Smáatriðin í lífinu og gildi þeirra

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Mynd úr einkasafni
Ísland er mesta jafnréttisland í heimi. Hér banna lög að kynjunum sé mismunað á nokkurn hátt, greiða skal sömu laun fyrir sambærileg störf, það er bannað að nauðga, kaupa vændi, reka nektardansstaði og dreifa klámi. Hér eiga konur og karlar að hafa sömu tækifæri og möguleika. Hér býr fjölbreyttur hópur fólks í lýðræðissamfélagi sem tekur mið af ólíkum sjónarmiðum. Þess vegna er gott að búa á Íslandi.

Samt eru hundruðir nauðgana tilkynntar á ári hverju, samt er kynbundinn launamunur talsverður, samt blómstrar vændi og samt eru nektardansstaðir enn í rekstri. Landinu, sveitarfélögunum, stofnunum og fyrirtækjunum er stjórnað af körlum í ríkari mæli en konum og konur hafa ekki sama aðgengi að fjármagni og karlar. Svona gæti ég haldið lengi áfram, en ætla þess í stað að beina sjónum mínum að ástæðunum.

Staðalmyndir
Kynjakerfið hefur verið inngróið í íslenskt samfélag frá landnámi. Það er félagslegt yfirráðakerfi þar sem karlar njóta góðs af kerfisbundinni undirskipan kvenna. Þar með er ég ekki að segja að allir karlar séu yfirsettir og allar konur undirskipaðar – heldur er þetta lýsing á samfélagsgerð. Misréttið er ekki heldur framið af vondum körlum gegn góðum konum. Misréttið er afleiðing af samfélagsgerðinni, þar sem allar einingar samfélagsins líða. Þar gegnum við öll hlutverkum, bæði karlar og konur, og með því að taka gagnrýnislaust þátt á forsendum kerfisins viðhöldum við óbreyttu ástandi.

Mynd úr einkasafni
Eitt sterkasta tæki kynjakerfisins eru staðalmyndir. Þær leggja línuna um það hvað er kvenlegt og hvað er karlmannlegt – hvað er stelpulegt og hvað er strákalegt. Þær segja okkur hvernig við eigum að vera og hvað við eigum að gera – og þær segja okkur líka hvernig við eigum EKKI að vera og hvað við eigum EKKI að gera. Kynjakerfið reynir nefnilega eftir fremsta megni að stía kynjunum í sundur og koma í veg fyrir að þau geri það sem ekki hæfir þeirra kyni.

Allir hjálpast að
Staðalmyndir eru ekki í einni bók. Ekki heldur í einni ísverksmiðju eða í einni dótabóð. Þær eru alls staðar. Einstaklingar, fjölskyldan, leikfangaframleiðendur, fatahönnuðir, skólakerfið, fjölmiðlar, kvikmyndir, leikrit, tölvuleikir, stjórnmálafólk, álitsgjafar, vinir, auglýsingar, fyrirmyndir, íþrótta- og æskulýðsfélög, netheimar og raunheimar leggja sig fram um að setja okkur mörk um það sem má og hitt sem ekki má. Þannig leggst hið kynjaða samfélag saman á árarnar til að viðhalda sér og staðalmyndunum sínum í óbreyttri mynd.

Mynd úr einkasafni
Og við hlýðum
Meðvitað og ómeðvitað fylgjum við leikreglum og leiðbeiningum kynjakerfisins. Spítalinn klæðir börnin okkar í viðeigandi lit þegar þau fæðast til að auðvelda fólki að tileinka þeim eiginleika sem hæfa hvoru kyni um sig. Við tökum þátt og gætum þess í gegnum uppeldið að það sjáist greinilega hvers kyns barnið sé. Við gerum það ekki af sérstökum persónulegum metnaði, heldur frekar vegna metnaðarleysis – vegna þess að við tökum ekki sjálfstæðar ákvarðanir og hugsum ekki út fyrir rammann. Við fylgjum reglunum – og kennum um leið börnunum okkar hvernig þau eiga að vera sem stelpur og sem strákar. Við hvetjum þau áfram í tilhlýðilegum áhugamálum og ræktum með þeim tilhlýðilega eiginleka á meðan þau fá minni hvatningu eða aðstoð varðandi áhugamál eða eiginleika sem betur hæfa hinu kyninu.

