Geimfarar framtíðarinnar

Höfundur: María Lilja Þrastardóttir

Ég er móðir þriggja ára stúlku. Við barnsfaðir minn gerðum samkomulag um það hvernig uppeldi hennar yrði háttað, þ.e. hún fær að vera barn öllu framar og uppeldi hennar er á engan hátt litað af kynvitund, ekki af okkar hendi. Það hefur reynst okkur þrautin þyngri því eftir því sem hún eldist og áttar sig betur á umhverfi sínu fær hún skilaboðin frá samfélaginu; þú ert stúlka, bleikur er þinn litur og þú ert af veikara kyni. Líf þitt snýst um að geðjast öðrum og vera sæt. Það sem rak mig til þess að skrifa þennan pistil eru orð barnsins míns þegar hún tjáði mér það, afar leið, að hún væri hætt við að verða geimfari: „Það er bara fyrir stráka, stelpur eru ekki nógu sterkar.“

Það er á ábyrgð allra foreldra að leyfa barninu sínu að alast upp og mynda sér skoðanir óháð kyni, því þegar við erum farin að hólfa þau niður í ákveðin mót við fæðingu erum við að segja þeim hvernig samfélagið vill að lífi þeirra sé háttað. Stúlkur eiga ekki að vera kjarkaðar og sterkar heldur mjúkar, penar og óöruggar og drengir eiga að vera harðir af sér og hugrakkir. Þessar hugmyndir og rótgróin viðhorf til kynjanna eru skaðleg hvernig sem á þau er litið.
Ungbörnum er strax gerð grein fyrir hlutskipti sínu, stúlkur eru klæddar í ljósa, fölbleika tóna og drengir í blátt. Frá upphafi höldum við að börnunum okkar einhverskonar skiptingu; stelpur mjúkar og penar, strákar harðir. Eftir því sem börnin dafna heldur mótunin áfram.
Teiknimyndir ætlaðar báðum kynjum senda mjög skýr skilaboð til barnanna, konur eru nær undantekningarlaust mun færri og í aukahlutverki og hlutverk þeirra er einsleitt. Þær fá að vera jákvæðar og móðurlegar. Í aðalhlutverki eru sterkir, hugrakkir, (hvítir) drengir en þeim fylgir, ásamt penu stúlkunni, hópur af ólíkum karlpersónum. Drengjum er því gefið aðeins meira svigrúm, þeir mega frekar vera mismunandi.

Ef við tökum Latabæ sem dæmi má glögglega sjá hvernig staðalímyndir eru haldnar í heiðri. Aðalpersónan er sterkur, hvítur karlmaður sem bjargar málunum (klæddur bláu). Í aukahlutverkum er svo ein bleik, jákvæð og ljúf stúlka á móti mörgum mismunandi og ólíkum karlkynskarakterum. Í Dóru landkönnuði er hlutunum við fyrstu sýn öðruvísi farið; í aðalhlutverki höfum við stúlku, dökka á hörund, sem er þó jákvæð og móðurleg í bleiku. Þrátt fyrir þetta má sjá að Dóra er nær eini kvenkarakterinn í þætti sínum því dýrin, vinir Dóru, eru karlkyns. Klossi félagi hennar hefur líka mun sterkari karakter, er hress og uppátækjasamur og höfðar þannig miklu betur til áhorfandans. Ekki nóg með það heldur var Dóru til höfuðs fundinn upp Diego, en sú teiknimynd (frá sömu framleiðendum) er örlítið „karlmannlegri“ og ætluð drengjum, því forlögin forði þeim frá því að horfa á kvenpersónu í aðalhlutverki.

Myndirnar tvær eru af http://printactivities.com,
en þar má finna efni ætlað börnum í leik og námi.
Ekki laust við að líkamstjáning geimfaranna
ein og sér segi meira en mörg orð… -Ritstjórn

Leikfangaframleiðendur stíla inn á þessa mötun og festa hana í sessi með markaðssetningu sinni. Bleikt, pent og prinsessuvætt fyrir stúlkur og andstæða þess ætluð strákum. Frá framleiðendum taka leikfangaverslanir við kyndlinum, kynjaskipta rýmum og ákveða þannig fyrirfram hvað börnunum er boðlegt. Í leikfangablöðum sem við fáum send heim frá verslunum eru auglýsingar stílaðar inn á kyn barna, en þess má einnig geta að slíkir auglýsingabæklingar ætlaðir börnum eru með öllu ólöglegir hér á landi.
Með því að þvinga börnin okkar á þennan veg í fyrirfram ákveðin mót erum við að gera lítið úr þeim sem manneskjum. Ef skilaboð samfélagsins til stúlkna eru frá upphafi þau að allt sem skipti máli fyrir þær í lífinu sé að líta vel út, vera mjúkar prinsessur og huga að heimilisstörfum, erum við að sjálfsögðu að horfa fram á ráðvilltar konur framtíðarinnar sem leita sér að óraunhæfum fyrirmyndum á útlitssíðum blaðanna. Átraskanir og lýtaaðgerðir eru orðnar að sjálfsögðum fylgihlutum unglingsáranna og tilfellum fjölgar eftir því sem sjálfsmynd stúlkna versnar. Í stað þess að ala upp einstaklinga óháð kynímynd, sem eru frjálsir til ákvarðana í lífi sínu, litum við börnin frá upphafi og höldum þannig stúlkum niðri og drengjum í einhverskonar gíslingu „karlmennskunnar“.

Fyrirfram ákveðin karlmennskan er einnig mjög skaðleg til langframa og virðist hún byggja á því að karlar séu æðri verur, því þeir sýna ekki á sér neina veikleika. Drengir alast því upp við þau viðmið að tilfinningar séu bannaðar, ofbeldi sé tjáningarmáti og síðar að vanvirðing gagnvart kvenfólki sé aðeins fyndinn brandari. Klámiðnaðurinn stílar mestmegnis inná karla. Unglingsdrengir og drengir allt niður í 11 ára horfa á klám sem einhverskonar part af raunveruleikanum. Í klámi eru konur markaðsvara. Í klámi eru samskipti kynjanna brengluð og við getum jafnframt gefið okkur að vegna þessarar brengluðu ímyndar sé kynbundið ofbeldi jafn algengt og raun ber vitni.
Uppeldi er á ábyrgð foreldra og sú ábyrgð vegur þyngra en nokkuð annað. Ef við viljum raunverulega jafna stöðu kynjanna þýðir ekki annað en að gera það frá upphafi. Leyfum börnunum okkar að vera börn óháð kyni. Gerum okkur í hugarlund hversu mörgum stórvirkjum og stórkostlegum afrekum við höfum tapað í gegnum tíðina með því að leyfa hugmyndum samfélagsins að draga kjarkinn úr geimförum framtíðarinnar.

Upplýsum þau og styðjum á meðan þau velja sér sinn veg og látum ekki stórfyrirtæki velja fyrir þau lífsleiðina. Með því að uppræta staðalímyndir strax í frumbernsku getum við reynt að stemma stigu við kynbundnum samfélagsvandamálum framtíðarinnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s