Ég heiti Guðrún, ég var karlremba

Höfundur: Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

haus gangverkÉg held ég sé búin að átta mig á því hvernig misrétti, karlremba, rasismi, stéttaskipting, múslímafordómar og ótal margt fleira þrífst og dafnar í sífellu, þrátt fyrir að vera gamaldags, bjánalegt og órökrétt. Misréttið virðist reyndar geta hjaðnað með tímanum, breyst, skipt um ham – en aldrei horfið. Ástæðan er m.a. sú að við, hvert og eitt okkar, styðjum það og styrkjum linnulaust, í mismiklum mæli en oftast ómeðvitað.

Mestu innsýnina hef ég í karlrembu, enda var ég ein slík fyrstu tuttugu og átta ár ævinnar, og þess vegna ætla ég að fjalla um hana hér. Ég gerði mér þó enga grein fyrir því að ég væri karlremba, ekki frekar en aðrir grandalausir samfélagsþegnar sem ekki hafa kynnst femínisma. Það var ekki fyrr en ég setti femínistagleraugun á nefið að ég áttaði mig á eigin hugarfari, nýr heimur opnaðist og hin áður ósýnilega félagsgerð blasti við.

Mig grunar að ég sé flinkust í að greina karlrembu þar sem hún bitnar beinlínis á mér sem konu á meðan hinar tegundirnar snerta mig sáralítið persónulega tilheyrandi hópi hvítra, millistéttar og kristinna.

Töff karlar og ljóskulögfræðingur

Áður en ég varð femínisti man ég t.d. eftir að hafa sagt með svolitlu stolti að ég spjallaði alltaf frekar við karla en konur í partýjum. Mér þættu þeirra umræðuefni mun áhugaverðari og ég samsamaði mig betur með þeim. Auðvitað voru þetta látalæti í mér og myndi auk þess aldrei standast nánari skoðun. Ég talaði örugglega ekki oftar við karlana, þeir voru áreiðanlega ekki áhugaverðari og ég samsamaði mig ekki baun með þeim. Hér skiptir sannleiksgildið vitaskuld engu máli, heldur sú staðreynd að ég skyldi telja ástæðu til að upphefja mig á þennan hátt, tengja mig hinu karllæga og afneita hinu kvenlæga.

Meira að segja eftir að ég varð femínisti hef ég margoft gerst sek um karlrembu. Hún virðist liggja í dvala djúpt í hugarfylgsnunum, blóðrásinni, heilaberkinum, eða hvar svo sem hún hefur tekið sér bólfestu, og svo brýst  hún fram þegar minnst varir, eins og sjá má á leiðindaatviki sem ég lenti í hér um árið.

Þegar ég var í námi í mannfræði sat ég m.a. tíma í kvennarétti í lagadeild. Eitt sinn bar ungur laganemi, mjóróma, lágvaxinn og ljóshærður kvenkyns laganemi, upp spurningu við kennarann og ég stóð sjálfa mig að því að hugsa: „Iss, þykist þessi ætla að verða lögfræðingur!“ Ég kæfði þessa hugsun strax í fæðingu, hundfúl og hneyksluð á sjálfri mér, og varð enn svekktari þegar ég áttaði mig á því að spurning laganemans unga var hin gáfulegasta. Í þetta sinn gerði ég mér strax grein fyrir hvað var á seyði, en áður en ég varð femínisti hefði ég talið sjálfri mér trú um að mér fyndist þessi unga kona einfaldlega pirrandi týpa. Ég fyrirgaf mér nokkrum mánuðum síðar, þegar ég var að lesa sjálfsævisögu Nelson Mandela. Þar greinir hann frá atviki sem átti sér stað í flugvél á leið frá Ghana til Suður-Afríku. Hann sat í rólegheitum og beið eftir flugtaki þegar hann sá svartan flugmann ganga inní flugstjórnarklefann, fylltist skelfingu og varð handviss um að flugvélin myndi hrapa. Hann varð bálreiður við sjálfan sig, en áttaði sig fljótlega á því að auðvitað hafði hið rasíska uppeldi haft sömu áhrif á hann og aðra samfélagsþegna.

