Geta konur líka notað skype? Hugleiðingar um stöðu kvenna í (raun-) vísindum í Þýskalandi

Höfundur: Herdís Helga Schopka

Ég var á fundi í vinnunni um daginn. Tilefnið var að nú skyldi ákveðið um helstu áherslur í rannsóknunum næstu fimm árin – hvaðan komum við og hvert viljum við fara? Á fundinum var þversnið af kollegum mínum við Þýsku jarðfræðirannsóknamiðstöðina, nánar til tekið fjórtán yfirmenn og fastráðnir vísindamenn. Flestir fundargestir voru vel yfir þrítugu, sumir komnir langleiðina að eftirlaunaaldri. Tveir af þessum fjórtán voru konur.

Fyrr í sumar var ég á öðrum fundi. Þar voru samankomnir jarð- og lífvísundar alls staðar að úr Þýskalandi og lögðu á ráðin um stórt þverfaglegt rannsóknaverkefni. Ákveðið var að hópurinn væri vel í stakk búinn til að sækja um nokkurs konar öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði Þýskalands og hafist var handa við undirbúning umsóknarinnar. Fáist styrkurinn munu hlutaðeigandi vísundar geta stundað sínar rannsóknir óáreittir í nokkur ár og væntanlega ná að hlaða vel undir starfsframa sinn í háskólum og við vísindastofnanir. Á fundinum voru vel á annan tug þáttakenda, þar á meðal tvær konur. Önnur þessara kvenna var ég og ég var einungis áhorfandi.

Á báðum fundunum höfðu konurnar örfáu mikið til málanna að leggja. Þær tóku mun virkari þátt í umræðunum en flestir karlarnir og komu oft með frumlegri og athyglisverðari komment og gagnrýni en þeir. Í stuttu máli sá ég, með mínu gests auga, ekki betur en þær ættu fyllilega skilið að vera þátttakendur í þessum samkundum og að þær legðu mjög mikilvægan skerf til lokaniðurstöðunnar. Þess vegna rétti ég upp hönd þegar fundargestir á síðarnefnda fundinum fóru að breinstorma hvaða fleiri vísundum mætti bjóða að vera með og ein tíu karlmannsnöfn voru komin á töfluna en ekkert kvenmannsnafn. Spurningin var einföld: Eru einhverjar hæfar konur í Þýskalandi að stunda svona rannsóknir? Ef svo er, væri kannski ráð að bjóða þeim líka að vera með?

Karlarnir horfðu á mig forviða. Einn og einn glotti við tönn. Eftir nokkrar sekúndur af óþægilegri þögn tók fundarstjórinn til máls og sagði að “jú, ágætis punktur, en það eru bara engar konur, hajú kannski ein, en hún er ekki að gera alveg nákvæmlega þetta og hún er svo langt í burtu og og og…”. Svo var nafninu hennar, þessarar einu hæfu vísindakonu á okkar víðfema sviði í gjörvöllu Þýskalandi, bætt neðst á listann, með semingi.

Það er ekki úr vegi að nefna hér að í þverfaglegum rannsóknum stundar oftast enginn þátttakendanna, hvorki karl né kona, nákvæmlega “þetta”, heldur fara allir út fyrir þægileikasvið sitt og læra eitthvað nýtt. Aukinheldur eiga konur alla jafna sömu möguleika á að ferðast milli landshluta og karlmenn, og þær geta meira að segja líka notað skype!

Í landi þar sem valdamesta kona heims situr í forsæti virðast, út frá þessum litlu atvikasögum, konur eiga furðulega erfitt uppdráttar í hörðum heimi vísinda. Samkvæmt þýsku Hagstofunni eru nú um 6.700 kvenkyns prófessorar við þýska háskóla, fleiri en nokkru sinni fyrr. Hversu margir skyldu karlarnir vera? Jú, 38.600 alls, eða um 85% allra prófessora í landinu. Samt sem áður fá nú nærri jafnmargar konur doktorsgráður í Þýskalandi og karlar. Hvað skyldi valda? Að hluta til skýrist þetta af því að um 40% allra doktorsgráða í Þýskalandi eru veittar á sviði náttúruvísinda og verkfræði, þ.e. þeim fögum sem hafa lægst hlutfall kvenna í háskólanámi. Um 30% prófessora í hugvísindum eru konur – töluvert betra en á raunvísindasviðinu en ekki nærri því nógu gott.

