Hin hugrakka stendur undir nafni

Athugið! Hér að neðan koma fram upplýsingar um söguþráð, framvindu og sögulok Pixar-myndarinnar Brave (2012).

Það stendur ekki til boða á hverjum degi að fara með börnin á bíómynd þar sem aðalsöguhetjan er ekki aðeins kvenkyns, heldur stendur frammi fyrir áskorunum og vandamálum sem mætti strangt til tekið flokka sem „kvennavandamál.“ Ég snaraði mér á bíó til að sjá Brave eða Hin hugrakka, bæði til þess að skemmta mér með börnunum og til að rýna í myndina með kynjagleraugun yfir þrívíddargleraugunum. Ekkert okkar varð fyrir vonbrigðum.

Aðalsöguhetja Hinnar hugrökku heitir Merida og er ung kona. Þetta sætir tíðindum þar sem í þeim tólf myndum sem Pixar hefur sent frá sér hefur aðalpersónan alltaf verið karlkyns. Annar leikstjóra og handritshöfunda „Brave“ er Brenda Chapman en hún er fyrsta konan sem gegnir slíku lykilhlutverki við hugmyndafræðilega vinnslu Pixar-myndar. Mögulega er það þess vegna sem hér er komin teiknimynd fyrir afþreyingarmarkaðinn þar sem ekki bara ein heldur tvær konur eru í forgrunni frásagnarinnar og eru dregnar skýrum og fjölbreytilegum dráttum. Athygli vekur að aukapersónur eru nánast allar karlkyns, lítið annað en staðlaðar týpur og raunar harla óeftirminnilegar sem slíkar, að undanskilinni þriðju konunni í sögunni, norninni, sem er fyndin.
Er mögulegt að þessi mynd sé fyrsta teiknimyndin/fjölskyldumyndin þar sem fjallað er um hina sígildu togstreitu á milli móður og dóttur á sannfærandi hátt? Við könnumst mörg við þessa sögu: móðir vill að dóttirin feti sömu leið og hún gerði sjálf, enda felur allt annað í sér óbeina gagnrýni á val mömmunnar. Eða kannski ekki óbeina – því Merida hin óstýriláta lætur móður sína hafa það óblandað og segir: „Ég vil ekki verða eins og þú, mamma!“ Þannig slítur hún með táknrænum hætti böndin á milli þeirra mæðgna. Þetta sár þarf að græða og myndin fjallar í aðra röndina einmitt um það hvernig hægt er að bæta fyrir eigingirni og sjálfselsku án þess að varpa eigin vilja og vali fyrir róða. Þetta gæti ekki orðið sósíalrealískara þótt það væri sænskt.
Söguhetjan stendur karlmannslaus eftir í sögulok. Vonbiðlarnir sigla á braut og þegar Merida stóð eftir á bryggjunni og veifaði þeim langaði mig helst að rísa úr bíósætinu og klappa. Ég stillti mig um það til að forða dóttur minni og vinkonu hennar frá yfirgengilegum vandræðagangi (þessum fimm ára er enn alveg sama þótt mamma láti eins og fífl á almannafæri). Samt var það einmitt fyrir hönd þessara stelpna sem mig langaði að fagna – af því að einhverjum hafði loksins dottið í hug að bjóða þeim upp á flotta, spennandi afþreyingu þar sem enginn fær stelpuna í lokin. Hún fær bara að eiga sig áfram sjálf.

Vegferð Meridu að þeim eftirsóknarverða stað þar sem hún má eiga sig sjálf er ekki áfallalaus. Í upphafi sögunnar er henni ætlað að stíga umorðalaust inn í sitt áskapaða kyn- og fjölskylduhlutverk og giftast fulltrúa hinna þriggja ætta sem lúta föður hennar. Þannig, segir móðir hennar, muni hún tryggja farsæla sambúð ættanna fjögurra og forða mannskæðu og eyðileggjandi stríði. Ekki til lítils ætlast, sérstaklega séð með augum nútímastúlkna.