Tikk takk tikk takk

Samfélagsgerðinni, þeirri sem afhjúpaði sig þegar ég varð femínisti, má líkja við ævaforna klukku. Hún hefur stillilegt og virðulegt yfirbragð, en þegar hún er opnuð kemur í ljós gríðarflókið gangverk sem knýr hana áfram, gangverk þar sem allt er bókstaflega á yfirsnúningi. Gangverk þetta þarfnast stöðugt viðhalds og aðhlynningar til að það hætti ekki að ganga, og það þarf að smyrja það, herða rærnar og stundum jafnvel að trekkja það upp. Allt kapp er lagt á að halda því gangandi og lítið má bregða útaf, annars myndi það byrja að hökta, seinka sér, bila og að lokum hljóðna.

Klukkan er táknmynd valdsins, normsins, hinnar heilbrigðu skynsemi, og tifið í henni er lágstemmt, kunnuglegt og notalegt. Hún breiðir yfir raunveruleikann og gerir hann ósýnilegan. Hlutverk gangverksins er að tryggja að klukkan gangi hnökralaust og uppá mínútu, eins og hún hefur gert um aldir alda.

Samfélagsgerðin er þannig stútfull af misrétti: Karlar æðri konum, hvítir æðri svörtum, hástétt ofar lágstétt, kristnir ofar múslímum og þar fram eftir götunum. Þetta misrétti er samofið innviðum samfélagsins: Stjórnkerfi, stofnunum, laga- og réttarkerfi og fjármálakerfi. Það er líka samofið menningu, sögu, trúarbrögðum, stjórnmálum og síðast en ekki síst huga okkar allra.

Hugurinn er nefnilega smættuð eftirmynd samfélagsgerðarinnar og starfar í fullkomnum samhljómi og takti við hana. Ef haldið er áfram með klukkusamlíkinguna er hugurinn smækkuð útgáfa hennar. Við höldum að við séum rökhugsunarverur og við skynjum okkur sem slíkar, en erum það svo sannarlega ekki nema að litlu leyti. Hugsanir okkar flæða í gegnum gangverkið og verða gegndrepa af valdaójöfnuði, gildismati og öllu misréttinu sem er í raun óháð okkur sjálfum, þ.e. byggir ekki á beinni reynslu okkar og/eða minningum. Ekki tók ég meðvitaða og yfirvegaða ákvörðun um að finnast karlar merkilegri en konur, ekki heldur að tengja dimmraddaða karla valdi og gáfnafari. Það gerðist löngu áður en ég fæddist. Þegar hugsanirnar komast loks á leiðarenda setur hugurinn þær í rökréttan búning, reynir að sætta mótsagnir og hljóma sannfærandi, svo úr verða okkar „sjálfstæðu“ skoðanir.

Til að þessi ósanngjarni raunveruleiki geti haldið velli þurfa allir þættir að starfa heildrænt saman, en þó með umtalsverðum sveigjanleika: Menningin, stjórnkerfið, samfélagið og einstaklingarnir. Ef einn þáttur klikkar skapar það ójafnvægi, hökt kemur í samfélagsgerðina og hún nötrar, þar til að nýtt jafnvægi kemst á og allt verður eins og það á að vera.

Barbíverkfræði og g-strengsnærbuxur fyrir ungviðið

porn star in trainingAð svona löguðu varð ég vitni einu sinni. Ég vann þá ég á skrifstofu jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands og við höfðum nýverið fengið þær gleðifregnir að í fyrsta sinn væru konur orðnar þriðjungur nemanda í byggingarverkfræði við skólann. Ekki liðu margar vikur þar til okkur barst til eyrna að farið væri að uppnefna fagið „Barbíverkfræði“. Ég gat ekki annað en fyllst aðdáun yfir viðbragðsflýti samfélagsgerðarinnar. Þessi karlmannlega stétt með öryggishjálmana, vinnugallana og þungavélarvinnutæki hafði verið rænd karlmennskunni í einni svipan. Ég sá fyrir mér þegar þessi „villa“ kom upp í gangverkinu og neyðarkallið var umsvifalaust sent út: Kvenlæg áhrif aðsteðjandi, varúð! Undirskipa þarf byggingarverkfræði núna! Skilaboðin voru svo send út til einstaklinga sem hlýddu fyrirmælunum og útkoman var Barbíverkfræði.

