Verðlaun og orður og alls konar heiður – til handa hverjum og fyrir hvað?

Höfundur: Herdís Schopka

Á nýju ári er oft til siðs að líta yfir farinn veg og jafnvel veita þeim viðurkenningu sem þykja hafa staðið sig betur en aðrir á gamla árinu. Vinnustaðurinn minn er engin undantekning og á nýársmóttökunni voru veittar hinar árvissu viðurkenningar til nema ársins, tæknimanns ársins og unga vísindamanns ársins. Þessu lýsti ég á feisbúkk-innslagi sem svo: „Jæja, í dag var árleg nýársmóttaka í vinnunni og þar fengu þrír samstarfsaðilar mínir verðlaun: Ungur nemi, karlkyns, sem var hrósað fyrir að hafa þróað aðferð. Kona, snemmmiðaldra, sem var hrósað fyrir að hafa þróað aðferð og vera vingjarnleg og auðveld í umgengni. Karl um þrítugt sem var hrósað fyrir að hafa þróað aðferð.“

Já, þið lásuð rétt. Karlarnir tveir fengu viðurkenningu fyrir að vera flinkir í sínu fagi og konan fékk viðurkenningu fyrir að vera flink í sínu fagi og líka næs og kósí í umgengni. Ég get vottað persónulega að sá sem fékk verðlaun fyrir að vera flinkasti ungi vísindamaðurinn er líka mjög næs og kósí í umgengni, við erum nefnilega í sama hóp og höfum unnið mikið saman. En hann fékk ekki verðlaun fyrir það. Nei, það þótti greinilega ekki relevant því faglegt framlag var jú feykinóg ástæða. Sama átti við um nemann. Ég hef enga ástæðu til að efast um að hann sé ljúfmenni líka og einstaklega samvinnuþýður. Af hverju fengu þessir tveir ekki líka á skjalið sitt að þeir væru næs og kósí? Kannski af því að persónuleikaeinkenni vísindafólks eiga ekki að skipta máli þegar framlag til vísindanna er metið? Af hverju skipti það þá máli hjá þessari tæknikonu? Getur verið að hún hefði kannski ekki fengið verðlaunin ef hún væri fúl og hryssingsleg og svakaleg góð í sínu fagi?

Þetta atvik minnti mig á grein sem ég las í fréttablaði bandarísku jarðeðlisfræðisamtakanna (American Geophysical Union, AGU) í haust sem leið. Þar er lýst niðurstöðum könnunar á verðlaunaveitingum til vísindafólks í ýmsum greinum og m.a. bent á að reynslan hefur sýnt að meðmælabréf fyrir konur og karla eru mismunandi, óháð því hvort bréfritarinn er karl eða kona. Meðmælabréf fyrir konur eru yfirleitt styttri en bréf fyrir karlmenn og meira er velt upp persónulegum eiginleikum kvenna en karla. Að því gefnu að þessum málum sé svipað farið í Þýskalandi og í Bandaríkjunum þykir mér því ekki ólíklegt að í útnefningum til verðlauna í Þýskalandi slæðist persónulegir eiginleikar kvenkyns kandídata frekar með en í tilfellum karlkyns kandídata. Fáum myndi detta í hug að taka fram hvurs lags ljúfmenni karlmaður X sé, til að hnykkja frekar á því að hann ætti nú að fá þessi faglegu verðlaun þetta árið; það þykir hins vegar líklega sjálfsagðara mál að taka fram hvað kona Z sé liðleg og hjálpsöm þegar hún er tilnefnd til svipaðra verðlauna. Þetta þykir mér miður, því faglega færni fólks á ekki að meta út frá kyni þess og hvaða persónulegum eiginleikum við búumst við eða ætlumst til að einstaklingar af því kyni búi yfir.

Könnunin sem minnst er á að ofan er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Í þessari könnun, sem RANNÍS Bandaríkjanna (þ.e. National Science Foundation eða NSF) lét vinna í samvinnu við sex samtök raunvísindagreina (efnafræði, svæfingalækningar, hreina og hagnýta stærðfræði, taugafræði og jarðeðlisfræði), var reynt að komast að því hvort kynjamisrétti væri til staðar í verðlaunaveitingum þessara samtaka. Hvað AGU snerti hafði félagið sérstakan áhuga á að komast að því af hverju hlutfallslega fleiri konur höfðu fengið verðlaun fyrir þjónustu við vísindasamfélagið en fyrir vísindastörf undanfarna tvo áratugi. Var það e.t.v. vegna ómeðvitaðra fordóma gegn konum hjá þeim sem tilnefndu verðlaunahafa og/eða völdu þá?

