Forréttindablinda

Höfundur: Elísabet Ýr Atladóttir

Úti á lífinu og á samskiptamiðlunum rekst maður oft á fólk sem einfaldlega skilur ekki vandamálin sem femínistar kljást við í dag. Það sér ekki lengra en tölfræðina í launamun kynjanna, og jafnvel ekki einu sinni það langt. Því finnst femínistar óþolandi háværir og óvægnir, það skilur ekki þetta „helvítis væl“ og það nennir ekki að hlusta. Þetta fólk grípur til þess ráðs að segja femínistum að hætta að tala um þetta, að gera þetta ekki svona heldur frekar hinsegin, eða bara gera helst ekki neitt þar sem ekkert af þessu skipti „nógu miklu máli“. Sumir kalla femínista öllum illum nöfnum, gera þeim upp karlhatur eða öfga, eða þá að þær þurfi bara að fá sér að ríða.

Þetta fólk er ekki endilega vont fólk. Þetta fólk þjáist einfaldlega af forréttindablindu.

meme-privilege

Mjög margir eru blindir á sín eigin forréttindi. Það er auðvelt að líta fram hjá vandamálum sem maður upplifir aldrei á eigin skinni. Þetta verður sláandi augljóst þegar maður rýnir svolítið í baráttu femínista. Margir spyrja sig og aðra hvernig femínistar ná að stuða fólk svona. Margir líta á þessi neikvæðu viðbrögð margra sem staðfestingu á því að femínisminn sé á rangri braut, að hann sé hreint út sagt af hinu illa. Þeim finnst að ef eitthvað komi svona illa við fólk og móðgi svona marga hljóti það að vera illa ígrundað, að þá hljóti eitthvað að vera að baráttunni og málefnunum.

Að þetta hljóti þá að vera einhverjar öfgar.

Femínistar eru að reyna að uppræta mörg þúsund ára gamalt samfélagsmein. Það krefst gagngerra breytinga á hugsunarhætti sem hefur verið til staðar óralengi, svo lengi að fólk lítur á hann sem venjulegan. Fólk vill ekki horfast í augu við það að magnað óréttlæti eigi sér stað á hverjum degi, og mikill fjöldi fólks reynir einkum og sér í lagi að forðast að horfast í augu við sjálft sig.

Það vill ekki viðurkenna að það er þátttakendur í þessarri menningu, og þetta á auðvitað ekki bara við um karla heldur konur líka. Og það bregst við með offorsi, móðgunum, hatri og skilningsvana gagnrýni á aðferðir og orðræðu.

Hvítu fólki var alveg jafn misboðið þegar þeldökkir risu upp og fóru að berjast fyrir sínum réttindum fyrir örfáum áratugum. Þá urðu líka margir til að segja að svartir væru að gera þetta vitlaust, að það ætti miklu frekar að gera þetta svona, að það væri ekki gott að vera svona hávær, að nú væri kominn tími til að hætta þessu væli, það væri allt að verða svo gott. Hvítt fólk hrökk alls staðar í vörn og vildi ekki horfast í augu við sannleikann. Í dag vitum við flest betur.

Við erum enn á varnartímabili forréttindahópa hvað málefni kynjanna varðar. Og það er alveg kominn tími til að við rífum okkur upp úr því ástandi.

Það sem skiptir svo miklu máli er að hlusta. Að doka aðeins við, líta framhjá sinni persónulegu upplifun og hlusta á annað fólk segja sína sögu. Ekki reyna að yfirfæra sínar reynslu yfir á aðra og réttlæta þannig fyrir sér óréttlætið.

Við þurfum að hlusta á þessar sögur, skoða okkar eigið líf í samanburði við líf annarra og púsla svo saman heilbrigðri heimsmynd sem breytist og þroskast.

Því ef við göngum í gegnum lífið slegin blindu á eigin forréttindi mun tilfinningalegur þroski okkar staðna og heimsmynd okkar um leið.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að ef maður er ekki tilbúinn til að hlusta er maður heldur ekki tilbúinn til að gagnrýna. Fyrsta skrefið í uppbyggilegri og vel skipaðri gagnrýni er að kynna sér málið, setja sig inn í það af innlifun og með einlægum vilja til að geta á einhvern hátt gert eitthvað betra. Til eru ógrynnin öll af fólki sem gagnrýnir án þess að hlusta, og skilur svo ekki af hverju gagnrýninni er ekki tekið betur. Það heimtar að hlutirnir séu gerðir svona, en ekki hinsegin, án þess að vita nokkuð um hvað málið í rauninni snýst.

Það er augljóst að slík gagnrýni er algjörlega gagnslaus.

Það er erfitt að koma auga á þau forréttindi sem fylgja tilteknu kyni eða þjóðerni. Þau eru jú meðfædd. Fólk hefur alist upp með þessi forréttindi og þekkir ekkert annað úr og sínu daglega lífi. Fyrir þá sem tilheyra forréttindahópi skiptir máli að gera sér grein fyrir því og haga sér samkvæmt því.

Það gerir þig ekki stikkfrí að segja „ég á fullt af vinum sem eru konur“, eða „ég þekki konu sem finnst þetta fyndið“.

Það gerir mig ekki stikkfrí að segja „ég var bara að djóka“ eða „taktu þessu sem hrósi“.

