Kolbrjálaðar kuntur – opinber yfirlýsing

Frá ritstjórn:

Á dögunum birtum við ádeilumyndband frá aðgerðahópnum Kolbrjálaðar kuntur hér á Knúzinu. Efnistök myndbandsins og nálgun voru svo umdeild, bæði innan ritstjórnar og meðal lesenda vefritsins, að ákveðið var að draga birtinguna til baka. Þessi yfirlýsing frá sama aðgerðahópi barst okkur í gær. Þrátt fyrir að ritstjórn knuz.is sé enn sem fyrr ókunnugt um hverjir standa á bak aðgerðahópnum teljum við rétt að birta yfirlýsinguna.

—–

Við erum kolbrjálaðar kuntur.

Þann 7. ágúst síðastliðinn birtum við myndband á Vimeo þar sem við beindum reiði okkar að nauðgunarmenningunni með því að taka fyrir þekktan íslenskan karakter innan hennar sem kallar sig Gillzenegger. Við lömdum í vörubretti, hrintum ónýtum spýtum, mökuðum túrblóði  (rauðri málningu) á mynd af þessum karakter og kveiktum í henni. Við huldum okkur vegna þess að femínistum og þolendum kynferðisofbeldis hefur verið hótað nauðgunum og lífláti fyrir að tjá sig. Þetta er okkar vörn gegn sexistum og yfirvöldum. Textinn í laginu við myndbandið var bein speglun á hatrið sem kemur fram í skrifum Gillzeneggers sem kapítalíska gróðamaskínan birtir og dreifir í nafni húmors – til hamingju 365 miðlar, Vaka Helgafell, Þjóðhátíð og þið öll hin sem græðið á nauðgunarmenningu.

Þessi húmor er samþykktur sem dægurmenning, bók Gillz, Biblía fallega fólksins, var metsölubók og vinsæl gjöf til ungmenna í jóla- og fermingargjafir. Ádeilumyndband okkar var hinsvegar tekið út eftir hálfan dag, vegna kvartana til Vimeo, því það þótti hatursfullt og ofbeldisfullt. Við sendum myndbandið á DV, Vísi og Knúzið. Pressan og Knúzið voru einu miðlarnir sem birtu það en Knúzið eyddi færslunni með yfirlýsingu um að ekki hafi náðst samstaða um birtinguna. Það þarf víst að vera samstaða um tjáningarmáta innan femínisma.

Ef þetta er of gróft, hvað eru þá viðeigandi viðbrögð við nauðgunarmenningu?

Hvað haldiði eiginlega að nauðganir séu? Er nauðgun blaðagrein sem við eigum að svara með annarri snjallri grein og langri heimildaskrá? Er ekki bara þægilegt fyrir þetta „lið” að við sendum góðar greinar, skrifum bréf til yfirvalda, gerum undirskriftalista, ýtum á like og share og förum svo í jógastellingu og sendum kærleika á nauðgunarmenninguna. Sama hvað við gerum, umfram allt á að halda ró sinni, vera yfirvegaðar, passívar, kurteisar og sætar.

Með fullri virðingu og þakklæti til allra sem skrifa upplýsandi greinar um kynferðisofbeldi, þá er ÓÞOLANDI að þetta séu einu leiðirnar sem eru samþykktar.

Fólk er stöðugt með hugmyndir um hvað sé gott og ekki gott fyrir baráttuna en er kannski búið að gleyma því að baráttan kemur frá raunverulegri reynslu af kúgun. FEMÍNISMI ER EKKI ÁHUGAMÁL! Þau réttindi sem við höfum í dag komu ekki á silfurfati heldur af því það var fólk sem öskraði, barðist, var fangelsað, fórnaði lífi sínu, eða var drepið fyrir að tjá sig. Það er ekkert nema hroki og valdníðsla að flagga passívisma framan í femínista og þolendur kynferðisofbeldis og segja þeim hvernig þau eigi að díla við ofbeldi.

Þegar konur bregðast tilfinningalega við kúgun eru þær oft sagðar vera tæpar á geði, ímyndunarveikar, móðursjúkar, of reiðar, ýktar, dramatískar, húmorslausar, hörundssárar eða erfiðar. Það er ekkert nýtt, þetta er elsta þöggunaraðferðin í bókinni. Okkur er alveg sama hvað þið viljið kalla okkur. Við erum kolbrjálaðar kuntur og meðan við lifum þá berjumst við. Við erum kolbrjálaðar kuntur og við erum stoltar af því.

Útrýmum nauðgunarmenningu.