Femínistar og smáatriði
Sumir vilja meina að femínistar séu alltaf að spá í smáatriðum. Það hljóti nú að vera eitthvað mikilvægara til en stelpu- og strákalegó eða stelpu- og strákaísar þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Það væri satt og rétt ef aðeins væri um að ræða eitt og eitt legó eða einn og einn ís – en svo er ekki. Þegar legóið og ísarnir og dótið og klæðnaðurinn og bækurnar og bíómyndirnar og allt hitt er tekið saman er alls ekki um smáatriði að ræða – heldur heildarmynd. Heildarmynd af tveimur kynjum sem eiga að vera eins ólík og hægt er.

Mynd úr einkasafni
Sumir vilja meina að femínistar vilji að allir séu eins og að helst eigi að þvinga börn til að gera eitthvað gegn vilja sínum. Það skipti jú engu máli hvort börn séu sett í bleikt eða blátt á fæðingardeildinni. Ekki skipti heldur máli þótt stelpur „fái“ að vera bleikklæddar í ballett og strákar „fái“ að vera svartklæddir í bardagaíþróttum.

Það er mikill misskilningur. Femínistar vilja einmitt ekki að börn séu þvinguð til að gera hluti gegn vilja sínum – og alls ekki að þeim sé bannað að gera eitthvað sem þau vilja. Femínistar vilja að foreldrar fái sjálfir að ráða því hvaða lit börnin eru sett í á fæðingardeildinni og að stelpur jafnt sem strákar hafi val um það hvort þau fari í bleikt eða svart, ballett eða bardaga. Nú eða jafnvel alla hina litina og allar hinar íþróttirnar. Staðalmyndirnar og kynjakerfið eru hið þvingandi afl – en ekki femínisminn.

Mynd úr einkasafni
Af hverju?
Samfélagið sem lýst var hér að ofan, þetta með jöfnu tækifærunum, launajafnréttinu, ofbeldisleysinu og öllu því, það verður aldrei að veruleika ef við höldum uppteknum hætti. Þessi gagnrýnislausa hegðun okkar og hlýðni gagnvart kynhlutverkum leiðir þvert á móti til þess að karlar og konur eru ekki metin að verðleikum og þau fá ekki tækifæri til að þroska með sér þá hæfileika sem ekki hæfa staðalmyndunum.

Rannsóknir sýna að börn eru farin að leika sér í kynskiptum hópum um 5 ára aldur. Áhugamál barna og unglinga er mjög kynskipt og í samræmi við staðalmyndir kynjanna. Námsval nemenda er sömuleiðis afar kynskipt og vinnumarkaðurinn líka. Þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar vinna annað hvort á karlavinnustað eða kvennavinnustað (skv. skilgreiningu Hagstofunnar, þar sem innan við þriðjungur af öðru kyninu starfar).

Samfélagið er í raun klofið í tvo hópa sem öðlast ólíka reynslu og þekkingu og tækifæri og innsýn af því að menningin, kynjakerfið og staðalmyndirnar beina okkur inn á ólíkar brautir. Það hefur margvíslegar og miður æskilegar afleiðingar sem mikilvægt er að sporna gegn. Þess vegna skipta femínistar máli.

Verum gagnrýnin á skilaboð samfélagsins, virðum hvert annað, tökum sjálfstæðar ákvarðanir og hvetjum börnin okkar, vini og ættingja til að gera slíkt hið sama.

Þessi pistill byggir á fyrirlestri sem ég hélt fyrir nemendur og kennara Menntaskólans í Kópavogi á jafnréttisdögum sem haldnir eru þar árlega. Skólinn á skilið hrós fyrir þetta framtak sitt og vonandi að fleiri taki sér hann til fyrirmyndar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s