Mörkin

**VV**

Ég var 16 að verða 17 þegar ég fór í Þórsmörk með vinkonum mínum um verslunarmannahelgi. Við tjölduðum í Húsadal og drukkum Malibu í ananasdjús, gin í greip og Southern Comfort. Svo ráfuðum við um hrikalega hressar og spjölluðum við alla þá sem á vegi okkar urðu. Svona eins og gert er við slíkar aðstæður. Voða gaman.

Svo hitti ég strák sem ég þekkti úr skólanum. Hann er aðeins eldri en ég og þar af leiðandi þótti mér ansi svalt þegar hann byrjaði að reyna við mig. Ég man eftir að hafa tekið því vel og daðrað á móti. Fór meira að segja í sleik við hann. Svo færðum við okkur inn í tjald og héldum áfram að kela. Eins og oft vill verða við slíkar kringumstæður varð hann nokkuð æstur og káfaði á mér og ég var alls ekkert mótfallin því. Þegar hann svo byrjaði að klæða sig úr fötunum runnu hins vegar á mig tvær grímur og ég fann að mig langaði ekki í meira. Ég vildi stoppa svo ég sagði honum það. Ég sagðist ekki vilja meira. Ég sagði nei.

En hann var orðinn graður svo að hann sussaði á mig. Sussaði og sussaði og ég þagnaði. Hlýðin og góð stelpa. Vissi líka uppá mig sökina af því að ég var búin að taka þátt sjálfviljug í sleiknum og keleríinu. Væri ekki ömurlegt af mér að skemma stemminguna? Myndi hann ekki missa álitið á mér og finnast ég hundleiðinleg?

Ég man að ég horfði upp í appelsínugulan tjaldhimininn á meðan hann lauk sér af. Ég kyssti hann ekki, ég brosti ekki og ég hreyfði mig ekki. Ég man eftir að hafa horft aftan á hann klæða sig og fara út úr tjaldinu og fundist ég vera skítug. Samt var ég aðallega reið og sár. Reið út í mig fyrir að hafa ekki staðið með sjálfri mér. Sár út í hann fyrir að hafa ekki stoppað þegar ég sagði nei. Fyrir að hafa tekið nei-ið mitt og sussað það í burtu. Fyrir að hafa ekki fundist ég skipta nægilegu máli til að taka mark á óskum mínum.

Eftir þetta gat ég aldrei horft aftur í áttina að þessum strák þegar ég rakst á hann í skólanum. Ég fékk alltaf óþægilega tilfinningu þegar ég mætti honum þó svo að hann hafi brosað og reynt að vera kammó. Mér fannst ég alltaf vera skítug af honum. Sama tilfinning blossaði upp þegar ég rakst á hann fyrir tæpu ári síðan og hann kom skælbrosandi til mín og tók í höndina á mér. Spurði hvort ég myndi eftir sér. Ég átti erfitt með að líta upp, gat ekki brosað og þurfti svo að fara og þvo mér um hendurnar eftir handabandið. Viðbrögð sem voru sjálfri mér gersamlega óskiljanleg. Ég sem er alltaf svo vingjarnleg?

Í dag, rúmum 20 árum síðar, er umræðan í þjóðfélaginu á allt öðrum stað en hún var þá og margt hefur verið skrifað og sagt um kynferðisofbeldi. Þrátt fyrir vanlíðan mína eftir ofangreint atvik datt mér aldrei í hug að þetta gæti talist ofbeldi. Hvað þá nauðgun. Og ég hef spurt mig, var mér nauðgað? En ég öskraði ekki, barðist ekki og kom mér í þessar aðstæður sjálf. Það eina sem ég gerði var að segja nei. Var þetta ekki bara á gráu svæði? Hvenær má ég nota orðið nauðgun? Er þessi strákur nauðgari? Hefði ekki verið ósanngjarnt af mér, allra vegna og þá sérstaklega hans sem upplifði þetta alveg örugglega ekki sem nauðgun, að gera veður úr þessu? Hefði ég þorað að vera með læti? Var ég kannski bara með móral yfir því að hafa ekki barist harkalega við hann og þar með gert þetta að ,,alvöru“ nauðgun?  Er ég ennþá þessi hlýðna stúlka sem vill ómögulega koma öðrum í vandræði, skemma fjörið eða gera eitthvað óvinsælt?