Merida unir sér illa í prinsessuþjálfun hjá mömmu en þeim mun betur við skotæfingar úti í skógi. En getur hún leyft sér að gefa skít í hefðir og heiður, frið og farsæld, bara vegna þess að hana langar að njóta frelsis, gera það sem henni finnst skemmtilegast og fá að vera í þægilegum fötum? Við veltum þessu fyrir okkur í hléinu, ég og þessar átta ára, og gátum ekki svarað. Sem mér finnst tvímælalaust vera meðmæli með myndinni. Það er nefnilega ekki nóg að stappa bara niður fæti og heimta sitt, hverjar sem afleiðingarnar kunna að verða, og billegar lausnir á borð við þá sem Merida kaupir hjá norninni eru aldrei góðar lausnir. Enda fer allt í eina allsherjar steik, mamma gamla „breytist“ ívið meira en til var ætlast og það stefnir hraðbyri í borgarastyrjöld, nema báðar konurnar leggi á sig bæði sjálfskönnun og umtalsvert erfiði til að mætast á miðri leið. Það gera þær, leysa í sameiningu úr sínum málum og koma ófreskju fyrir kattarnef í leiðinni, án aðstoðar karlkyns bjargvættar af nokkru tagi. Við öll þessi femínísku undur bætist að myndin er svo spennandi að bæði ég og börnin gleymdum að borða poppið okkar – svo það er ekki annað hægt en að gefa Hinni hugrökku háa einkunn.

Reyndar fjallar Hin hugrakka að mörgu leyti ekki síður um móðurina, Elinor, en um dóttur hennar Meridu. Umbreyting móðurinnar í risastóra birnu sem ver afkvæmi sitt bókstaflega með kjafti og klóm snerti mig í einfaldleika táknmyndarinnar. Í birnuhamnum fær móðirin, sem í sínu venjulega ástandi er heft af hefðarvenjum, hlutverkaskipan og klæðnaði þess hlutverks sem henni hefur verið áskapað, að leysa úr læðingi villtara eðli en dóttur hennar hafði grunað að hún ætti til. Framan af reynir hún að halda í fyrri venjur, svo sem að borða með hníf og gaffli, en gefst upp á því og rífur loks í sig fiskinn sem dóttir hennar kennir henni að veiða. Hún gleymir sér við að fanga spriklandi laxinn með klónum og busla í ánni með dóttur sinni og með því að rymja og urra tekst henni að eiga innihaldsríkari tjáskipti við Meridu en henni hafði lánast á mannamáli. Mér þótti áhrifamikið að sjá hana ráðast urrandi og froðufellandi á enn stærra bjarndýr til að bjarga börnum sínum og samfélaginu öllu – og hafa sigur. Með hjálp dóttur sinnar en án liðsinnis nokkurs karlkyns „aðstoðarmanns.“ Mig langaði líka að klappa fyrir því atriði.

Það er auðvitað spurning út af fyrir sig hvers vegna það er svona langt á milli kvenkyns hetja – og þá á ég við kvenkyns aðalsöguhetjur sem hafa eitthvað annað hlutverk í myndinni en að láta bjarga sér – í meginstraums teiknimyndum. Í Fréttablaðinu um daginn las ég að það hefði tekið „tugi manna þrjú ár að hanna forrit sem gæti samræmt hreyfingar hárlokka Meridu á sannfærandi máta.“ Þýðir það að ástæðan fyrir sjaldgæfi kvenhetja tæknilegs eðlis? Að framsetning líkama þeirra sé svo flókin? Hárið var alveg ofsalega flott.
Að lokum er vert að nefna að myndin stenst Bechdel prófið með glans.

7 athugasemdir við “Hin hugrakka stendur undir nafni

  1. „Það er auðvitað spurning út af fyrir sig hvers vegna það er svona langt á milli kvenkyns hetja – og þá á ég við kvenkyns aðalsöguhetjur sem hafa eitthvað annað hlutverk í myndinni en að láta bjarga sér – í meginstraums teiknimyndum.“ALLT sem Studio Ghibli hefur gert. Disney lumar líka á nokkrum.