Á árunum 1991‒2000 fengu konur í AGU ekki eina einustu af þeim 67 orðum sem samtökin veittu fyrir vísindaleg afrek, þó 7% þeirra sem fengu viðurkenningu (án orðuveitinga) fyrir vísindaiðkun hafi verið konur. Af 143 nýjum heiðursfélögum í samtökunum á þessum tíma voru 14 konur eða 10%. 18% þeirra 74 jarðeðlisfræðinga sem fengu hvatningarverðlaun fyrir unga vísindamenn á þessum tíma voru konur og heil 22% þeirra sem hlutu verðlaun fyrir störf í þágu vísindasamfélagsins. Á fyrsta áratug 21. aldarinnar þokuðust þessi hlutföll hægt upp á við. Þá náðu konur 11‒12% hlutdeild í verðlaunum fyrir vísindaleg afrek og héldu sínu, prósentulega séð, í heiðursfélagaútnefningum og verðlaunum fyrir störf í þágu vísindasamfélagsins. Góður árangur náðist í hvatningarverðlaunum en 27% þeirra féllu í skaut kvenna.

Þessar tölur benda vissulega til þess að konur séu í minnihluta þeirra sem hljóta verðlaun hjá AGU almennt og sérstaklega í minnihluta þeirra sem hljóta verðlaun fyrir vísindaafrek. Væri kynjaskiptingin innan samtakanna hnífjöfn væri þetta mikið áhyggjuefni. Svo er vissulega ekki – konur voru á árunum 2000‒2010 um 15‒20% félagsmanna. Yfirleitt er fólk orðið roskið þegar það fær þessar orður og verðlaun og þar sem hlutfall kvenna hefur hækkað jafnt og þétt má svo sem búast við að færri konur séu hreinlega í þeirri stöðu að vera gjaldgengar fyrir orðurnar og öll hin fínu verðlaunin. Þetta er að hluta til rétt, t.d. eru konur einungis um 9% prófessora í jarðvísindum í bandarískum rannsóknaháskólum. Hvatningarverðlaunin fara hins vegar enn í óeðlilega miklum mæli til karla, a.m.k. sé miðað við kynjahlutfall nýbakaðra doktora í greininni.

En hvað er þá málið með verðlaunin fyrir þjónustu í þágu vísindasamfélagsins? Hvernig stendur á því að um tvöfalt fleiri konur fá þau verðlaun, hlutfallslega séð, en verðlaunin sem byggjast á vísindalegum verðleikum? Í ljós kom að AGU er ekkert einsdæmi, því öll hin fimm vísindasamtökin sem tóku þátt í könnuninni sáu svipaðar niðurstöður – konur fá miklu frekar verðlaun fyrir þjónustu við kollega sína en fyrir afrek sín á vísindasviðinu. Ef gert er ráð fyrir að konur séu faglega séð jafnhæfar og karlkyns kollegar þeirra hlýtur misréttið að koma frá annaðhvort þeim sem tilnefna einstaklinga til verðlauna eða þeim sem úthluta verðlaununum. Tölur um útnefningar eru aðeins til fyrir eitt ár, 2010. Þegar þær eru skoðaðar kemur í ljós að konur eru einungis 7% þeirra sem voru tilnefnd fyrir vísindaafrek en heil 37% þeirra sem voru tilnefnd fyrir þjónustuverðlaun. Eins og það er orðað í EOS-greininni sem ég styðst við hér:

„…geoscientists overlook their female colleagues when it comes to nominating ther peers for disciplinary awards but are ready to nominate women for the roles that traditional stereotypes hold as more applicable to women: service and education.“ (bls. 421)

Eða svo mikið sem: „Jarðvísindafólk lítur framhjá konum þegar tilnefna á jafningja til faglegra verðlauna en er óhrætt við að tilnefna þær til verðlauna sem falla betur að staðalímyndinni um hvað hæfi konum: þjónustu og menntun.“

Eftir þennan lestur lagðist ég í smávegis rannsóknastarfsemi á Netinu. Mig langaði að vita hvernig þessum málum er háttað á Íslandi og hvort konur á Íslandi fengju nægilega viðurkenningu fyrir störf sín á vísindasviðinu. Það verður að segjast eins og er að verðlaun fyrir vísindaafrek eru fá á Íslandi — helst ber sennilega að nefna Hvatningarverðlaun RANNÍS. Þau hafa verið veitt 25 einstaklingum síðan 1987 og eru