Erum við komin lengra í þessum málum þegar allt kemur til alls? Myndu krakkar bregðast öðruvísi við í dag en við gerðum þá? Hefði ég gert eitthvað annað ef ég væri 16 ára í sömu aðstæðum í dag?

Ég veit það ekki.

En ég leyfi mér að vona.

faduja

 

12 athugasemdir við “Mörkin

  1. Þetta er nauðgun. Ég held að þessi strákur/maður hefði gott af því að fá að heyra hvernig þér hefur liðið yfir þessu, jafnvel þótt þú hafir ekki áhuga að á kæra.

    Líkar við

  2. stelpur ljúga oft um svona en samt eru stelpur sem lenda í svona en því mkiður í minni hliuta en þykkjir leiðinlegt ef þér hefur verið nauðgað og vona þú getur jafnað þig 🙂

    Líkar við

    • „stelpur ljúga oft um svona en samt eru stelpur sem lenda í svona en því mkiður í minni hliuta “

      Ha? Ertu að segja að stelpur ljúgi oft um svona en því miður lendir minni hluti þeirra í því í alvöru? Hvað ertu að tala um?

      Líkar við

  3. Takk fyrir að skrifa þetta. Það er magnað hvað manni finnst svona aðstæður bara vera nauðgun þegar aðrir en maður sjálfur lenda í því. Þú ert hugrökk.

    Líkar við

  4. þetta er rosalega vel skrifað og snertir við manni – ég vona að þú hafir náð að sættast við þessa 16-17 ára stúlku og fyrigefa henni fyrir að standa ekki með sér – þekki þetta af eigin raun – þú ert hugrökk og flott að koma með þetta fram

    Líkar við

  5. magnaður pistill og vel skrifaður! Tek undir með Didda, því miður hafa stúlkur gerst sekar um lygar í þessa veru, m.a um sl. verslunarmannahelgi í eyjum!

    Líkar við

  6. Hvernig veist þú, Kristín Jónsdóttir, að stúlkan í Vestmannaeyum hafi gerst „sek um lygar“? Ert þú vitni í málinu? Varst þú inni í umræddu tjaldi alla helgina? Eða ert þú kannski innst inni á sömu skoðun og „diddi“ hér að ofan? Ég held að þú ættir að lesa pistilinn aftur, sem vissulega er magnaður.

    Líkar við

  7. Hmm, að athuguðu máli segir lögreglan ásakanir stúlkunar út í hött og sleppir manninum. Það bendir til þess að hún hafi logið upp á hann til að eyðileggja heiður hans.

    Líkar við

    • Palli, Samkvæmt fréttum var það þannig, án þess að um heiður viðkomandi væri tíundaður! Og anna, ég hef marglesið pistilinn – ekki gera mér eða öðrum upp skoðanir! Við höfum þær sjálf!

      Líkar við

  8. Þegar setningin „nei, ég er ekki að fara að sofa hjá þér“ og staka litla orðið „nei“ eru hundsuð eru það þá viðbrögð okkar sem skilgreina hvort um nauðgun er að ræða? Hvort við frjósum og gerum ekkert… liggjum bara þarna… eða öskrum og æpum og berjumst um. Þetta hefur valdið mér hugarangri í 15 ár og sama hvað fólk segir mér oft að auðvitað sé um sama hlutinn að ræða hvort sem mannseskjan sé marin og blá á yfirborðinu eða bara á sálinni þá er alltaf jafn erfitt að trúa því vegna þess að réttarkerfið myndi aldrei gera það.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd