„Óánægju gætir innan félagsins“

 

Gefum okkur að það sé yfirhöfuð góð hugmynd að starfsmenn á fréttamiðli sem eingöngu og aðeins hefur þann tilgang að segja fréttir úr heimi fótboltans (milli þess sem lesendur eru hresstir við með myndum af „sjóðheitum“ eiginkonum frægra fótboltamanna) setjist niður og skrifi frétt um að ónefndur leikmaður í ónefndu 2. deildar liði á Íslandi hafi verið kærður fyrir nauðgun. Jú, og reyndar var leikmaðurinn sem var kærður í byrjunarliðinu þegar liðið hans lék síðustu helgi. Og sú sem kærði nauðgunina („meint fórnarlamb“) er kærasta liðsfélaga þess kærða. Bíddu, er ekki alveg … ja, óvart? búið að gefa lesendum 433.is upp heldur ítarlegar upplýsingar um bæði þann kærða og kæranda? Líklega ætti ekki að vera sérlega erfitt fyrir neinn sem þekkir vitundarögn til í heimi knattspyrnunnar á Íslandi að reikna út hver „meintur gerandi“ er, né heldur sérlega mikið erfiðara að reikna út hver „meint fórnarlamb“ er.
Æ, látum það liggja á milli hluta. Svona næstum því. Þetta er kannski bara klaufaskapur, sennilega ekki illa meint.
Það sem er ömurlegt við þessa frétt er það frá hvaða sjónarhorni sá sem hana skrifar nálgast efnið. Málið er nefnilega búið að hafa „víðtæk áhrif á félagið sem leikmaðurinn leikur fyrir.“ Leikmaðurinn sem er kærasti þeirrar sem kærði er hreint ekki sáttur, væntanlega yfir því að sá kærði skuli enn sparka tuðru með strákunum eins og ekkert hafi út af borið. Og kærastinn er barasta hættur að spila með liðinu, maður sem hafði „komið við sögu í flestum leikjum á tímabilinu“ og því líklega mjög verðmætur fyrir liðið.

„Óánægju gætir innan liðsins.“

Og skyldi engan furða – menn geta nú orðið fúlir yfir öðru eins og því að missa góðan leikmann. Liðsheildin getur beðið óbætanlega hnekki. Þetta skilur nú hver maður og jafnvel líka einhverjar konur sem ekki hafa gripsvit (og enn minni áhuga) á fótbolta.
Enda var ég alveg farin að fatta þetta. Þetta var eiginlega frekar ósanngjarnt af meintu fórnarlambi. Að kæra, meina ég. Hún ætti auðvitað að vita hvað er í húfi. Liðsheildin. Maður er nú ekkert að fokkast í henni – liðsheildinni, sko – bara svona út af einhverjum … persónulegum árekstrum.
Þannig er að minnsta kosti undirtexti þessarar fréttar. Og í lok frásagnarinnar er eins og sá sem hana ritar hafi verið búinn að steingleyma því að fréttin hófst á því að kona kærði nauðgun. Og átti sig ekki á því að þegar slíkt gerist hefur það áhrif á „liðsheildina“ hjá okkur öllum, okkur sem erum að bisa við að búa saman í einhvers konar samfélagi – en ekki bara hjá ónefnda 2. deildar liðinu sem veit bara ekki sitt rjúkandi ráð yfir þessu öllu. Ekki vegna þess að konu kunni að hafa verið nauðgað heldur yfir því að mórallinn er bara alveg í steik. Það er að segja, ef marka má 433.is.

Ég vil reyndar leyfa leikmönnum þess 2. deildar liðs sem um ræðir að njóta vafans og geri því hér með skóna að þeir hafi jafnvel meiri áhyggjur af líðan og velferð konunnar sem kærði, kærustu liðsfélaga þeirra, en af því hvernig liðinu reiðir af í vetur.
Forgangsröðunin hjá 433.is liggur hins vegar ljós fyrir.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s