 

utrymum naudgunarmenningu

25 athugasemdir við “Kolbrjálaðar kuntur – opinber yfirlýsing

  1. Gott að fá þessa yfirlýsingu og opna þannig á umræðu um myndbandið, baráttuaðferðir og fleira því tengt. Þetta var mitt framlag í umræðu knúzverja á sínum tíma:

    „Orð eru til alls fyrst. Beitt, hnitmiðuð frásögn, hugsanlega kaldhæðin og kraftmikil eða persónuleg og einlæg, hittir best í mark, nær athygli, vekur samúð, fær fólk til að hugsa (jafnvel sjálfstætt) og álykta. Flest af þessu á við um metfærsluna okkar á Knúz „Allir sér skemmta í dalnum“. Þessi færsla fór sem logi um akur á netinu, fékk sjálfbæra dreifingu án aðkomu „stóru netmiðlanna“. Hún hafði meiri áhrif en þúsund tilfinningalegar upphrópanir um fyrirbærið Gilzenegger sem við höfum öll skoðun á og höfum tjáð hana, þó mismikið sé. Mörg okkar hafa staðið í mismiklu orðaskaki við JBG og fleiri um þessa meintu samfélagslegu tilraun eins og hann kallar EE eða Gilz. En Páll Svansson hitti naglann á höfuðið í orðaskiptum sínum við Jakob þegar hann sagði að þetta fyrirbæri væri misheppnað, lélegt og hefði litað og bjagað umræðuna um jafnréttismál.

    Myndband Kolbrjáluðu Kuntanna var allt sem ofangreind færsla var ekki. Ég efa ekki góðan tilgang og mín samúð verður alltaf með þolendum og andstyggð á gerendum. En þessi persónugerving er ekki í anda þeirrar málefnalegu umræðu sem við viljum halda á lofti. Finnst mér. Við viljum (vona ég) ekki fara í manninn, heldur boltann. Við sjáum nóg dæmi um slíka vitleysu í albúminu hennar Hildar. Við getum barist gegn nauðgunarmenningu, fordómum, karlrembu, haldið fána jafnréttis á lofti við öll tækifæri án þess að fara niður á þetta plan og það hefur okkur tekist þokkalega, ef marka má útbreiðslu og áhrif knúzz.

    EE/Störe/Þykki/ Muscleboy/Gilz er ekki „fánaberi nauðgunarmenningar“. Hann er fordómafull karlremba með skítleg viðhorf og hefur opinberað þau í skrifum sínum. Hans eigin orð verða honum mest að falli eins og ofangreind færsla leiddi í ljós. Það er sannarlega hægt og kominn tími til að halda jafnréttisumræðunni áfram án þess að nefna þennan tiltekna einstakling. Hann hefur bjagað nóg með bulli sínu.

    Í umræðuhala við umfjöllun DV sagði Úlfar Viktor Björnsson þetta, meðal annars. Ég get tekið undir með honum.

    „Við komumst ekkert áfram í jafnréttisbaráttunni ef við ætlum að vera endalaust að fleygja skít í hvort annað. Við lifum í landi sem er talið vera eitt besta land til þess að lifa í hvað jafnrétti varðar. Hvernig væri ef við myndum bara öll byrja að virða hvort annað, hvernig væri ef við myndum öll hætta að ásaka hvort annað um eitthvað sem við höfum ekki hugmynd um? Hvernig væri ef við myndum fara að grafa þessar stríðsaxir sem mörg okkar nota (þó aðallega á internetinu)? Hvenær ætlum við að fara að ná þessari umræðu upp á hærra plan?“

    Við þetta má bæta. Skoðanir eru og voru skiptar meðal aðstandenda knúzz. Þetta er mín skoðun og ekki endilega allra. En til þess eru skoðanir að skiptast á þeim.

    Líkar við

    • Gísli minn!

      Eina ástæðan sem mér dettur í hug fyrir því að þú sért að draga mig í þessa bjálfalegu umræðu er að enn hefur þér ekki dottið í hug nein mótrök við því sem ég hef haft fram að færa um þessi mál. Það er hvorki mikið né flókið ef að er gáð:

      Þú sviptir ekki einhvern réttinum til tvíræðni á þeim forsendum að þér finnist ekki viðkomandi fyndinn eða smekklegur.

      Punktur. Síðan má ræða þetta út frá ýmsum vinklum en málið er einfaldlega að þeir sem vilja verja slíkt gerræði lenda fljótlega í ógöngum því þeir hljóta að tala gegn tjáningarfrelsinu og boða miðstýrða orðræðu og list. Að hún verði að vera svona og svona, þóknanleg samkvæmt einhverjum rétttrúnaði ríkjandi þá stundina. Að t.d. listamenn hafi tekið þennan pól í hæðina er ofar mínum skilningi.

      Aðförin gegn Gillz byggist á takmörkuðum vitsmunum að mínu mati. Og það sem margir hafa látið frá sér fara og standa á þessum hála ís er þeim til háborinnar skammar og háðungar. Þetta mun tíminn leiða í ljós í rólegheitum.

      Kveðja,
      Jakob

      Líkar við

      • Ps. Þú sviptir ekki einhvern réttinum til tvíræðni á þeim forsendum að þér finnist ekki viðkomandi fyndinn eða smekklegur — og ákveður svo eftir hentugleik hvenær taka skuli orð bókstaflega og hvenær ekki. Formerkin er varðar það sem karakterinn Gillz segir eru algerlega kýrskýr. Og ef menn tækju nú hausinn úr rass… ég meina sandinum og skoðuðu hans verk að einhverju viti þá beinist grínið nú, þegar allt kemur til alls, að þeirri týpu sjálfri. Grín er öfugsnúið fyrirbæri. Reiði, heift og móðgunargirni er ekki vænlegar tilfinningar að hafa með í farteskinu vilji menn hugsa skýrt. Það er nú eitt af því mörgu sem þetta mál ætti að hafa kennt okkur.

