Ég vil ekki að barnið mitt hljóti fræðslu frá Blátt áfram

Höfundur: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

[Frá ritstjórn: Þessi pistill birtist fyrst hér 4. júní árið 2010 og er endurbirtur, eilítið breyttur, að gefnu tilefni, í kjölfar umræðna um samtökin á síðustu misserum og vegna nýlegrar fréttar um að samtökin muni fara með fræðsluefni í alla barnaskóla í Reykjavík í vetur, eins og undangengin ár.]

auglýsing Blátt áfram

Skjáskot úr einni af auglýsingum Blátt áfram. Auglýsinguna má sjá hér

Samtökin Blátt áfram hlutu mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í maí 2010. Það var víðáttuheimskuleg ákvörðun. Og hér er ástæðan fyrir þeirri skoðun minni:

Ég vissi ekkert um þennan félagsskap og treysti honum á forhönd eins og nýju neti – enda hefur maður tilhneigingu til að halda með þeim sem eru á móti ofbeldi og allt það.

En svo var sonur minn staddur við hliðina á mér þegar ein af sjónvarpsauglýsingum samtakanna Blátt áfram var sýnd. Hann var rétt orðinn níu ára. Þetta hefur verið um eða uppúr kvöldmatarleyti í miðri viku. Auglýsinguna má sjá hér.

„Ég vil ekki að einhver strjúki mér og verði góður við pjölluna mína“ og svo framvegis.

Mér krossbrá og vildi helst slökkva á sjónvarpinu í snarhasti. Ég tek fram að skv. Blátt áfram bendir það til þess að ég vilji vernda kynferðisglæpamenn eða sé slíkur sjálf. Sjá t.a.m. ummæli Sigríðar Björnsdóttur á Vísi.is þegar hún er spurð um gagnrýnina: „Það er eðlilegt. Við erum að ýta við málaflokki sem fæstir vilja vita af.“ Barnið mitt er feimið og kvíðið og ég býð ekki í að hann viti nákvæmlega hvað það er sem barnaníðingar gætu gert við hann eða langar að gera við hann. Ég hefði ekki ráðið vel við eða kært mig um slíkar upplýsingar þegar ég var á hans aldri og var þó þúsund sinnum meiri töffari en hann er.

Í kjölfarið fór ég að skoða þetta almennt. Án sérstaks tillits til sonar míns. Ég hef velt því endalaust fyrir mér hvað börn geti grætt á því að vita hvaða líkamshlutar þeirra það eru sem barnaníðingar kunna að hafa áhuga á. Kannski trúir fullt af fólki því að það sé voðalega hollt fyrir þau en ég trúi því ekki. Og ég hreinlega ÞOLI ekki að einhver einkasamtök útí bæ, rekin af fórnarlömbum en ekki fagfólki, skuli taka af mér réttinn til að ákveða hvaða leiðir ég fer í að fræða barnið mitt.

blátt áfram mynd 1

Fræðsluefni frá Blátt áfram – skjáskot af Facebook-síðu samtakanna

Ég myndi til dæmis ekki undir nokkrum kringumstæðum segja barninu mínu hvernig það ætti að bregðast við ef það yrði fyrir  kynferðisofbeldi. Það eru ekki til réttar og rangar leiðir. Og ef börnum eru kenndar einhverjar supposedly réttar leiðir til að bregðast við og á ögurstundu bregðast þau við á einhvern allt annan hátt, sitja þau uppi með skömmina yfir því að hafa verið misnotuð OG að hafa brugðist pabba og mömmu sem voru búin að kenna þeim hvað þau ættu að gera. Það er áhætta sem ég er ekki tilbúin til að taka.

Sú grundvallarregla sem ég hef fylgt í þessari fræðslu á mínu heimili er að líkami hverrar manneskju er hennar yfirráðasvæði. Það þýðir að enginn má snerta son minn án þess að hann gefi leyfi fyrir því sjálfur. Það þýðir líka að sonur minn má ekki snerta neina aðra án þess að hafa fyrir því leyfi. Einfalt mál. Mér finnst ekki nokkur einasta ástæða til að tiltaka kynfæri eða endaþarm í þeim samtölum og kem ekki með nokkru móti auga á að barnið græði á því. Hvað eiga t.d. börn með kvíðaröskun að gera við þessar upplýsingar?

Jæja. Þetta var vinkill númer eitt.

blátt áfram mynd 2

Fræðsluefni frá Blátt áfram – skjáskot af Facebook-síðu samtakanna

Vinkill númer tvö er svo móðursýkin, hræðsluáróðurinn endalausi sem frá þessu fólki kemur. Ég veit til dæmis að þau segja við foreldra að afar og ömmur eigi ekki að vera mikið að kjassa börn. Þegar ég heyrði fyrst af því tók ég mig til og kynnti mér fræðsluefnið sem þau hafa sent frá sér (það litla sem er ókeypis, þau rukka fyrir flestallt sem þau gera, surpriiiise).

