversu gagnlegt það geti verið fyrir konur, sem eru beittar ofbeldi og hafa tekið það skref að leita aðstoðar lögreglu, að lögreglan geti slegið þeim upp í óopinberri skrá af þessu tagi og lesið fyrri færslur um hagi þeirra og andlegt ástand, sem í sumum tilfellum eru greinilega tómar getgátur af hálfu þess sem skráir. Tekið er til þess að ein kvennanna sé með geðhvarfasýki og hafi verið misnotuð í æsku, aðrar fá stikkorð á borð við „adhd“, „borderline“, „skilningsvana [förståndshandikappad] kona af Róma-ættum“, „virðist eiga við geðræn vandamál að stríða“, „lygasjúk“, „undirförul“, „skrýtin“. Um eina konuna er þetta sagt: „Hún virðist mjög sérstök, maður fær næstum á tilfinninguna að hinn grunaði sé fórnarlambið.“

Þegar upp komst um kvennaskrána voru sænskir fjölmiðlar fljótir að rifja upp morðmál frá árinu 2010. Kona var þá stungin til bana af eiginmanni sínum, en hálfu ári áður hafði hún leitað aðstoðar lögreglu vegna heimilisofbeldis. Eiginmaður hennar var boðaður í viðtal, sem hann mætti ekki í. Nafn konunnar var í kjölfarið fært inn í skrána, með þeim dómi að frekari hætta á ofbeldi væri lág. Eiginmaðurinn, sem var dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir morðið, var fyrrum samstarfsmaður lögreglumannanna á deildinni þar sem skráin var haldin. Hann hafði verið rekinn úr starfi nokkrum árum fyrr eftir að hann gekk í skrokk á konu sinni og handleggsbraut hana.

Önnur tengsl sem fjölmiðlar hafa bent á er að málið minnir talsvert á skrána yfir Róma-fólk og aðstandendur þess, sem skánska lögreglan var staðin að í fyrra að hafa haldið, en fjöldi einstaklinga sem voru skráðir í þá skýrslu hafa nú fengið skaðabætur vegna málsins. Sérfræðingar eru á einu máli um að Stokkhólmslögregla hafi orðið uppvís að alvarlegum þekkingarskorti og hafi farið langt út fyrir umboð sitt með gerð kvennaskýrslunnar. Þetta sé bakslag fyrir trúverðugleika lögreglunnar og óttast að það muni letja konur sem beittar eru ofbeldi enn frekar frá því að leita til lögreglu.

Opinber rannsókn mun fara fram á skránni og tilurð hennar.

Heimildir:

 https://www.youtube.com/watch?v=J4AWnq4MfNE&index=1&list=PLwqPWOZUXyAVwIZzdUGcuRZKPU-BjeL5T

http://sverigesradio.se/sida/gruppsida.aspx?programid=3437&grupp=21752&artikel=6046867

http://sverigesradio.se/sida/gruppsida.aspx?programid=3437&grupp=21752&artikel=6046965

http://sverigesradio.se/sida/avsnitt/484251?programid=3437

http://sverigesradio.se/sida/gruppsida.aspx?programid=3437&grupp=21752&artikel=6046911

http://www.politism.se/genusfolket/kvinnoregistret-betydligt-varre-an-en-krankning/

http://www.svt.se/opinion/article2552238.svt

http://sverigesradio.se/sida/gruppsida.aspx?programid=3437&grupp=21752&artikel=6046984

http://sverigesradio.se/sida/gruppsida.aspx?programid=3437&grupp=21752&artikel=6046918

http://www.svd.se/nyheter/inrikes/hjalpregister-krankande-mot-kvinnor_4191783.svd

 

Ein athugasemd við “Kvennaskráin

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s