        Líkar við

  2. Sem ein af ritstjórn knúzzins studdi ég afturköllun myndbandsins, einkum vegna þess að ég var mjög efins um að birta það til að byrja með. Ég get tekið undir orð Gísla hér að ofan um að aðferðin sem er beitt í t.d. færslunni „Allir sér skemmta í dalnum“ (sjá hér: http://knuz.is/2013/08/01/allir-ser-skemmta-i-dalnum/) sé að mínu viti skilvirkari en að maka táknrænni málningu eða rífa í sundur mynd af einstaklingi/fígúru sem í raun er ekki vandinn sem slíkur, heldur einkenni hans. Vandinn er heildrænn og samfélagslegu, ekki einstaklingsbundinn.

    Hér að ofan er spurt hvort það þurfi að vera samstaða um tjáningarmáta innan femínisma. Nei, myndi ég svara til – sem einstaklingur, ekki fyrir hönd ritstjórnar knúzzins – en vefritið knuz.is er ekki „femínismi“ sem heild heldur einn þeirra miðla sem byggir á femínisma. Þar eru teknar ritstjórnarlegar ákvarðanir sem vissulega þarf að vera samstaða um, en það segir auðvitað ekkert um það hvaða aðferðum eða nálgun aðrir femínistar kjósa að beita. Hver verður að velja þá aðferð sem þeim hugnast best – mér hugnaðist ekki ofbeldið í þessu myndbandi og sú ofuráhersla sem þar var lögð á einn einstakling, sem fékk þar að mínu mati of mikið vægi og í raun einhvers konar „upphafningu“, þótt með öfugum formerkjum væri. .

    Líkar við

  3. Gott að heyra frá kolbrjáluðu kuntunum og fá þeirra sýn á málið. Byltingar verða aldrei kurteisar. En það er hægt að vera rebel á margvíslegan hátt án þess að nota ofbeldisgjörning til þess.
    Ég veit að þið gerðuð ekkert annað en það sem oft er gert gagnvart femínistum og brotaþolum nauðganna og leyfðuð öðrum að bragða á eigin meðali. Kannski helgar tilgangurin stundum meðalið.
    Þetta er hinsvegar meðal sem meiðir og þess vegna get ég ekki samþykkt þessa aðferð sem baráttuaðferð sem ég vil taka þátt í. Hún virkar ekki fyrir mig því mér finnst ég vera að praktisera það sem ég fordæmi. Ég viðurkenni hinsvegar fúslega að ég hef barið í púða, öskrað og sagt allskyns hluti ein með sjálfri mér, en ég mun ekki gera það á opinberum vettvangi, þó ég væri hulin.

    Ég skil reiði ykkar og þörfina fyrir útrás. . Reiði er góð, máttug og nauðsynlegur hluti af því að heilast af kynferðisofbeldi. Hún setur mörk, girðingu utan um okkur sjálfar og segir að okkur sé nóg boðið. Það er ekkert að því að vera reiður, spurning er bara hvað við gerum við þessa reiði. Setjum við hann í farveg sem er góður fyrir okkur.
    Það er spurning sem þið einar getið svarað fyrir.
    Meðferðin sem þið fenguð á kommentakerfum sýnir hinsvegar að það sem þið gagnrýnduð fékk meiri samúð en þið hafið eflaust viljað. Ég var sjálf hrædd um að svo færi.

    Aðferðirnar eru margar og eru fleiri en bara að skrifa greinar um kynferðisofbeldi. Aktivismi er stundaður víða og hann gerður á alls konar hátt. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt að mínu mati, sama hversu tilgangurinn er göfugur.

    Að því sögðu óska ég ykkur alls hins besta í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.

    Líkar við

  4. Því miður gafst mér ekki tími til að sjá myndbandið áður en það var tekið niður. Ég las hins vegar textann í laginu og fannst hann vera fyrir neðan allar hugsanlegar hellur. Fyrir utan hversu illa skrifaður hann var voru efnistökin engu skárri heldur en það sem maður heyrir í versta hatursáróðri, t.d. gegn konum, og því lagst niður á sama plan og þeir einstaklingar sem stunda hann af kappi. En svo ég tjái mig aðeins um þessa yfirlýsingu og taki hana lið fyrir lið:

    Kolbrjálaðar kuntur segjast beina reiði að nauðgunarmenningu. Nei! KK beinir blindu hatri að einum einstakling sem hefur verið ásakaður, með nokkrum rétti, að vera partur af vandamálinu. Þegar er talað um að drepa einhvern og limlesta í texta ertu kominn yfir í hatur, sem er allt annar hlutur en réttlát reiði
    KK segjast hafa hulið sig til að forðast ofsóknir. Ég kaupi það engan veginn. Mér finnst það enn eitt dæmið um bleiðuskap ákveðinna hópa í þjóðfélaginu, samanber svartstakka í Búsáhaldabyltingunni. Um allan heim berst fólk fyrir bættum réttindum án nokkura gríma, í löndum þar sem það fólk þarf í alvörunni að óttast um líf sitt. Í dag var ég að lesa grein um Sampat Pal, merkilegan femínista frá Indlandi sem rekur samtök upp á 20.000 manns sem í alvörunni ganga í skrokk á nauðgurum og mönnum sem stunda heimilisofbeldi. Þessari konu hefur aldrei dottið í hug að fela ásjónu sína, þrátt fyrir að hún sé í miklu meiri raunverulegri hættu heldur en KK nokkurn tímann.
    KK kvartar yfir því að efnið þeirra sé ekki birt fyrst það var ekki samstaða um birtinguna og lætur í það skína, á kaldhæðnislegan máta. Þvílíkt og annað eins væl! Þetta er bara eins og á hverri annarri ritstjórn. Sumt efni er samþykkt, annað ekki. Persónulega hefði ég aðallega lagst gegn efninu því það er illa skrifað drasl fyrir utan að vera hatursáróður.
    Það er hárrétt sem KK segir að fólk öskraði, barðist, var fangelsað, fórnaði lífi sínu eða var drepið fyrir að tjá sig. Þetta eru hlutir sem ég held að KK hafi engan skilning á eða beri enga virðingu fyrir, ekki fremur en við flest á Vesturlöndum með öll okkar réttindi. Ef þau gerðu það væru þau ekki að drulla yfir allt sem hefur áunnist með því að skríða eins og snákur eftir sama foraði og karlar sem hata konur eða aðrir hópar velta sér upp úr daglega. Það er eins og KK haldi að ekkert ávinnist nema með því að súnka niður á þetta plan. Ef að fólk eins og KK hefði einhvern minnsta snefil af hugrekki myndu þau ekki dulbúast. Ef að fólk eins og KK væru eitthvað annað en hlægileg myndu þau stunda það sem þau predika, taka fólk eins og Gillz, krossfesta og kveikja í. Mér þætti gaman að sjá hversu mikla illa ígrundaða simpatíu þau fengju þá.

    Allt þetta bréf KK er blanda af ógeðfelldu mikilmennskubrjálæði blandað enn ógeðfelldari fórnarlambskomplex. Búhú, það eru allir svo vondir við okkur, bara af því við hótuðum manni morði og misþyrmingum.
    Öllum þeim sem er raunverulega annt um mannréttindi kvenna skora ég á að forsmá þennan hóp með öllu og sjá til þess að hann lendi þar sem hann á heima, á ruslahaugunum.

    Líkar við

      • Að kalla sjálfan þig Svartstakk og vera stór bak við dulnefnið gerir þig ekki að einum. Seinna kommentið er ekki svara vert en eins og ég hef áður nefnt þá hafa Svartstakkarnir, ekki fremur en KK, hugrekki til þess að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir.
        Í Búsáhaldabyltingunni fannst mér Svartstakkar einungis taka þátt vegna þess að þeir voru að fá kick út úr því, ekki út af því þeir vildu koma á fót einhverjum raunverulegum breytingum.

        Líkar við

      • Auðvitað verður byltingin að vera skemmtileg, það verður að vera eitthvað kikk, eitthvað fjör. Nóg er af leiðindum nú þegar. Og hvað eru raunverulegar breytingar annað en skilgreiningaratriði Sveinbjörn minn? Vertu ekki of viss um að þú getir sammælst með of mörgum um það í hverju raunverulegar breytingar felast.

        Annars segir það, að þér hafi fundist Svartstakkar einungis taka þátt vegna eins eða annars, bara nákvæmlega ekki neitt um það hvers vegna Svartstakkar tóku þátt. Þú veist bara ekki baun um það. Ekki neitt.

        Þetta þvaður um að menn og konur hafi ekki hugrekki til hins eða þessa er orðinn ansi þreyttur frasi. Einar Már Guðmundsson benti á það á Austurvelli, eftir að Hörður Torfason fór með þennan hugrekkisfrasa sem þá þegar var orðinn skraufaþurr og þreyttur, að í samfélagi þar sem fólk hefur rétt á að fela hvað það kýs, þar hljóti fólk líka að hafa rétt til að fela andlit sín og persónueinkenni í mótmælum. Mótmæli eru auðvitað bara annað form stjórnmálaafskipta, ekkert ómerkilegra en það að kjósa.

        Kunturnar kjósa að gera það nafnlaust og án þess að troða smettinu á sér framan í pólitíkina. Þá geta þær fengið að vera í friði í sínu dags daglega lífi og sleppa við allt persónulega skítkastið. Og er það ekki bara fínt? Eða hefur þú eitthvert siðferðislegt vald til að skipa fólki fyrir um þegnlega hegðun eftir bókinni ellegar vera fleygt á ruslahaugana? Talandi um að falast eftir því að fá kikk út úr hlutunum!

        Annars er ég alltaf í svörtu og kem til dyranna nákvæmlega eins hvort sem það er lögreglan, sósíaldemókratinn eða stjórnleysinginn sem bankar upp á. Svo það sé á hreinu. Er bara aðeins léttklæddari heima en úti, svona ef þér dettur í hug að banka uppá einhvern daginn. Er með Ulrike Meinhof á fóninum, Valerie Solanas í bókrollunni og Andy Warhol í ofninum.