Hér eru dæmi um það hvernig foreldrar eiga að meta starfsfólk sem vinnur með börnunum þeirra:

Biðja um og athuga persónuleg og fagleg meðmæli. Þeirra á meðal ættu að vera meðmæli frá öðrum en ættingjum og vinum. Skoða sakaskrá allra sem vinna innan um börn. Ekki reiða ykkur eingöngu á skoðun sakaskrár við mat. Aðeins lítið hlutfall gerenda hlýtur dóm.

Þetta eiga foreldrar að tryggja þegar þeir velja tómstundir/frístundaheimili/leikskóla etc. fyrir börn:

Geta fylgst með og truflað þegar fullorðinn er einn með barni. Samskipti fullorðins og barns sem eru ein saman ættu alltaf að fara fram á opnu svæði. Leitið að félögum sem eru með glugga á öllum dyrum húsnæðisins (þar með talið á skápum) og opin svæði til samskipta. Gangið um húsnæðið til þess að skoða það og spyrjið um svæði sem eru einangruð og óörugg.

Þau taka fram að það eigi að META UNGLINGA VANDLEGA. Unglinga sem vinna með börnum. Í því samhengi segja þau:

Sams konar mat og á fullorðnum. Sakaskrá er trúnaðarmál svo að ekki er hægt að skoða hana.

Þetta er semsagt allt tekið úr .ppt-skjalinu sem má sækja með því að smella hér.

Mér finnst ofbeldismönnum vera gefið óþarflega mikið vald ef við eigum að vera svona rosalega hrædd við þá allan daginn. En það er bara ég. Hér eru tilvitnanir af bloggsíðunni þeirra (ég nenni ekki að setja [sic] á viðeigandi staði, þið fattið þetta):

Blátt áfram fer í grunn og leikskóla landsins með fræðsluna. Bæði fyrir foreldra og kennara. Fullorðna fólkið ber jú alltaf ábyrgðina. Á þeim heimilum sem verið er að beita börn ofbeldi þá koma foreldra eða aðrir ekki til þess að hlusta á okkur. Við sjáum við þeim með því að gera auglýsingaherferðir sem sýndar eru í sjónvarpi og börnin fá þá skýr skilaboð um að ofbeldið sé ekki í lagi og þau geti leitað hjálpar. Búin að fá staðfestingar frá fleiri fjölskyldum að upp um komst er barnið horfði á auglýsinguna.

Og svo:

Hef heyrt af konu sem henti 7 skrefa bæklingnum og sagt þetta gerist ekki í minni fjölskyldu, þarf ekki að fræða mín börn. Nokkrum mánuðum seinna kom það upp að barnið hennar hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Ég vil ekki að sonur minn sé hræddur við mögulegt yfirvofandi kynferðisofbeldi. Ég vil að hann geti notið sinnar frjálsu og áhyggjulausu æsku. Sú æska er ekki ásættanlegur fórnarkostnaður þess að hann hljóti „menntun“ og fræðslu um hvað afi hans gæti viljað gera við hann.

Ein athugasemd við “Ég vil ekki að barnið mitt hljóti fræðslu frá Blátt áfram

  1. Sæl Hildur,

    ég skil viðhorf þitt, sem er kannski dæmigert fyrir þá sem eru svo heppnir að hafa aldrei lent í kynferðisofbeldi. Ég átti ekki von á því þegar ég var að ala upp mínar dætur að þær væru í minnstu hættu á að lenda í kynferðisofbeldi. Það sem var óhugsandi gerðist þó í desember fyrir nokkrum árum að dóttir mín fór að gæta barna fyrir systur mína og mág. Hún gisti hjá þeim til þess að geta vaknað með börnunum um morguninn. Mágur minn leitaði á dóttur mína. Hann er venjulegur maður sem var búin að þekkja hana frá því hún var lítið barn og manni fannst þetta jafn líklegt og að rekast á geimveru. Dóttir mín hafði farið á námskeið hjá Blátt áfram og ég vil þakka því að hún brást rétt við. Hún forðaði sér og sagði frá. Það er sigur í þessari baráttu finnst mér! Ég lenti í kynferðisofbeldi sem barn af unglingi en ég þorfði aldrei að segja frá heldur geymdi þetta leyndarmál alla tíð. Ég held það sé mikilvægt að við tölum umbúðalaust en auðvitað er þetta viðkvæmt og hver og einn verður að vega og meta hvað er best fyrir þeirra barn.

    Líkar við

    • Ég varð fyrir kynferðislegu ofbeldi sem barn. Ég sagði frá og það án áróðurs Blátt áfram. Ég deili skoðunum Hildar. Að halda að þú getir dregið ályktanir um mögulegt ofbeldi gegn henni út frá þessum skoðunum er fáránlegt. Ein af mínum stærstu og erfiðustu hjöllum í baráttunni var að losa mig við sjálfsásakanir. Ég veit ekki hvort það hefði tekist ef ég hefði einnig upplifað það að hafa brugðist foreldrum mínum, farið gegn reglum þeirra og leiðbeiningum. Kannski hefði ég jafnvel síður sagt frá.

