Klám er spegill

Höf.: Thomas Brorsen Smidt

Þýð.: Magnea J. Matthíasdóttir

Í grein sem birtist á knúz.is á dögunum undir heitinu „Er hægt að banna klám?“, virðist Páll Óskar Hjálmtýsson þrengja vandamál tengd klámi niður í spurninguna um áhrifin sem það hefur á yngri kynslóðina. Stór hluti greinar hans fer í að lýsa því hvernig meginstraumsklám hefur að miklu leyti þróast út í að sýna kvenhatursáróður og að það geti varla verið góð hugmynd að hefja líf sitt sem kynvera þannig. Eða eins og hann segir sjálfur:

Það er talað við konur á mjög niðurlægjandi hátt, þær eru kallaðar tíkur og hórur og þær hafa ósköp lítið að segja um hvað verður gert við þær […] Tittlingum er troðið djúpt ofan í kok stelpnanna og haldið þar með valdi þangað til þær kúgast eða næstum kafna […] Þetta er ofbeldi. Það er engu líkara en jafnrétti kynjanna sé að engu orðið og að kynlífið sem sýnt sé í klámmyndum sé að þróast meira út í hreint ofbeldi. Þetta er ofbeldi, dulbúið sem klám […] Ég veit ekki með ykkur, en ef ég ætti 11 ára barn myndi ég ekki vilja að fyrstu upplýsingar þess um kynlíf væri myndband af klappstýru sem er riðið í öll göt af heilu fótboltaliði.

Hann hefur hárrétt fyrir sér og mikilvægi þess að hyggja að áhrifagirni og hrifnæmi ungu kynslóðarinnar verður varla með orðum lýst. Þegar ofangreind lýsing er höfð í huga er ég hins vegar dálítið undrandi á því að Páll Óskar skuli í sömu andrá geta varpað fram eftirfarandi fullyrðingu:

Úr myndaröðinni Age Maps e. Bobby Neel Adams

Ég trúi því líka að það sé til fullt af fullorðnu fólki sem getur notið kláms, og á sama tíma gert sér fullkomna grein fyrir fantasíunni og raunveruleikanum sem þar er boðið upp á.

Ég tel að það sé hættulegt að trúa að blygðunarlaus kynlífsvæðing ofbeldis í meginstraumsklámi sé eingöngu vandamál fyrir ungu kynslóðina og um leið og við verðum 18 ára getum við allt í einu á undursamlegan hátt notað klám, fullfær um að greina á milli hugaróra og raunveruleikans. Málið er flóknara en svo.

Að hugsa lengra en áhrifin

Staðreyndin er sú að jafnvel þótt gríðarlega erfitt sé að kortleggja áhrif af klámi vísindalega (einkum af því að á rannsóknastofum er ógerlegt að endurskapa þær persónulegu og nánu aðstæður þar sem klámneyslan fer fram), fer ekki milli mála að klám er einfaldlega hluti af menningu okkar, ekki síður en bókmenntir, tónlist, tungumál, lög og allt annað sem er þáttur af henni. Sem einn af þeim þáttum hlýtur það að gegna hlutverki við að móta menninguna.

Sumir hafa hvimleiða tilhneigingu til að líta á klám sem eina menningarfyrirbærið sem getur þrifist í tómarúmi. Fólk nálgast fyrirbærið klám eins og það sé til óháð öllu öðru; að það sé ekki uppspretta hugmynda, upplýsinga, skilaboða og ýmislegs annars; að þegar fólk horfir á klám noti það einhvern hluta af heilanum sem tekur ekki við þeim skilaboðum sem felast í efninu. Þetta er fáránlegt.

Ef tekin er handhæg samlíking skulum við íhuga rétt sem snöggvast að enginn dregur í efa áhrifin af auglýsingum, jafnvel þótt þar sé ekki heldur hægt að mæla vísindalega bein tengsl á milli orsakar og afleiðingar. Í rauninni er það fremur auðskiljanlegt. Það er ekki hægt að mæla tengslin á milli auglýsinga og neyslu í neyslusamfélagi, ekki frekar en hægt er að mæla tengslin á milli kláms og kynferðisofbeldis í nauðgunarmenningu. Það er einfaldlega aldrei hægt að vera viss hvort auglýsingar eða klám eru einkenni eða orsakir annars vegar neyslumenningar og hins vegar nauðgunarmenningar.

