Brugðist við níðingsverki

Myndbirting Pressunnar af 18 ára stúlku, sem virðist til þess eins fallin að hegna henni fyrir að hafa lagt fram nauðgunarkæru, er viðurstyggð og bein yfirlýsing fjölmiðils um stuðning við þá sem kærðir eru fyrir nauðgun. Ofan á það siðleysi að birta mynd af kæranda, sem er allt að því nafnbirting í sjálfu sér, fullyrðir Pressan að „farið hafi vel á með“ kæranda og öðrum kærða – sem gefur í skyn að það að kærasta Egils sjáist kyssa stúlkuna þýði ekki einungis það að stúlkan hafi verið samþykk því heldur að með þessu hafi hún einnig skuldbundið sig parinu til allra athafna.

Þar er hinsvegar bara hálf sagan sögð. Nú nýlega voru haldnar svokallaðar Druslugöngur út um allan heim, í þeim tilgangi að mótmæla þeirri algengu skoðun að konur verðskuldi nauðganir ef þær dirfast að sýna kynferðislegt sjálfstæði; þær séu „að biðja um það“. Þessi mótmæli spruttu af ömurlegum orðum lögreglumanns í Kanada þess efnis að konum yrði ekki nauðgað ef þær klæddu sig ekki eins og druslur. Þessi orð vöktu verðskuldaða hneykslan út um allan heim – en í dag á Íslandi gengur Pressan jafnvel lengra en lögreglumaðurinn gerði í kvenhatri og niðurlægingu á þolendum nauðgana.

Ekki er nóg með það, heldur hefur dótturfyrirtæki Vefpressunnar, Bleikt.is, fjallað afar einhliða um málið. Hlín Einarsdóttir, ritstýra Bleikt.is, birti stórundarlegt viðtal við Svein Andra Sveinsson lögmann þar sem hann heldur því fram að ákæran á hendur Agli Einarssyni sé samsæri tiltekins stjórnmálaflokks. Fyrir þessu hefur hann hvorki rök, né var hann krafinn um slík af augljóslega vanhæfum blaðamanni.

Pressan brást þannig við gagnrýni fjölmargra á Facebooksíðu sinni að fjarlægja fréttina þaðan þegar ljóst var að ekki dygði að eyða út hverri athugasemd fyrir sig og loka á gagnrýnendur. Myndin sjálf var hinsvegar fyrst tekin út af síðunni eftir athugasemdir lögmanns kæranda – en fékk að vera inni í tvo tíma, sem jafngilda næstum þúsund árum á internetinu. Þrátt fyrir hávær mótmæli fjölmargra Íslendinga og hvatningu þeirra til þess að myndin yrði tekin út gerðist það ekki fyrr en lögmaður blandaði sér í málið. Þetta er ótrúleg vanvirða við lesendur miðilsins sem augljóslega hafa þá siðferðiskennd til að bera sem ritstjórn hans skortir.

Í 3. grein siðareglna Blaðamannafélagsins stendur:

Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Afsökunarbeiðni ritstjórans er aumt klór í bakka manns sem hefur fallið í mógröf mannvonskunnar og kemst ekki upp úr henni. Skaðinn er skeður og þetta níðingsverk verður ekki aftur tekið. Teljum við undirrituð augljóst að með þessu hafi Vefpressan og dótturfélög hennar sýnt sitt rétta andlit. Við hvetjum auglýsendur á síðum Vefpressunnar til að endurskoða viðskipti sín fyrir fyrirtækið líkt og við sem neytendur gerum þegar fyrirtæki styrkja útgáfu af þessu tagi.

Arngrímur Vídalín
Ása Fanney Gestsdottir
Ásdís Paulsdóttir
Drífa Snædal
Elías Halldór Ágústsson
Erla Elíasdóttir
Erna Erlingsdóttir
Erna Magnúsdóttir
Eyja M. Brynjarsdóttir
Gísli Ásgeirsson
Guðrún C. Emilsdóttir
Guðrún Elsa Bragadóttir
Halla Sverrisdóttir
Hallveig Rúnarsdóttir
Helga Þórey Jónsdóttir
Hildigunnur Rúnarsdóttir
Hildur Knútsdóttir
Hildur Lilliendahl
Hjálmar Theódórsson
Ingólfur Gíslason
Kristín Vilhjálmsdóttir
Líf Magneudóttir
Magnea J. Matthíasdóttir
María Hrönn Gunnarsdóttir
Salka Guðmundsdóttir
Sóley Tómasdóttir
Yrsa Þöll Gylfadóttir
Þorbjörn Rúnarsson
Þorgerður E. Sigurðardóttir
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir
Ævar Örn Jósepsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s