    Líkar við

    • Sæll mr. haux – ég er lítill sérfræðingur í teiknimyndum öðrum en þeim sem ég horfði á sem barn og hef horft á með börnunum mínum undanfarin ár og þekki ekki Studio Ghibli, þurfti sem sagt að gúgla fyrirbærið. Í þessum pistli vísar hugtakið „mainstream“ teiknimyndir til mynda sem eru í almennri sýningu í bíóhúsum og ég get ekki séð að myndir frá Ghibli falla í þann flokk, þótt þær séu eflaust vel þekktar innan sérlegra áhugamanna um teiknimyndageirann. Og já, sumar kvenhetja Disney hafa einhverja aðra fúnksjón en að láta bjarga sér (þá helst Múlan) – en það þarf iðulega að hóa í karlkyns bjargvætt til að redda málunum á síðustu stundu og vera „love interest“ í leiðinni. Það gerir Brave talsvert merkilega að í henni er ekki neinu slíku fyrir að fara. Og svo stenst hún Bechdel-prófið, sem er held ég býsna sjaldgæft þegar mainstream-teiknimyndir eru annars vegar. Takk fyrir að lesa og kommentera!

      Líkar við

  2. Mjög góð og skemtileg kvikmyndarýni hjá þér. Hafði gaman af lestrinum.

    Ég gorfði einmitt á þessa mynd um daginn með syni mínum og höfðum við báðir mjög gaman af.

    Annars finnst mér samskiptin milli móðurinnar og dótturinnar líka tákna ströglið milli úreldra og nýrra gilda. Mamman táknar hin gömlu gildi sem eru í raun úreld. Hún vill að dóttirin sé bara fína og stillta prinsessan því að þannig hafði það verið þegar hún var ung og þannig hafði það alltaf verið, þessvegna væri engin tilgangur í að breyta því. Merida hinsvegar táknar nýja hugsjón um þá konu sem neitar að vera steypt inní einhver fyrirfram myndað form af þeirri manneskju sem hún Á að vera en ekki sem hún VILL vera.

    Mér finnst þroskasaga mömmunnar vera í raun stærri partur í sögunni heldur en Meridu. Því þótt hún vilji vel þá er hún að ætlast til þess að sami hlutur og gerði hana hamingjusama geri Meridu hamingjusama. En að lokum verður hún að sætta sig við að tímarnir séu að breytast.

    Líkar við

  3. Takk, Ómar, ég er sammála þér að því leyti að saga og breytingaferli móðurinnar er ekki síður í forgrunni en saga Meridu, sem gerir myndina merkilega „sósíalrealíska“ af afþreyingarteiknimynd fyrir börn að vera – og eykur gæði hennar og gildi stórlega um leið, finnst mér. Afbragðs mynd!

    Líkar við

  4. Ég fór á þessa mynd eftir að hafa heyrt að „enginn fengi stúlkuna í lokin“ og var því með miklar væntingar. Ég varð fyrir vonbrigðum því myndin stóð ekki undir væntingum. Merida er öfgakennd í mótþróa sínum. Vandamálið er vissulega slæmt en þessi „billega lausn“ sem hún velur til að fá móður sína til að skipta um skoðun var ósanngjörn. Mér fannst lítið um hugrekki þarna, það eina sem hún gerir af hugrekki er að segja sína skoðun en svo beitir hún þarna lúalegu bragði til að fá sitt fram og restina af myndinni þarf hún að reyna að laga mistök sín.
    Sumum finnst flott að sjá móðurina sem björn sem fær að éta af áfergju og rymja hátt og vera þannig ekki lengur hefðarfrú en ég túlkaði þetta sem að björninn væri að yfirtaka móðurina og hún væri að missa tökin.
    Svo fannst mér svolítið stuðandi hvað allir karlmennirnir í myndinni voru hafðir vitlausir. Eins og til að auka bilið á milli þeirra og mæðgnanna.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd