Tólf-ára-diskóið

Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Það er farið að verða greinilegt að femínistar teljast þessa dagana vera ódýr leið til þess að fá athygli og auglýsingu. Femínisti að mótmæla einhverju skilar tugum þúsunda vefflettinga, þar sem hver fletting verður femínistum til háðungar – þeir eru komnir óviljugir í hlutverk sölumanna fyrir karla sem eiga enga sölu skilda. DV er sérstaklega duglegt við þetta. Þar birtist t.d. þessi frétt um daginn, um einhverja alveg magnað lélega myndlist, sem listamaðurinn (ef svo má kalla) vonar að „femínistarnir rífi [sig] ekki í tætlur“ fyrir. Ég held hinsvegar að það sé nokkuð ljóst að það er einmitt það sem hann vonar. Og ef ekki hann, þá allavega blaðamaður DV sem skrifar greinina.

Femínistar tóku sem betur fer ekki slaginn yfir þeirri vitleysu. En þetta er viðvarandi vandamál – femínistar eru flestum baráttuhópum duglegri að mótmæla, og það hefur jafnan verið eitt einkenni kapítalismans að gleypa gagnrýni á sig með húð og hári og snúa henni upp í söluvöru. Hippar hættu á sínum tíma að kaupa fjöldaframleiddar vörur – kapítalisminn tók sig þá til og fór að spúa fram fjölbreyttu glingri sem hipparnir gátu fegnir keypt og samt talið sig sérstök blóm á hinum einsleita akri neysluhyggjunnar. Mótmælaalda gegn G20-fundi sprettur upp, og sama dag fyllast allar búðir af Che Guevara-bolum, beint frá barnaþræl.

Ég held sem betur fer að femínistar séu farnir að átta sig á þessari hættu og taka því síður slaginn þegar tilgangurinn með uppákomunni er augljóslega bara þessi. Gott dæmi er DJ Óli Geir, sem ég hafði aldrei heyrt um áður en þetta Dirty Night-mál kom upp. Hann tilkynnti þetta kvöld sitt eins og hann gerði (að því er virðist) til þess eins að fá femínista upp á móti sér. Ég eins og fleiri hugsaði, en ótrúlega ömurlegt, en hryllilega mikið white trash-dæmi – en beit ekki á agnið, frekar en aðrir femínistar. Jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar tók þetta til sín, hinsvegar, enda hennar lögbundna hlutverk. En Óli Geir þessi lét slík smáatriði ekki stoppa sig – hann hélt því fullum fetum fram að sjálft femínistafélagið hefði auglýst sig. Enda hefði annað verið viðurkenning á ósigri, og slíkt á maðurinn ekki til.

Nú hefur femínistafélagið tekið við fjárstyrk frá honum sem ég vona að komi til góðra nota. En nú þegar ákveðinn tími er liðinn frá þessu ágæta kvöldi, og það er ekki lengur mest lesna fréttin á DV, þá er kannski hægt að tala um þessi mál af einhverju viti án þess að vera að mata vélina á mannlegri eymd.

Hvað er þetta Dirty Night? Jú, þetta er kvöld á skemmtistað þar sem aðstæðum er stillt upp á mjög svo furðulegan hátt. Þar dansa hálfberar konur og karlar í búrum og salt og tekíla er sleikt og drukkið úr nöflum og mögum (sem vonandi voru þrifnir milli tungna.) Svo er dúndrandi músík með klámstunum spiluð og allir eiga að dansa mjög kynferðislega í ljósasjói. En af hverju? Hvað er betra við þetta en bara venjulegt djammkvöld á íslenskum skemmtistað?