      Og svo fá foreldrar ekki að vega og meta hvað sé best fyrir þeirra börn þegar samtökin eru farin að koma í grunn- eða leikskóla landsins, að mér skilst án þess að foreldrar séu látnir vita fyrirfram. Eða þegar svona auglýsingar eru birtar án fyrirvara í sjónvarpi.

      Líkar við

      • Ég þekki mjög marga foreldra sem hafa aðra sögu að segja. Útskýringin sem gefin var var sú að þá gætu foreldrar sem beita börn sín ofbeldi kippt börnunum úr skólanum svo þau myndu ekkert segja. Sem gerir fólk sem er á móti aðferðum Blátt áfram og kýs að sleppa fræðslunni að sterklega grunuðum barnaníðingum í augum samtakanna.

        Líkar við

    • Þó að þau rati á eitt og eitt rétt þýðir það ekki að allur boðskapurinn sé góður. Hræðsluáróðurinn fer út í svo hrikalegar öfgar að manni þykir meira en nóg um. Að geta aldrei treyst neinum nokkurn tímann – ég get ekki hugsað mér að lifa í slíku samfélagi.

      Líkar við

      • Það er auðvitað hræðilegt að sjá djöfulinn í hverju horni. Hann kom gjörsamlega aftan að okkur á sínum tíma. Þetta er svo hræðilegur málaflokkur að okkur langar helst ekki að vita af honum. Enda hefur ríkt þögn þangað til fyrir örfáum árum. Þessir hlutir verða aldrei svartir eða hvítir og það verða skiptar skoðanir. Ég er ánægð með að umræðan hefur opnast og fólk er farið að segja frá. Við þurfum að halda árfram að tala um þessi mál því gerendur græða á öðru.

        Líkar við

    • En málið er að við foreldrar fáum ekki einu sinni að ráða hvað er best fyrir börnin okkar þar sem þessu er troðið inn í alla skóla landsins og þeir „sjá við þeim“ sem mæta ekki með því að troða þessu inn í sjónvarp. Við eigum ekki að þurfa að sitja yfir börnunum okkar meðan barnatíminn er í því skyni að slökkva á sjónvarpinu þegar auglýsing frá þeim kemur. Væri annað mál ef þessum auglýsingum væri beint af foreldrum og innihéldu ekki svona miklar upplýsingar og gæfi fólki kost á að sækja námskeið eða eitthvað þess háttar.

      Líkar við

    • Í þetta sinn er ég algjörlega sammála Hildii og þakklát fyrir umræðuna. Skil ekki alveg hversvegna einhverjir foreldrar senda börn sín á „námskeið“ hjá blátt áfram, myndi aldrei treysta þessu fyritkæki fyrir uppeldi barna minna. Hringdi í skólann sem dóttir mín er í til þess að athuga hvort þetta fyritæki kæmi í skólann án vitundar foreldra, svarið var að það væri eitthvað misjafnt eftir skólum en í þessum skóla væru foreldrar spurðir. Eins gott hugsaði ég því svona ítroðsla er börnunum skaðleg og lítt til framdráttar. Forðast allt efni sem þetta fyrirtæki sendir frá sér eins og annað ljótt sem ég kæri mig ekki um að komist inn í kollinn á litlu saklausum barni. Ef foreldrar treysta sér ekki til þess að fræða börnin sín um hætturnar sem gætu orðið á vegi þeirra svo sem kynferðislegt ofbeldi heilbrigt kynlíf eiturlyf og áfengisneyslu, eru til menntaðir sérfræðingar í þessum málum sem hægt er að leita til. Víða leynast hættur í lífinu og foreldrar reyna að vernda börnin sín eftir fremsta megni, við þurfum að ala börnin upp í ást kærleika og af festu og vera góðar fyrirmyndir, við verðum líka að þekkja barnið okkar svo vel að við getum lesið líðan þess í augunum, en það kostar nærveru og samverustundir. Börn með sterka sjálfsmynd eru líklegri til þess að bjarga sér gagnvart hættum og freistingum sem leynast handan við hornið. Ekki misskilja mig því ég veit að lífið er dauðan alvara og því miður getum við foreldrar ekki verndað börnin okkar fyrir öllu illu, sama hvað.
      Það að hræða börn á „bola“ var uppeldisaðferð sem töluvert var notuð hér á öldum áður, Guð forði okkur frá þeirri stefnu.

      Líkar við

  2. Athyglisvert og ég get ekki verið ósammála þessu. Kannski las ég þetta ekki nógu vel yfir en ég tók alla vega ekki eftir neinum öðrum hugmyndum. T.d. hvað ætti þá að gera til þess að koma í veg fyrir svona? Á maður bara að krossa fingur?

