Furðulegar paradísir – 3. hluti

Höfundur: Mona Chollet, Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega á peripheries.net þann 1. maí 2012. Þetta er þriðji og síðasti hlutinn. Sjá 1. og 2. hluta.

Höfundurinn, Mona Chollet, er knúzaðdáendum ekki ókunn, því hér hefur áður birst grein eftir hana í þremur hlutum: Kvenlíkaminn: Tilbeiðsla eða hatur? I, II og III. Mona Chollet er blaðamaður á Monde Diplomatique og bloggar um femínisma á peripheries.net.

 

 

Ástríðufull vörn normsins

Nancy Huston hefur sagt frá því í ritgerðum sínum hvernig hún færðist frá afstöðu róttæks hugsuðar – löngun til að skynja sig sem hreinan anda, höfnun getnaðarins – yfir í slakari afstöðu: sátt við líkamann, reynslu móðurhlutverksins. Þetta ferli hefur verið henni frábær innblástur. Hér er hins vegar næmi hennar horfið og í stað komið eitthvað sem er ekki jafn áhugavert og heillandi: ástríðufull vörn normsins.

Hún virðist hafa gleymt því að þótt hún sjálf hafi átt erfitt með að tileinka sér það sem tilheyrir því að vera kona, móðurhlutverkið og pjatt, og að ná því hafi verið árangur og hugljómun, er þetta fyrir langflestar konur einmitt það sem þær hafa alltaf neyðst til að standa fyrir og þurfa að losa sig undan til að geta orðið eitthvað meira. Þegar hún vegsamar slíkar kvenlegar dyggðir verður umfjöllun hennar hversdagslega afturhaldssöm.

Hýr nunna – tvöfaldur andgetnaðarsinni?
(mynd af http://flickrhivemind.net/)

Þessi kafli úr Reflets dans l’œil d’homme er þannig mjög óþægilegur aflestrar: „Nautnaseggir og hinsegin fólk minnir á munka og nunnur meir en það gæti ímyndað sér: allir þessir anti-breeders (andgetnaðarsinnar) leggja sig fram um að fara gegn náttúrunni, gefa genaforritun langt nef. Ekkert mál. Þau geta skemmt sér eins og þau vilja, hvort sem það felst í kynlífsbindindi eða hnefaríðingum; tegundinni er sama því þau sem bjóða henni birginn hverfa án þess að skilja nokkur spor eftir sig.“ Það er erfitt að leiða hjá sér vandlætingartóninn og fordómana í þessum línum. Og það er sárt að horfa upp á manneskju sem hefur skrifað svo margt áhugavert og djúpt, sökkva niður á það auma plan að hálfvegis hreykja sér sjálfumglöð af því að vera í liði með náttúrunni og tegundinni.

 

Að leggja blessun sína yfir skipan mála

Einnig er erfitt að sjá femíníska fortíð hennar smættaða niður í ungæðislegan misskilning byggðan á reynsluleysi og ömurlegri róttækni þeirra tíma. Fyrir nokkrum árum gerði hún grín að því að oft væri sagt við hana „Þú varst femínisti …“ líkt og viðmælandi gerði ráð fyrir því að það væri liðin tíð. Nú virðist hún ekki lengur vilja standa undir þessum stimpli: „Ég ætti erfitt með að kynna mig sem femínista í dag,“ játar hún í viðtali við AFP [Agence française de presse] í tilefni útkomu bókarinnar Reflets dans un œil d’homme (25 apríl 2012). Hún virðist láta glepjast af „söng Sírenanna sem boðar smættandi túlkun byggða á tvíhyggju á samskiptum milli karla og kvenna,“ svo ég grípi til orða Djaouida Séhili í formála bókar Irène Jonas. Einnig er líkt og örli á einhvers konar vonbrigðum, þreytu, í þessum viðsnúningi: fyrst það virkaði ekki, fyrst að fjörutíu árum eftir að kvennabaráttan hófst skuli enn ríkja ójafnrétti, þá er allt eins gott að hugsa sem svo að það séu góðar ástæður fyrir því og leggja blessun sína yfir skipan mála.