Svarið er hinsvegar nokkuð skýrt: þarna birtist hið goðsagnakennda ameríska partý sem maður sér í tónlistarmyndböndum. Í nær öllum tónlistarmyndböndum af ákveðinni tegund birtist þetta sama partí, með slómó-upptökum af glitrandi, samanpressuðum, óteljandi líkömum, allt löðrandi í holdi og skýrum valdahlutverkum kynjanna. Allt er lekandi kynferðislegt, en þó er alltaf eitt vetó – það sést aldrei í geirvörtu, typpi eða píku. Það er tabú. Allt má sýna í kring um það, en ekki kynfæri, og alls ekki, alls alls ekki kynlíf; slíkt myndi valda ódauðlegri hneykslan í BNA. Þetta er hin furðulega þversögn nútímakynferðis – allt má gefa í skyn, en hluturinn sjálfur verður alltaf að vera falinn.

Af því að horfa á svona tónlistarmyndbönd er nefnilega gjörsamlega ómögulegt að fá einhverja tilfinningu fyrir því hvernig kynlíf fer fram, og það er einmitt magnað hvað þessi dansstaðamenning og þessi tónlist er kynferðislega viðutan og raunar sakleysisleg. Ég man það sjálfur frá því að vera barn og horfa á þessi myndbönd – öll þessi kynferðislegu skilaboð ná fáránlega stutt, en hvað er að furða? Átti Britney Spears (nú Jónas-bræður, Miley Cyrus, Justin Bieber) ekki alltaf að vera óspjölluð?

Svo að: þótt tónlistarmennirnir séu hálfberir og veltist um ofan á haugi olíuborins holds, þá haga þeir sér engan veginn eins og eðlileg manneskja myndi gera í þeim afar ólíklegu kringumstæðum. Ef það er svona sem þeir stunda kynlíf, með þessum hreyfingum og þessu attitúdi, þá hljóta þeir að vera ævintýralega lélegir í rúminu, og blasir það við hverjum sem á lítur og hefur einhverja reynslu af.

En það er annar punktur í þessu – þeim mun kynferðislegri sem myndböndin verða, að þeim mun yngri aldurshópi er þeim beint. Ég horfði hvað mest á tónlistarmyndbönd þegar ég var tíu til tólf ára og missti eftir það áhugann – um það bil með kynþroskanum. Það er nefnilega markhópurinn, nema hann hafi færst jafnvel enn lengra niður síðan – en kynobsessjón tónlistarbransans hefur aukist þeim mun meira. Þetta er ótrúlega skrítið – teprulegar orgíur eru feikaðar á hverjum degi fyrir milljónir dollara og sýndar börnum.

Þegar þessi börn vaxa upp er óhjákvæmilegt, ef þau taka þennan furðuheim alvarlega, að þau verði fyrir vonbrigðum þegar út í raunverulegt skemmtanalíf kemur. Það er gaman að drekka bjór með vinum og kunningjum og stunda kynlíf með einhverjum sem maður er hrifinn af, en þetta er allt fremur hversdagslegt og eðlilegt og bara ekki nógu bannað. Þessi rosalegi sýndarveruleiki með glansandi kroppum, dúndrandi músík og endalausri kynstríðni (teasing í kynferðislegri merkingu – er til eitthvað íslenskt orð?) sem aldrei gengur lengra, er hvergi til. Hvílíkt sjokk það hlýtur að vera!

Þetta minnir mig á það hvernig þegar ég var tíu til tólf ára reyndu krakkarnir í bekknum, fæstir orðnir kynþroska, stöðugt að apa eftir þessum heimi við hvert tækifæri. Það voru haldin hryllileg tólf-ára-diskó í félagsmiðstöðum þar sem allir reyndu að gera sig eins próvókerandi og þeir gátu úr þeirri afar smáu vitneskju sem fólk þá hafði um kynferðisleg málefni. Fólk var sent í sleik og inn á klósett þar sem við hin áttum að skilja að þar væri eitthvað svakalegt í gangi (þótt fæst gætu nefnt hvað). Svo var dansað í klunnalegri eftirlíkingu af myndböndunum. Búr höfðum við ekki en hefðu þau verið til staðar hefðum við fyllt þau af stelpum. Sama hve mikla fjarlægð ég fæ frá þessum þó stórskondnu atburðum, þá skammast ég mín samt enn fyrir það hve asnalegir þeir voru. Og mig grunar jafnvel að það sama gæti einn daginn gilt um hann DJ Óla Geir.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s