Enda þótt ógerlegt sé að úrskurða með vísindalegum aðferðum hvaða áhrif einstakar auglýsingar hafa á huga tiltekinna einstaklinga og fá þá til að kaupa ákveðna vöru erum við engu að síður öll sammála því að góðar og gildar ástæður séu fyrir því að auglýsing á Super Bowl kosti um 3 milljónir dollara. Það er vegna þess að auglýsingar auka við sameiginlega vitund okkar um það sem við skynjum sem satt og ósatt og leggja sem slíkar sitt af mörkum við að móta menninguna og stundum athafnir einstaklinga. Hvers vegna ætti það ekki líka að eiga við um klám? Og hafið líka hugfast að klám er fyrirbæri sem mikill meirihluti karlmanna neytir við miklu tilfinningaspenntari og persónulegri aðstæður heldur en þegar þeir horfa á auglýsingar.

Klám er spegill

Komum því strax frá. Það eru engin áþreifanleg orsaka- og afleiðingartengsl milli klámneyslu og nauðgunar. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að klám sé hluti af menningu okkar. Og í hvers konar menningu búum við?

Við búum í menningu þar sem manneskjur sem hefur verið nauðgað eru einhverra hluta vegna gerðar ábyrgar fyrir því að líf þeirra var lagt í rúst; þar sem flestir halda enn að megnið af nauðgunarkærum séu rangar sakargiftir; þar sem það er ekki endilega talið kynferðisofbeldi að troða fingrunum inn í konu án hennar samþykkis; þar sem kona sem flettir ofan af kynjamisrétti á netinu fær líflátshótanir; þar sem það er ekki talið algjörlega nauðsynlegt að biðja um samþykki fyrir kynmökum; þar sem nauðgari kemst upp með verknaðinn vegna þess að brotaþolinn var ekki í brjóstahaldara – listinn er endalaus.

Við búum í feðraveldismenningu. Við búum í nauðgunarmenningu. Margir innan þeirrar menningar verja hluta af hverjum einasta degi í að fróa sér yfir myndum þar sem konur eru kallaðar einskis nýtar hórur á meðan tittlingum er troðið ofan í kok á þeim og endaþarmurinn þaninn út svo hann verður óþekkjanlegur. Enginn nema algjör hálfviti myndi halda því fram að engin tengsl séu á milli kláms af þessu tagi og nauðgunarmenningarinnar sem lýst var hér að framan.

En tengslin snúast ekki um orsök og afleiðingu. Við getum ekki sagt „ef það væri ekkert klám væru engar nauðganir“. Það er mun gagnlegra að hugsa um kynjamisréttisklám sem sjúkdómseinkenni kynjamisréttismenningar, einkenni sem stuðlar að því að styrkja og viðhalda þeirri menningu. Svo að það sé sagt umbúðalaust merkir þetta að kynjamisréttisklámið speglar menningu okkar og neyðir okkur til að spyrja okkur sjálf erfiðra spurninga. Svo vitnað sé í Robert Jensen[1]:

Ef klám verður sífellt grimmdarlegra og meira niðurlægjandi, hvers vegna verður það þá sífellt algengara í stað þess að ýtast úr á jaðarinn? Samfélagið gefur sig út fyrir að vera siðmenntað og ættum við þá ekki að búast við því að flestir hafni kynferðislegu efni sem skeytir í sífellt minni mæli um mannlegt eðli kvenna? Hvernig útskýrum við […] sífellt heiftúðlegri aðferðir til að niðurlægja konur kynferðislega og vaxandi vinsældir kvikmynda sem sýna slíkar athafnir?

Sannleikurinn er sá að ein af fullyrðingunum hér að ofan er röng. Við búum EKKI í siðmenntuðu samfélagi þar sem ríki okkar og ríkisstjórnir hafna skipulega grimmd og niðurlægingu. Samfélaginu sem við búum í er viðhaldið af samfelldu og útbreiddu ofbeldi. Þú getur riðið konu með puttunum gegn vilja hennar án þess að vera kærður fyrir kynferðisofbeldi. Þú getur nauðgað konu og verið laus allra mála ef hún lagðist brjóstahaldaralaus í rúmið hjá þér. En þetta ofbeldi er gert ósýnilegt og lítilfjörlegt af kerfinu sem við búum við. Meginstraumsklám stendur fyrir þann hluta af mannlegri vitund þar sem þetta ofbeldi er ennþá sýnilegt. Þannig að:

Það sem þú fróar þér yfir segir margt um það hver þú ert. Ég ætla að umorða þetta. Þú skilgreinir sjálfan þig með því sem þér finnst gaman að lesa, því sem þér finnst gott að drekka, hvert þú vilt fara út að skemmta þér, hvaða tónlist þú hlustar á, af því að þetta segir ýmislegt um hver þú ert. Klám er ekkert frábrugðið þessu. Eini munurinn er sá að þú horfir á það í einrúmi og stundum blygðastu þín dálítið á eftir, af því að þú þorir ekki að líta í spegilinn. Þú ert hræddur við að viðurkenna að klámið sem þú horfir á lýsi því á einhvern hátt hver þú ert…


[1] Jensen, R. (2007). Getting Off: Pornography and the End of Masculinity. Cambridge: South End Press, p. 185.

