First they ignore you…

Höfundur: Rún Knútsdóttir

First they ignore you,
then they laugh at you,
then they fight you,
then you win.

Þessi tilvitunun hefur verið eignuð Ghandi þótt eitthvað sé á reiki hvort hann hafi nokkurntímann sagt þetta. Tilvitnuninni er ætlað að lýsa stigum í baráttunni gegn viðteknum hefðum og viðhorfum. Og þótt Ghandi hafi víst ekki verið barnanna bestur varðandi viðhorf til kvenna og jafnréttis kynjanna og hvað sem líður uppruna hennar er þetta tilvitnun sem mér hefur alltaf þótt hughreystandi og eiga vel við baráttu femínista í gegnum árin.

Þegar ég sat um daginn og hlustaði á erindi Rauðsokkanna í útgáfupartýi bókarinnar Á rauðum sokkum – baráttukonur segja frá bærðust með mér mjög blendnar tilfinningar. Ég fylltist annars vegar stolti yfir því sem hefur áunnist í gegnum árin, mikið til fyrir tilstilli þessara frábæru kvenna sem ruddu brautina á sínum tíma, sérstaklega þegar Vigdísi Finnbogadóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristínu Ingólfsdóttur voru afhent fyrstu eintök bókarinnar. Hins vegar fann ég til mikilla vonbrigða yfir því að við sem þjóðfélag værum samt ekki komin lengra. Ég held að flestar þeirra kvenna sem tóku sér frí þann 24. október 1975 hafi ekki búist við að gera slíkt hið sama 36 árum seinna til að berjast fyrir hlutum eins og jöfnum launum og vernd gegn kynbundnu ofbeldi.

Það er ekki laust við að manni fallist stundum hendur þegar maður horfir yfir farinn veg og sér hversu hægt hlutirnir stundum þokast og vita að ömmur mínar og mamma hafa staðið í þessari sömu baráttu og við stöndum í núna. Þegar maður sér heiftina sem oftar en ekki brýst út þegar jafnréttismál eru í umræðunni langar mann stundum bara til að loka augunum og gefast upp. Hætta þessu og hugsa um sjálfan sig, reyna að forðast átökin, þegja bara þegar einhver segir nauðgunarbrandara eða að konur kunni nú ekki að keyra því allir muni stimpla mann húmorslausa fyrir að finnast það ekki fyndið.

En það er ekki möguleiki í stöðunni að gefast upp. Því ég veit að heiftin sem mætir okkur er merki þess að við erum að nálgast takmarkið, því þeir sem aðhyllast hefðbundu viðhorfin og gildin bregðast ekki svona við nema þeim finnist sér ógnað. Samkvæmt tilvitnunni góðu þá erum við á þriðja stigi og takmarkið er í sjónmáli. Og heiftin og reiðin er reyndar mjög skiljanleg, því jafnrétti þýðir að sjálfsögðu að þeir sem hafa notið forréttinda á kostnað þeirra sem eru að berjast fyrir jafnréttinu munu missa eitthvað af sínu. Það felst bara í hlutarins eðli. Þeir karlmenn sem eru aldir upp við það að staða konunnar sé að elda fyrir þá, þrífa af þeim og sjá um börnin eru að tapa þjónustunni. Hvers vegna þeir yfirhöfuð töldu að þeir ættu einhvern áskapaðan rétt á ókeypis þjónustu heima hjá sér er ofar mínum skilningi en ég skil alveg svekkelsið yfir að missa þennan lúxus. Ég vona samt að flestir átti sig nú alveg á hversu fáránleg sú hugmynd er að eiga slíka heimtingu á aðra manneskju.

Það er ekki möguleiki að gefast upp því ég vil ekki að dóttir mín þurfi að fara niður í bæ 24. október 2025 til að berjast fyrir sömu hlutum og mamma hennar, ömmur og langömmur, 50 árum eftir fyrsta kvennafrídaginn. Vonandi er heiftin sem við sjáum gegn femínistum merki um það að hún þurfi þess ekki. Vonandi verður 24. október orðinn hátíðisdagur til að minnast þeirra frábæru kvenna sem tóku sér frí til að berjast fyrir jafnréttinu sem þá verður orðið raunveruleg staðreynd. Er það ekki ágætis markmið?

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s