Það gerir engan stikkfrí að þykjast „meina þetta vel sko“.

Ef maður hrekkur í vörn getur verið gott að skoða hug sinn vandlega því það gæti verið vegna eigin fordóma. Það er ekkert hættulegt að viðurkenna að maður hefur haft rangt fyrir sér, að endurskoða húmorinn og verða örlítið gangrýninn á hvernig hlutirnir eru.

Það er ekkert hættulegt heilsunni að breytast.

Femínistar stuða því femínisminn gerir kröfu um dramatískar breytingar á svo gott sem öllu því sem hefur talist eðlilegt í allt of langan tíma. Femínistar vilja jafnrétti, og ef fólk sér það ekki, vill ekki sjá það eða verður reitt af því að aðferðirnar eru ekki eins og því hugnast best þá þarf það fólk að átta sig á því að það er ekki femínisminn sem er vandamálið.

Vandamálið liggur í forréttindablindu.

32 athugasemdir við “Forréttindablinda

    • Já, pínu klaufalega gert það. Held að meiningin hafi auðvitað verið að benda á að þarna komst fólk yfir fordómana (að sumu leyti a.m.k.), og eins ættum við að geta komist yfir okkar fordóma – stundum þarf að ofureinfalda hlutina til að fá fólk til að hlusta.
      En uh já, brjálað mikill munur þar á og alls ekki sambærilegar hreyfingar.

      Líkar við

    • Ég er ekki að líkja baráttunum saman, ég er að líkja aðferðarfræði forréttindahópanna til að þagga baráttuna niður saman. Því hún er að mjög mörgu leyti lík.

      Líkar við

  1. Hefur þú einhverja ástæðu til að ætla að manneskja sem hefur velt forréttindum jafnmikið fyrir sér og hún virðist hafa gert, sé ekki meðvituð um sín eigin forréttindi?

    Líkar við

    • Ef spurningin var til mín, þá; Nei , ekkert endilega – en ef íslenskur einstaklingur (kona eða karl), fædd/ur eftir 1960, telur sín erfiði jafnast á einhvern hátt við þrælahald blökkumanna, þá ber það ekki vott um góðan skilning á forréttindum

      Líkar við

      • Mér finnst ég þurfa að svara þessu líka.

        Það var aldrei ætlunin að líkja baráttunni saman, og ég var í raun ekki að vitna í þrælahaldið, heldur baráttu Rósu Parks og Martin Luther King, þegar baráttan fyrir bættum kjörum og sjálfsögðum mannréttindum stóð sem hæst. En ég nefndi það ekkert sérstaklega (nema með því að segja „fyrir örfáum áratugum“, svo ég skil að það ekki komist til skila.

        En ég var sérstaklega að líkja saman viðbrögðum forréttindahópa. Ég myndi vel vilja heyra samt hvernig þessi misskilningur er að koma upp, því ég með engu móti vísa í líkingar á hreyfingunum, heldur einungis forréttindahópanna. Ef það væri hægt að vitna í textann þá myndi það hjálpa. Mér myndi ekki detta í hug að líkja saman því sem gekk á þegar barátta stóð gegn þrælahaldi og svo baráttu femínista í dag.

        Líkar við

      • Það varður líka að hafa ì huga að african-american eru einnig ì dag að berjast fyrir þvì sömu og femìnistar á Ìslandi, það er jafnrétti og niðurbrot á feðraveldinu. Greinin þìn getur átt jafn vel um rasisma og kynjaóréttlæti, þar sem stærsti hluti forréttinda blindu eru hvìtir karlar.

        Líkar við

      • Eru líkindi þessara forréttinda hópa mikil ?

        Eru margir íslenskir hvítir karlmenn (sem gagnrýna íslenska feminista) á því að konur eigi að fara aftast í strætóinn, að þær séu ekki velkomnar á sömu veitingastaði, og ef þær fái innöngu, að þá þurfi þær að vera á sérstökum stað. Eru margir sem mæla með því að konur fái ekki að ganga í sömu skóla, eða drekka úr sömu vatnsbrunnum ? (Allt hlutir sem áttu sér stað fyrir örfáum áratugum á tímum Rosa Parks og Martin Luther King)

        Mér sýnist umræðan hérlendis snúast að mestu um að skipa sér í lið með og á móti sakborningum og ákærendum, án þess að hafa kynnt sér málsgögn, eða leyft þeim að verða til á annað borð (alveg furðuleg iðja hjá aðstandendum þessa vefs, jafnt og kjánunum á hinu meiðinu) – Og síðan er deilt um hversu mikil áhrif staðalímyndir hafi almennt.

        Líkar við

  2. Í þessari grein er rætt um kvenfrelsisbaráttu í heiminum, en hún ekki aðeins einskorðuð við Ísland. Því miður lifa rasismi og sexismi enn góðu lífi í heiminum og það er full ástæða enn í dag til að fjalla um undirskipanir, kúgun og forréttindi hvors hóps fyrir sig og ræða um skörun þeirra líka. Þrælahald og mansal er enn til, en kynþáttahyggja og kvenfyrirlitning eru ekki eingöngu bundin við þá tegund kúgunar. Mér þykir leitt ef efni þessarar ágætu greinar týnist í einhverjum metingi um það hverjir megi benda á kúgun og bindu og hvort misréttið sé verra. Það hvorki hjólar.

