Að skilja útundan á íslensku

Ertu örvhenturSíðasta sumar staldraði ég við þessa auglýsingu frá Pennanum í Fréttablaðinu. Fyrirsögn hennar „Ertu örvhentur, lesblindur eða með aðra náðargáfu?“ fór í taugarnar á mér, því hún, eins og ótrúlega margar fyrirsagnir og textar sem er ætlað að ávarpa stóran hóp af báðum kynjum, er í karlkyni. Ég skutlaði henni inn á Facebook-síðu Knúz.is undir yfirskriftinni „Hvers vegna skyldi Eymundsson bara vilja tala við helming lesenda Fréttablaðsins í auglýsingunni sem fyrirtækið birti í dag?“ (og átti ég þar við að Eymundsson ávarpaði eingöngu karlkynslesendur en ekki að það væri verið að tala við örvhenta og lesblinda eins og sumir héldu, þetta var eftir á að hyggja kannski ekkert sérstaklega vel orðað hjá mér).

Í kjölfarið spunnust svo áhugaverðar umræður á Facebook-síðunni sem þið getið lesið hér. Þar kom meðal annars fram nokkuð sem ég hafði ekki hugmynd um, sem er að hið ómarkaða kyn íslensku er karlkyn.

Það þýðir að samkvæmt íslenskum málfræðireglum er karlkynið reglulegt eða hlutlaust. Kvenkynið aftur á móti er markað, eða sértækt. Karlkynið á við alla, sama hvers kyns þeir eru, en kvenkynið á bara við konur. Með öðrum orðum: karlkynið er normið í íslensku.

Jesús ávarpar lýðinn í karlkyni í einni frægustu ræðu Biblíunnar

Jesús ávarpar lýðinn (í karlkyni) í einni af frægustu ræðum Biblíunnar

Ég hef auðvitað haft þetta á tilfinningunni, því karlkynið er því miður næstum því allsstaðar normið, en ég var engu að síður alveg yfir mig hneyksluð að þetta skulu hreinlega vera skjalfestar reglur í kennslubókum (t.d. í Orð. Handbók um beygingar- og orðmyndunarfræði eftir Guðrúnu Kvaran), en ekki bara óskrifaðar einsog víða. Málið er nefnilega að hvað sem opinberum málfræðireglum líður, þá er máltilfinning mín sú að þegar ég sé ávarp í karlkyni á borð við „Vertu velkominn!“ þá finnst mér ég bara ekkert vera velkomin. Því mér finnst ekki einsog það sé verið að tala við mig. Það er verið að tala við karla, þeir eru velkomnir. Og ég er orðin þreytt á því að vera alltaf skilin útundan.

Mér er líka fyrirmunað að skilja hvers vegna svo margir kjósa að nota karlkyn eintölu (Vertu tilbúinn fyrir veturinn!) þegar það er hæglega hægt að leysa málið með því að nota hvorugkyn fleirtölu (Verið tilbúin fyrir veturinn!).

[Innskot: Í framhaldi af þessu gæti ég skrifað margt og mikið um orðið „maður“ og hvers vegna í ósköpunum margir vilja tala um menn í staðinn fyrir fólk. En orðið maður krefst eiginlega sér greinar og ég læt mér duga að sinni að segja að konur eru bara alls ekkert líka menn, nema kannski í orðabókum. Ykkur sem eruð ósammála mér vil ég spyrja: Ef einhver segir: „Það kom maður hérna áðan að leita að þér,“ sjáið þið þá fyrir ykkur að það hafi komið kona?]

Það er vel hægt að breyta svonalöguðu. Anna Helgadóttir bendir t.d. á í MA-ritgerð sinni að í ensku hafi fornafnið he tapað kynhlutleysi sínu og fleirtölumyndin they tekið við.*

Ég er vonandi ekki ein um að finnast gjörsamlega fáránlegt að hið ómarkaða kyn, eða normið, í íslenskri tungu sé karlkynið. Að hvað sem öllum hefðum líður þá sé það enn bókstaflega reglan í íslensku að hunsa konur.

Það er meira að segja kennt í málfræðibókum.

 

*Ef einhverjir hafa áhuga á að lesa meira um þetta bendi ég á M.Paed-ritgerð Selmu Gunnarsdóttur, „Málfræðilegt kyn í móðurmálskennslu“ og M.A.-ritgerð Önnu Helgadóttur, „Notkun málfræðilegra kynja í máli ungs fólks“, sem báðar eru aðgengilegar á Skemmunni.

