Öreigar allra landa! Ég er sko enginn helvítis femenisti!

 Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Mynd héðan: http://www.tumblr.com/tagged/hot-pink-marx-head

Eitthvað hefur verið skrafað og það misgáfulega um tengsl marxisma og femínisma, í tilraun til að grafa undan femínisma sem hreyfingu. Það er þarft að gera grein fyrir hversu langsótt þessi tenging er, en best að taka það fram að ég er hvorki sérfræðingur í sögu, marxisma né femínisma ef út í það er farið. Þó vona ég að mér takist að gera betri grein fyrir þessu en ýmsir hátt settir hægrimenn hafa gert hingað til.

Augljósa mótbáran skal tíunduð fyrst: Kvennabaráttan er mun eldri en marxismi.
Í frumformi birtust hugmyndir um jafnrétti í fornöld hjá Plató sjálfum, dúkkuðu svo upp á ýmsum stöðum í gegnum aldirnar, og loks í nær nútímalegri mynd hjá Mary Wollstonecraft árið 1792. Kommúnistaávarpið kom hinsvegar út, einsog þekkt er, árið 1848. Vissulega mætast hugmyndir marxisma og femínisma í hugmyndafræðilegri stefnu er kallast sósíalismi. „Sósíalismi” hefur hinsvegar ekki alveg þennan sama forboðna hljóm og „marxismi” hefur (a.m.k. ekki á Íslandi), og er það líklega ástæðan fyrir vitleysunni. Fyrir hægrimönnunum er hvort tveggja líklega það sama, en þeir geta greinilega ekki treyst á að almúgi manna sé sammála. Því bregða þeir á það ráð að færa tenginguna yfir á hinn forboðna Marx.

Ég sé marxisma og femínisma raunar aðeins tengjast á einum stað: innan akademíunnar. Til er nefnilega fræðilegur femínismi, femínismi stundaður sem teoría innan fræðanna, þá innan bæði hug- og félagsvísinda. Þau femínísku fræði eru (skilst mér) vissulega sprottinn af marxískri teóríu. Nú heyri ég geispa lesenda teygjast til Noregs – varla er til leiðinlegra orðasamband en „marxísk teóría“ – ég mun þó reyna að útskýra þetta án þess að drepa fólk.

Marxisminn hratt af stað byltingu (það er nú hans eðli) innan vísindaheimsins með því að benda á eitthvað sem ekki hafði verið tekið eftir áður: það var sú staðreynd að saga, félagsvísindi, hugvísindi og í raun öll þau fræði sem einhvernveginn tóku fyrir kenningar um tilvist mannsins og veru hans á jörðinni, fjölluðu um gríðarlega fámennan og einsleitan hóp af fólki. Það var hópur einstaklinga sem áttu ýmislegt sameiginlegt: að vera ríkir, valdamiklir, hvítir, evrópskir og karlkyns. Varla var minnst á þá sem ekki féllu undir þessa skilgreiningu: þeir voru varla til, voru eitthvað minna og verra en „fólk“.

Menntun snerist sem sagt um að lesa skrif eftir og um hvíta, ríka, valdamikla, evrópska karla. Enn eimir eftir af þessu í okkar menntakerfi, enda erfitt að vinda ofan af þúsundum ára af sögu. En marxisminn kom með eitthvað nýtt inn í fræðin: hann benti á að þetta er absúrd. Ef allt sem við vitum um heiminn er mannfræði eins prósents mannkyns, þá vitum við nákvæmlega ekki neitt. Þegar menntakerfið tók við þessari kenningu komst af stað ákveðin undiralda. Sagnfræðingar fóru til dæmis að einbeita sér að því að skoða hvernig líf „venjulegs“ fólks var, ekki elítunnar sem drottnaði yfir þeim og skrifaði bækur um eigið bílífi á meðan. Það gefur að skilja að það er miklu einfaldara að lesa ritverk fyrrnefndrar elítu, sem hafði kallast „sagnfræði” öldum saman, en að rýna í líf almúga sem oft kunni ekki að skrifa. En þegar sagnfræðingar fóru að skoða það sem þó fannst komust þeir að því að það var margt ótrúlega áhugavert að finna í sögu meirihlutans, og gat það jafnvel varpað frekara ljósi á sögu minnihlutans um leið.

Þessi teóría, þessi nútímalega nálgun, að skoða einnig fólkið sem ekki skrifar söguna, breiddist yfir í ýmsar greinar hug- og félagsvísinda. Einn angi af þessu er femínísk teóría, sem horfir sérstaklega á hlut kvenna sem sögulega undirokaðra einstaklinga, jafnt af almúganum sem elítunni. Þarna má tala um tengsl marxisma og femínisma – en ef það skal tekið upp femínismanum til foráttu má afskrifa alla nútímasagnfræði í leiðinni, sem mig reyndar grunar að fyrrnefndir hægrimenn einmitt geri. Þá fáfræði verða þeir að eiga fyrir sig. Umrædd teóría er nauðsynlegur partur af nútímalegum skilningi á heiminum og mun að öllum líkindum, og sem betur fer lifa marxismann sem pólitíska hreyfingu.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s