    Líkar við

    • Það er fyrst og fremst augljóst að það eru strámannsrök að líkja þeim sem sýndu baráttu blökkumanna mótlæti, við þá sem sýna feministum á íslandi mótlæti

      Sára lítið prósentu brotabrot af þessum tveimur ‘mótlætis’ hópum eiga nokkuð sameiginlegt, hvorki hvað varðar skoðanir eða þjóðfélagsstöðu.

      Með því geri ég ekki lítið úr umfjöllun almennt um þessi málefni, ég bendi eingöngu á hversu ílla þessi grein nálgast málefnið. Eins og svo margar aðrar greinar á þessum vef þá málar hún skrattan á vegginn með langsóttum samlíkingum og yfirborðslegri greiningu, með þá fyrirframgefnu niðurstöðu að allt mótlæti hljóti að vera echo af sumum ljótustu gjörningum mannkyns.

      Líkar við

  3. Það er mikil þörf á þessari umræðu og ég er mikið til í að við tölum um forréttinda blindu og þessi grein bendir á margt gott. Það er aftur á móti erfit að lesa þessa grein eftir að hafa lesið þessa málsgrein:

    „Hvítu fólki var alveg jafn misboðið þegar þeldökkir risu upp og fóru að berjast fyrir sínum réttindum fyrir örfáum áratugum. Þá urðu líka margir til að segja að svartir væru að gera þetta vitlaust, að það ætti miklu frekar að gera þetta svona, að það væri ekki gott að vera svona hávær, að nú væri kominn tími til að hætta þessu væli, það væri allt að verða svo gott. Hvítt fólk hrökk alls staðar í vörn og vildi ekki horfast í augu við sannleikann. Í dag vitum við flest betur.“

    Þar sem svartir Bandaríkjamenn voru að berjast fyrir því að fá að sitja á sama stað og hvít fólk, fara á sömu baðherbergi og voru að berjast fyrir alvarlegri aðskilnaðarstefnu. Það á engan hátt við um Ísland, það hefði mögulega (og aðeins mögulega) átt við ef þú hefðir verið að ræða kvennréttinda baráttuna um aldamótin 1900. Það er mikilvægt að benda á þennan punkt þar sem svartir Bandaríkjamenn eru að berjast gegn forréttindablindu og feðraveldinu alveg eins og femínistar á Íslandi eru í dag. Þannig að það er hægt að líkja því saman, en ekki tala um baráttu svartra bandaríkjamanna eins og henni er lokið, það að við vitum að kynþáttahatur sé til þýðir ekki að henni er lokið, eða að svartir Bandaríkjamenn eru komin með jöfn réttindi og við hvíta í dag.

    Greinin hér að ofan er þörf og frábært að koma þessu á framfæri en það er einnig mikilvægt að benda á rökvillu galla eins og þennan, þar sem þetta sýnir smá foréttindablindu hvítra gagnvart svörtum.

    Líkar við

  4. Nafnlaus. Ég sé ekkert langsótt við þessar samlíkingar Elísabetar Ýrar. Það má reyndar alveg segja að millistéttarkonur á Íslandi hafi það almennt betra en blökkumenn í BNA fyrir hálfri öld eða svo. Það breytir ekki því að þeir sem standa í vegi fyrir framförum þeirra sem eiga undir högg að sækja eru þeir sem njóta forréttinda og kemur ekki til hugar að láta af þeim til að aðrir geti haft það betra. Þetta er sjálfhverfan og tillitsleysið í sinni nöktustu mynd. Því fyrr sem allir gera sér grein fyrir þessu, því betra.

    Líkar við

    • Það er ofureinföldun að halda því fram að hver sá sem andmælir einhverjum hóp sé að standa í vegi fyrir sögulegum framförum.

      Það er án efa hægt að grafa upp t.d. allskyns réttmæt andmæli við það sem Black Panthers hafa sagt, án þess að í því felist nein sjálfhverfa eða tillitsleysi gagnvart baráttu blökkumanna.

      Fólk verður bara að gjöra svo vel og berjast fyrir málefnum málefnalega, en ekki með últra-víðum og staðlausum alhæfingum,

      Líkar við

  5. Mér finnst Name * og nokkrir aðrir vera viljandi að misskilja þennan pistil. Ég sé hann fyrst og fremst sem hugvekju um forréttindablindu sem mjög margir á Vesturlöndum, bæði karlar og konur, þjást af. Hugsanlega hefði mátt orða betur samanburðinn milli baráttu femínista og baráttu blökkumanna en mér finnst höfundur greinarinnar ekki vera að setja það tvennt að jöfnu.

    Ég er ekki alltaf sammála öllu því sem er ritað hér inn á knuzið. Sumir pennar héðan tóku til að mynda þátt í ofstækinu sem spratt upp í kringum Gillz-málið og mér var afar illa við mansplaining-pistilinn sem var hrein og klár skoðanakúgun.

    Ég lít hins vegar á mig sem femínista og jafnréttissinna. Ætli ég yrði ekki að kallast borgaralegur femínisti í staðinn fyrir róttækur. Minn eigin libertarianismi setur mig á skjön við margt sem róttækir femínistar hafa að segja enda er það líka allt í lagi. Það væri leitt ef allir væru sammála um alla hluti.