    Líkar við

  3. Það er mikil einföldun hjá Blátt áfram að halda að það að börn viti af sínum „einkastöðum“ og segi nei, dugi til að stöðva kynferðisbrotamenn. Ég lenti í kynferðisofbeldi sem ólögráða unglingur, sagði nei og vissi fullvel að það væri verið að brjóta á mér. En sá sem nauðgaði mér læsti mig inni, meiddi mig og hlustaði ekki á nei-ið mitt. Ég sagði ekki frá því vegna þess að ég skammaðist mín, m.a. fyrir að hafa gefist upp og ekki slegist á móti.

    Þegar börnum er kennt að það sé einhver „rétt“ aðferð til að bregðast við kynferðisofbeldi, ýtir það undir sektarkennd og vanliðan ef þau lenda í einhverju. Það er sjálfsagt að kenna barninu sínu að það ráði yfir sínum líkama og það megi neita snertingu – hvað snertingu sem er, og það á þá líka við ef amma vill kyssa það bless en barnið vill það ekki. Það þarf ekki að tala við barnið um „pjöllur“ og tippi eða hræða það með því sem sumir fullorðnir vilja mögulega gera við það.

    Líkar við

  4. Góð grein.

    Eru einhverjar peer review rannsóknir sem styðja það að þessi leið sem Blátt áfram er að fara þ.e.a.s. auglýsingarnar sem talað er um og ábendingarnar þeirra séu að skila því að börn og foreldrar séu meira meðvituð um kynferðisofbeldi ?

    Ég tek undir þetta með kvíðann. Þetta hljómar svolítið eins og að segja barni að ljóti karlinn sé allstaðar. Ég held að fyrir það fyrsta eigi bara fagfólk að sinna svona málaflokki. Fagstéttir hafa siðareglur og eftirlit, leikmenn ekki. Þó ég efist ekki um góðann ástetning fólks sem vinnur hjá Blátt áfram þá efast ég um að þessi herferð sé af hinu góða, þvert á móti held ég að hún geri meira vont en gott.

    En ég væri til í að sjá fagleg rök fyrir þessum hræðsluáróðri og hvort hann virki sem forvörn, einhvernvegin efast ég um það.

    Líkar við

  5. Ég fór á fyrirlestur hjá Blátt áfram fyrir nokkrum árum á vinnustaðnum mínum. Ég starfa sem kennari og meirihluti minna samstarfsmanna eru konur.

    Í stuttu máli blöskraði mér þessi fyrirlestur og reiðilestur í garð karlmanna sem þar fór fram.

    Mér var t.d. sagt að koma mér ekki í þá aðstöðu sem kennari að vera einn í rými með nemenda, hvað þá kvennskyns nema.

    Þá spurði ég, enda ný orðinn faðir stúlku hvernig ég ætti að hátta málum heima við. Jú svarið var einfallt, aldrei láta stelpuna sofa á milli, ekki skipta á henni og ekki baða hana því það er jú ekki spurning hvort, heldur hvenær eitthvað gerist.

    Síðan þá hef ég ekki haft miklar mætur á þessum samtökum. Bendi áhugasömum á frábæra fyrirlestra sem heita Verndum þau og eru á vegum æskulýðsvettvangsins.

    Roger.

    Líkar við

    • Sorglegur málflutningur hjá Blátt áfram og ömurleg sýn á heiminn. Ég hefði aldeilis farið á mis við mikið sem barn hefði ég ekki fengið að eiga gott og náið samband við pabba, bræður og aðra karlkynsættingja og -vini. Það virðist sem Blátt áfram geri ráð fyrir því að allir karlmenn séu korteri frá því að breytast í barnaníðing.

      Líkar við

    • Ótrúlega skrítin ráð! Íslenskir feður hafa nýverið fengið hrós fyrir að vera heilsteyptir og eiga trúnað barna sinna. Ég er miður mín að heyra að Blátt áfram hafi gefið þér svona öfugsnúin ráð:(

      Líkar við

  6. Þó svo að ég skilji að þú viljir ekki að sonur þinn sé hræddur við kynferðisafbrotamenn, hvað með hin börnin sem eru svo óheppin að vera, eða hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi og vita ekki hvert þau eiga að leita? Jafnvel halda þau að ofbeldið sé eðlilegt eða þau eigi það af einhverjum ástæðum skilið. Ef þessar upplýsingar geta frætt þau um að þessar snertingar séu ekki í lagi og hvernig þau geta brugðist við og hvert þau geta leitað, er það ekki þess virði að fræða þau? Ég er sammála að samtökin fara út í öfgar þegar það kemur að ofsahræðslu við allt og alla, en málið er að kynferðisafbrotamenn eru bara ósköp venjulegt fólk sem ENGAN grunar. Og ef þessi fræðsla getur mögulega upplýst börn og fengið þau til að segja frá og jafnvel forðast áralangar misþyrmingar finnst mér enginn ætti að geta sett útá hana.

