Stelpur og ömmur

Hún nafna mín litla – hún verður 3ja ára í júlí  – er alveg með hlutina á hreinu: bleikt er EINI liturinn sem kemur til greina fyrir stelpur. Helst á kjólum, af því að þeir eru stelpuföt. Auk þess eru stelpur með eitthvað í hárinu, gjarnan blóm eða slaufur, og í bleikum eða hugsanlega gylltum skóm. Og lakka á sér neglurnar. Tjull er dálítið inni í myndinni, en hún er ekki búin að uppgötva til fulls dýrðina sem fylgir því að taka þátt í fegurðarsamkeppnum barna, eins og t.d. Little Miss Perfect, og gerir það vonandi aldrei.

Mér skilst að stelpur vilji svoleiðis. Nafna mín hefur fengið staðfestingu á því alveg frá því að hún var ómálga ungbarn og frændgarðurinn og vinaskarinn bar í hana bleikar flíkur og blúndur, dúkkur og slaufur og alls konar fínirí, ekki síst af því að allir vissu að foreldrar hennar eru femínistar (já, pabbi hennar líka, hugsið ykkur!) og hún yrði svipt sínu kvenlega eðli ef hún fengi ekki að njóta þessara hluta.

Það gleymdist að vísu að það var hellingur til á heimilinu af bleikum fötum af eldri bræðrum – af því að foreldrarnir eru femínistar, skiljið þið, og frábitin litafasisma – svo hún á varla föt í öðrum lit. Og litla systir hennar ennþá færri.

En sumsé: hún nafna mín litla veit hvernig hún á að líta út og hvað er við hæfi og hefur fengið til þess ágæta og allsendis óformlega pilsakennslu í umhverfi sínu og á leikskólanum. Sama máli gegnir um bróður hennar, sem er ári eldri. Hann er löngu búinn að læra að strákar ganga ekki í pilsum eða bleiku eða lakka á sér neglurnar, ekki einu sinni í leikjum. Þeir eru ofurhetjur af einhverju tagi eða reiðir fuglar og veifa vopnum og skreyta sig gjarnan með hauskúpum eða rándýrum.

Ég nefni þetta hér til að leiðrétta misskilning nýbakaðra alþingismanna í þessum efnum: pilsakennslan sem fer fram á öllum stigum í skólakerfinu gengur því miður öll út á að kenna hvort kynið á að ganga í pilsi og hvort ekki, en ekki í því að ýta undir leik og að maður geti klætt sig í hvað sem manni sýnist þegar manni sýnist og af því tilefni sem manni þóknast og að það breyti engu um hver maður er.

Er það furða að prestastéttin sé að verða kvennastarf? Eða að Rómverjar þurfi núna að vega upp á  móti langri tóganotkun með alræmdum flagarastælum?

Ég er hins vegar á hinum endanum í litrófinu – orðin sextug – og fjarri því að vera laus undan skyldunum sem á herðar mínar eru lagðar í samfélaginu. Blúndur eru ekki lengur við hæfi, ekki óhóflegt skart (að undanskildum stórum hálsfestum), einfalt snið (helst sígildar dragtir af dýrara taginu) og dökkir litir, stórrósóttir sniðlausir kjólar til heimabrúks og stutt hár. Blóma- og slaufulaust.

Þegar konur eru orðnar sexfaldar ömmur eins og ég standa þær svo frammi fyrir hinni brennandi spurningu hvort þær eigi að lita á sér (helst stutta) hárið eða ekki. Almennt þykir sítt, grátt hár ekki ráðlegt, nema hugsanlega maður taki upp hárgreiðslu Karls Lagerfelds: „A low ponytail, not too long and turned under at the hairline – like Karl Lagerfeld’s – can look wonderful on an older woman.“

Um aldurinn milli þriggja ára og sextugs þarf ég varla að fjalla: það er tískan sem við fylgjumst öll með hvort sem okkur líkar betur eða verr. Útlit, vöxtur, klæðnaður (eða skortur á honum) og andlitsfarði nafnkenndra og nafnlausra kvenna er okkur stöðugt fyrir sjónum. Heilir vefir og vikublöð eru gefin út eingöngu í þeim tilgangi að kenna okkur hvernig við eigum að líta út. Við vitum meira um rassinn á tilteknum „stjörnum“ en hvað þær hafa almennt afrekað um ævina.

Þessi aldursskipta tíska öll þjónar helst þeim tilgangi að skipa okkur kvenmönnunum á bása, eftir aldri, aðgengileika og frjósemi.

Og já – nú kemur dálítið „what about the men“.

Af hverju skyldu vestrænir karlmenn ekki mega ganga í kuflum og pilsum ef þá langar til þess, alveg eins og kynbræður þeirra í austurlöndum – ja, eða Skotar? Hvað er ókarlmannlegt við það? Og af hverju ætti fólk ekki að velja liti sem klæða það í staðinn fyrir að fylgja forpokuðum fyrirskriftum tískuheimsins? Ég hef til dæmis ekki enn kynnst karlmanni sem fílar að ganga með bindi – en reyndar ýmsum sem finnst gaman að eiga alls konar bindi, þótt þeir þori sjaldnast að nota sum þeirra. Og sokka. Margir karlmenn eru dálítið veikir fyrir litsterkum sokkum og nærbuxum (en nota slíkt eingöngu í vernduðu umhverfi). Það eru svo fáir litir sem þeim leyfast, blessuðum, að það er ekki nema von.

Við hverju er svosem að búast af kyni sem hefur þurft að skreyta sig með hauskúpum, stórvirkum vinnuvélum og vopnum allan uppvöxtinn?

Mér dettur stundum í hug kvæði sem ég las einhvern tímann fyrir lifandi löngu og heitir „Warning – When I Am an Old Woman I Shall Wear Purple“. Það er eftir breska ljóðskáldið Jenny Joseph og hljóðar svo í flumbrulegri þýðingu:

Þegar ég verð kerling klæði ég mig í purpurarautt
og eldrauðan hatt sem er hvorki við hæfi né klæðir mig.
Ég eyði líka ellilífeyrinum í koníak og hvíta hanska
og skrautleg ilmkerti og segist ekki eiga fyrir smjöri.
Ég ætla að setjast á gangstéttina þegar ég verð þreytt
og háma í mig sýnishorn í búðum og hringja neyðarbjöllum
og draga stafinn yfir málmgrindur á götum
og bæta fyrir yfirvegun æskunnar.
Ég hleyp út í rigningu á inniskóm
og tíni blóm í annarra manna görðum
og læri að hrækja.

Þá má maður vera í ömurlegum pilsum og alltof feitur
og troða í sig tylft af pylsum í einum rykk
eða narta í brauð og súrkrás dögum saman
og safna pennum og blýöntum og hnetum og dóti í dósum.

En núna þurfum við föt til að halda á okkur hita
og borga leigu og forðast að blóta í heyranda hljóði
og vera börnunum okkar til eftirbreytni.
Við þurfum að bjóða vinafólki í kvöldmat og fylgjast með fréttum.

En kannski ætti ég að æfa mig ögn núna?
Svo þeim sem þekkja mig bregði ekki of mikið í brún
þegar ég verð allt í einu kerling klædd í purpurarautt.

Frumtextann er hægt að nálgast hér.

Kannski lita ég hárið á mér bara bleikt. Eða purpurarautt. Og set í mig slaufu.

Og kannski ættu bara fleiri að gera það líka.

 

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Stelpur og ömmur

  1. Hahah! Úff, þegar ég eignast barn þá vona ég að fólk fari ekki að dæla bleiku í stelpuna mína eða einhverju stríðsdrasli í son minn bara af því mömmurnar eru feministar. Ég vil allan regnbogann í fataskápa heimilisins 🙂

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s