Knúzið spyr – Alþýðufylkingin svarar

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til Alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma.

Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, svaraði fyrir hönd þeirra.

 

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi?
Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, honum er ekki að fullu náð. Feðraveldið er ennþá sterkt, en ætla má að heiftarfull umræða gegn jafnréttisbaráttu skrifist sumpart á að karlrembum finnist sér vera ógnað, það er að segja að jafnréttisbaráttunni sé að miða í rétta átt. Það er menningarlega hliðin, en svo er líka efnahagslega og pólitíska hliðin: Kvennastörf eru minna metin en karlastörf, og þegar öllu er á botninn hvolft er það pólitík (í víðum skilningi orðsins) hvernig störf eru metin, bæði að verðleikum og til launa. Loks skekkir það stöðuna að í eignastéttinni eru karlar í meirihluta, og konurnar sem tilheyra henni gera það gjarnan aðallega sem makar.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Ef vel á að vera, er ekki hægt að aðskilja stéttabaráttuna og jafnréttisbaráttuna. Í réttlátu þjóðfélagi býr enginn við forréttindi, hvorki vegna eigna, kynferðis né annars. Meðal þess sem þarf að gera, er að auka mjög gegnsæi í launamálum, og lýðræði í atvinnulífinu, bæði lýðræði innan vinnustaða og lýðræðislega stjórn yfir lykilþáttum hagkerfisins. Og réttsýnin þarf ekki bara að vera hávær, heldur líka komast til valda í þjóðfélaginu.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar?
Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já – en ég játa að ég hef ekki næga þekkingu til að vita upp á hár hvernig hlutirnir ættu að vera. Ég hef velt því fyrir mér hvort kynferðisbrotamál sýni okkur að reglur um sönnunarbyrði séu skálkaskjól fyrir kynferðisbrotamenn – en mótrökin, um að réttarríkið krefjist sannana til þess að geta sakfellt menn, eru óneitanlega sterk líka. Þannig að það er spurning hvort réttarríkið er réttarríki fyrir alla, og ég veit bara ekki svarið við þeirri spurningu. Hitt veit ég, að málskostnaður heldur mörgu fátæku fólki frá dómstólunum, og meðal þeirra réttarbóta sem Alþýðufylkingin leggur til, er að úrskurður ágreiningsefna verði gjaldfrjáls, og þar séu dómstólarnir meðtaldir. Það er ekki beint svar við spurningunni, en mundi þó líklega gagnast mörgum fórnarlömbum kynferðisbrota.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Ég býst við að í stéttskiptu samfélagi sé réttlátara að konur eigi jafngreiða leið inn í ráðastéttina eins og karlar, þannig að ég mundi líklega styðja það, en ég tel aðalatriðið í baráttunni fyrir réttlátu samfélagi vera að þurrka út þjóðfélagslegan mun á milli stétta. Með öðrum orðum er aðaláhersla mín á að allt fólk sé jafnt.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Ég veit satt að segja ekki hvort það er hægt að gera það, hvort það er t.d. hægt að koma upp ritskoðun sem flinkir einstaklingar geta ekki komist framhjá. Framboðið verður til staðar svo lengi sem eftirspurnin er til staðar, og þess vegna þarf að stemma á að ósi. Það þarf bæði að veita börnum og ungmennum uppeldi sem stuðlar að virðingu fyrir öðru fólki, og einnig þarf kynfræðsla í skólum bæði að vera nógu opinská og heiðarleg, og byrja nógu snemma, til þess að fólk fái heilbrigðar hugmyndir um kynlíf.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Hluti skýrist a.m.k. með samfélagslegum viðhorfum til „karlastarfa“ og „kvennastarfa“, sem er líklega bæði afurð feðraveldis og afurð kapítalisma sem lítur ranglega á velferðarmál, þar á meðal umönnun, umhyggju og uppeldi, sem illa nauðsyn (og uppnefnir þau meira að segja „mjúku málin“) en ekki höfuðverkefni samfélagsins eða undirstöðuatvinnuvegi, sem þau auðvitað eru. Velferðarmál eiga ekki bara að fá uppreisn æru vegna þess að það sé siðferðislega rétt, heldur líka vegna þess að þau eru verðmætaskapandi – getur einhver, í alvöru, neitað verðmætinu sem heilsa og menntun eru? Fjársvelti þessara málaflokka rýrir auk þess ekki bara málaflokkana sjálfa, heldur setur hann þrýsting á að halda niðri launum starfsfólks, sem vill svo til að eru að meirihluta konur. Það er auðvitað líka óréttlátt að flestir karlar hafi of lág laun – en lág laun, og þá er best að hafa lífeyri og bætur meðtalin, skapa fátækt og hún er dýr, bæði fyrir heimilin og þjóðfélagið allt, samfélagið og hagkerfið.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Það er engum blöðum um það að fletta að hér viðgengst kynbundið ofbeldi, og því miður sé ég ekki fram á að verða svo gamall að upplifa samfélag þar sem það viðgengst ekki – þannig að það er ekki seinna vænna að herða baráttuna gegn því. Hún er að hluta til uppeldisleg (boðskapurinn þarf að vera: það er ekki í lagi að beita annað fólk ofbeldi), að hluta til menningarleg (samfélag sem viðurkennir suma kúgun sem eðlilegan samskiptamáta getur vitanlega af sér aðra kúgun), að hluta til skrifast hún á ónóg úrræði við t.d. drykkjuskap eða fátækt. Ég mundi leita ráða sérfræðinga um kynbundið ofbeldi til að fá frekari ráðleggingar, bæði um greiningu og lausnir.

 

 

———
Knúzið þakkar Alþýðufylkingunni kærlega fyrir svörin.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s