Enn meiri vonbrigði: Þessum femínisma sem hún afneitar gerir hún óréttlát og ónákvæm skil í bókinni, dregur upp afbakaða og að flestu leyti óraunsæja mynd af honum. Þannig skrifar hún að oftast hafi femínisminn „varðveitt kristnar hugmyndir um grundvallarmun á líkama og sál, og ofmat annars í samanburði við hitt. Hann hefur talið líkamlega fegurð hafa kúgandi gildi, troðið upp á konur af þúsund ára karlrembu, ýkt upp á kapítalíska tímabilinu af snyrtivöru- og tískuiðnaðinum. Í þessari túlkun var pjatt nánast „synd“. Varaðu þig stúlka, sögðu femínísku mæðurnar eins og allar kaþólskar mæður: þegar strákur gefur þér undir fótinn, skaltu alltaf spyrja hann: „Sýnirðu mér áhuga vegna mín eða hefurðu bara áhuga á líkama mínum?“ Líkt og sjálfið gæti verið til án líkama! Líkt og andinn sé meira ekta sjálf, en líkaminn!“

Konur sem lesa eru hættulegar
(myndin kemur frá http://mabouquinerie.canalblog.com)

Það er ekki að furða að manni verði um og ó þegar maður sér hana nota hina klassísku ásökun andfemínista um rétttrúnað án þess að reyna að leyna því. Mikið væri gaman að vita hvar hún hefur heyrt þetta … Maður var vanari því að sjá Elisabeth Badinter nota þá tækni að leggja femínistum ósögð orð í munn og skjóta þau svo niður en Nancy Huston. Eftir því sem ég best veit hafa femínistar aldrei mótmælt þeirri staðreynd að konur séu einnig líkamar, heldur því viðhorfi að þær séu eingöngu líkamar – og líkamar sem þær ráða ekki sjálfar yfir: í magabelti, undir eftirliti, leiðréttar, undirokaðar, stundum limlestar, af fjölskylduyfirvaldinu, eiginmönnum, læknum, fjölmiðlum. Og þegar tísku- og snyrtivöruiðnaðurinn er gagnrýndur er það ekki fyrir að hvetja til pjatts og að laða fram kosti líkamans – nema auglýsingar séu gleyptar algerlega hráar – heldur fyrir að njörva hann niður í staðlað form, hlutgera hann og gera konum einmitt þannig ómögulegt að tjá persónuleika sinn í gegnum líkamann. Vegna þess að meðan iðnaðurinn græðir á því að viðhalda eilífu sjálfshatri kvenna – aldrei nógu fallegar, aldrei nógu grannar, aldrei nógu hreinar, aldrei nógu glæsilegar – meðan hann drepur í þeim alla framhleypni með því að bæla þær niður, draga úr þeim allur móð, gera þær sjálfhverfar í minnimáttarkennd sinni, og innprentaðar í maka þeirra óraunhæfar kröfur til þeirra með stöðugu áreiti gervimynda, eitrar hann öll ástarsambönd þeirra. Það er nóg að rétt líta á þessar sótthreinsuðu myndir sem iðnaðurinn framleiðir til að vita hvorum megin hreintrúarstefnan er. Þetta er það sem kalla má stríð gegn kvenlíkamanum, en ekki femínismann.

Í Reflets d’un œil d’homme vitnar Nancy Huston í femíníska mannfræðinginn Françoise Héritier, sem reyndi að ímynda sér hvað yrði ef nákvæm samhverfa væri milli kvenna og karla í neyslu á vændiskonum og -körlum, og segir síðan: „Með því að reyna alltaf af öllum mætti að troða að hugmyndinni um að kynin séu eins, hafa orðið til hugmyndir um mjög furðulegar paradísir.“ Það er ekki víst að Françoise Héritier hafi í þessum kafla verið að ímynda sér einhvern raunveruleika sem óskandi væri eftir: hún var fremur að reyna að koma fólki í skilning um skekkjuna með því að snúa hlutverkunum við. En þetta orðalag er sláandi. Þessar „furðulegu paradísir“ sem femínistar hafa ætíð reynt að rannsaka og sem eru ekki furðulegar nema af því þær eru svo fáfarnar, munu ávallt vera meira aðlaðandi í mínum huga en þessar eðlilegu og normatívu paradísir sem snúast svo auðveldlega upp í hversdagslegt helvíti.

 

 

4 athugasemdir við “Furðulegar paradísir – 3. hluti

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s