Robert Jensen er róttækur femínisti og prófessor í blaðamennsku við University of Texas.

9 athugasemdir við “Klám er spegill

  1. „Enginn nema algjör hálfviti myndi halda því fram að engin tengsl séu á milli kláms af þessu tagi og nauðgunarmenningarinnar sem lýst var hér að framan“ Fyrirgefðu en er ég algjör hálfviti af því að ég gleypi ekki við öllu kjaftæðinu sem að þið eruð að láta út úr ykkur? Ég væri alveg til í að sjá EINA vísindalega rannsókn sem að styður ykkar mál. Hvar hafa konur það verst? Er það ekki í þeim löndum sem að klám er bannað??? Er ekki meiri nauðgunarmenning og feðraveldi þar sem að konur eru drepnar fyrir það eitt að vera nauðgað? Hugsaðu aðeins áður en að þú ferð að kalla annað fólk hálfvita…

    Líkar við

    • Sæll Dokk,
      Hérna er einn linkur frá háskólanum í Minnesota sem þig langar kannski að skoða nánar: http://www1.umn.edu/aurora/pdf/ResearchOnPornography.pdf.

      Annars held ég að miðað við orðlagið þá hafi verið lögð heilmikil pæling í það sem liggur að baki grein Thomasar, hún er a.m.k vandlega skrifuð (með almennu orðbragði) og það af fræðimanni.

      Í okkar menningu þá virðist samfélagið vera hlynt þeirri hugmynd (amk. opinberlega) að ofbeldi gegnt konum (og öðrum) sé rangt. Víðsvegar um heim er það almenn skoðun að ofbeldi gegnt konum sé eðlilegt, jafnvel æskilegt – auðvita er það slæmt, enda vinna sameinuþjóðinar gegnt því með UNWomen ásamt fleirum, t.d. Eve Ensler.
      Það þýðir samt ekki að hlutirnir séu frábærir hérna, það þýðir ekki að það sé ekki ofbeldi í okkar menningu, í undirrótinni. Eitthvað sem spillir lífi margra og þarf að gera í. Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða.

      Allavegana, vonandi kíkirðu á linkinn, það er vísað í helling af rannsóknum þar sem þú getur gluggað í. Margar gætu verið aðgengilegar á netinu ef þú ert t.d. í Háskóla Íslands og ferð í gegnum HÍ netið/VPN.

      Líkar við

  2. Þó þú hafir rétt fyrir þér að mínu mati (af því sem ég nennti að lesa) eru bara svo margar stelpur sem segjast fíla valdasviptingu í kynlífi.

    Líkar við

  3. „(A) Við búum í menningu þar sem manneskjur sem hefur verið nauðgað eru einhverra hluta vegna gerðar ábyrgar fyrir því að líf þeirra var lagt í rúst; (B)þar sem flestir halda enn að megnið af nauðgunarkærum séu rangar sakargiftir; (C) þar sem það er ekki endilega talið kynferðisofbeldi að troða fingrunum inn í konu án hennar samþykkis; (D) þar sem kona sem flettir ofan af kynjamisrétti á netinu fær líflátshótanir; (E)þar sem það er ekki talið algjörlega nauðsynlegt að biðja um samþykki fyrir kynmökum; (F) þar sem nauðgari kemst upp með verknaðinn vegna þess að brotaþolinn var ekki í brjóstahaldara – listinn er endalaus.“

