Ögmundur og orðræðan um jafnréttisúrskurðinn

Síðustu tíu dagana hefur umræða um jafnréttismál verið mikil. Hún rís  í kjölfar úrskurðar kærunefndar um veitingu sýslumannsembættisins á Húsavík og viðbragða innanríkisráðherra í framhaldinu, sem m.a. koma fram í Kastljósviðtali. [1] Úrskurðir kærunefndar eru bindandi, nema að málsaðilinn krefjist þess að réttaráhrifum sé frestað meðan hann rekur málið fyrir dómstólum.  Í dag, föstudaginn 7. september rennur út frestur ráðherrans til slíkrar kröfu. Efni þessa pistils er að greina helstu þætti orðræðunnar um jafnréttisúrskurðinn þessa tíu daga sem liðnir eru frá úrskurði kærunefndar. Hvað fer af stað þegar ráðherra er talinn hafa brotið lög? Hvaða flötum er velt upp í umræðunni?  Hvert fer umræðan?

Í annað sinn á sama árinu hefur kærunefnd jafnréttismála úrskurðað um brot ráðherra á jafnréttislögum. Um fyrri úrskurðinn má lesa hér.[2] Þrír höfðu sótt um embættið á Húsavík, einn þeirra kona, en aðeins tveir sýslumenn af tuttugu og fjórum í landinu eru kvenkyns. Kærunefndin taldi að konan hefði verið hæfari karlmanninum sem stöðuna fékk. Ef mikill kynjahalli er í tiltekinni starfsstétt og starf losnar, og ef umsækjendur teljast jafnhæfir, ber að veita starfið þeim sem er af kyninu í minnihlutanum samkvæmt jafnréttislögum.[3] Með öðrum orðum, ef um jafnhæfa einstaklinga er að ræða, og umsækjandinn sem valinn er  er af kyninu í meirihluta í viðkomandi starfsstétt eða grein, liggur sönnunarbyrðin á þeim sem ræður í starfið. Hann þarf að sýna fram á að valið hafi ekki byggst á kynjafordómum. Kærunefndin telur að Ögmundur innanríkisráðherra hafi ekki getað sýnt fram á gildan rökstuðning fyrir því að hafa valið einn karlinn enn í stöðu sýslumanns og að hann sé því sekur um lögbrot.

Ögmundur innanríkisráðherra hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir skipanina.  Einar Karl Friðriksson hefur skrifað pistil þar sem hann telur Ögmund ekki túlka jafnréttislögin rétt, og að ekki verði séð af rökstuðningi hans að mat hans sé byggt á málefnalegum forsendum.[4]  Ólafur Stephensen skrifar leiðara í Fréttablaðið þar sem hann hvetur Ögmund til að axla ábyrgð enda hafi hann verið ófeiminn við að gagnrýna skort annarra á skilningi á jafnréttismálum. [5]  En jafnréttismál Ögmundar hefur líka kallað fram aðra fleti, skoðanir og röksemdir sem vert er að líta á.

a.      Ráðherraábyrgð og viðbrögð

Jafnréttisnefnd Framsóknarflokksins hefur stigið fram og sagt að Ögmundur ætti „að skammast sín“, Eygló Harðardóttir andvarpar:  „Af hverju Ögmundur?“[6] og Hvöt, félag Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík segir að ríkisstjórn sem kenni sig við kvenfrelsi og jafnrétti eigi að fara sjálf eftir eigin orðum.[7] Jafnréttisstýran Kristín Ástþórsdóttir segir ráðherrann „sýna mikla þrjósku“.[8] Gagnrýni á Ögmund hefur einnig verið hávær úr hans eigin flokki.  Líf Magneudóttir vill að Ögmundur íhugi afsögn, [9] stjórn ungra Vinstri grænna vill að hann biðjist afsökunar,[10] og Björn Valur Gíslason segir að kostir Ögmundar í stöðunni séu aðeins tveir, að fara með málið fyrir dómstóla eða viðurkenna mistök sín. Verði niðurstaða dómstólsins sú sama og kærunefndar, hljóti ráðherrann að þurfa að víkja.[11]