        Líkar við

      • Svo ég taki þetta lið fyrir lið:

        Svo að þín hugmynd að fjöri er grjótkast, íkveikjur og skemmdarverk? Það er fyrst og fremst það sem Svartstakkarnir stunduðu. Allt í fína, hver hefur sinn smekk.

        Ef þið ætlum að fara í að skilgreina hvað séu breytingar og hvað ekki getum við svo sem haldið áfram í heila viku. Bjóðum þá endilega fleirum að vera með í því. Persónulegt mat mitt á þeim breytingum sem Svartstakkarnir komu á er: 0. Kannski er þitt mat öðruvísi.

        Þú segir að ég viti ekki baun um af hverju Svartstakkar tóku þátt í Búsáhaldabyltingunni. Gott og vel, ég get fallist á það. Uppfræddu mig þá endilega um það fyrst þú ert sérfróður. Ég fékk allavegana ekki neinar upplýsingar í þessum síðasta pistli frá þér.

        Á Vesturlöndum, eins og annars staðar, lifum við eftir ákveðnum siðum, reglum og réttindum. Eitt af þeim er rétturinn að horfa framan í fólk. Því er ég ósammála þessari skilgreiningu Einars Más. Rétturinn til að kjósa leynilega er hins vegar til staðar til að vernda kjósandann fyrir ríkinu. Nú segir þú kannski að dulbúningurinn sé í sama tilgangi. Það sem fólk má í mesta lagi búast við frá yfirvöldum hér á landi eru sektir eða skilorðsbundnir dómar. Víða annars staðar er það versta sem fólk má eiga von á er að það og öll fjölskylda þess verði þurrkuð út fyrir að mótmæla hinu og þessu. Það fólk mótmælir hins vegar grímulaust, undantekningarlítið. Útskýrðu það fyrir mér? Við hvað eruð þið svona hrædd?

        „Kunturnar geta fengið að vera í friði í sínu dags daglega lífi og sleppa við allt persónulega skítkastið“. Þar hittir þú einmitt naglann á höfuðið. Það erum hinsvegar við hin sem komum fram undir okkar rétta nafni og andliti sem fáum persónulega skítkastið. Til þess er komið fram undir dulnefni. Ekki út af neinu sem yfirvöld gera heldur til að geta vegið úr launsátri, til að taka aldrei neina áhættu á að fá einhverjar meinlegar athugasemdir út af sinni eigin hegðun. Eins og ég hef áður sagt, það er auðvelt að vera stór á bak við dulnefnið.

        Ég hef ekki siðferðislegt vald til að skipa fólki fyrir um þegnlega hegðun. Enda hef ég aldrei tekið mér það vald. Ég get hinsvegar haft skoðun á málinu. Þú virðist rugla þessu tvennu saman.

        Að lokum skora ég á þig að droppa dulnefninu. Ég er ekki að segja að það sé raunin en dulnefni láta viðkomandi líta út fyrir að vera það óöruggan um eigin skoðanir að hann þori ekki að koma fram undir sínu rétta nafni.

        Sjálfur er ég með The Smiths á fóninum, Hunter S. Thompson uppi í bókahillu og ekkert í ofninum sem stendur.

        Góðar stundir.

        Líkar við

  5. Krafan um kurteisi og yfirvegun í baráttu gegn nauðgunum er óþolandi. Sú mynd sem dregin var upp sums staðar, að hér væri um að ræða „deilur“ milli tveggja „aðila“ þar sem báðir „ganga of langt“ er fáránleg. Hvaða tvær hliðar eru þetta? Annars vegar nauðgarar og hins vegar þeir sem vilja ekki láta nauðga sér (eða öðrum)? Ég er líka ekki sammála þeirri hugmynd að hægt sé að þegja týpur eins og Gilligill í hel. Hann er svo sannarlega réttnefndur P.R. fulltrúi nauðgunarmenningar. Ég myndi nota það hugtak í stað „fánaberi“, en ok.
    Að þessu sögðu þá er spurning hvort þetta vefrit getur birt efni án þess að hafa hugmynd um hvaðan það kemur. Ég studdi þá ákvörðun að birta tengil á myndbandið sem lið í stríðinu gegn nauðgunum vegna þess að ég taldi að það gæti virkað valdeflandi fyrir einhverja. Mitt persónulega mat á innihaldinu, textanum og tónlistinni er svo kannski annað mál.

    Líkar við

  6. Ég segi bara áfram kuntur! og líka áfram greinaskrifarar! áfram one on one
    samræður! áfram lagabreytingar! áfram andlit! áfram grímur! osfrv.

    Það kraumar í mér þegar ég les svona „það verður að vera samstaða um
    breytingarnar/breytingaferlið“ ummæli. Það er ekki eins og við séum öll að
    standa saman í íbúðarkaupum eða eitthvað! Þetta tengist lífi okkar á
    talsvert flóknari hátt.

    Ég verð nú líka að viðurkenna að mér finnst mjög skítið að lesa þessi
    ummæli frá þér Gísli:

    “Orð eru til alls fyrst. Beitt, hnitmiðuð frásögn, hugsanlega kaldhæðin og
    kraftmikil eða persónuleg og einlæg, hittir best í mark, nær athygli,
    vekur samúð, fær fólk til að hugsa (jafnvel sjálfstætt) og álykta. Flest
    af þessu á við um metfærsluna okkar á Knúz “Allir sér skemmta í dalnum”.
    Þessi færsla fór sem logi um akur á netinu, fékk sjálfbæra dreifingu án
    aðkomu “stóru netmiðlanna”. Hún hafði meiri áhrif en þúsund
    tilfinningalegar upphrópanir um fyrirbærið Gilzenegger sem við höfum öll
    skoðun á og höfum tjáð hana, þó mismikið sé“

    Viljum við í alvörunni hafa eina rödd femínisma? Ég man ekki eftir því að
    hafa skrifað undir samstöðuyfirlýsingu á baráttuaðferðum innan femínisma á
    Íslandi og ég myndi aldrei gera það. Ég get haft og hef allskonar skoðanir
    á mismunandi aðferðum innan femínískrar baráttu en ég sýni þeim flestum
    samstöðu, samstaða snýst ekki endilega um að vera sammála eða finnast
    eitthvað töff og kúl.

    Og sorrí, ég veit að þetta er örugglega pirrandi, en mér finnst fáránlegt
    þegar karlmenn (hvort sem þeir kalla sig femínista eða ekki) tala um
    hvernig sé best og ekki best að há baráttu þar sem þeir eru fyrir í
    forréttindastöðu, mér finnst líka fáránlegt að konur innan femínískrar
    baráttu tala um hvernig aðrar konur eigi að haga sér innan baráttunnar og
    bara hvaða barátta sem það er. Þetta er ekki lionsklúbbur.

    En svo er alveg skiljanlegt að knúzið taki ritstjórnarlegar ákvarðanir og
    að meðlimir innan þess hafi mismunandi skoðanir á mismunandi aðferðum.
    Þannig lagað séð finnst mér ekkert undarlegt að þið viljið hafa áhrif á
    það hvað birtist hérna. Þetta er rými sem þið bjugguð til. En segið það þá
    bara: knúzið er fyrir hugsanlega kaldhæðna, kraftmikla, einlæga, hnyttna,
    orðheppna, sniðuga femínista, eða eitthvað þannig.

    Ekki rugla saman samstöðu femínista við ritstjórnarlegar ákvarðanir Knúzzins.

    Líkar við

    • Sæl Björg,

      ég verð að játa að mér finnst það býsna langt seilst að túlka ritstjórnarlegar ákvarðanir eða umræðu um þær í ritstjórn sem viðleitni til að reyna að stjórna allri femínískri orðræðu eða „rugla samstöðu femínista“ (sem er stór og afar margbreytilegur hópur) „saman við ritstjórnarlegar ákvarðanir“. Femínísk umræða og orðræða hefur ótal fleti og nær að sjálfsögðu langt út fyrir þann vettvang sem knúzið er. Hvað sem hverjum og einum kann að finnast um myndband Kolbrjáluðu kuntanna held ég að það sé varla ofmælt að það hafi verið mjög próvókerandi og í raun afar skiljanlegt að það hafi ekki allir verið sammála, hvorki í hópi lesenda né innan ritstjórnar knúzzins, um það hvort það hafi verið rétt að birta það, né heldur um það hvort það hafi verið rétt að draga þá birtingu til baka. Próvókerandi efni getur verið gott og nauðsynlegt, en það er sjaldan óumdeilt, enda tilgangurinn með slíku efni varla sá að vekja almenna sátt um það.

      Líkar við

      • já ég er alveg sammála þér að það væri ansi langt seilst ef það hefði verið meiningin mín en það er nú samt ekki það sem ég vildi sagt hafa. Kannski og örugglega var það eitthvað óskýrt en ég var að tala um þetta í samhengi við ummæli Gísla og þinna reyndar líka, ég hefði líklega getað sleppt því og linkað bara á grein Guðnýjar Elísu sem var birt hérna um daginn. Mér getur eiginlega ekkert fundist um þetta myndband þar sem ég sá það ekki, en heyrði lýsingar af því og las textann (persónulega segi ég go kuntur en veljið ykkur annan vettvang). Mér finnst alveg eðlilegt að ritstjórn knúzzins taki sínar ákvarðanir um efni síðunnar, því meðlimir hennar þurfa á endanum að taka ábyrgð á því. Ég var að reyna að tjá mig um þessi ummæli sem snérust svolítið um hvernig ‘best’ sé að há femíníska baráttu og eitthvað um málefnaleika sem er umræða sem ég fæ útbrot af. Ég upplifði ákveðna þöggunartilburði í þessum ummælum og varð þess vegna dálítið reið. Þá vildi ég einnig bæta við að samstaða femínista getur verið til staðar þó maður sé sjálfur ekki sammála tiltekinni aðferð.