    Líkar við

  7. Mér finnst þessi viðhorf Hildar gagnvart áróðri og vitundarvakningu Blátt Áfram vera algjörlega samhljóma viðhorfum Evu Hauks við áróðri og vitundarvakningu feminista… bæði eru mér fullkomlega óskiljanleg.

    Líkar við

    • Ég get tekið undir þetta með samhljóminn. En ég held að feministahreyfingin gæti lært mikið af því að lesa þessa grein Hildar og sjá hvernig þau eru sjálf að gera sömu mistökin eins og Blátt Áfram.

      Líkar við

  8. Ég lenti í því þegar ég var barn að afi minn káfaði á mér, og það gerðist oft. Samt er ég sammála greinarhöfundi, ég myndi ekki vilja sjá það að börnin myndu fá þessa fræðslu.

    Líkar við

  9. Það á að ala börn upp með allt öðru móti en gert er nú. Það á ekki að kenna börnum að hlýða og treysta fullorðnum skilyrðislaust. Börn eiga að fá að hafa eigin skoðanir, mótmæla og setja eigin mörk. Og þetta á að kenna þeim. Það gerist með að leggja aukna áherslu á rökfræði, heimspeki, tjáningu og listir í skólum og auka samfélagslega umræðu byggða á heimspekilegum grunni, en ekki á innrætingu, heilaþvotti og rétttrúnaði. Þessar greinar, kenndar rétt, ýta undir sjálfstæði, dirfsku og heilbrigða uppreisn. „Góð“ börn lenda frekar í vandræðum. Fullorðnir eiga ekki að vera öruggir í stöðu sinni gagnvart börnunum lengur, eins og var á fyrri tímum, og er það aðeins leyfar af úreltu misrétti og mismunun gagnvart valdalausari þegnum, í þessu tilfelli börnum. Það á að spyrja börn álits á kennurum þeirra og uppalendum og öllum sem koma að þeirra lífi. Halda á fundi með börnunum þar sem þau geta komið með kvartanir sínar. „Mér líkar ekki að kennarinn talar of hátt og er reiðilegur stundum“. Skólastjórar og slíkir eiga síðan að taka mark á slíku. Og grípa til ráðstafana ef þarf. Fátt er algengara í dag en kennarar taki þátt beint og óbeint að leggja börn í einelti. Afþví börnum er ekki kennt að mótmæla, láta í sér heyra og láta í ljós skoðun sína, heldur að vera hlýðin og þæg, rétt eins og konum og þrælum var kennt á fyrri öldum, enda verðandi þegnar neyslusamfélagsins sem eiga ekki til trafala fyrir valdhafana, eins og þrælslundað og latt samfélag sem hvorki þorir né nennir að takast á við skoðanir þeirra elur þau upp, og því geta fullorðnir misnotað þau í mun meira mæli en annars væri. Það er sjúku samfélagi að kenna, en ekki bara sjúkum einstaklingum. Hlýðni krafa samfélags sem leggur áherslu á einsleitni og þægð er rót vandans. Ekki veikindi nýðinganna. Það er hið hlýðna samfélag sem slíkt og krafan um einsleitni sem veldur flestu því ljótasta sem gerist í heiminum. Vondir leiðtogar geta ekkert án leiðitams, hlýðins múgs. Þagnargildi varðandi misnotkun á kynlífi er arfleið miðalda tepruskapar, að ekki megi nefna kynfæri og slíkt, og að það spilli á einhvern hátt „sakleysi“ að vita hvernig börnin verða til, og verði því að ræða um „býflugur og blóm“. Börnin eiga að vita að það eru til morð, nauðganir og slíkt, og, á tímum aukinnar fjölmenningar þegar fleiri og fleiri börn eiga blandaðan uppruna, er líka bráðnauðsynlegt þau fræðist sem fyrst um kynþáttahatur, þjóðarmorð og aðra skelfingu. Að vefja börnin í bómull og láta þau halda lífið sé Disneyland mun ekki gera þeim neitt gott. Það mun gera það líklegra að þau lendi í skelfilegum atburðum síðar á lífsleiðinni og gera þau óhæf að takast á við lífið og tilveruna í framtíðinni. Bara afþví barn veit að það eru til vondir afar, þá heldur það ekki afi sinn sé vondur. Þar sem tölurnar sýna að um tíunda hvert barn lendir í kynferðislegri misnotkun, þá eru foreldrar sem ekkert aðhafast ekkert í mikið skárri málum siðferðislega séð heldur en foreldri sem léti barnið sitt spila rússneska rúllettu. 1 á móti 6 eru ekkert svo mikið skárri líkur en 1 á móti 10. Og kynferðisleg misnotkun hefur stundum afleiðingar sem eru verri en dauði. Blátt áfram kann stundum að ganga of langt eða ekki vanda nóg framsetningu sína og orðalag. Allir sem koma að þeim samtökum eru þó skárri velflestum foreldrum að því leiti að að minnsta kosti gera þau eitthvað. Þeir sem eru ekki að berjast á nokkurn hátt fyrir einhverjum málstað sjálfir eða leggja honum lið, heldur bara rífa niður aðra sem geri það ekki nógu vel, þeir eru ekki að leggja þjóðfélaginu lið á nokkurn hátt, heldur bara hindra framfarir. Nákvæmlega eins og þeir sem eru sjálfir ekki að leiðrétta misrétti á neinn hátt, en eru hins vegar duglegir við að blogga um „helvítis öfga femínistana“