    (A) Líklega eru konur síst gerðar ábyrgar þar sem aðgengi á klámi er mikið fyrir þætti sínum í nauðgunum, við vitum a.m.k. um hið gagnstæða þar sem klám er bannað. (og þá bannað í alvörunni, ekki eins og hér).
    (B) Ég efast stórkostlega um að flestir haldi að megnið af nauðgunarkærum séu rangar sakagiftir, hver hefur eiginlega haldið slíku fram? Hins vegar trúi ég því persónulega að meira en 2% séu rangar sakargiftir, en bilið á milli 2% og 50% er 25 falt.
    (C) Heldur þú virkilega að meirihluti hæstaréttar hefði dæmt öðruvísi ef þeir hefðu horft minna á klám?
    (D) Heldur þú að í samfélagi þar sem ríkt tjáningarfrelsi ríkir (t.d. klám er leyft) séu meiri líkur á því að menn hóti öðrum lífláti vegna skoðanna sem þeim eru ekki þóknanlegar? Nú dettur mér nýfallinn egypskur dauðadómur yfir Kofkum sem gerðu kvikmynd um Múhameð sem var ekki öllum að skapi.
    (E) Ég er líklega mjög vondur maður, en ég held að ég hafi aldrei spurt frúna hvort að hún sé nú ekki örugglega viss um að ég eigi að gera dodo við hana núna. Einhvern veginn hefur táknmál okkar skilist nægilega vel, enda hefur hún aldrei, (né aðrar fyrir hennar tíma) kært mig eða brigslað fyrir nauðgun. Ég held meira að segja að konum mislíki slík bein nálgun verr en körlum.
    (F) Þekki ekki þetta mál. En voru virkilega engin önnur atriði sem höfðu áhrif á dómsniðurstöðuna?
    Ef listinn er endalaus og bara eitt dæmi á honum sem kann að vera nothæft, og þessi tilvitnaði hluti í eðli sínu kjarni þeirrar greinar sem hér er að ofan skrifuð, þá hefði þú mátt tína til betri dæmi af þessum lista? Nema að greinin í heild skjóti framhjá markinu!

    Líkar við

  4. Þegar Páll Óskar skrifaði „Ég trúi því líka að það sé til fullt af fullorðnu fólki sem getur notið kláms

    þá er hann væntanlega að tala um klám sem er EKKI „blygðunarlaus kynlífsvæðing ofbeldis“. Það háir umræðunni um klám að fólk notar mismunandi skilgreiningar hvað sé klám og hvað sé ekki klám.

    Páll Óskar skrifar líka þetta í gein sinni:

    Klám hefur svo sannarlega breyst alveg gríðarlega á síðustu árum. Ef þú berð klámmynd sem er gerð fyrir 1980 saman við klámmynd sem gerð er árið 2012 er munurinn sláandi. Stemningin er ekki sú sama. Fyrir þremur áratugum voru karlmenn góðir við konurnar í klámmyndunum. Það var söguþráður, forleikur, orðaleikir, kysst og kelað, fólk brosti og jafnvel hló,

    Í huga mjög margra er þetta „gamladags“ klám sem Palli er að lýsa SAMT klám.

    Þegar Daily Telegraph birti frétt um hugmyndir innanríkisráðherra um að stöðva klám á internetinu, þá held ég að blaðið og lesendur þess flestir hafi örugglega skilið fréttina þannig að verið væri að tala bæði um „gamaldags“ klám sem og nútímalegra „ofbeldis“-klám. Enda held ég að núgildandi lög sem banna klám geri ekki greinarmun þar á milli.

    Líkar við

    • Þetta er að mínu mati veigamikið atriði. Ég sá klámmynd „af gamla skólanum“ þegar ég var í áttunda bekk (14 ára, sem sagt), við stelpurnar höfðum orðið varar við að einhver spóla gekk á milli strákanna í bekknum, þeir pískruðu og hvískruðu og göluðu stundum „Ja, wunderbar!“ og við vildum vera með í djókinu. Ein okkar gekk á aðaltöffarann í strákahópnum og bað um að fá spóluna lánaða, sem hún fékk með svakalegu glotti frá eigandanum. Svo horfðum við á þetta nokkrar saman og trámatíseruðumst ekki – stór hluti af myndinni gekk reyndar út á plott sem snerist – minnir mig endilega – um einhverja peningaprentun og svo var verið að gera það upp á frekar gamaldags máta ofan á hrúgum af fölsuðum peningaseðlum. Og eitthvað var gargað: „Ja, wunderbar!“ en eins og heyra má var myndin þýsk og við skildum lítið í samtölunum. Og líklega bættur skaðinn.

      Myndir eins og þessa þurftu unglingar að nálgast með krókaleiðum, frá eldri bræðrum eða með ærinni fyrirhöfn, stelast í það og laumupúkast með það. Samt var þetta efni eitthvað sem mér finnst varla hægt að tala um í sömu andrá og margt af því sem nú er innan seilingar fyrir hvaða ungling sem er með 3-4 músarsmellum og þarf ekki einu sinni að borga fyrir eða staðfesta á neinn hátt aldur eða aðgangskröfur – efni sem er oft og tíðum mjög ofbeldisfullt og gengur út á niðurlægjandi athafnir og kúgun þar sem kona er langoftast viðfangið. Og ég tek undir með þér, Einar Karl, að gerð efnisins þarf að vera faktor í umræðunni. Hvernig er best að nálgast það er svo allt annað mál. Hitt er alveg ljóst, og það hef ég orðið vör við þegar foreldrar ræða þetta sín á milli (eins og gerist sem betur fer æ oftar) að margir gera sér alls ekki grein fyrir því hvað efnið sem er „mainstream“ í dag og mjög aðgengilegt er gerólíkt því sem þau kannski sáu eða vissu af fyrir svona 15-20 árum. Og mörgum bregður illa þegar það fer að skoða hvað það er sem í dag er nánast „mainstream“.

      Líkar við

  5. Áhugaverð grein, er sérstaklega hrifinn af þessari setningu:

    „En tengslin snúast ekki um orsök og afleiðingu. Við getum ekki sagt „ef það væri ekkert klám væru engar nauðganir“. Það er mun gagnlegra að hugsa um kynjamisréttisklám sem sjúkdómseinkenni kynjamisréttismenningar, einkenni sem stuðlar að því að styrkja og viðhalda þeirri menningu. Svo að það sé sagt umbúðalaust merkir þetta að kynjamisréttisklámið speglar menningu okkar og neyðir okkur til að spyrja okkur sjálf erfiðra spurninga.“

    En einmitt í ljósi hennar finnst mér nauðsynlegt að spyrja Thomas hvað honum finnist um hugmyndir innanríkisráðherra um að banna með lögum aðgang að klámi; greinin er jú sprottin upp úr umræðu um þær hugmyndir.

    Ef kynjamisréttisklám (vel orðað, úr takt við þá hugmynd að allt klám feli í sér kynjamisrétti og ofbeldi) er sjúkdómseinkenni menningarinnar sem við búum við, menningar sem að miklu leyti er byggð á og ýtir undir kynjamisrétti; hvað gerum við þá þegar við höfum komið auga á sjúkdómseinkennið? Bönnum við það? Eða reynum við að ráðast að sjálfum sjúkdómnum og uppræta hann?

    Líkar við

  6. nauðgun=valdbeiting=stjórnun=ofbeldi=hlut eða líkamsparti neytt inn í líkama annarar manneskju.

    velkominn á þúsundflada umræðuborðið.því þetta snýr að þúsundum atriða.
    s.s upplifun,vilja.skoðunum,smekk,höfnun,neikvæðni,jákvæni,aukahlutir,tvíkvæni,valdabarátta,ynging,valdabarátta,kvenleiki,karlmannleiki,líkamar,litir,form,hljóð,bragð,heyrn,sjón,myrkur,hiti,kuldi,ljósmyndir,myndböng,hlutverkaleikir,miskilningur,lygar,hræðsla,gleði,dofnun.
    þetta eru fá orð en öll eiga sameiginlegt að geta tengst kynlífi og upplifun á því,mismunandi skilningur sem við leggjum í það og mismunandi þörf á því eða þarfir.
    ofbeldi er ofbeldi. skýr lína. það er ekki hægt að nauðga viljugum,heyrt þetta áður?
    hlutverkaleikir eru bara leikir,að beita valdi eða vera beittur valdi er ekki grunnatriðið.heldur það sem þetta er,leikur.hlutverkaleikur.
    þega manneskja hugsar um nauðgun sem fantasíu,þá er það alltaf einhver sem þeim líkar við,langar að sofa hjá eða hugsa um að sofa hjá,jafnvel þó að þau myndu kannski ekkert gera úr því þó að tækifærið byðist.
    valfrelsi!
    ég má velja.þú mátt velja.hvert sekúndubrot erum við að velja allskonar mismunandi gerðir.hvað við segjum,borðum,gerun næst.
    við megum hætta við líka.neh,mig langar ekki í meira en 2 bita af pylsunni(afsakið samlíkinguna)svo ég læt hana frá mér,en ef við færum þetta aðeins til.ég er búin að snerta lim manns,við kyssumst,það er hiti í leiknum en svo finn ég,eða hann,að þetta er ekki það sem maður vill,hálfkláruð pylsa og já,við megum.bæði.
    ekki meiri mýti um,hey,þú getur ekki hætt núna..hey hún átti bara ekkert að byrja ef hún vildi ekki klára.

    við erum í flóknum heimi,flóknum aðstæðum,en í einrúmi getum við alltaf spurt okkur hvað okkur raunverulega finnst um klám.upplifun.getum við gert okkur að leik að hugsa sem svo,þessi er örugglega fyrir að láta neyða sig.þessi gaur fílar örugglega að nauðga.
    hættum hann segir hún segir því við erum í þessu saman.
    setjum mörktökum þátt í umræðum eins og þessari.það getur aðeins fært okkur framar 🙂

    Líkar við

Færðu inn athugasemd