        Líkar við

    • Kæra Björg.
      Þar sem ég sé að hér er vitnað í mig er rétt að svara:
      „“Orð eru til alls fyrst. Beitt, hnitmiðuð frásögn, hugsanlega kaldhæðin og
      kraftmikil eða persónuleg og einlæg, hittir best í mark, nær athygli,
      vekur samúð, fær fólk til að hugsa (jafnvel sjálfstætt) og álykta….“
      Ég verð vonandi alltaf talsmaður fjölbreyttra aðferða til að ná árangri og finnst flest koma til greina í þeim efnum. Engin ein rétt leið er til. Þótt ég sé karlmaður (og í forréttindastöðu), vona ég að ég geti tjáð mig um baráttuaðferðir og geri það svikalaust í þessu svari mínu. Það þýðir ekki að mín afstaða sé sú eina rétta. Langt frá því. Ég vildi kalla fram umræður um myndbandið og yfirlýsingu KK og ég vil gera ákveðnar kröfur til efnis sem er birt á knúz.is. Myndbandið er nú horfið en eftir stendur textinn, sem mér finnst óímunnberandi vegna innihalds. Ég hvatti til þess að reyna að berjast gegn nauðgunarmenningu án þess að orðið Gilzenegger kæmi fyrir (vegna þess að það væri orðið þreytt) Ég var um leið mjög sammála grein GEG um kurteisu byltinguna (sbr. tilvitnuð orð hér að ofan).
      Ég vona að KK sendi frá sér fleiri myndbönd, komi helst fram undir nafni (sem er auðvitað þeirra val), með hnitmiðaða og beitta ádeilu. Ég skal hvetja til birtingar á slíku efni á vettvangi knúzz. Kk. Gísli

      Líkar við

  7. sorrí með setningaröðunina, það var eitthvað vesen með security token á síðunni (finn út úr því á einhverju forumi) svo ég þurfti að kópí peista í annarri tölvu. Vonandi er þetta læsilegt.

    Líkar við

  8. Ég segi áfram óþekkir femínistar og KBK! Loksins kemur eitthvað ögrandi og skemmtilegt inní baráttuna, orðin ansi þreytt á þessum borgaralega femínisma hérna. Við búum í ógéðslegri nauðgunarmenningu, ég sá myndbandið og skil ekki afhverju fólk er svona viðkvæmt gagnvart því, hvað er að því að brenna mynd af Gilz, í alvöru? Kannski er kominn tími á að við femínistar hittumst og brennum myndir af sexistum, það væri nú ansi valdeflandi 🙂

    Líkar við

  9. Hér hafa myndast kröftugar umræður um „viðeigandi viðbrögð við nauðgunarmenningu“ og er það vel. Ég er meðlimur í Knúzhópnum og hvatti til þess að færslan yrði fjarlægð. Ástæðurnar voru margþættar, sumar hafa verið nefndar hér, en mig langar til að nefna eina enn.

    Kolbrjáluðu kunturnar rökstyðja í yfirlýsingu sinni hvers vegna þær kjósa að hylja andlit sitt og koma fram nafnlausar. Í yfirlýsingunni segir: „Við huldum okkur vegna þess að femínistum og þolendum kynferðisofbeldis hefur verið hótað nauðgunum og lífláti fyrir að tjá sig. Þetta er okkar vörn gegn sexistum og yfirvöldum.“

    Ég styð rétt Kolbrjáluðu kuntnanna til að hylja sig þegar þær birta boðskap sinn, á sama hátt og hægt er að koma fram með nafnlaust blogg ef að menn kjósa það. En af sömu ástæðu finnst mér það undarlegt að Kolbrjáluðu kunturnar skuli beina reiði sinni að Knúzinu fyrir að hafa ákveðið að taka út myndbandið.

    Kolbrjáluðu kunturnar hefðu ekki aðeins getað kallað yfir sig ofbeldis og líflátshótanir, heldur einnig meiðyrðamál fyrir dómstólum. Knúzið, ólíkt nafnlausu bloggi eða andlitslausu myndbandi er hópur nafngreindra einstaklinga sem vinnur að því í sjálfboðavinnu að gefa út femínískt vefrit. Þessi sjálfboðni hópur er ábyrgur fyrir vefritinu og þarf að geta axlað þá ábyrgð, t.d ef einhver tekur upp á því að kæra vefritið fyrir ærumeiðingar. Knúzið á enga varasjóði, það er ekki hlutafélag og einu sjóðirnir sem hægt er að ganga að eru buddur þeirra sem að vefritinu standa. Tíu manna ritstjórnin og baklandið þeirra, sem hefur bundist vináttu og samstöðu um þetta tiltekna verkefni.

    Það er hreint ekkert grín að fá yfir sig meiðyrðamál, ferillinn er langur og erfiður og lögfræðingar kosta miklar fjárhæðir. Það getur verið mikið fjárhagslegt átak að halda út réttarhöldin, hvort sem málið síðan vinnst eða tapast.

    Mig langar í þessu sambandi til að benda á dómsmál í Héraðsdómi Reykjavíkur sem verður dómtekið nú í september. Forsaga málsins er sú að tvær konur fóru á fund stjórnar trúfélags, vegna þess að vinkonur þeirra sem treystu sér ekki á þeim tímapunkti að koma fram undir nafni vildu segja frá kynferðisafbrotum sem forstöðumaður trúfélagsins hafði beitt þær. Málið rataði í fjölmiðla og fyrst taka þar til máls forstöðumaðurinn og kona hans. „Talskonurnar“ og nokkrar af konunum stíga fram og segja sögu kvennanna. Forstöðumaðurinn hótar fjölmiðlinum lögsókn og síðar talskonunum líka. Hægt er að rekja feril málsins í fjölmiðlum, sjá Tímalínu Krossmála, http://sigridur.org/2013/06/03/timalina-krossmala.