35 athugasemdir við “Að skilja útundan á íslensku

  1. Þegar dóttir mín, átta ára, lýsir fyrir mér t.d. einhverjum leikjanna sem þau krakkarnir í bekknum fara í úti á leikvellinum í frímínútunum gerir hún það með því að segja „… og hann sem er hann, hann á að fara á fyrsta reitinn…“ og þar fram eftir götunum. Það er alveg ljóst að hún er að tala um hóp barna af báðum kynjum, þar með talið sjálfa sig, en þó notar hún „hann“ til að vísa hvert sem er úr þeim hópi. Athyglisvert. Ég er hreint ekki viss um það hvort, og þá hvernig, ég á að ræða þetta við hana eða hvaða áhrif þessi málvitund hefur á hugmyndir hennar um kynhlutverk. Ég er hins vegar nokkuð viss um að áhrifin eru einhver.

    Líkar við

    • Þegar ég vann í barnastarfi tók ég eftir því að börn af báðum kynjum virðast ekki kunna að tala um kvenkyn í fleirtölu. Þ.e. þau geta sagt „hún“ og bent á eina staka stúlku eða konu, en þegar kemur að hópum grípa þau gjarnan til hvorugkynsins „við/þau öll“ jafnvel þó hópurinn sé eingöngu skipaður stúlkum/konum. Á þessum árum sem ég umgekkst börn daglega heyrði ég svona málnotkun margoft og hún er á engan hátt bundin við einhvern afmarkaðan hóp barna í einum skóla eða þar fram eftir götunum. Þetta er eiginlega mjög verðugt rannsóknarefni.

      Að sama skapi kannast ég við orðalag dóttur þinnar frá því ég var sjálf barn. Í eltingarleik var (og er) einhver „hann“ og í hlutverkaleik lék „minn“ við „þinn“, nema kannski í barbí eða mömmó þegar það var hafið yfir allan vafa að persónan manns væri af kvenkyni.

      Getur verið að ástæðan sé sú að það þykir svo niðurlægjandi fyrir dreng eða karlmann að vera kvenkenndur að fólk gerir hvað það getur til að forðast slíka málnotkun, jafnvel þó það feli í sér að hafna kvenkyni stúlkna og kvenna?

      Líkar við

      • Nei.

        Þetta er einfaldlega af því að hið ómarkaða MÁLFRÆÐILEGA kyn er karlkyn.

        Þetta er innbyggt í málkerfi þessa krakka, þau læra þetta á máltökuskeiði. Þetta er bara málfræðiregla í hausnum á þeim. Alveg eins og þau læra að nota nefnifall með sögninni að fara og að það kemur framgómmælt lokhljóð á undin framgómmæltum sérhljóðum. Það er engin pæling að baki þessu. Þetta er innbyggt í málkerfið.

        Líkar við

      • Ég var nú reyndar aðallega að tala um tilhneigingu til að tala í hvorugkyni frekar en karlkyni…

        Og þess fyrir utan er ekkert kerfi án undirliggjandi hugmynda þannig að það er ofureinföldun að afgreiða þetta bara sem eitthvað sem er innbyggt í málkerfið -hringskýringar jafnvel (hlutirnir eru svona af því að þeir eru svona og þess vegna eru þeir svona). Það er ekkert hafið yfir umræðu, vangaveltur eða gagnrýni hvers vegna karlkynið er viðmið frekar en kvenkyn, þetta er þvert á móti mjög verðugt umræðuefni.

        Líkar við

      • Börn nota reyndar rosalega mikið „minns“ og „þinns“ í hlutverkjaleikjum, alveg óháð kyni. Í fleirtölu er það svo „okkas“ og „ykkast“. Ég hélt að þetta væri einhver málvenja sem hefði myndast á leikskólanum þar sem ég starfa en hef svo komist að því að þetta er ansi algengt almennt. Þarna virðast börn hafa myndað sér einhverja málvenju, sem er ansi merkilegt.

        Líkar við

  2. Ef ég er í hópi fólks af báðum kynjum þar sem fleiri eru konur, er notað hvorugkyn í samræðum (t.d. verum tilbúin). En ef karlmenn eru í meirihluta er iðulega talað í karlkyni. Ég hef jafnvel kvartað í flugvél yfir því að flugstjórinn sagði: ,,Við erum komnir upp í x feta hæð“.

    Líkar við

  3. Er ekki iðulega talað um hópa í karlkyni? Samanber „allir voru á ballinu“ eða „hverjir voru á ballinu?“ – ég man eftir að ég hjó eftir því í Færeyjum þegar ég bjó þar að þar voru „öll á ballinu“. Sem hljómar reyndar furðulega á íslensku en ég er talsmaður þess sem hljómar furðulega.

