Hungurleikarnir

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

„Þetta er líkami til að drepa fyrir“ stóð í illa þýddri grein á einhverjum netmiðli sem sýndi stælta, hraustlega, ljóssólbrúna stúlku, sem brosti við ljósmyndaranum, geislandi af þessari eftirsóknarverðu hamingju sem ku fylgja því að vera grannur og í góðu formi. Á dægurmiðlunum úir og grúir af alls konar boðskap um að koma sér í form fyrir sumarið, fyrir sundbolinn, fyrir ströndina, hvernig á að ná af sér síðustu kílóunum, koma sér upp flötum maga og sixpakk á sjö dögum og allt þar á milli. Þetta sjáum við á bleiku drottningasíðunni, hjá pjattrófum hérlendis og erlendis og undirtónninn er alltaf sá sami. Borða minna, borða ekki feitt, ekki sætt, ekki þetta, ekki hitt, þrauka undir hungurmörkum dag eftir dag, fylgjast með vigtinni, vigta ofan í sig matinn og alltaf er viðmiðið þessi eftirsótta kjörþyngd. Maður verður svangur við þennan lestur.

En allt hefur þetta tilgang. Okkar hungurleikar eiga sér stað í ræktinni, fyrir framan spegilinn, í fataverslunum, jafnvel á almannafæri þar sem maður dregur inn magann þegar búkurinn speglast í búðarglugganum. Við fylgjumst með öðrum keppendum hungurleikanna sem sýna stoltir fagurskapaðan líkama sinn, upplýsa megrunarráð, æfingar, frumsýna nýja líkamann eftir barnsburð eða meðferð og alltaf er árangurinn svo glæsilegur að sjoppulegir þátttakendur fyllast samviskubiti yfir ódýra ruslfæðinu sínu sem er besti vinur keppanna og skvapsins.

Hunguriðnaðurinn veltir hærri upphæðum en venjulegur launþegi getur reiknað út og þess vegna verður að tryggja virka þátttöku, alla vega í janúar þegar árskortin eru seld, eða á vorin þegar sumarformið skiptir öllu, og svo þegar haustar, þarf að koma sér í kjólinn eða sjá á sér tólin fyrir jólin. Enn og aftur er viðmiðið þessi tala sem er miðuð við hæð og kyn og kannski eitthvað fleira en kjarni málsins er að þorri þjóðarinnar er fyrir ofan hana og sumir svo langt að brátt stefnir í óefni. Við þessu verður að bregðast. Hamingja alþýðu manna er í húfi.

Ég hef löngum barist fyrir breyttri kjörþyngd í ræðu og riti og sé ekkert annað í stöðunni en að Alþingi taki í taumana. Ekki verður skortur á flutningsmönnum fyrir þetta þjóðþrifamál sem enginn getur verið á móti:

Frumvarp til laga 
um kjörþyngd Íslendinga.

Í fyrsta áfanga er einboðið að kjörþyngd verði hækkuð um 50%. Eftir hæfilegan aðlögunartíma verður kjörþyngdin síðan gefin frjáls, líkt og veiðar á úthafskarfa eða rækju í Djúpinu. Kjörþyngd verður sú þyngd sem maður hefur kjörið sér að vera í hverju sinni.

Ef vel tekst til og fólki tekst að slíta sig úr hlekkjum hugarfarsins, verður vísir að byltingu. Þátttaka í hungurleikunum verður valkostur, án utanaðkomandi pressu, áróðurs, heilaþvottar og allra álíka bragða sem útlitsiðnaðurinn beitir til að tryggja þátttöku. Við getum aftur orðið hamingjusamasta þjóð í heimi.

Auðvitað fylgir þessu ákveðið samviskubit. Ég finn til með miðlunum sem gera út á ótta fólks við fituna og gætu lent í mikilli efnisþurrð og hugmyndafátækt þegar heilum efnisflokki verður sturtað niður með lögum. En sú er huggun harmi gegn að hægt er að fjalla um svo undurmargt annað en útlit annarra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s