Pípulagnalekinn (the leaking pipeline) svokallaði er ansi heiftarlegur í Þýskalandi. Í mörgum fögum eru konur í meirihluta nemenda í grunnnámi, þeim fækkar í meistara- og sérstaklega í doktorsnámi (en eru samt oft um eða yfir helmingur útskrifaðra) og einungis brot þeirra sem ljúka doktorsgráðu skila sér í prófessors- og aðrar leiðtogastöður við háskóla landsins. Á vefsíðunni academics.de er lýsandi graf: Fylgst er með náms- og starfsferli nemenda sem hófu háskólanám árið 1986. Við upphaf háskólanáms var hlutfall kvenna 40% og karla 60%. Tíu árum síðar, á árunum 1995-1996, var hlutfall kvenna af þeim sem luku doktorsprófi komið niður í 30%. Að doktorsnámi loknu tekur í Þýskalandi við langur og strangur ferill til að fá réttindi til að sækja um akademískar stöður; þeir sem ljúka þessu ferli voru á árunum 2003-2005 að yfirgnæfandi hluta karlar, eða um 80%. Hið sama má segja um þá sem eru ráðnir sem lektorar við þýska háskóla á þessum tíma, þar er hlutfall kvenna aðeins um 20%. Við veitingu prófessorstaða árið 2005, fyrir bara 6 árum, var hlutfallið enn meira körlum í vil – einungis 10% prófessorsstaða sem veittar voru það ár fóru til kvenna. Þetta er klassískt dæmi um leka í akademíska kerfinu. Haldi hann áfram sem horfir munu kvenkyns prófessorar í Þýskalandi vera færri en þeir karlkyns allt fram til ársins 2040.

Lekinn er hvorki nýtt vandamál né sér-þýskt og sem kunnugt er hafa ýmsar ástæður verið nefndar til að útskýra fyrirbærið: Konur eru ekki jafnmetnaðargjarnar og karlar, konum er illa við völd, fjölskyldan er mikilvægari fyrir konur en starfsframinn, konur eru ekki jafnafkastamiklar og karlar og því er framlag þeirra til vísindanna léttvægara, konur hafa ekki áhuga á raunvísindum, heili kvenna hentar síður til raunvísindalegra vangaveltna… listinn er langur. Allt fellur þetta þó um sjálft sig – til eru mýmörg dæmi sem afsanna hverja einustu af þessum klisjum. Það er sérstaklega athyglisvert, en líklega efni í aðra grein, af hverju því er tekið sem svo sjálfsögðum hlut að konur þurfi að velja milli fjölskyldu og starfsframa innan vísinda – þess er ekki krafist af körlum. Í Þýskalandi eiga rúmlega 60% kvenkynsprófessora engin börn en meðal karlkyns prófessora er hlutfall þeirra barnlausu 35%.

Árið 2006 kom út á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins áhugaverð skýrsla um stöðu kvenna í vísindum og rannsóknum í álfunni. Þýskaland er á flestum sviðum eftirbátur annarra Evrópuþjóða hvað þennan málaflokk varðar. Áberandi lægra hlutfall kvenna sinnir rannsóknastörfum þar en annars staðar í álfunni (19% vs. 29% að meðaltali í Evrópu), sama hvort litið er til æðri menntastofnana, ríkisstofnana eða einkafyrirtækja. Þýskar konur sækja sér mun síður doktorsmenntun á sviði raunvísinda, verkfræði og tæknigreina en konur annars staðar í Evrópu. Þýskar konur eiga síður möguleika á að fá rannsóknastyrki en karlkyns kollegar þeirra, þó munurinn sé reyndar ekki mikill (5.9% árið 2004). Á Norðurlöndum eru tæpur helmingur meðlima vísindaráða konur, á Íslandi er þetta hlutfall 27%, en í Þýskalandi er það einungis 17%. Þar að auki er launamunur kynjanna á atvinnumarkaðinum í heild óvíða hærri en í Þýskalandi, heil 23% árið 2004 og fór vaxandi! Einungis Slóvakía, Eistland og Kýpur geta státað af meiri kynbundnum launamun í Evrópu.

Þess vegna spyr ég mig: Hvernig í ósköpunum fór Merkel, miðaldra kona, að því að verða valdamesti einstaklingur í Þýskalandi og að sumra mati valdamesta kona heims? Hún er ekki bara miðaldra kona, hún er líka eðlisfræðingur með doktorspróf í skammtafræði. Það er eins og hún hafi bókstaflega verið að biðja um að vera minnihlutahópur í heimalandi sínu!

Þrátt fyrir mikla leit á internetinu og spjall við kvenkyns kollega mína hér á rannsóknastofunni rétt utan við Berlín er ég engu nær um hvað veldur þessum gríðarlega kynbundna mun á hlut karla og kvenna innan raunvísindasamfélagsins í Þýskalandi. Eina vísbendingin sem ég hef séð eru þessir tveir fundir sem ég sat á: Karlarnir eru hér, þeir eru til staðar og þeir eru ekki að gera neitt stórtækt til að hleypa konunum að. Þó að við vísundar vildum gjarna trúa því að innan okkar raða sé fólk metið eftir framlagi þess til vísindanna þá er það sorgleg staðreynd að ótrúlega víða í vísindaheiminum komast karlar til metorða í og með vegna kyns síns og konur komast til metorða að hluta til þrátt fyrir kyn sitt.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s