Fegurð : af hugsjónahræsni og varalit

Höfundur: Yrsa Þöll Gylfadóttir

Hugleiðingar eftir lestur á The Beauty Myth eftir Naomi Wolf:
– Seinni hluti –

Femínistinn og útlit hans
Í haust gagnrýndi femínistinn María Lilja algenga stefnu í afþreyingarefni fyrir markhópinn konur og sagði hana einsleita og oftar en ekki boða útlitsdýrkun. Í kjölfarið var hún úthrópuð og henni talið það til foráttu að vera með varalit og var sökuð um tvískinnung og hræsni, á þeim grundvelli að hún var að gagnrýna upphafningu fegurðar en var svo sjálf upptekin af útliti sínu, þ.e. búin að skreyta varir sínar rauðum lit. Þess má geta að sú sem sakaði hana um hræsni heldur því einnig fram að hún sé femínisti og notar vafalaust líka varalit. Auk þess má geta að gagnrýni Maríu Lilju – eins og aðrir sem studdu þessi mótmæli hennar hafa bent á – beindist ekki að umfjöllun um fegurð, útlit og fleira í þeim dúr yfirhöfuð, heldur að því að þessum tilteknu viðfangsefnum væri svo markvisst haldið að konum að auðvelt væri að halda að þau væru í raun það eina sem þær hefðu áhuga á. Einnig var bent á að það vildu flestir, konur og karlar, hafa gaman af útlitinu og sæju það sem hluta af því að heilla aðra, auk þess sem heimildir væru fyrir því að þróunarfræðilega sé fallegt fólk hæfara. Í grundvallaratriðum bentu femínistar á að það væri ekkert að því að vilja vera ágætlega til hafður, og að það tengdist ekkert réttinda- og virðingarbaráttu kvenna.

Hugsjónahræsni
Þessi rök femínista sátu þó ekki eftir í mönnum, heldur aðeins hin afkáralega hræsni varalitaða femínistans. En stöldrum aðeins við þessa hræsni. Í fyrsta lagi finnst mér hugsjónahræsni ekkert til að skammast sín fyrir, þykir mér hugsjónaleysi þeim mun alvarlegra. Mér hefur nefnilega löngum þótt það hlægilegt hversu margir eru hræddir við tvískinnung í eigin lífsgildum og skoðunum, siðferðislegum, félagslegum, menningarlegum, o.s.frv., og séu í raun sáttari við að gera ekki neitt, taka ekki neina afstöðu með eða á móti neinu, því þá séu þeir að minnsta kosti ekki hræsnarar. Með þessu móti er t.d. hræsni að endurvinna fernur og dósir ef maður keyrir svo ekki sparneytinn bíl, réttast væri því bara að endurvinna ekki neitt!

Relatívismi
Það að María Lilja hafi gagnrýnt útlitsdýrkun en notar sjálf varalit er því mjög eðlileg og viðurkennd hugsjónahræsni á lágu stigi, eitthvað sem allir gerast sekir um, því við erum tilfinningaverur en ekki forritaðar vélar. En það þýðir samt ekki að þessi rök gegn henni séu alger heimska og rökleysa, eins og svo margir hafa haldið fram. Femínistar gagnrýna oftar en ekki útlitsdýrkun og fegurðargoðsögnina, og einn hluti af því að að dýrka útlitið er að fegra, með tilheyrandi “gervimennsku”, andlit sitt með litum og skuggum. Þeir femínistar sem líta t.d. á snyrtivörur og varaliti sem ónauðsynjar (ekki nota karlmenn þá að miklu marki, og hægt er að vera fallegur og heillandi án þeirra) hafna einmitt varalit.
Það eru nefnilega til þannig femínistar, og því er áhugavert þegar allir taka sig saman í nafni femínisma, og skammast sín fyrir einhvern sem sýnir raunverulega staðfestu, en er ekki ginnkeyptur fyrir snyrtivörumaskínunni. Það er svo auðvelt að saka næstu manneskju um öfgar, bara af því að hún gengur kannski bara aðeins lengra í ákveðinni hugsjón en maður sjálfur. Hins vegar má spyrja sig hvar mörkin séu á milli þess sem allir samþykkja að þyki eðlilegt (t.d. kona sem klæðist hreinum og vel lyktandi fötum, greiðir á sér hárið og hefur sig eitthvað til – fylgir lögmálinu að allir vilji nú vera smá vel til hafðir) og næsta skrefs, og þess næsta, og svo öfganna (t.d. ljósabekkjabrún kona með hálfa meikdollu framan í sér, útötuð í ilmvötnum og öðrum efnum, í fötum og skóm sem eru heftandi og umfram allt falleg)?