    En það er alltaf þarft að minna mann á það hversu mikið forskot maður hefur, verandi hvítur karlmaður á Vesturlöndum.

    Líkar við

  6. Það er aldrei sannfærandi málflutningur að finna upp nafnorð sem líkist sjúkdómsgreiningu og nota yfir meintar hvatir þeirra sem eru manni ósammála. Aukinheldur eru neikvæð viðbrögð við femínisma aldrei til marks um eitt eða neitt, ekki fremur en jákvæð viðbrögð. Að tönnlast á öfgafyllstu viðbrögðunum eins og öll gagnrýni sé á sömu lund ber keim af áróðri. Fúkyrði og æst viðbrögð segja ekkert, til eða frá, um gildi hugmyndanna sjálfra.

    Málflutningurinn um að karlar eigi að gangast við forréttindum sínum er algengur um öll Vesturlönd og nær því miður einkum eyrum karla sem ekki hafa nein sérstök forréttindi og bregðast því illa við. Skiljanlega, fjölmagt kemur inn í forréttindi annað en kyn, t.d. stétt, ætterni, klíka, búseta, stjórnmálaflokkatengsl, menntun, félagslegur habitus, fjárhagsstaða, kynþáttur, allur fjandinn (og nei, barátta íslenskra femínista er ekki sambærileg við þrælahald blökkumanna).

    Að segja við karl sem vinnur leiðinlega vinnu við að grafa skurð í skít og vondum móral við léleg laun og óhamingju að hann sé forréttindapési og eigi að gangast við því í auðmýkt og iðrun mun aldrei geta af sér neina frjóa samræðu eða alvöru róttækni (burtséð frá sannleikskorninu sem í því er). Skurðgrafarinn upplifir það sem svo að verið sé að þvinga honum inn í staðalmynd sem passar honum ekki, svipta hann sjálfsmynd hins valdalausa. Hver getur láð honum það?

    Að þrátta svo um þetta fram og aftur er ekki til neins, enda hafa menntaðar millistéttakonur sem halda úti kvenréttindasíðu að líkum ákveðin forréttindi umfram skurðgröfukarlinn og hvor hópur um sig engin forréttindi í samanburði við valdastéttina (sem er að stórum hluta karlar).

    Róttækustu andmæli karlafræðanna við orðræðunni um forréttindin eru að benda á að víða um heim eru „forréttindi“ meginþorra karla til dæmis þessi: heimilisleysi, alkóhólismi, sjálfsmorð, fangelsi, götuofbeldi og að vera kvaddir í herinn og sendir út í dauðann því líf þeirra er einskis metið af öðrum körlum sem sitja í valdastólum og hafa raunveruleg forréttindi. Það eru kannski ýkjur en heilmikið til í því samt (það er til (léleg) wkp-síða um hugtakið karlaforréttindi: http://en.wikipedia.org/wiki/Male_privilege). Metingurinn um valdaleysið verður oftast óbærilega staglkenndur, já eða bara frámunalega heimskulegur, femínistinn reynir að sannfæra skurðgröfukallinn um að hann sé forréttindapési og sá síðarnefndi segir haltu kjafti og þá segir femínistinn þú hefur rangt fyrir þér og þú ert í afneitun og forréttindavörn og karlinn bendir meinlega á forréttindi kristilegra yfirstéttarsaumaklúbba og íhaldskellinga í aldanna rás og svo framvegis út í hið óbærilega, status quo er tryggt, umræðan er á lágu plani af allra hálfu.

    Ég sem femínisti sé ekki tilganginn með þannig stagli.

    Málflutningurinn um forréttindi karla gæti náð öðrum eyrum, eyrum menntaðra karla á sæmilegum stað í lífinu sem vilja gera sitt besta til að vera víðsýnir og vinna að jafnrétti. En þeir vita þetta fyrir, enda augljóst hverju barni, ef jafnrétti ríkir ekki gefur auga leið að karlar hafa almennt séð ákveðin forréttindi, kommon, hvaða fífl sér það ekki. Þessi karlahópur hefur sennilega áttað sig á þessu svona sjö ára.

    Málflutningurinn um forréttindi karla, þessi einfaldaði málflutningur, gæti líka náð til karla sem hafa stórkostleg völd, auð og áhrif. En hann gerir það auðvitað aldrei. Og ef karl með raunveruleg völd heyrir að hann tilheyri forréttindakyni er hann líklegast hæstánægður og vill viðhalda ríkjandi ástandi.

    Af hverju þá að halda uppi málflutningnum um forréttindi karla? spyr ég af einlægni. Fyrir því getur bara verið ein ástæða: Hann er ekki hugsaður fyrir karla heldur konur. Sem er bara fínt. Fullt af konum eru hálfmeðvitaðar eða ómeðvitaðar um kynjaójöfnuð. Hinsvegar held ég að hversu mikið sem femínistar geispa yfir aðferðarfræðilegum athugunum, hversu mikil sem frestingin er að hafna hverri mótbáru sem forréttindablindu (eða eitthvað annað sjúkdómskennt), hversu leiðinlegt sem það kann að hljóma, þá er það bara rangt að fæla allan meginþorra karla frá jafnréttisumræðunni með því að hafa hana fjandsamlega valdalausum körlum, með því að ala á augljósri staðalímynd um karlinn sem óhjákvæmilega valdafígúru.

