Gínur og begínur

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

Begína við dagleg störf.
Mynd: wikispaces.com

Á þrettándu öld varð til trúarhreyfing kvenna í Niðurlöndum. Þessar konur voru kallaðar begínur og þær bjuggu saman í litlum og stórum kommúnum. Þær voru ekki nunnur og höfðu ekki unnið eiða um hlýðni við eina reglu, en þessi óformlegu samfélagsmynstur kvenna áttu eftir að hafa mikil áhrif á dulúðarhefðir Norður-Evrópu. Begínurnar eru eitt áhugaverðasta dæmi sem vitað er um frá miðöldum um konur sem bjuggu við sjálfstæði og myndugleika og höfðu áhrif sem enn gætir í hugarheimi Vesturlanda.
Á fimmtándu öld fundu slyngir skreðarar upp á því að búa til litlar dúkkur til að klæða föt sín í til útstillingar. Um miðja nítjándu öld voru þessar dúkkur eða gínur komnar í fulla stærð og farnar að prýða búðarglugga og uppstillingar á gólfum verslana. Þær voru fyrst búnar til úr basti, en síðan vír. Nú á dögum þekkja allir gínurnar sem blasa við okkur úr búðargluggunum. Þær eru hreyfingarlausar uppistöður fyrir söluvarning, eftirlíkingar af vexti lifandi vera (en töluvert horaðri).

Í dag birtist á síðum Fréttablaðsins bakþanki eftir Friðriku Benónýsdóttur undir nafninu „Gínurnar í glugganum“. Í greininni vísar Friðrika í nýafstaðið biskupskjör og líkir því við útstillingu gínu í búðarglugga. Friðrika segir: „Sú staðreynd að kjörið sýnir fyrst og fremst þann ásetning kirkjunnar manna að viðhalda status quo og slá um leið vopnin úr höndum þeirra sem hafa gagnrýnt kirkjuna fyrir kvenfyrirlitningu fellur í skuggann.“ Eftir að hafa þannig afhjúpað einhug og lævísi „kirkjunnar manna“ lýsir Friðrika áhyggjum sínum vegna þess hversu stutt jafnrétti kynjanna er á veg komið, nefnir klámvæðingu, kvenfyrirlitningu, og vændi, kynferðisbrot og lág laun verkakvenna. Þessar áhyggjur rammar Friðrika síðan inn með spurningu um það hvort framgangur kvenna í opinberum stöðum hafi skilað sér í raunverulegu jafnrétti kynjanna og klykkir út með þessum orðum:

Það að kona fari úr prófastsembætti í biskupsembætti hefur því miður sorglega lítið með jafnrétti kynjanna að gera. Því jafnrétti miðar ekkert áfram á meðan dætur okkar standa frammi fyrir því að verða fyrst og fremst metnar út frá kynferði sínu en ekki atgervi.

Eins og Friðrika hef ég áhyggjur af óeðlilegum launamun, ofbeldi gegn konum og kvenfyrirlitningu. Ég vil jafnrétti eins og Friðrika, ég vil að konur séu metnar fyrst og fremst út frá atgervi en ekki kynferði. En ég get ekki séð að líkingamál Friðriku af útstilltu gínunum (lesist konur í opinberum stöðum og sérstaklega hinn nýi biskup) sé þeim réttindamálum endilega til framdráttar. Til þess eru alhæfingar hennar um getuleysi áhrifakvenna of geðvonskulegar og óljósar.
Störf kvenna sem valdar eru til ábyrgðarstarfa eru ekki hafin yfir gagnrýni. Kvenkyns valdhafar þurfa að sæta aðhaldi og gagnrýni eins og karlmenn. En væntingar til þeirra eru oft mjög óljósar og niðurbrjótandi líka. Það er algengt viðkvæði þegar konur berjast fyrir auknum völdum að segja þær aðeins hugsa um eigin hag. Það er líka algengt að stilla upp valmöguleikum milli þess að kjósa hæfasta einstaklinginn eða konuna, líkt og þetta tvennt geti ekki farið saman. Og það að stimpla íslenskar valdakonur í embættismannakerfi og pólitík á einu bretti sem gluggaútstillingu er að gera þær valdlausar, að gínuvæða konur.

Fyrsti biskupinn, Ísleifur Gissurarson, var vígður árið 1056 og síðan hafa 109 aðrir karlmenn verið vígðir til að þjóna íslensku kirkjunni í kaþólskum og lútherskum sið, á hinum fornu stólum og í höfuðstaðnum. Biskupinn er sameiningartákn þjóðkirkjunnar og þetta tákn hefur í þúsund ár á Íslandi verið andlit karlmanns, tengt sögu og stað órofa böndum. Kona hefur nú verið valin sem þetta sameiningartákn. Að hreyfa við þessu tákni hefur áhrif á karllæg gildi innan kirkjunnar og vekur vonir margra um begínulegri kirkju.
Við getum leikið okkur að því að stilla begínum og gínum upp hlið við hlið sem táknum um jafnréttisbaráttu kvenna. Begínur brutu blað í kvenna-, hugmynda- og félagssögu Vesturlanda, gamlar fyrirmyndir um andstöðu kvenna og útsjónarsemi við undirskipun og kúgun. Gínur eru eftirlíkingar og varaskeifur, settar fram til að þjóna hagsmunum eigandans. Begínur og gínur eru dæmi um litróf af valdi og valdleysi, áhrif og áhrifaleysi kvenna. En miklu fleiri dæmi af valdrófi kvenna eru til vegna þess að konur eru enginn einn hópur frekar en karlmenn. Þær eiga til æðruleysi og óþol, spillingu og heiðarleika, leiðtogahæfileika og hæfileikaleysi. Sumar hafa mikil völd, aðrar sýna aðdáunarverða andstöðu við þá bása sem þeim er skipað á. Þær geta bæði verið kúgaðar og kúgarar, og þær geta haft mjög ólíkar skoðanir um það hvernig jafnrétti verði best á komið. Það er hægt að nota mörg tákn um konur sem stjórnendur. Og tákn samfélagsins skipta máli.

Hvers vegna gengur Friðrika út frá því svona fyrirfram að nývalinn biskup yfir Íslandi sé gína í glugga? Eru slíkir sleggjudómar ekki einmitt dæmi um mat á konum eftir kynferði en ekki atgervi? Eina leiðin til að gera konur myndugar sem stjórnendur er að leyfa þeim að vera stjórnendur og njóta sannmælis á við karla. Þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni en það er óþarfi að skjóta þær niður fyrirfram af því að þær séu örugglega ekki neitt. Er ekki betra að leyfa konunni að byrja starfið fyrst?

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s