Ögmundur hins vegar „skammast sín“ ekki neitt. Hann telur sig ekki vera að „hefja sig upp fyrir lögin“, hann vill ekki fara „afsakandi niður á hnén“, en fagnar umræðu um málið. Hann er ódeigur að skrifa svargreinar um gagnrýni og mæta í viðtöl, svo sífellt hlaðast upp fleiri textar sem hægt er að moða úr við mat á ráðherranum, hegðun hans og breytni. [12]Umræðan hefur að töluverðu leyti snúist um hegðun ráðherrans í kjölfar jafnréttisúrskurðarins.

b.     „Súrrealísk úrskurðarnefnd“

Stefán Ólafsson prófessor hins vegar gagnrýnir þær forsendur sem úrskurðarnefndin byggir á og telur að mat nefndarinnar sé of frumstætt. Stefán skrifaði grein í sumar um jafnréttismál annars ráðherra sem hann kenndi við súrrealisma nefndarinnar og hefur endurtekið margt af fyrri röksemdum í þessari lotu.[13] Á sömu slóðum og gagnrýni Stefáns er grein Ástu Bjarnadóttur vinnusálfræðings, „Er Georg Bjarnfreðarson hæfastur?“[14], þar sem Bjarnfreðarson verður eins konar táknmynd þess umsækjanda sem hefur til að bera mikla menntun, en er ekki endilega hæfastur.

c.      Sambærileiki jafnréttisbrota

Inn í umræðuna hefur líka fléttast samanburður á Ögmundurúrskurðinum og fyrri úrskurðum kærunefndar á brotum ráðherra á jafnréttislögum. Þar ríður Elías Jón Guðjónsson fram á ritvöll og telur mikinn mun á broti Ögmundar og t.d. Björns Bjarnasonar vegna þess að þess sjáist engin merki að Ögmundur hafi verið að hygla vinum sínum eða gera þeim til góða.[15] Í sama streng tekur Þóra Kristín Ásgeirsdóttir [16], sem reyndar átelur viðbrögð Ögmundar en telur himin og haf milli hans jafnréttisbrots og frændhygli Björns Bjarnasonar.

d.     Aðrir hagsmunir en jafnréttismál

Þóra heldur áfram og spyr hvort aðrir hagsmunir liggi að baki gagnrýni á Ögmund en ást á jafnréttismálum. Í bakþönkum Fréttablaðsins síðasta miðvikudag er vitnað í Facebook-síðu Láru Hönnu Einarsdóttur þar sem Lára Hanna gagnrýnir fjölmiðla fyrir að vera svona uppteknir af Ögmundi og jafnréttismálinu meðan þeir sofa á verðinum vegna stórra hagmunamála almennings.  Jón Valur Jensson rær á svipuð mið í pistli þar sem hann telur verið að knésetja þann stjórnmálamann sem helst og fremst hefur barist gegn áformum Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum.[17]

e.      Jafnréttisúrskurðir stuðla ekki að framgangi jafnréttis

Jón Magnússon skrifar grein og telur að jafnréttisúrskurðir stuðli ekki að framgangi jafnréttis, heldur séu tæki til að auka völd „framgjarnra háskólakvenna“ meðan femínistum sé sléttsama um hag láglaunakvenna. Jón er einnig hallur undir þá skoðun að gagnrýnin á Ögmund tengist meira pólitískum hræringum innan Vinstri grænna en umhyggju fyrir konum. [18]

f.       Það er nóg komið af þessu jafnrétti

Að lokum má nefna stuðningsyfirlýsingu við Ögmund í Morgunblaðinu frá Stefaníu Jónasdóttur á Sauðárkróki þar sem hún telur komið nóg af þessu jafnréttistali og að konur séu farnar að ganga um of á rétt karla og drengja. [19]

 

Í upphafi spurði ég hvert umræðan hefði farið þessa tíu daga, gerði tilraunir til að sýna nokkrar birtingarmyndir hennar hér og greina í flokka.  Svo má spyrja hvort gild sjónarmið komi fyrir í öllum þessum flokkum, eða hvort röksemdirnar drepi málinu á dreif frekar en að varpa ljósi á það. Eftir stendur spurningin: „Hvað gerist þegar ráðherra brýtur lög?“ Þeirri spurningu þarf Ögmundur að svara í dag.