    Í finnsku er svo ekkert málfræðikyn – ekkert hann og hún heldur bara hän. Ég reyndar á vinkonu sem skrifaði master um kynjun í finnsku (í finnskunámi ekki kynjafræði) þar sem hún greindi hvernig var samt stöðugt skilið á milli kynja. Ég kunni bara ekki (og kann ekki) nóg í finnsku til að skilja hvernig það virkaði.

    Var ekki annars mörgu af þessu breytt í nýju biblíuþýðingunni? Ég hef ekki skoðað það en mig minnir að ég hafi lesið um það einhvers staðar.

    Líkar við

  4. Jú, það er rétt að það var talsvert gert til að breyta ávarpsorðum í Biblíunni á þann veg að þar væri talað meira til beggja kynja – en ekki „sæluboðunum“, þ.e. Fjallræðunni. Ég þekki ekki til hlítar hvaða forsendur þýðinganefndin gaf sér fyrir því hverju var breytt og hverju ekki, en ég man að það varð mikil umræða um þetta og þótti ekki öllum ástæða til, og jafnvel lýti að, því að breyta t.d. „bræður“ í „systkin“, svo sem t.d. hér (Rómverjabréfið 15:14):

    „Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um að sjálf eruð þið, góð systkin, svo rík að góðgirni og auðguð alls konar þekkingu að þið eruð fær um að leiðbeina hvert öðru.“

    sem í eldri þýðingu var:

    „En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan.“

    Geir Waage skrifaði t.d. grein í Morgunblaðið um þetta og segir:

    Eg hefi gagnrýnt það, að í þýðingunni eru orð og hugtök, sem ekki eru í frumtextanum, svo sem í brjefum Páls, þar sem hann ávarpar bræðurna, en í þýðingunni er skotið inn sjerstöku ávarpi til kvenna, til samræmis við kröfu kynjapólitísks rjetttrúnaðar í samtíðinni. Um þetta ætla eg ekki að fjölyrða umfram það að minna á, að á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela. Hvar verða mörkin, þegar farið er út á slíkar brautir?

    Ja, stórt er spurt. Geir var raunar svo mikið á móti þýðingunni, af þessum ástæðum og eflaust öðrum, að hann lýsti því yfir að hann myndi aldrei nota hana.

    Líkar við

  5. Takk fyrir fínan pistil, Hildur. Ég er alltaf að vandræðast með þetta. Segi „maður“ mjög mikið og veit ekki almennilega hvað mér finnst um það. Og svo er ég oft í vandræðum með hvenær ég vilji segja „hann“ eða „hún“ þegar ég tala um einhvern óákveðinn einstakling, hvenær ég segi „þeir“ o.s.frv. Það að vísa bara í að eitthvað sé hið málfræðilega ómarkaða kyn eins og það sé eitthvert náttúrulögmál dugar mér ekki. Jú, takk, ég hef heyrt þau rök og geri mér grein fyrir að samkvæmt sögu málsins er það sem er í dag karlkyn ómarkað. En það er ekki endilega ómarkað í hugum fólks árið 2013 og það skiptir máli líka.

    Hér er annars skyld umræða á sænsku: http://www.dn.se/kultur-noje/ordet-man-blir-en-i-kampen-for-jamlikhet

    Líkar við

    • „Jú, takk, ég hef heyrt þau rök og geri mér grein fyrir að samkvæmt sögu málsins er það sem er í dag karlkyn ómarkað. En það er ekki endilega ómarkað í hugum fólks árið 2013 og það skiptir máli líka.“

      Einmitt, enda eru tungumál lifandi og taka breytingum. Og málkerfi eru einmitt ekki náttúrulögmál heldur sköpuð af fólki og endurspegla þar af leiðandi ákveðnar hugmyndir og gildismat, a.m.k. upp að einhverju marki, auk þess sem þau endurframleiða þessar sömu hugmyndir og gildismat. Svo er auðvitað rými fyrir þróun og breytingar innan þessara kerfa líkt og innan annarra kerfa. Ég er ekki sérlega vel að mér í málfræði en þetta er augljóst þegar litið er til þess hvernig merking orða tekur breytingum, svo ekki sé minnst á stafsetningu (sbr.tilvitnun í Geir Waage hér að ofan).

      Líkar við

  6. Ég hef tekið eftir einu í málinu þessu tengt: Það er að færast í vöxt að þegar skrifað/talað er um einhvern eftir starfsheiti viðkomandi er engu að síður vísað til kyns manneskjunnar sem gegnir starfinu, fremur en kyns titilsins, t.d. „Ráðherrann segir að hún muni ekki segja af sér.“ Þessa sést merkis bæði í fjölmiðlum, þýddum bókmenntum og víðar. Fyrir ekki svo löngu hefði þetta þótt (og þykir líklega enn í hugum margra) „rangt“ mál en máltilfinningin virðist vera að breytast.