    Langflestir valdalausir karlar eru sennilega algerlega reiðubúnir að sjá fáránlega ósanngirnina í launamismun kynjanna og boðnir og búnir að styðja afnám þess mismunar þegar hann er leiddur þeim fyrir sjónir, flestir eru sennilega opnir fyrir ýmsum athugunum um kynjamisrétti að öðru leyti líka. Ef þeir fá ekki fyrst á sig eitthvert hálfkaþólskt tal um að þeir eigi að játa forréttindi sín, iðrast og helst húðstrýkja sig (sem er borgaraleg hugmynd fremur en róttæk).

    Annars er þetta bara ágæt grein. Ég hef lesið miklu verri pistla sama efnis. Það er svolítið opinn andblær hér sem oft er ekki.

    Líkar við

  7. Það hefur mikið verið pælt í líkingu minni á forréttindahópunum sem stóðu sem harðast í baráttu svartra og þeirra sem er í gangi með femínisma í dag. Eða réttara sagt, það hefur mikið verið talað um að ég hafi líkt baráttu femínista og baráttu svartra saman á einhvern hátt. Sem ég gerði aldrei.

    Ég hef mikið pælt í því hvernig ég hefði getað orðað þetta betur. Forréttindahópar nota afskaplega líkar leiðir til að þagga niður í þeim sem gagnrýna það sem á gengur, og það var mín eina meining með þessari líkingu. En margt hefur verið sett í þessi orð mín sem var aldrei sagt, sem mér finnst að miklu leyti draga athyglina frá aðalefni greinarinnar.

    En það er reyndar ein leið forréttindahópa til að þagga niður, er að taka eitthvað annað fyrir og gera mikið úr því til að leiða umræðuna annað, eða til að sanna fyrir sér að greinarhöfundur hafi rangt fyrir sér.

    Mér finnst mjög langsótt að segja að þetta sé „strámannslegt“, því þetta á alveg við. Þótt það séu ekki sömu skoðanir á lofti hjá hópunum, og ekki sömu baráttumál, þá eru AÐFERÐIR forréttindahópanna nákvæmlega eins. Það er þaggað niður með því að gera lítið úr vandamálinu. Maður sér nákvæmlega sama gerast í sambandi við LGBTQ og baráttu þeirra fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Og þetta er enn að gerast með rasismann. Hversu oft hefur maður séð „hey, svartir geta alveg líka verið rasistar!“, eða „sko ég á vini sem eru múslimar, en [rasískt komment hér]“? Forréttindahópar vilja réttlæta fyrir sér óréttlætið, því þá líður þeim betur með sinn eigin rasisma/sexisma/almennt hatur.

    Mér finnst ég ekki hafa gert nóg grein fyrir því að non-white hópar eru enn að berjast fyrir jöfnum réttindum. Baráttan er enn í gangi, og forréttindahóparnir nota enn sömu þöggunaraðferðirnar.

    Svo má líka nefna að það má alveg gagnrýna aðferðir fólks innan femínisma. Bara endilega! Allt gott er vert að gagnrýna og bæta. En það virkar ekkert að vera blindur á forréttindi sín og þykjast vita betur um hvernig á að gera hlutina. Nafnlaus hér virðist ekki alveg gera sér grein fyrir því. En ég hef það líka á tilfinningunni að Nafnlaus sé eitthvað að reyna að réttlæta fyrir sér að vera á móti femínisma, og er ekki alveg að fíla að vera kallaður/kölluð forréttindablind/ur. Það má samt alveg leiðrétta mig ef það er ekki málið. Það má líka alveg koma fram undir nafni, það er ekkert hættulegt.

    Olræt* það er aldrei málið að öll gagnrýni sé merki um forréttindablindu. En mikið af gagnrýninni er fædd þaðan. Ég get alveg verið ósammála einhverjum femínistum um eitthvað, en ég get líka gert það á upplýstan hátt. Þar liggur munurinn. Ekki gagnrýna eitthvað sem þú skilur ekki. Skilningurinn verður að koma fyrst. Ég get ekki bent á forritunarkóða og sagt við forritarann „hey, mér finnst eitthvað að þessu, af hverju geriru þetta svona en ekki svona?“, því ég skil ekki forritunarmál. En ef ég læri forritun get ég alveg gagnrýnt kóðann á uppbyggilegan hátt.

    En þetta var bara dæmi, eins og dæmið með baráttuna gegn rasisma, og ég vona að fólk taki það ekki fyrir til að afvegaleiða umræðuna.

    Líkar við

  8. „Ekki gagnrýna eitthvað sem þú skilur ekki?“ Athyglisverð athugasemd. Ég get einmitt líka verið ósammála einhverjum femínistum um eitthvað og gagnrýnt á upplýstan og málefnalegan hátt. Var reyndar einmitt að gera það.

    Líkar við

  9. „Ekki gagnrýna eitthvað sem þú skilur ekki“ er athyglisverð athugasemd. Ég get einmitt líka verið ósammála ýmsu og gagnrýnt það á upplýstan og málefnalegan hátt. Ég var einmitt að því.