 

 

Myndin er tekin af cartoonmovement.com

 


[1] Úrskurðinn má nálgast hér: http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/KaerunefndJafnrettismala/nr/4523. Viðbrögð Ögmundar má meðal annars sjá í Kastljósviðtali frá 3. september 2012:  http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/03092012/ogmundur-jonasson-um-urskurd-kaerunefndar

[3] Lögin um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna má nálgast hér: http://www.althingi.is/lagas/140a/2008010.html

15 athugasemdir við “Ögmundur og orðræðan um jafnréttisúrskurðinn

  1. Ágæt samntekt en gaman væri að Sigríður drægi af henni frekari ályktanir. Mínar skoðanir:

    a) Reiðin (og ég fullyrði að reiði er rétt orð í þessu samhenig) sem beinist að Ögmundi er fyrst og fremst tilkominn vegna ömurlegra viðbragða hans við úrskurðinum.

    b) Það gengur ekki upp að ráðherrar leggji persónlegt mat á fólk sem hann á að skipa í opinber embætti. Ég legg ekki mat á vinnu úrskurðarnefndarinnar, mig skortir þekkingu til þess.

    c) Ef rétt er að Ögmundur hafi engin tengsl við umræddan karlmann þá er auðvitað munur á því og þegar Björn Bjarna skipaði Ólaf Börk. Auðvitað.

    d) Vitanlega liggja aðrir hagsmunir að baki gagnrýni á Ögmund vegna málsins í einhverjum tilvikum. Auðvitað er það ekki bara einskær ást á jafnrétti sem knýr Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna til að gagnrýna Ögmund, kommon. Í mjög mörgum tilvikum er það hins vegar ást á jafnréttismálum, t.d. er ég nokkuð viss um að svo sé hjá UVG. Svo leiðist mér óskaplega þetta konsept sem Lára Hanna er að eipa um, að það megi aldrei tala um svona hluti því það sé svo margt annað vont í gangi sem ekki sé talað um. Sbr. „Af hverju eyðum við peningum þróunaraðstoð meðan heimilin brenna“ konseptið sem er svo ríkjandi í íslenskri orðræðu.

    e) Jón Magnússon er íhaldssöm karlremba og persona non grata í svona umræðum.

    f) Stefanía Jónasdóttir er íhaldssöm karlremba og persona non grata í svona umræðum.

    Líkar við

    • Sæll og blessaður Freyr og takk fyrir andsvarið og skoðanirnar, sem ég er mjög sammála. Ráðherra á að virða þau lög sem hann sjálfur tekur þátt í að setja og framkvæma. Ef þú smellir á neðanmálsgrein 2, þar sem ég fer í gegnum mál Jóhönnu Sigurðardóttur ættir þú að sjá viðhorf mitt gagnvart jafnréttisbrotum. Umræðan síðustu tíu daga hefur farið út um víðan völl og tilgangur minn var að reyna að flokka viðhorfin og horfa á þau með einhverjum heildstæðum hætti. Auðvitað vantar mjög mikið inn og því væri gaman að heyra af fleiri greinum og fleiri öngum umræðunnar. Ég býð t.d. eftir hinni týpísku grein sem mjög oft kemur upp í jafnréttismálum að umsækjandinn sem framhjá er gengið sé örugglega ómögulegur. Öll viðhorf eru texti og þess vegna tók ég líka með viðhorf sem mér sjálfri eru framandi eða ég er ósammála. Þetta er hugsað svona eins og kalt borð í fermingarveislu, þar sem hægt er að einbeita sér að ólíkum diskum.

