Orðabók femínistans

Filtpíkukjóll
(höfundur ókunnur)

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Fræðimenn í röðum femínista eru margir og misjafnir en eiga þó sameiginlegt að kunna sínar skilgreiningar. Til að leiðrétta ranghugmyndir í nærsamfélaginu og hjálpa alþýðu manna að hafa orðræðuna á hreinu koma hér nokkur algeng hugtök úr Orðabók femínistans.

Hannyrðafemínisti saumar slagorð með krosssaumi og rammar inn. Einnig þekktur fyrir að hanna kynfæri úr flísefni og filti, einkum píkur og gefa vinum og vandamönnum í tækifærisgjafir. Öfgahannyrðafemínista er afar sjaldan boðið í stórafmæli.

Nærfatafemínistar eru margir en öfgafyllsta tegundin er oft í nærbuxunum utan yfir sokkabuxunum og brýnir notkun lopabróka fyrir öðrum femínístum. Öfganærfatafemínisti hefur aldrei fengið blöðrubólgu og telur það jafnréttismál að allar konur gyrði sig vel.

Fallusfemínisti eða völsafemmi gengur um með sokk í buxunum til að mynda væna bungu og steypa þannig feðraveldinu. Fallusfemínisti samþykkir treglega að ganga með og eiga barnið en gefur því ekki brjóst, neitar að skúra, kaupa í matinn og gera hvaðeina sem á einhverjum tímapunkti hefur verið skilgreint sem kvenmannsverk.

Ölstofufemínisti er baráttuglaða og róttæka konan sem drekkur mest og hefur hæst á Ölstofunni og rífst við jakkalakka sem tilheyra ekki fastakúnnum. Hellir sér iðulega yfir uppgjafablaðamenn og kvenhatara sem eru bitrir eftir misheppnaða áfengismeðferð.

Holdlegur femínisti er afar holdlega þenkjandi og hugsar allt út frá holdsins lystisemdum, berst fyrir jöfnum rétti kynjanna til holdlegs samneytis í ríkum mæli án fordóma. Oft ruglað saman við graðnagla að ósekju.

Hlírabolafemínisti telur jafnréttisbaráttu felast í því að mega gera út á eigið útlit og ímynd á viðskiptalegum forsendum. Hlírabolafemínisti skrifar stundum pistla á netið og skreytir með myndum af sér í hlírabol við mikinn fögnuð karlmanna sem leggja meira upp úr myndefni en texta. Hlírabolafemínisti er ekki á móti lýtaaðgerðum ef þær felast í brjóstastækkun til að auka sjálfsöryggi og vellíðan.

Sófafemínisti talar fjálglega um jafnréttismál og baráttu en nær aldrei að taka þátt vegna tíðrar sófasetu og fer sjaldan út af heimilinu. Sófafemínisti er mjög virkur á fésbókinni og bloggar með upphrópunum og hástöfum við fréttir á netinu.

Kaffihúsafemínisti hefur gaman af því að ræða jafnréttismál og baráttu á kaffihúsum, helst svo hátt að aðrir gestir heyri vel til. Kaffihúsafemínisti hefur mikla athyglisþörf og sjálfstraust og sparar ekki stóryrðin þegar launamun, vændi og feðraveldið ber á góma.

Hreintungufemínisti hefur eingöngu skoðanaskipti við þá sem skrifa kórrétta íslensku á netinu og leiðréttir aðra með algeru miskunnarleysi, einkum þá sem skrifa „femenisti“ eða „mér ofbíður.“ Hreintungufemínistar lesa alla pistla ESG og dreymir um að eignast molavini.

Orðabók femínistans

Tómstundafemínisti lítur á femínisma sem áhugamál og grípur í það þegar góð baráttumál koma fram í dægurmálaumræðunni þar sem auðvelt er að hafa rétt fyrir sér og lítil hætta á gagnrýni nema frá feðraveldinu sem er yfir og allt um kring. Tómstundafemmi er hjarðdýr og líður vel með sínum.

Djammfemínisti er femínisti eingöngu úti á lífinu og notar dæmigerðar pikkupplínur á konur. Hann kann alla frasana um vændi, launamun og staðalímyndir og beitir þeim óspart sem bólbeitum til að falla inn í hóp kvenna. Þekkt dæmi um veiðilínur eru: „Langar þig að ræða feðraveldið yfir kaffi heima hjá mér?“ og „Má bjóða þér í glas, svona til að jafna launamuninn á okkur?“

Kaffistofufemínisti vinnur yfirleitt á kvennavinnustað og þorir ekki annað en vera femínisti í kaffitímunum þegar hástemmdar yfirlýsingar fljúga yfir snúða og vínarbrauð. Hann leggur við hlustir og endurtekur og kann öll réttu svörin í umræðunni. Heima fyrir er líklegt að hann sé þokkalega skoðanaglaður í hina áttina og gæti bloggað um forréttindi og öfgar í laumi.

Tyllidagafemínisti fagnar baráttudögum eins og 19. júní, 8. mars, og 24. október og þusar oft eftir velheppnaðan baráttudag um hve lítið hefur miðað í baráttunni við yfirgang og kúgun feðraveldisins.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s