    Líkar við

  10. Elísabet

    „Þótt það séu ekki sömu skoðanir á lofti hjá hópunum, og ekki sömu baráttumál, þá eru AÐFERÐIR forréttindahópanna nákvæmlega eins“

    „… nákvæmlega eins..“

    Já eins og öll þau skipti sem þér hefur verið bannað að drekka úr sama vatnsbrunni og karlmenn ? , og þegar karlmenn hafa ekki viljað vera grafnir í sama kirkjugarði og konur, eins og við þekkjum öll dæmi um hér á íslandi ? – og þegar þér er bannað að fara inn á ákv staði vegna þess að þú ert kona ? (Veit ekki um nein slík dæmi fyrir utan frímúrarahöllina )

    „En það virkar ekkert að vera blindur á forréttindi sín og þykjast vita betur um hvernig á að gera hlutina. Nafnlaus hér virðist ekki alveg gera sér grein fyrir því. En ég hef það líka á tilfinningunni að Nafnlaus sé eitthvað að reyna að réttlæta fyrir sér að vera á móti femínisma, og er ekki alveg að fíla að vera kallaður/kölluð forréttindablind/ur. “

    Ef við byrjum bara á því fyrsta „En það virkar ekkert að vera blindur á forréttindi sín og þykjast vita betur um hvernig á að gera hlutina.“ — Ég sé ekki hvað eitt hefur með annað að gera, ég gæti vitað betur eða verr hvernig á að gera ákv hluti, algjörlega óháð því hvort ég væri meðvitaður um forrétindi mín,.. og ég var ekki að hafna því að til séu forréttindi – ég var að hafna fáránlegum samanburði á blóðugri baráttu annarsvegar, og hinsvegar baráttu hérlendis sem er fyrst og fremst háð á netinu, varðandi skilgreiningar á dómsmálum, dómum, og staðalímyndum. ( Í þeirri skilgreiningarbaráttu ganga báðar fylkingar langt fram yfir siðsæðimis mörk og eru tilbúin að dæma fólk án sönnunargagna, og jafnvel áður en búið er að safna sönnunargögnum.)

    Ef hægt væri að greina ‘forréttindi’ fullkomlega og setja sitthvort kynið uppá graf, þá myndi eflaust sjást einhverskonar normal kúrva fyrir bæði kynin, og eflaust væru þessar tvær kynjuðu normal kúrvur ekki overlaping. Það er erfitt að segja hvað telst með í þessari forréttinda skilgreiningu – væru ættleiddir krakkar t.d. með sérstaklega bág forréttindi ? Hvað með veikindi ? – Ég hef ekki hugmynd hvar þú værir á þessu grafi, ég segi þetta bara sem dæmi; Ef við gerum ráð fyrir að þú Elísabet, sért einhverstaðar fyrir miðju, og við gefum okkur að karlmenn séu með sirka 10% meiri ‘forréttindi’ (Ef við miðum t.d. bara við óútskýrðan launamun) – þá eru samt sirka fjórir af hverjum 10 karlmönnum sem þú hittir með minni ‘forréttindi’ en þú.

    En það eru bara svo margar aðrar tegundir af lífsgæðum sem skipta meira máli heldur en laun, og sumstaðar hallar á konur, annarastaðar á karla. (Auk þess sem normalkúrvur varðandi allskyns eiginleika kynjanna eru sjaldnast overlaping, og allof einfeldingslegt að alhæfa eingöngu útfrá launum og stjórnunarstöðum hvort mismunun eigi sér stað að einhverju ráði)

    „En ég hef það líka á tilfinningunni að Nafnlaus sé eitthvað að reyna að réttlæta fyrir sér að vera á móti femínisma, og er ekki alveg að fíla að vera kallaður/kölluð forréttindablind/ur. “

    Ég er ekki á móti feminisma. Ég vissi ekki að þessi pistill fjallaði um mig sérstaklega ?

    Líkar við

  11. Hér er smá innsýn í ákveðin forréttindi kynjanna

    Virðist engu máli skipta hvert er litið. Karlmenn er drepnir all frá tvöfallt og uppí fimmfallt á við konur .

    http://www.gapminder.org/world/#$majorMode=chart$is;shi=t;ly=2003;lb=f;il=t;fs=11;al=30;stl=t;st=t;nsl=t;se=t$wst;tts=C$ts;sp=5.59290322580644;ti=2004$zpv;v=0$inc_x;mmid=XCOORDS;iid=tyeSLo9Zpmw_e05IR3EoReg;by=ind$inc_y;mmid=YCOORDS;iid=tHgVOu-6TYQ6Kig0Ur3Y-kw;by=ind$inc_s;uniValue=8.21;iid=phAwcNAVuyj0XOoBL_n5tAQ;by=ind$inc_c;uniValue=255;gid=CATID0;by=grp$map_x;scale=lin;dataMin=0;dataMax=23$map_y;scale=lin;dataMin=0;dataMax=240$map_s;sma=49;smi=2.65$cd;bd=0$inds=