    Illu heilli er orðið nær ómögulegt að sækja um gjafsókn, því að þær reglur hafa verið þrengdar mjög, jafnvel í tilfelli þeirra sem hafa lítið á milli handa. Hver manneskja sem stendur upp fyrir vini sína opinberlega í kynferðisafbrotamálum getur þannig átt á hættu að fá yfir sig málssókn. Og löggjafinn styður ekki betur við tjáningarfrelsið en svo að gjafsóknir eru í flestum tilfellum ekki veittar. Ég hvet ykkur til að fylgjast með þessu máli þegar það kemur fyrir dóminn og láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sömuleiðis, því þörfin er mikil og tjáningarfrelsi er mikilvægt. Þær eiga sér stuðningshóp á FB sem heitir: „Styðjum talskonurnar Ástu og Sesselju í baráttu þeirra við þöggunina.“

    En þetta var útúrdúr. Talskonurnar sem standa að baki konunum sem kærðu forstöðumanninum þekktu málið vel. Þær styðja vinkonur sínar, og eru að axla lögfræðikostnað, stefnur og réttarhöld þeirra vegna. Fórn þeirra fyrir vinkonur sínar ekki sjálfgefin, það er eitthvað sem hver og einn þarf að velja sjálfur á sama hátt og við veljum að hylja okkur eða sýna okkur þegar við komum einhverju á framfæri opinberlega.

    Í ljósi þess að Kolbrjáluðu kuntunum finnst ástæða til að verja sig fyrir „sexistum og yfirvöldum“ með því að hylja sig, ættu þær einnig að skilja hlið Knúzverja sem standa eftir með andlit og nöfn og persónulegar kennitölur, sem auðveldlega hægt er að senda meiðyrðakröfur á. Ritstjórnarstefna Knúzzins hlýtur að taka mið af þessum veruleika íslensks samfélags þar sem stjórnvöld virða tjáningarfrelsið svo lítils að þau hafa nánast lagt niður gjafsókn og gjafvörn.

    Að lokum óska ég Kolbrjáluðu kuntunum góðs gengis við baráttu þeirra gegn nauðgunarmenningu. Það er gott verkefni sem þær og Knúzið eiga sameiginlegt, þótt birtingarmyndirnar séu ólíkar.

    Líkar við

  10. Hæ Gísli og Sigga, eins og ég segi, þá er ég ekki að agnúast út í þessa ákvörðun ritstjórn knúzzins heldur frekar út í umræðuna sem skapaðist í kjölfarið. Ég er heldur ekkert að tala endilega um þetta tiltekna mál, þessi umræða kemur reglulega upp í ýmsu samhengi. Ég upplifði ákveðna tilfinningu fyrir hírarkíu ef svo má segja þegar kemur að baráttuaðferðum. Það eru ekki allir sem geta eða vilja ‘beita pennanum’ í baráttunni og mér finnst penninn ekkert vera eitthvað æðri öðrum verkfærum ef þið skiljið mig… það er eitt. Hitt sem ég var að fara með forréttindastöðuna er að femínismi er í mínum huga ekki bara eitthvað málefni. Femínismi er mjög persónuleg barátta og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir ólíkri aðkomu fólks að því út frá reynslu og stöðu. Um leið og við förum að tala um baráttu gegn kúgun sem málefni sem þarf bara að beita góðum rökum í þá veit ég ekki alveg hvert við erum komin. Mögulega er það sú leið sem þér finnst best í aðstæðunum þínum og það er ekkert að því. Svo er líka til eitthvað sem gæti bara heitið… líkamleg viðbrögð við kúgun. Eitthvað sem kemur af þörf til að gera eitthvað í sínum aðstæðum, ekki þörf til að breinstorma um bestu rökin, eða leiðir til að atferlismóta karlrembur (hundsa osfrv). Það er ekkert nýtt að fólk líti á rök og skynsemi sem æðri tilfinningalegum viðbrögðum (allavega gagnlegri)… kannski er það ekki þín og ykkar ætlun, en það er það sem ég las úr kommentunum. Nú er ég komin svolítið út fyrir efnið, en þetta er svipað eins og „farðu bara í sund“ komment til manneskju í miklum andlegum sársauka/afleiðingum/þunglyndi/kvíða/osfrv… hljómar skynsamlega og er skynsamlegt en ekkert endilega mögulegt, S.s „skrifaðu bara grein“ það er miklu gagnlegra fyrir þig og okkur öll! Femínismi er bæði persónuleg og pólitísk barátta… það má ekki gleyma því þegar kemur að pælingum um val á aðferðum. Ég er ekki viss um að það séu allir að pæla í því að atferlismóta karlrembur/nauðgara og fleira, það eru líka ákveðin forréttindi að vera á þeim stað að geta það.

    Líkar við

  11. „Ég er ekki viss um að það séu allir að pæla í því að atferlismóta karlrembur/nauðgara og fleira“

    Farin að setja samasemmerki milli karlremba og nauðgara ?

    Líkar við

Skildu eftir svar við Hildur Lilliendahl (@snilldur) Hætta við svar