    Líkar við

    • „Þeir sem eru ekki að berjast á nokkurn hátt fyrir einhverjum málstað sjálfir eða leggja honum lið, heldur bara rífa niður aðra sem geri.. “ Þú heldur þó varla að allir sem gagnrýni feministahreyfinguna séu þannig? Og jafnvel þó að það væri rétt (í einhverjum tilfellum er það kannski) þá er réttmæt gagnrýni alltaf til góðs, því hún kemur í veg fyrir að cultistar taki völdin. Sem dæmi um þetta þá er gagnrýni yfirleitt bönnuð í sértrúarsöfnuðum. Þar eru menn líka með heilagan málstað og allir sem mótmæla eru niðurrifsmenn. Þannig að það er heldur öfgafullt hjá þér að fordæma gagnrýnendur með þessum hætti.

      Líkar við

    • fínir punktar en:
      „Fullorðnir eiga ekki að vera öruggir í stöðu sinni gagnvart börnunum lengur“.
      Er þetta eitthvað djók?
      Svo talaru um hlýðni sem einhvern rosalega vondan hlut. Áttaru þig ekki á því að foreldrar þurfa að setja börnum sínum ákveðnar reglur eins og „þú ættir ekki að meiða aðra, ekki stela, ekki ljúga…“ til að þau átti sig á því hvernig við hegðum okkur í okkar samfélagi.

      Líkar við

    • Jahérna Ra að þessi samtök séu skárri en flestir foreldra er heldur dapurlegur dómur yfir foreldrum þessa lands. Mér finnst uppeldisskoðanir þínar nokkuð vafasamar þótt ekki sé meira sagt. Það að kenna börnum hlýðni og halda uppi aga sé skaðlegt börnum er auðvitað fyrra. Börn þurfa leiðandi hönd elskandi foreldra sem kenna þeim á lífið og tilveruna þannig læra þau m.a. að hvorki önnur börn eða aðrir fullorðnir geti stjórnað þeim að vild. Börn þurfa að hafa sterka sjálfsmynd og sjálfsvitund, það læra þau heima í góðum tengslum við foreldra og fjölskyldu. Við eigum ekki að treysta alfarið á að stofnanir sjái um upeldi barna okkar, eins og því miður allt of margir foreldrar gera. Víða í þjóðfélaginu má sjá agalaus ráðvillt óhamingjusöm börn, þessi börn þurfa nauðsynlega að komast í traustann föður/móðurfaðm sem fyrst, áður enn það verður um seinan.

      Líkar við

  10. Ég álít það vera hluta af heilbrigðri hugsun að geta neffnt alla sína líkamshluta. Og ég veit að flest börn tala um þvagfæri sín og annara án þess að sé nokkuð vandræðalegt.

    Viðar F.
    Óheilbrigð kynfeðisleg hegðun er auðvitað vandamál allra. En hún hefur alltaf verið viðfangsefni feminista.

    Líkar við

  11. Mér þykir það vera hluta af heilbrigðri hugsun að geta nefnt líkamshluta sína. Flest börn geta nefnt þvagfæri sín og annara án nokkura vandræða.
    Mér þykir auglýsingin alveg eiga rétt á sér og geta efnt til umræðu þar sem þess er þörf.

    Líkar við

  12. Ég er sammála innihaldi þessarar greinar að mestu leiti. Persónulega sé ég ekkert að því að börn heyri og læri orð eins og typpi og píka (ég þoli ekki þetta orð „pjalla“, hvenær komst það í tísku?). Enginn líkamspartur á að vera feimnismál hvorki hjá börnum né fullorðnum. En ég tel að hræðsluáróður eins og Blátt áfram setja fram sé beinlínis hætturlegur börnum og samfélaginu. Það er stórmál að börnum sé innrætt að allir fullorðir (og unglingar), sérstaklega karlar séu mögulega hættulegir sem beri að varast öll samskipti við. Mér hrýs hugur við því hvernig kynslóð mun vaxa upp sem sér mögulegan óvin í hverju horni og mér hrýs líka hugur hvernig áhrif þetta hefur á samskipti karla við börn sín og ættmenni (ég hef t.d. margsinnis skipt um bleyju á ættingjum mínu „í einrúmi“ og aldrei dottið í hug að neitt athugavert væri við það). Ég vil alls ekki sjá að t.d. systkinabörnum mínu sé kennt að varast öll samskipti við mig af því að ég gæti hugsanlega skaðað þau. Svo ég tali nú ekki um mín eigin börn. Ég fullyrði ef slíkt yrði raunin væri verið að skaða öll börn. Vissulega eru ættingjar stundum sekir um barnaníðslu á ættmennum sínum en að gera það að útgangspunkti allra samskipta allra barna er stórhættulegt þroska þeirra og uppeldi.