    Svipaða sögu segir fjöldi sjálfsmorða (kynjað)

    http://www.gapminder.org/world/#$majorMode=chart$is;shi=t;ly=2003;lb=f;il=t;fs=11;al=30;stl=t;st=t;nsl=t;se=t$wst;tts=C$ts;sp=5.59290322580644;ti=2004$zpv;v=0$inc_x;mmid=XCOORDS;iid=tUD6kmYmB_Bp85SRdEn1Krg;by=ind$inc_y;mmid=YCOORDS;iid=tB8ge4cxd8TL7yIV4ALm5NA;by=ind$inc_s;uniValue=8.21;iid=phAwcNAVuyj0XOoBL_n5tAQ;by=ind$inc_c;uniValue=255;gid=CATID0;by=grp$map_x;scale=lin;dataMin=0.0245;dataMax=27$map_y;scale=lin;dataMin=0;dataMax=80$map_s;sma=49;smi=2.65$cd;bd=0$inds=

    Með því er ég ekki að segja að hægt að fullyrða að karlmenn séu eitthvað verr settir, af (miklu) meðaltali og með yfirborslegri skoðun frá „commnanding heights“ upper-middle-class háskóladeilda. En þetta lýsir því kannski hversu auðvellt er með staðfestingarvillu að týna saman sjokkerandi staðreyndir og mála skrattan á vegginn þannig að 50% mannkyns hljóti nú að vera living high on the hog (óháð þóðerni) , á kostnað hinna fimmtíu prósentana .

    Ekki skemmir fyrir þegar notuð eru ein messtu ódæði mannkynssögunnar, til að krydda tilfinningaklámið.

    Líkar við

  12. Er maður virkilega settur í athugasemdabann hér fyrir málefnalega og upplýsta gagnrýni? Að svara athugasemdum mínum með því að segja mér að gagnrýna ekki eitthvað sem ég skilji ekki ber vott um málefnaþurrð. Það er gott hjá miðlinum að leyfa nafnlausar athugasemdir enda hefur það sýnt sig að mesti sorinn á netinu er undir fullu nafni og meiri von um góðar samræður nafnlaust. En ég brenni mig ekki á að kommentera hér framar.

    Líkar við

  13. Aftur talar þú um kúgunaraðferðirnar, en ekki þöggunaraðferðirnar. Ég er enn að tala um eitthvað allt annað en þú. Það er kannski kominn tími til að við samræmum það sem við erum að tala um.

    Ég er sérstaklega að tala um (og hef sagt það oft hér á þessum þræði) þöggunaraðferðirnar. Ég er að tala um fólkið sem segir (og ég tek dæmi úr greininni sjálfri): „Þá urðu líka margir til að segja að svartir væru að gera þetta vitlaust, að það ætti miklu frekar að gera þetta svona, að það væri ekki gott að vera svona hávær, að nú væri kominn tími til að hætta þessu væli, það væri allt að verða svo gott.“

    En þú hendir fram strámannsrökum um að ég sé að bera saman hluti sem ég hef aldrei nefnt og er greinilega ekki að tala um.

    Þú ferð líka beint í það að ætla að ég sé ekki meðvituð um mín eigin forréttindi, sem er í besta falli fáránlegt. Ég hef aldrei neitað að ég á meiri forréttindi heldur en einhverjir karlmenn t.d.

    Sem hvít, gagnkynhneigð millistéttar kona hef ég mörg forréttindi sem nýtast mér á einhvern hátt framyfir aðrar manneskjur af öðru þjóðerni, stétt og kynhneigð. En ég mun aldrei verja þau forréttindi á þann hátt sem þú gerir hér að ofan. Ef þú ert ekki að fullyrða að karlmenn séu eitthvað verr settir, hvað ertu þá að reyna að segja? Ertu þá að líkja þessu saman við það sem konur þurfa að díla við í heiminum í dag? Ertu að segja að þetta standi jafnfætis? Ertu að reyna að draga úr forréttindunum? Þú segir að ef teiknað væri graf yfir öll forréttindi beggja kynja, þá yrði kúrvan jöfn. Er þér alvara? Er forréttindablinda þín virkilega svona mikil?

    Það var aldrei sagt í þessarri grein að karlar standi yfir konum í öllu. Við erum enn t.d. að berjast fyrir því að karlmenn séu teknir alvarlega sem foreldrar. Við erum enn að berjast fyrir því að karlmenn fái að sýna allar sínar tilfinningalegu hliðar, sem gæti minnkað sjálfsmorðstöluna þína þarna að ofan. Femínistar berjast fyrir öllum kynjum, og að vera meðvitaður um forréttindi sín þýðir að vera meðvitaður um þau ÖLL.

    Mér finnst magnað að þú skulir segja að baráttan sé einungis til á netinu. Ertu bara að gleyma öllum nauðgunum, heimilisofbeldi og launamun kynjanna? Ertu að gleyma kynferðisofbeldi og áreitni sem verður til á götum, á skemmtistöðum og jafnvel vinnustöðum? Baráttan er að miklu leyti þar. Þótt mikið af umræðunni sé til á netinu, þá er baráttan á heimilum okkar og úti á götunum og á vinnu-og skemmtistöðum. Baráttan er í hugum fólks, því þar liggur hugmyndafræðin um að konur séu veikara kynið.

    Það er kominn tími til að þú hættir að setja upp strámannsrök, og þú ert búinn að afvegaleiða umræðuna nóg. Ég tek ekki þátt í því lengur að tala við þig, því ég tel líklegt að þú munir reyna enn fleiri brögð til að snúa þessu í þinn hag.