Svipað tel ég að hafi gerst um um aldamótin síðustu þegar Hagkaup fóru að bjóða til sölu g-strengsnærbuxur og magaboli fyrir stelpur allt niður í 6 ára gamlar, stundum með áletrunum á borð við Porn Star in Training og Rub Here. Ég hafði samfélagsgerðina sterklega grunaða að hafa þannig komið á jafnvægi með því að létta undir með barnaníðingum, þ.e. normalísera stúlkubörn sem kynverur á sama tíma og karlar voru loks farnir að þurfa að sæta ábyrgð í réttarkerfinu, ólíkt því sem áður var þegar athæfið fékk að þrífast nær óáreitt í skjóli bannhelgi og þöggunar frá aldaöðli. Varúð! Kvenkynið fær aukið vægi inní réttarkerfinu, gerum sex ára stelpur sexý!

„Í dag ætla ég að mismuna konum“

Atvinnurekendur vakna ekki á morgnana og ákveða að undirskipa konur, bjóða þeim færri hlunnindi og lægri laun – það bara gerist. Í kollinum á þeim búa undirliggjandi hugmyndir um að konan sé einfaldlega ekki jafnverðmæt. Þetta er ástæða þess að launamisrétti er viðvarandi vandi. Þegar tilteknar starfsstéttir verða að kvennastéttum lækka launin og virði starfsins og konur verðleggja sig að sama skapi lægra en karlar.

Sama á við um dómara sem dæma í kynferðisbrotamálum. Gegndarlaust gamaldags, löngu úreld og grimmileg viðhorf virðast ráða úrskurðum þeirra, með þeim afleiðingum að aðeins lítið brot nauðgara þarf að sæta ábyrgð og sárafáar konur eru nægilega hugrakkar til að leita réttar síns. Dómararnir telja sig þó gæta hlutleysis, eru þess reyndar fullvissir, enda móta þeir sínar sjálfstæðu skoðanir á hlutlausan og yfirvegaðan hátt, út frá lögunum, sérþekkingu sinni og fordæmum.

Ég hugsaði sjálf svona, neyðist ég til að viðurkenna, áður en ég varð femínisti. Ég vann eitt sinn á fínu hóteli í útlöndum þegar hótelgesti, konu, var nauðgað af starfsmanni herbergisþjónustunnar. Hún hafði opnað hurðina í handklæði einu saman og hann stokkið á hana. Ég man eftir að hafa hneykslast á konunni fyrir að hafa opnað hurðina nánast allsber!

Klukkan gengur áfram með lágstemmdu og notalegu tifi sínu og misréttið fær að dafna óáreitt með dyggri aðstoð okkar allra. Í raun væri ekkert flókið að fremja skemmdarverk á klukkunni, hætta að bera olíu á gangverkið og hreinsa rykið sem safnast þar fyrir. Það eina sem við þurfum að gera er að hætta að hugsa eins og við hugsum, vera eins og við erum, haga okkur eins og við högum okkur og telja okkur rökhugsunarverur fyrir vikið. Og það er því miður það erfiðasta af öllu.

18 athugasemdir við “Ég heiti Guðrún, ég var karlremba

  1. Femínistar vakna ekki á morgnana og ákveða að undirskipa konur, bjóða þeim engin hlunnindi og engin laun – þeir bara gera það. Í kollinum á þeim búa undirliggjandi hugmyndir um að konan sé einfaldlega ekki jafnverðmæt. Þetta er ástæða þess að launamisrétti er viðvarandi vandi. Þegar tilteknar starfstéttir hafa verið kvennastéttir eru launin engin og virði starfsins ekkert.

    Líkar við

  2. Ég botna hvorki upp né niður í athugasemdum Elínar, held hún hljóti eitthvað að hafa misskilið inntak greinarinnar.

    Kærar þakkir fyrir góða grein, Guðrún Margrét.

    Líkar við

  3. Mjög góð grein og mikilvægur punktur. Ég held að eitt það mikilvægasta sem ég lærði þegar ég byrjaði að virkilega átta mig á misréttinu sem viðgengst í samfélaginu okkar, var þegar ég lærði að ég er algerlega samsekt. Til dæmis, finnst mér að ég, sem hvít manneskja sem ólst upp í samfélagi fylldu kynþáttafordómum, geti ekki stimplað mig sem „ekki rasisti“ – enda rek ég mig ennþá á hugsanir sem eiga upptök sín í kynþáttafordómum, þó ég sé orðið mun betri í að kæfa þær hugsanir í fæðingu.