    Öll viljum við vernda börnin okkar. Hættur leynast allstaðar og það er okkar hlutverk að lágmarka hættu og skaða sem börn okkar geta orðið fyrir. En þó ég viti vissulega að slys gera oft ekki boð á undar sér, þá væri það hræðileg lausn fyrir barnið mitt að ég bannaði því að fara út af því að það gæti lent í umferðarslysi. Ég kenni barni mín af minni bestu getu hvernig á að haga sér í umferðinni og reyni með því að lágmarka áhættuna. Á sama hátt kenni ég barni mínu að varast ákveðnar kringumstæður, s.s. að fara ekki í bíl með ókunnugum. En ég vil ekki kenna barni mínu að allir ókunnugir séu mögulega hættulegir, hvað þá að kenna barni mínu að allir kunnugir geti verið hættulegir líka. Grundvallaratriðið er, eins og Hildur segir, að kenna börnum okkar að líkami hverrar manneskju er hennar yfirráðasvæði. Það þýðir að enginn má snerta þig án þess að þú gefi leyfi fyrir því sjálfur. Það þýðir líka að þú mátt ekki snerta neina aðra án þess að hafa fyrir því leyfi. Svo einfalt er það.

    Líkar við

  13. Varðandi kennarana og að vera einir með þeim, þá er það tvíeggja. Til eru dæmi um að nemendur fari í prófsýningu (á aðallega við framhaldsskóla) og hóta kennaranum kæru fyrir kynferðislegt áreiti nema þeir hækki einkunn. Þess vegna eru kennarar látnir vera tveir saman í við prófsýningar.

    Annars er öll umfjöllun um kynferðisafbrotamál af hinu góða. Þegar það er hins vegar farið að setja of miklar hömlur á okkur þá getur það orðið til hins verra. T.d. var ég að vinna sem stundarkennari í fyrsta bekk grunnskóla. Ég var einn með börnin og sátum við í hring þar sem ég las sögu. Einn drengurinn datt aftur fyrir sig og lenti leiðinlega á bókahillu, meiddi sig og grét sáran. Þarna hefði ég skv. öllu átt að fara fram og sækja kvenkennara, eða hafa einhvern hjá mér því umræðan er komin á það stig að ég mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum hugga dreginn með að halda á honum eða leyfa honum að sitja hjá mér. Nú á ég 5 ára gamlan son og ef hann dettur og meiðir sig finnst mér sjálfsagt að hann fái einhverja huggun, hvort heldur sem karlmaður eða kona eru við störf. Við meigum ekki gleyma því að það eru ekki allir perrar þó þeir séu karlmenn. Á í alvörunni að setja skorður á alla karlmenn líkt og þeir séu allir mögulega perrar? Slíkt endar einfaldlega með því að karlmenn fái yfir höfuð ekki að vinna með einstaklinga. T.d. læknar, kennarar, þjálfarar og allir þeir sem starfa við ummönnun.

    Líkar við

  14. Mín skoðun er sú að það sem þarf að kenna krökkunum er að láta engan segja sér að halda einhverju leyndu fyrir fólkinu sínu, þ.m.t. foreldrum, og klárlega ekki einhverju sem þau upplifa sem óeðlilegt eða skrítið. Þau þurfa að skilja að leyndarmál og pukur sé neikvætt. Eina undantekningin sé ef þau fá að vita jólagjöf pabba eða mömmu fyrir jól eða afmælisgjöf fyrir afmæli. Krakkarnir munu fatta muninn. 🙂

    Að láta þau lifa í stöðugum ótta er að láta hugsanlega gerendur halda þeim í gíslingu alla ævi – þótt þeir hafi aldrei hitt þau. Það er miklu auðveldara að kenna börnum að forðast leyndina og pukrið heldur en áreitnina sjálfa og oftast er það leyndin og pukrið sem skapar skömmina – oft jafnvel enn frekar en verknaðurinn sjálfur.

    Líkar við

  15. Ég skil vel hvert þú ert að fara með þessa grein, en þessar auglýsingar rjúfa svo sannarlega þögnina.
    Níu ára gömul systir mín var að horfa á sjónvarpið með foreldrunum og sá einmitt þessa „Ég vil ekki að einhver strjúki mér og verði góður við pjölluna mína“ auglýsingu.
    Hún varð um leið lítil í sér og fór inní herbergið sitt, þrátt fyrir að uppáhalds þátturinn hennar var í sjónvarpinu. Stuttu seinna kemur hún aftur með tárin í augunum og segir að maður í fjölskyldunni sem var okkur mjög náinn hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi.
    Hvað ef þessi auglýsing hefði farið framhjá henni? Í hversu mörg ár myndi hún halda þessu leyndarmáli fyrir sig og hversu mikið myndi þetta byrgjast innra með henni, og í kjölfarið valda henni mikilli vanlíðan.