    Ég mun ekki hjálpa þér að afsaka og réttlæta forréttindi þín.

    Líkar við

    • „Þú segir að ef teiknað væri graf yfir öll forréttindi beggja kynja, þá yrði kúrvan jöfn. Er þér alvara? Er forréttindablinda þín virkilega svona mikil?“

      Ég sagði ekki neitt nálægt því – Þú skyldir greinilega ekki það sem þú varst að lesa

      Ég sagði að normalkúrva fyrir karla annarsvegar og konur hinsvegar væru eflaust EKKI overlaping. (við erum að tala um tvær normal kúrvur sem sveigjast EKKI eins hérna)

      Sem þýðir: Ég held því EKKI fram hin ýmsu forréttindi séu jöfnt dreyft á milli hópa þegar hóparnir eru kynjagreindir.

      „Mér finnst magnað að þú skulir segja að baráttan sé einungis til á netinu. Ertu bara að gleyma öllum nauðgunum, heimilisofbeldi og launamun kynjanna? Ertu að gleyma kynferðisofbeldi og áreitni sem verður til á götum, á skemmtistöðum og jafnvel vinnustöðum? Baráttan er að miklu leyti þar. Þótt mikið af umræðunni sé til á netinu, þá er baráttan á heimilum okkar og úti á götunum og á vinnu-og skemmtistöðum. Baráttan er í hugum fólks, því þar liggur hugmyndafræðin um að konur séu veikara kynið.“

      Ég sagði „fyrst og fremst“, ekki „einungis“
      – Ísland er með eina lægstu glæpatýðni í heimi. Feministar hafa mikið lagt í að endurskilgreina glæpi sem beinn afrakstur af okkar samfélagsgerð – líkt of samfélagið og staðlímyndir þess beinlínis framleiði glæpamenn – og að glæpir séu alls ekki og á engann hátt hægt að tala um sem frávik. Sú fullyrðing feminista hefur engin haldbær gögn á bakvið sig, hún er endurómun á fullyrðingum sem koma frá allskyns öðrum kreddum , t.d þegar kristnir kenna um hversu trúlaust samfélagið er, og Bill O’reilly kennir rappmúsík og gang culture um. Allar þessar gervi ástæður komast ekki á blað þegar skoðaðir eru helstu áhrifaþættir glæpa, félagsleg útskúfun verandi einn sá stærsti (sem aftur er vísbending um að glæpir séu frávik, en ekki bein afurð staðalímynda ofgnóttar samfélaga).

      Að þú hafnir því að þú hafir verið að reyna að setja samasem merki á milli andmælenda nútíma feminisma og kúgara svertingja (Og þannig að bera þessar baráttur saman) er eingöngu vitnisburður um þinn óheiðarleika.

      Líkar við

  14. Ódýr og örþreytt aðferð til þess að reyna að afskrifa rök allra karlmanna sem eru þér ósammála með vísan til kyns þeirra og án þess að svara þeim efnislega.

    Líkar við

  15. Ódýr og örþreytt aðferð til þess að afskrifa karlmenn í samræðum á grundvelli kyns þeirra og án þess að svara þeim efnislega. Hægt er að benda á fjölda „forréttinda“ kvenna sem einhver nafnlaus hefur gert hér að ofan, án þess að það geri rök kvenna einhvers minna virði.

    Farðu til fjandans.

    Líkar við

  16. Ég er ung stúlka að byrja að fóta mig almennilega í samfélaginu og er að reyna að mynda mína eigin skoðun á jafnréttismálum kynjanna. Hingað til hef ég talið mig femínista því ég vil að konur og karlar séu jöfn í samfélaginu. Ég vil alls ekki að fólki sé mismunað einungis vegna kynferðis. Hvort sem það er í starfi eða annarsstaðar.
    Nú þarf ég hinsvegar að fá skilning á einu.
    Ég hef mjög víðtækan húmor og get hlegið að mörgu. Mér finnst oft fyndið þegar það er gert grín að konum og femínistum alveg eins og mér finnst fyndið þegar gert er grín að körlum og ,,karlrembum“. Ég er viss um það að þessi húmor minn stafi ekki af samfélagsmeininu svokölluðu heldur finnst mér eins og ég eigi að hafa frelsi til þess að hlægja að því sem mér finnst fyndið.
    Eftir lesningu pistilsins þá er ég samt orðin skíthrædd um að ég sé ekki nógu mikill femínisti og að ég sé að ýta undir kynjamisrétti í samfélaginu með þessu. Það sem ég er mest hrædd um er hvort ég sé forréttindablind sem ég sé núna er hræðilegur hlutur og skemmir allt sem við (þið?) berjumst fyrir. Á ég að refsa mér á einhvern hátt fyrir þennan húmor minn til þess að láta mig hætta að finnast þetta fyndið?
    Það er kannski best að ég sleppi því að segja skoðun mína því mér sýnist núna að hún sé ekki alveg nákvæmlega sú sama og hjá ykkur. Mig langar ekki til að vera rökkuð niður útaf því sem mér finnst fyndið og ekki skipta það miklu máli í jafnréttisbaráttunni :/

    Líkar við

Færðu inn athugasemd