    Ég get hinsvegar stimplað mig sem and-rasista; munurinn liggur í því að viðurkenna að þessar hugsanir munu koma upp þar sem þær spretta upp úr hugmyndum sem ég var og hef verið alið upp við alla mína tíð, og auk þess frá þeim forréttindum sem ég nýt sem hvít manneskja. En ég geri mitt besta til að fordæma þær, þó þær sleppi nánast aldrei fram fyrir varir mínar, og læra af þeim.

    Svo, ég heiti Alda, ég var karlremba, rasisti, stéttaskiptari, hommafæla og tvíkynjabaráttumanneskja. Að sumu leyti get ég verið það ennþá, en ég berst á móti því eins og ég get.

    Líkar við

  4. Já einmitt, það er átak að breyta undirliggjandi hugarfari sem hefur viðgengist frá alda öðli þess vegna ætti að gera kynjafræði að skyldunámsefni strax í grunnskóla!

    Líkar við

    • Ertu eitthvað verri, eins og námsefni í skólum sé ekki nógu tilgangslaust fyrir. Miklu frekar ætti að kenna karlmönnum fleiri iðngreinar og kvenmönnum að skúra, frekar en að eyða tíma barna í vitleysu.

      Líkar við

  5. Að sumu leyti áhugaverð grein. Þar sem Richard Dawkins, Ranghugmyndin um Guð, er á náttborðinu, get ég ekki annað en látið hugann reika þangað. Ein af tilgátum Dawkins er að trúgirni okkar, þ.e. þörfin fyrir að trúa, þrátt fyrir að trúin virðist oft ganga gegn allri skynsemi, sé að áður fyrr hafi okkur vegnað betur ef við fórum eftir því sem okkur er sagt, án þess að draga allt í efa og velta hlutunum of mikið fyrir okkur. Þannig er barn sem hlýðir stórri og föðurlegri/móðurlegri veru með því að fara ekki út í straumhart fljótið eða ekki fram á bjargbrúnina, líklegra til þess að komast af skv. náttúruvalskenningu Darwins.

    Getur verið að það sé ekki samfélagslegt vandamál að okkur hættir til þess að vanmeta konur, sérstaklega litlar skrækróma píslir, þrátt fyrir að engin góð rök réttlæti slíkan þankagang, heldur hreinlega erfðafræðileg?

    Líkar við

    • Þarna ertu kominn inn á skemmtilegt svæði Haukur. Það versta er að þeir sem standa á bakvið þessa síðu virðast ekki viðurkenna að það gæti verið munur (erfðafræðilegur, hvað veldur t.d. ákveðinni hegðun) á körlum og konum. Auðvitað viðurkenna þau þennan augljósa útlitsmun sem er á kynjum en allta annað, vhernig þú hugsar, hegðar þér og hvað þú framkvæmir telja þau vera félagslega mótun.

      Líkar við

      • Takk fyrir þetta innlegg Guðmundur. Nú er ég sannfærður um að það sé meiri munur á kynjunum, hegðun þeirra og þankagangi en sá sem má útskýra með útlitsmuninum einum, og fjölmargar góðir rannsóknir sem renna stoðum undir það, á meðan ég þekki svo sem enga sem fullyrðir hið gagnstæða, enda virðist sú skoðun vera byggð á hugmyndafræði og/eða óskhyggju frekar en að nokkuð annað undirskjóti þá kenningu en pólitískur rétttrúnaður. Konur standi okkur því að meðaltali framar á ýmsum sviðum á meðan við karlar komum sterkari inn á öðrum, þvívíddarskynjun hefur t.d. verið tekin sem dæmi þar.