    Líkar við

  7. Það væri flott að nota orðið fólk meira. Svona skemmtilegur sósíalískur bragur yfir því. (Reyndar pínu þjóðernislegur/þjóðernissósíalískur líka en það þarf ekki endilega að skemma… það sem ég meina er að fólk er skemmtilegt orð).

    En hvað segiði um að þið sem vinnið á auglýsingastofum reynið að koma orðinu „pakk“ inn sem hlutlausu, „talað til fjöldans“, orði.

    Örvhent, lesblint eða annað pakk með náðargáfu! Við bjóðum upp á drasl handa ykkur að kaupa.

    Líkar við

  8. Hér hefur aðeins verið rætt um orðið maður. Ég er ekki tilbúin að gefa körlum það alveg eftir. Ég lít á sjálfa mig bæði sem mann og manneskju og nota hvort tveggja orðið um mannkyn allt. Í ensku máli er auðvelt að breyta man í human og mankind í humankind, en við eigum slíkt orð í íslensku svo ég viti. En ég viðurkenni fyllilega vandamálið af því að hafa generískt orð um mannkyn sem tekur karlkynsbeygingum. Tungumálið gerir okkur grikk. Kannski þarf bara að finna nýtt orð sem getur leyst af hólmi mannkyn og maður.

    Af því að ég nota orðið maður um bæði kyn reyni ég að passa mig á að nota orðið maður aldrei þegar ég er bara að tala um karlkyn. Mér fannst gott að lesa af verðlaunaafhendingu í Kópavogi um daginn, þar sem íþróttakarl og íþróttakona ársins voru verðlaunuð. Bæði voru þau afburða íþróttamenn.

    Meðan orð eru notuð bæði til að tákn karlkynið og sem hið ómarkaða kyn fylgir það alltaf sjálfkrafa með að karlkynið verður normið. Eða eins og einhver guðfræðisnillingur sagði eitt sinn: „God is neither male or female. He is a spirit.“ Guðið sem gegnir persónufornafninu „He“ er alltaf kall.

    Líkar við

    • Takk fyrir skemmtilega grein og umræðu.

      Próf. Guðrún Kvaran tók þátt í vinnu við nýja biblíuþýðingu og þar var unnið eftir þeirri reglu að nota mál beggja kynja þegar samhengið leyfir. Þannig er notað ,,kæru systkin í Kristi“ í stað ,,kæru bræður í Kristi“ svo dæmi sé tekið.

      Þetta er einmitt til að verið sé að ávarpa alla viðstadda, ekki bara karlanna.

      Til gamans má nefna að Biblían er á þremur fornmálum: hebresku (Gamla (eða Fyrra) testamentið), grísku (Nýja testamentið) og latínu (biblíuþýðingar sem notaðar voru í vesturkirkjunni frá snemm-miðöldum, sbr. Vulgata). Á hebresku er andi kvenkyns (ruach), á grísku hvorukyns (pneuma) og á latínu karlkyns (spiritus).

      Guðfræðisnillingurinn hefði því átt að segja: „God is neither male nor female. She is a spirit”?

      Líkar við

  9. Fólk er ágætt orð og hefur þann kost að vera í hvorugkyni. En það getur verið erfitt að nota það um eitt stak í mergð fólkmengisins. Fólk er alltaf margar manneskjur og hvergi fyrirfinnst eitt fólk í merkingunni ein manneskja.

    Líkar við

  10. „Það er vel hægt að breyta svonalöguðu. Anna Helgadóttir bendir t.d. á í MA-ritgerð sinni að í ensku hafi fornafnið he tapað kynhlutleysi sínu og fleirtölumyndin they tekið við.“

    Ég hef tekið eftir því að í fræðigreinum og bókum um börn er í seinni tíð yfirleitt notast við kvenkynið þegar rætt er um barn í eintölu, ‘she’. Á einhverjum tímapunkti hefur þetta breyst því að í eldri bókum er ‘he’ yfirleitt notað. Þannig að já, breytingar eru vel mögulegar.

    Líkar við

    • Akkúrat. Þetta hefur gjörbreyst í ensku á skömmum tíma. She er að verða algengara, að minnsta kosti í þeim bókum sem ég les. Engin ástæða til að ætla að þetta geti ekki breyst hjá okkur líka.

      Líkar við

  11. Ég vil þakka Hildi Knútsdóttur fyrir þessa grein sem mér líkar mjög vel að flestu leyti. Hvað eitt varðar virðumst við þó ósammála, enda segir Hildur: „.. orðið maður krefst eiginlega sér greinar og ég læt mér duga að sinni að segja að konur eru bara alls ekkert líka menn, nema kannski í orðabókum. „ Þarna er ég algjörlega ósammála. Það særir mig í hvert sinn sem ég heyri fólk tala eins og konur séu ekki menn. Ég er maður (homo sapiens) og tel að helmingur mannkyns, þ.e.a.s. kvenmenn, eigi alls ekki að gefa það eftir. Við höfum ágætis orð, kona og karl, til þess að aðgreina kynin þegar þess er þörf sem ég tel reyndar að menn (= fólk, manneskjur) geri alltof mikið af. Spurningu þinni Hildur „ef einhver segir: „Það kom maður hérna áðan að leita að þér,“ sjáið þið þá fyrir ykkur að það hafi komið kona?“ svara ég játandi. Ég gæti átt það til að svara: „ Var það karlmaður eða kvenmaður?“ og ég er sannfærð um að ef við höldum rétt á málum munu komandi kynslóðir gera það.

    Líkar við

  12. Ef að það var í raun Jésús sem flutti þessa fjallræðu, en ekki jóhannes skírari eða bróðir hans, og ef að fjallræðan var yfirleitt flutt, þá má nánast bóka að hún er ekki í sinni upprunalegu mynd. Það er á þeim tíma, eða frá kannski 300 ca eftir krist sem kristnir gerast herskáir í Egyptalandi og fara þá að hamast á lærdómi öllum og allri kven og gyðjuhyggju, að sjálfsögðu er þetta síðan skráð utan kvennasamfélagsins síðar, eða um 400-600, held ég, eftir minni, eníveis…….jésú var ekki karlremba og ekki jóhannes heldur og ef jésú hafði þá fylgissveina og konur sem sagan segir ef grannt er skoðað þá voru það ekki karlrembur, þær/þeir spruttu upp á þessum slóðum með útbreiðslu kristninnar. just saying.

    Líkar við

    • Ef hinn sögulegi Jesús var til þá var hann líkast til karlremba…

      Svona miðað við það samfélag sem hann ólst við.

      Hins vegar ef þú telur hann vera guðlega veru þá getur hann verið hvað sem þú ímyndar þér guðlega veru vera.

      Líkar við

  13. Hvenær datt það útúr málskilningi fólks að hérlendis er rætt um kvenmenn og karlmenn ?
    Hvað er t.d átt við þegar rætt er um manntal , er bara verið að telja karlmenn ?
    Orðhengilsháttur sem þessi á ekkert skilið við feminisma að mínu mati

    Líkar við

  14. Mannréttindi og mennska verða að vera fyrir alla, konur og karla. Ef við gefum baráttuna um það að konur séu líka menn upp á bátinn (þótt þær séu kvenmenn…) og veitum karlmönnum einkarétt hugtakinu þá fórnum við um leið tilkalli til þess að vera mannlegar.

    Þótt fyrsta viðbragð margra þegar þeir heyra orðið maður sé að hugsa til karlmanns þýðir það ekki að konur eigi ekki líka að „fá“ að vera menn. Víða verður misréttis, misskilnings eða mistúlkunar vart án þess að okkur detti í hug að afskrifa viðkomandi málaflokk, enda geta hlutirnir sem betur fer breyst. Þegar ég var krakki (sem er ekki svo langt síðan) var til dæmis oft lögð fyrir gáta þar sem sagt var frá strák sem lenti í bílslysi með pabba sínum og þeir þurftu báðir að fara í aðgerð. Þegar læknirinn kom inn hrópaði hann upp yfir sig: „Ég get ekki gert aðgerð á syni mínum!“. Hvernig gat þessi rökleysa staðist? Það var yfirleitt fátt um svör, enda þótti flestum fjarstæðukennt að mamma væri læknir á þeim tíma. Þótt á einhverjum tíma tengi flestir eitthvað orð við ákveðið kyn þarf það ekki að vera svo að eilífu.

    Hvernig við notum tungumálið endurspeglar hugsun okkar og mótar hana um leið. Ég vil leggja til að við berjumst hversdagslega fyrir mannréttindum allra með því að nota orðið maður frjálslega um allar manneskjur, enda erum við það víst öll, mann-eskjur

    Um leið þakka ég Hildi fyrir annars góðar vangaveltur eins og svo oft áður.

    Líkar við

Skildu eftir svar við helga volundar liljan. Hætta við svar