    Líkar við

  16. Í þetta sinn er ég algjörlega sammála Hildii og þakklát fyrir umræðuna. Skil ekki alveg hversvegna einhverjir foreldrar senda börn sín á „námskeið“ hjá blátt áfram, myndi aldrei treysta þessu fyritkæki fyrir uppeldi barna minna. Hringdi í skólann sem dóttir mín er í til þess að athuga hvort þetta fyritæki kæmi í skólann án vitundar foreldra, svarið var að það væri eitthvað misjafnt eftir skólum en í þessum skóla væru foreldrar spurðir. Eins gott hugsaði ég því svona ítroðsla er börnunum skaðleg og lítt til framdráttar. Forðast allt efni sem þetta fyrirtæki sendir frá sér eins og annað ljótt sem ég kæri mig ekki um að komist inn í kollinn á litlu saklausum barni. Ef foreldrar treysta sér ekki til þess að fræða börnin sín um hætturnar sem gætu orðið á vegi þeirra svo sem kynferðislegt ofbeldi heilbrigt kynlíf eiturlyf og áfengisneyslu, eru til menntaðir sérfræðingar í þessum málum sem hægt er að leita til. Víða leynast hættur í lífinu og foreldrar reyna að vernda börnin sín eftir fremsta megni, við þurfum að ala börnin upp í ást kærleika og af festu og vera góðar fyrirmyndir, við verðum líka að þekkja barnið okkar svo vel að við getum lesið líðan þess í augunum, en það kostar nærveru og samverustundir. Börn með sterka sjálfsmynd eru líklegri til þess að bjarga sér gagnvart hættum og freistingum sem leynast handan við hornið. Ekki misskilja mig því ég veit að lífið er dauðan alvara og því miður getum við foreldrar ekki verndað börnin okkar fyrir öllu illu, sama hvað.
    Það að hræða börn á „bola“ var uppeldisaðferð sem töluvert var notuð hér á öldum áður, Guð forði okkur frá þeirri stefnu.

    Líkar við

  17. Ég held innlegg „aðstaðdenda“ hafi sagt allt sem segja þarf. Auglýsingar af þessu tagi koma í veg fyrir ótal sjálfsmorð og þær auka líkurnar á að börnin segi frá, sem þýðir að þau geta fengið sálfræðiaðstoð og hjálp við að jafna sig, frekar en að mörg ár af lífi þeirra fari í súginn við að vinna úr þessari erfiðu reynslu, sem er oft raunverulega ástæðan fyrir flestu því sem illa fer í lífi fórnarlambanna.

    Líkar við

  18. Burtséð frá því hversu ómálefnalegur, illa skrifaður og óvandaður þessi pistill er, nær það engri átt hvað hann er bjánalegur. Blátt áfram eru félagasamtök og þau eru ekki rekin í gróðraskyni. Innkoma félagsins fer í að greiða starfsmönnum til að halda fyrirlestra, búa til fræðsluefni og svo framvegis. Markmið félagsins er ekki að kenna fólki að bregðast við í kjölfar kynferðisbrota heldur að koma í veg fyrir þau. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að hver og einn einasti foreldri fari fram á sakaskrá og meðmæli frá hverjum einasta aðila sem að umgengst börnin þeirra. En þetta ýtir við fólki, fær það til að hugsa og um það snúast forvarnir. Börn eru jafn misjöfn og þau eru mörg. En börn gráta sig í svefn yfir tilhugsuninni um að pabbi fari frá þeim og komi ekki aftur af því að pabbi hans Stjána í bekknum gerði það. Börn gráta sig í svefn yfir tilhugsuninni um að amma deyji af því að amma hennar Siggu var að deyja. Börn gráta sig í svefn því þau eru hrædd við bófa, morðingja, ræningja og unglinga ! Það að þau verði hrædd við að fá fræðslu um að þau eigi ekki að sætta sig við að einn né neinn komi nálægt kynfærum þeirra eða snerti þau eins og þeim þykir óþægilegt er ENGINN grundvöllur þess að börn eigi ekki að fá fræðslu um helvítis viðbjóðinn sem að kynferðisofbeldi er og að enginn eigi að eiga með þeim leyndarmál, fá að snerta þau, láta þau gera það sem þau vilja ekki og svo framvegis. Og þó að það sé ógeðslegt að segja það, er ískaldur raunveruleikinn sá að þó að börn verði hrædd við nauðgara er það þess virði ef það kemur í veg fyrir að þau verði að þolendum kynferðisofbeldis.

    Líkar við

  19. Bakvísun: Hildur Lilliendahl, femínismi og jafnrétti | Sjomlatips.is

Færðu inn athugasemd