        Það sem ég er ekki alveg viss um, en útiloka þó ekki, er hins vegar hvort að þú hafir skilið færsluna rétt, en hún snýst í raun ekki um, heldur hvort að bæði kynin séu líffræðilega forrituð til þess að líta frekar upp til og bera meira trausts til veru sem er stór, jafnvel skeggjuð og dimmrödduð, frekar en litla, skrækróma písl. Þess sem veitir okkur öryggi, hvort sem það er Guð eða foreldri (sem eru jú alltaf stór m.v. okkur, í upphafi a.m.k., (þess vegna fara hlutirnir úr skorðum á gelgjutímanum þegar munurinn hverfur))

        Líkar við

      • Sæl Ösp. Ég misskildi ekkert greinina en eg er ekki sammala innihaldi hennar. Eg var adallega ad commenta a comment Hauls thar sem hann vitnar til thess ad throun mannkynsins hafi ahrif a hegdun okkar (gegnum gen)…..eitthvad sem feministar thessar sidu vidurkenna ekki.

        Líkar við

  6. Auðvitað viðurkenna allir að það sé munur á kynjunum. En það er ekki eins mikill munur á kynjunum og við viljum vera láta. Og það er miklu meiri munur á EINSTAKLINGUM innan hvors kyns en við viljum oft viðurkenna.

    Það eru staðalmyndir kynjanna sem skaða einstaklinginn. Alhæfingar á borð við Karlar eru frá Mars og Konur frá Venus. Sem þýðir að ef þú ert tilfinninganæmur strákur eða frökk og ákveðin stelpa passar þú ekki inn í viðurkennda mynstrið fyrir þitt kyn. Uppnefni eins og strákastelpa eða stelpustrákur undirstrika þetta.

    Hins vegar er það ekki kvenremba að segja að karlmenn nauðgi konum oftar en konur nauðga körlum. Það er einfaldlega staðreynd. Með því er ekki verið að halda því fram að karlar séu sérstaklega forritaðir til þess að nauðga, eða að allir karlar séu nauðgarar.

    Það er athyglisvert að a.m.k. sumar rannsóknir benda til þess að karlar sem nauðga séu fjölmennari í hópi þeirra sem eru með íhaldssamar og hefðbundnar skoðanir á hlutverkum kynjanna.

    Líkar við

    • Sæl Anna.
      Reyndar var vísun mín í MA ritgerð Guðrúnar (sem skrifar þessa grein á knuz.is) „Af hverju nauðga karlar“ ekki vegna þessa sem þú nefnir. Ég nefnilega LAS ritgerðina sjálfa, ekki bara titilinn, á sínum tíma og það sem skelfti mig sem mest var svarið við rannsóknarspurningunni sem og sú leið sem farin var til að komast að því svari. Svarið var : „Svarið við rannsóknarspurningunni getur því falist í orðum Diane E. H.
      Russell (1984). Hún segir að fyrir marga karla séu árásargirni og kynlíf nátengd
      fyrirbæri. Því hugsa margir ómeðvitað: Það að vera árásargjarn er karlmannlegt, það
      að vera kynferðislega árásargjarn er karlmannlegt, nauðgun er kynferðislega
      árásargjörn, þar af leiðandi er nauðgun karlmannleg.“

      Sem sagt, karlmenn eru frá Helvíti sem og karlmennska þeirra. Ómeðvituð.

      Líkar við

  7. One of the most important empirical findings of gender research is that in contemporary affluent societies (at least), there are very few substantial differences in psychological characteristics (attitudes, emotions, intellect, etc.) between men and women. This conclusion flies in the face of popular stereotypes, but is supported by a large body of quantitative evidence.
    R. Connell

    Líkar við

    • Svo ég dragi niðurstöður út úr tilvitununinni hér að ofan:
      There are some substantial differences in psychological characteristics (attitudes, emotions, intellect, etc.) between men and women.

      Annars er verst að hún vísar ekki í neina rannsókn, máli sínu til stuðnings.

      Þá mætti draga í efa að „kona“ með hennar bakgrunn sé hlutlaus í greiningu sinni. Vona að þessi ummæli mín séu ekki hate speech, þar sem frumvarp innanríkisráðherra er ekki orðið að lögum.

      Líkar við

      • Mér líður ekki vel yfir ofangreindum ummælum þar sem ég tortryggi málflutning manneskju á grundvelli kynvitundar hennar, bara af því að ég er ósammála henni. Dreg seinni hlutann, um bakgrunn, hér með til baka.

        Líkar við

Færðu inn athugasemd