„…veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. … Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.“

Upplýsingar um faglegan bakgrunn þriggja verðlaunahafa (allir karlmenn) vantar en af hinum 22 eru 15 úr tækni- eða raunvísindafögum. Alls eru sjö verðlaunahafar konur (28%), þar af ein úr hugvísindum. Athyglisvert er að karlmennirnir sem fengið hafa verðlaunin koma úr mörgum mismunandi fögum (t.d. fornleifafræði, stærðfræði, bókmenntafræði og heimspeki, tölvunarfræði og eðlisfræði) meðan fimm af sjö konum koma úr einhvers konar lífvísindum. Hver sem er getur sent inn tilnefningar til verðlaunanna og dómnefnd er skipuð fyrrverandi vinningshöfum. Ég gæti trúað að breytingar á kynjahlutfalli verðlaunahafa muni gerast hægt, miðað við að hingað til hafa 72% verðlaunahafa verið karlmenn og í þann pott eru dómnefndir sóttar.

Samtök iðkenda einstakra vísindagreina eru flest smá og veita ekki, eftir því sem ég best gat séð á vafri mínu, verðlaun fyrir faglegt framlag félagsmanna. Eina undantekningin sem ég fann er Líffræðifélagið, sem veitti tveimur karlmönnum heiðursverðlaun í lok árs 2011. Ég fann fremur litlar upplýsingar um félagið á Netinu og ekkert um kynjaskiptingu félaga eða frekar heiðursverðlaunaafhendingar félagsins.

Sum félög hafa þó veitt heiðursfélaganafnbætur gegnum tíðina. Verkfræðingafélag Íslands veitti 21 félaga slíka nafnbót á árunum 1943‒2007. Þar af er ein kona, nefnilega Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti, sem hlaut nafnbótina árið 1992. Ekki eru neinar upplýsingar um kynjahlutföll félagsmanna VFÍ á vefsíðu félagsins svo erfitt er að meta að hve miklu leyti þessi kynjadreifing heiðursfélaga endurspeglar raunveruleg kynjahlutföll í félaginu eða fordóma gagnvart konum í stéttinni. Tæknifræðingafélag Íslands telur í dag átta heiðursfélaga og ellefu handhafa Gullmerkis félagsins, sem veitt er fyrir merkan faglegan árangur í starfi. Engin kona er þar á meðal. Það má teljast eðlilegt í ljósi þess að meðal þeirra sem hafa leyfi frá iðnaðarráðuneytinu til að kalla sig tæknifræðing eru einungis 3% konur og flestar þeirra (64%) fengu leyfið á 21. öldinni.

Annað félag sem veitir heiðursfélaganafnbót er Íslenska stærðfræðafélagið. Það er með rúmlega 140 félagsmenn og þar af eru 20% konur. Þrír karlmenn, allir fæddir fyrir meira en 60 árum og tveir þeirra látnir, hafa verið gerðir að heiðursfélögum í Íslenska stærðfræðafélaginu. Þarna er tæpast um kynjamisrétti í nútímanum að ræða.

Önnur félög vísindafólks á Íslandi sem mér datt í hug að leita að á Netinu virðast annaðhvort ekki veita verðlaun og/eða heiðursfélaganafnbætur eða hafa enga vefsíðu til að miðla upplýsingum um starfsemina. Þetta er í sjálfu sér athyglisvert og gæti hugsanlega verið ein af mýmörgum ástæðum þess að vísindi eiga undir högg að sækja í opinberri umræðu og ákvarðanatöku á Íslandi. Það er hins vegar efni í aðra grein á öðrum vettvang.

AGU brást við niðurstöðum könnunarinnar með því að semja verklagsreglur fyrir tilnefningar og úthlutanir verðlauna á vegum samtakanna. Enn er engin reynsla komin á nýtt verklag en það verður spennandi að fylgjast með verðlaunaveitingum AGU næstu árin. Það væri athyglisvert að sjá hvað gerðist ef RANNÍS tæki þessar verklagsreglur sér til fyrirmyndar við val á handhöfum hvatningarverðlauna. Eins langar mig að nota tækifærið og hvetja íslensk vísindafélög til að hefja verðlaunaveitingar til félagsmanna sinna, í þeirri von að séð verði til þess að konur og karlar eigi jafna möguleika á að fá viðurkenningu samstarfsmanna sinna.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s