      Líkar við

  2. „Ef mikill kynjahalli er í tiltekinni starfsstétt og starf losnar, og ef umsækjendur teljast jafnhæfir, ber að veita starfið þeim sem er af kyninu í minnihlutanum samkvæmt jafnréttislögum“.
    Hvar í jafnréttislögunum stendur þetta? Ég las þau og ég fann það ekki.

    Líkar við

    • Sæll Erlingur og takk fyrir þetta. Setningin sem þú vitnar í er útskýring mín á sönnunarbyrði atvinnurekandans. Lagagreinarnar sem ég er að útskýra eru annars vegar 1. grein,og hins vegar 26. grein.

      Í fyrstu grein segir að markmið laganna sé: “koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.”

      í 26. grein laga um jafnan rétt kvenna og karla segir:
      ” Ef leiddar eru líkur að því að við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, starfsþjálfun, símenntun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns, töku fæðingar- og foreldraorlofs eða annarra aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.”

      Aðstæðurnar sem ég lýsti um kynjahallann og stéttir sem eingöngu eða að miklum meirihluta eru skipaðar öðru kyninu, eru til þess fallnar að skapa líkur sem umsækjandinn getur reist kröfu sína á. Með öðrum orðum, sá eða sú sem gengið er framhjá við stöðuveitingu þarf ekki að sanna það að mismunun hafi átt sér stað vegna kynferðis eða aðstæðna sem tengjast meðgöngu og barnsburði þegar viðkomandi kærir ráðningu. Það er atvinnurekandans eða stjórnvaldsins að sýna fram á að ráðningin byggi á málefnalegum rökum en ekki mismunun vegna kynferðis. Sönnunarbyrðin hvílir á atvinnurekandanum. Og þess vegna er nóg að umsækjandinn teljist jafnhæfur þeim sem stöðuna fékk til þess að kærunefnd jafnréttismála úrskurði atvinnuleitandanum í hag.

      Ef karlkynsumsækjandi um stöðu í vinnuumhverfi sem er að miklum meirihluta skipað konum kærir ráðningu þar sem framhjá honum var gengið þarf vinnuveitandinn eða stjórnvaldið að sýna fram á að ráðningin hafi verið málefnaleg og ekki byggð á mismunun vegna kynferðis. Og konur sem sækja á móti karlmönnum um hefðbundin karlastörf sömuleiðis.

      Bestu kveðjur, Sigríður

      Líkar við

    • Sæl og blessuð Lára Hanna. Ástæðan fyrir því að ég vitnaði í bakþanka Fréttablaðsins um ummælin frekar en facebook ummælin sjálf er að ég vildi vitna í heimildir í almannarými. Ég er vinur þinn á Facebook og hafði séð ummæli þín þar. Ég hef ekki vísað í facebook ummæli vina minna sem aðeins hópur manna sér, því flestir hafa FB síðurnar sínar læstar fyrir öðrum en vinum og því erfitt að leita uppi heimildirnar. Þess vegna er það dýrmætt að sjá upphaflegu ummælin hér, takk fyrir skjáskotin. Ég virðist vera eini femínistinn í heiminum sem kann ekki að gera skjáskot.

      Umfjöllun mín um ummæli þín á Facebook var svohljóðandi: „Lára Hanna gagnrýnir fjölmiðla fyrir að vera svona uppteknir af Ögmundi og jafnréttismálinu meðan þeir sofa á verðinum vegna stórra hagmunamála almennings.“ Ég get ekki séð af lestri upphaflegu ummmælanna að þessi endursögn sé villandi, en eflaust hefði verið skýrara að taka fram að þú værir að svara athugasemdum á öðrum þræði, sumsé að ummmæli þín væru hluti af stærra umræðusamhengi. Ég tók ekki undir gagnrýni Fréttablaðsins á ummmælin eða rakti þá gagnrýni, vegna þess að mér var fyrst og fremst umhugað um að flokka umræðurnar frekar en að gera nákvæmlega grein fyrir einstökum þráðum.

      Bestu kveðjur, Sigríður

      Líkar við

  3. Bakvísun: Lögreglustjórinn á Norðausturlandi | Jafnréttismál

Færðu inn athugasemd