Mörkin huglæg
Ég held að það sé best að leysa þessa flækju einfaldlega með þeim hætti að játa okkur sigraðar, játa það bæði að sem fylgjendur ákveðinnar hugsjónar séum við ekki eins róttækar og við höldum, frekar en að afneita því að nokkur sé það – afneita því að til séu femínistar sem séu loðnir og ómálaðir. Því þeir eru til, og ég tek ofan fyrir þeim. Þetta er eftir allt saman ekki mikil synd, að vilja vera sætur, en allt í lagi að játa að það sé örlítil (og einmitt út af relatívismanum) sprunga í röksemdakerfi okkar. Af hverju þykir t.d. í lagi að vera með varalit, eins og margur femínistinn, en ekki í lagi að vera með varalit og margt fleira, og kannski brúnkukrem? Það er hræsni, og erfitt að færa rök fyrir því hvar maður sjálfur dregur mörkin. Það er aldrei hægt að segja hvenær einhverjar tilfærslur útlitsins eru lágmarks tilfærslur og “þýða ekki neitt”, eru bara hluti af því að vera mannlegur, og vilja líta vel út, og hvenær tilfærslurnar merkja eitthvað, tákna undirlægjuhátt, taka þátt í fegurðargoðsögninni, grafa undan konum… o.s.frv. Því að sitt sýnist hverjum í þessum málum.
Ég held að margir séu bara mjög hræddir við að horfast í augu við þessa staðreynd, og jafnvel í inngangi The Beauty Myth segir Naomi Wolf að með bókinni sé hún síður en svo að hvetja konur til þess að hætta að raka sig og mála. Það sem hún segir þó, og stílar þá inn á “vilja” og “sannfæringu” hverrar konu fyrir sig, er að hún vill allra helst gagnrýna “markaðsöfl og fyrirskipanir múltímilljarða dollara auglýsingaiðnaðarins”. Þetta er mjög mikilvægur punktur hjá henni, og sem ég held að allir samsinni. En enn og aftur – hvar dregur maður mörkin? Hvenær er varalitur ekki hluti af markaði og auglýsingum? Það er hlutlægt undarlegt að mála einn líkamshluta sinn í öðrum lit, svona ef maður spáir í því, og það er ekki einhvers konar yfirskilvitleg eða meðfædd löngun af okkar hálfu (þrátt fyrir þróunarfræðilega táknfræðina að bleikar og glansandi varir spegli lit kynfæranna), fædd upp úr engu, að mála á okkur varirnar – það er bundið tísku og straumum, sem m.a. auglýsingar eru ábyrgar fyrir.

Varalitur = hlekkir?

Það má vera að varalitur sé ekki háalvarlegt mál, en það er erfitt að halda því fram að hann hafi ekki neina merkingarbæra skírskotun. Allir eru sammála um gildi fyrstu og annarrar bylgju femínsma, og vilja að konur séu frjálsar, öruggar, hafi jafnan borgaralegan og lýðræðislegan rétt til alls, og að konur skuli vera viðurkenndir jafnokar karlmanna á vinnumarkaðnum og séu ekki aðeins þrælar heimilis og barna. Gott og vel. En má þá ekki sjá í smærri og yfirborðslegri hlutum samhljóm þeirra grundvallarlegu atriða sem enn þarf að berjast fyrir? Þegar kona hafnar smáum birtingarmyndum stærra samhengis, gagnrýnir þær eða vekur máls á þeim, eru þær jú á yfirborðinu, en eru aðeins toppurinn á ísjaka mun dýpri málefna. Að gagnrýna útlitsdýrkun er að gagnrýna hlutverk kvenna sem “hið fegurra kyn”, sem haldið er í skefjum með þessari niðurlægjandi upphafningu, og þar með rýrnun hlutverks hennar á mikilvægum vettvangi. Ef við gagnrýnum útlitsdýrkun með varalit erum við bara víst svolítið, bara svolítið, sekar um hræsni. En enn og aftur, betra að vera hræsnari en heigull eða hugsjónaleysa.
Því þykir mér í raun ágætis áminning til okkar sem teljum okkur hafa skýra sýn á femínisma, að við álítum sjálfar okkur ekki heilagar og undanskildar mótgagnrýni, þar sem brjótum alveg eins í bága við okkar eigin sannfæringar og aðrir. En mér þykir bara ekki ástæða til að vera hrædd við slíkt. Fyrir mitt leyti reyni ég eftir besta móti að hegða mér í samræmi við það sem ég trúi á, en sömuleiðis tel ég mig ekki óhulta fyrir gagnrýni á útlitsdýrkun ef ég sporta óþægilegum hælaskóm eða mála varir mínar hárauðum glanslit sem ég þarf svo að vera að fylgjast með að haldist allt kvöldið, og reyni ekki að telja mér trú um að þessi skófatnaður eða þessi varalitur skipti engu máli. Kannski grafa þessir hlutir ekki undan hugsjónum mínum í stóru samhengi, en þeir eru engu að síður bundnir órofa böndum því sem ég tel mig vera á móti. Og þannig finnst mér nauðsynlegt að horfa á hlutina.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s